12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3943 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni þeirra ummæla sem féllu áðan hjá hv. síðasta ræðumanni.

Svo vildi til á fundi sjútvn. í dag að form. n. var forfallaður og ég stjórnaði þeim fundi sem varaform. hennar. Á þeim fundi voru 6 nm., og þegar atkv. var leitað um frv. sem hér er verið að ræða, þá voru á þeirri stundu, milli kl. 11 og 12 í dag, ekki nema 3 af viðstöddum nm. tilbúnir til þess að mæla með samþykkt frv. Einn hv. þm. úr stjórnarliðinu, Guðlaugur Gíslason, óskaði eftir fresti til þess að staðreyna nokkur atriði sem hann vildi ganga úr skugga um áður en hann tæki endanlega afstöðu til þess. Því var afgreiðslu málsins frestað á þeim fundi og ákveðið að bíða þess að hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni gæfist tími til að skoða þessi atriði. Hann tilkynnti mér síðan rétt eftir hádegið, um tvö leytið í dag, að hann væri reiðubúinn til að standa að afgreiðslu meiri hl. n. um að mæla með frv. Þegar af þeirri ástæðu hafði ég samband við þá minnihlutamenn tvo, hv. þm. Garðar Sigurðsson og hv. þm. Sighvat Björgvinsson, og skýrði þeim frá þessu og spurði þá sérstaklega hvort þeir teldu ástæðu til þess að hafa annan fund í n., það lægi ljóst fyrir að það væri meiri hl., sem mælti með frv., og þeir minnihlutamenn mundu væntanlega gefa út sitt nál. Hvorugur þessara nm. óskaði eftir því að kvatt yrði til sérstaks fundar í n. út af þessu. Ég tel rétt að þetta komi fram vegna þeirra ummæla sem hv. þm. hafði hér áðan.

Ég hjó eftir einu atriði í ræðu Garðars Sigurðssonar, hv. þm., sem mér finnst gæta nokkurs misskilnings um, og þótt ég vilji ekki verða til þess að lengja þessar umr. mikið, þá finnst mér rétt að vekja athygli á þeim, því að ég hygg þar sé um meiri háttar misskilning að ræða. En ég skildi hv. þm. þannig þegar hann var að fjalla um það að gjaldeyriseign Seðlabankans um það leyti sem gengisfellingin var framkvæmd, þ.e.a.s. um mánaðamótin ágústseptember, hefði ekki verið nægileg til þess að verðtryggja Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, að þá hefði átt að bæta við þá gjaldeyriseign, sem bankinn sjálfur átti, gjaldeyrisverðmæti útflutningsvörubirgða, sem þá voru til í landinu, og þess útflutnings, sem sendur hafði verið út úr landinu, en ekki greiddur. Ég hygg að hv. þm. hafi með þessu átt við að í raun og veru hafi gjaldeyriseign Seðlabankans verið þessum mun stærri en upplýsingar er að finna um í grg. En þarna gætir þess mikla misskilnings að gengishagnaði af vörubirgðum, sem til voru um mánaðamótin ágúst–september og gengishagnaði af útfluttum vörum, sem ógreiddar voru á sama tíma, var einmitt varið til þess að greiða alls konar greiðslur til sjávarútvegsins, þannig að þessum gengishagnaði var ráðstafað með frv. um ráðstöfun gengismunar sem samþ. var hér eftir mánaðamótin ágúst–september. Í þessum efnum gat hvorki Alþ. né raunar nokkrir aðrir gert hvort tveggja í senn, að éta sömu kökuna og eiga hana heila eftir.