12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3944 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa þetta örfá orð. Það er vegna ummæla hv. þm. Jóns Skaftasonar, að þarna hafi verið um misskilning minn að ræða þegar ég talaði um að það hefði verið meiri gjaldeyrir til. Ég hélt því ekki fram að Seðlabankinn hefði átt þennan gjaldeyri, við vissum báðir hversu há sú upphæð var, hún var, að því er mig minnir, 474 millj. kr. Hann hélt því einnig fram að ég hefði haft þá skoðun eða mælt með því að það hefði átt að fara að eins og lögin sem ríkisstj. samþykkti, gerðu ráð fyrir. Það er misskilningur. Ég var einmitt að lýsa því hvernig ríkisstj. leit á málið. Hún vildi taka einnig tillit til þessa og láta Verðjöfnunarsjóð njóta hluta af gengishagnaðarsjóði. Aðalatriðið í þeim ádeilum, sem ég hef beint að ríkisstj. í þessum efnum — ég sé að hæstv. ráðh. er auðvitað farinn úr salnum um leið og farið er að fjalla um þessi mál, hann tyllir sér hérna niður eins og kría á stein — (Gripið fram í: Ég skal ná í hann) — það er það, að með lögunum, sem þeir settu 30. ágúst, gerðu þeir vitleysu, með lögum um ráðstöfun gengishagnaðar brutu þeir lögin og það er ekki fyrr en nú í lok þings að þeir viðurkenna þessi mistök sín.