13.05.1975
Neðri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3953 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

95. mál, vegalög

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 650 hef ég leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við frv. það til l. um breyt. á vegal., sem hér liggur fyrir til umr. Þessar brtt. hafa tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi eru tvær fyrstu brtt. fluttar til þess að kveða skýrt á um það að sýslunefndir hafi umráð yfir sýsluvegasjóðum og ótvíræðan ráðstöfunarrétt á fé sýsluvegasjóða. Þetta er formað í brtt. á þann hátt að við 8. gr. l. bætist orðalag, þannig að hún hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegagerð ríkisins er veghaldari allra opinberra vega samkv. l. þessum, nema sýslunefndir ákveði annað um sýsluvegi.“

Þetta þýðir að sýslunefndir geti ákveðið að þær annist vegahald sýsluveganna ef þær sjálfar kjósa.

B-liður þessarar till. er einungis til samræmis við þetta orðalag.

2. brtt. er svo hljóðandi, með leyfi forseta: „Sýslunefndir semja, í samráði við Vegagerð ríkisins, framkvæmdaáætlun fyrir sýsluvegi til 4 ára í senn.“

Eins og lögin eru nú er það á þá lund að Vegagerð ríkisins semur framkvæmdaáætlun fyrir sýsluvegasjóði til 4 ára í senn, en með þessari breyt. er stefnt að því að sýslunefndir hafi þetta ótvírætt í sínum höndum og hafi úrslitavald enda þótt Vegagerð ríkisins og hennar sérfræðingar verði þarna vitaskuld til aðstoðar.

Segja má að þessi fyrri hluti brtt. sé um minni háttar atriði og einungis til þess fluttur að kveða ótvírætt á um það að sýslunefndir hafi full tök á meðferð sýsluvegafjárins. Seinni hluti þessara tillagna er um nokkru veigameiri atriði, en þar er fjallað um tekjustofna sýsluvegasjóða.

Það er alkunna að á síðasta Alþ. voru afgreidd lög er höfðu þann tilgang að stofna eigi færri en 5 kaupstaði úr kauptúnahreppum. Ég hygg að það fari ekki á milli mála að a.m.k. ein meginorsök þess að horfið var að þessari skipan, að stofna þessa 5 nýju kaupstaði, sé sú að þorp og kauptúnahreppar greiða sýsluvegasjóðsgjald að hálfu til móts við það sem sveitahreppar greiða. Þetta hefur sumum þéttbýlisstöðum blætt í augum vegna þess að þorpin geta lögum samkv. ekki fengið fé úr sýsluvegasjóði til framkvæmda innan sinna umdæma. Ég held að þetta sé a.m.k. ein meginorsök þess að horfið hefur verið að því að stofna til þessara kaupstaða með lögum frá Alþingi.

Ég lýsti því á síðasta Alþ., þegar eitt slíkt frv. var á ferðinni, að mér þætti það ekki frambærileg ástæða og í rauninni næði ekki nokkurri átt að láta slík formsatriði sem þetta verða til þess að sundra lögsagnarumdæmum landsins í vaxandi mæli. Þess vegna þyrfti að breyta þessu á þann veg að þessi þróun héldi ekki áfram af þessum orsökum.

Þær till., sem hér eru fluttar, eru til þess ætlaðar að hér verði breyting á.

Á síðasta ári, 1974, var greitt þéttbýlisvegasjóðsgjald 236 kr. á íbúa í kauptúnahreppum. Ef þetta gjald er fellt niður, eins og 3. brtt. mín fjallar um, þá er augljóst að sýsluvegasjóðirnir missa þarna talsvert fé. Þess vegna fjallar 4. brtt. um það að Vegasjóður skuli bæta sýsluvegasjóðunum þetta upp með því að ekki skuli eins og nú er veita af tekjum vegamála til sýsluvega tvöfalda fjárhæð heildarálagðra sýsluvegasjóðsgjalda um land allt, heldur þrefalda. Með þessum hætti eru sýsluvegasjóðunum tryggðar nokkurn veginn sambærilegar tekjur úr Vegasjóði til viðbótar því sem Vegasjóður leggur nú af mörkum á móti því fé sem kauptúnahrepparnir hafa lagt sýsluvegasjóðunum til fram að þessu. Til þess að Vegasjóður standi nokkurn veginn jafnréttur til þess að annast þetta hef ég í 5. brtt. lagt til að af tekjum vegamála verði veitt þéttbýlisvegafé 12% í stað 12.5% eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Þar með er lækkað þéttbýlisvegaféð um 0,5%, og er nokkurn veginn vissa fyrir því að þéttbýlissveitarfélögin standa a.m.k. jafnrétt eftir sem áður, vegna þess að þau þurfa ekki lengur að leggja sýsluvegasjóðunum til sýsluvegasjóðsgjald.

Ég held að það sé ekki ástæða til á þessum kvöldfundi að fara út í þessar brtt. með mörgum fleiri orðum. Ég vil aðeins ítreka það að fyrstu tvær brtt. eru samhangandi og ef önnur þeirra er samþ., þá dugir illa að fella hina. Þrjár síðustu brtt. eru einnig samhangandi út af fyrir síg þannig að samþykkt einnar þeirrar hlýtur að hafa í för með sér samþykkt þeirra allra.

Ég vænti þess að hv. d. sjái sér fært að samþ. þessar breyt. sem hér eru lagðar til og vænti að með því yrði stigið spor annars vegar til þess að tryggja sjálfstæði sýsluvegasjóðanna og full tök heimamanna yfir þeim og á hinn bóginn breyting á fjáröflunarleiðum sýsluvegasjóða sem hafa þann tilgang að þeirri fjáröflun, sem nú er í gildi og hefur reynst verða til þess að kljúfa lögsagnarumdæmin, verði þannig breytt að sú braut verði ekki farin í jafnríkum mæli hér eftir sem hingað til. Held ég a.m.k. að ýmsir gætu orðið sammála um það að þá væri vel farið.