13.05.1975
Neðri deild: 86. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3955 í B-deild Alþingistíðinda. (3200)

95. mál, vegalög

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins við þessar umr. taka það fram varðandi þær brtt., sem þegar hafa verið bornar fram, að ég er efnislega á ýmsan hátt samþykkur þeim sumum.

Vil ég gjarnan fyrst víkja að þeirri brtt. sem hv. 5. þm. Vestf. er 1. flm. að. En þar er lagt til að í stað 25% af 12.5% verði prósentin 33.3% eða þriðjungur af þessu gjaldi. Ég tel hins vegar að það hafi tekist að ná samkomulagi um að 25% yrðu undanskilin skiptingu eftir höfðatölureglu. Og ég óttast það að ef aftur verður farið af stað með breyt. hér í Nd. og það verði aftur látið fara til Ed., þá kunni þetta mál að springa þar og þess vegna náum við ekki þeim áfanga sem virðist vera innan seilingar þótt ég vilji ekki fullyrða neitt um hvernig atkvgr. fellur í þessari hv. d. Ég er hins vegar alveg samþykkur síðasta málslið í brtt. þeirra, þar sem kveðið er á um að forgangur skuli viðhafður eftir þörf og eftir því hversu mikið hefur verið framkvæmt.

Í ljósi þess, sem fram kemur í þessum brtt. og brtt. þeim sem hv. þm. Pálmi Jónsson lýsti hér áðan, verð ég að segja að þrátt fyrir það að ég sjái margt athyglisvert við till. hans, þá held ég að það verði ekki ráðrúm til þess á þeim fáu dögum, sem eftir eru, til þess að gera verulegar breyt. á vegal. aðrar en þær sem þegar liggja fyrir í frv. til breyt. á lögunum.

Hv. þm. Pálmi Jónsson var með till. um breyt. á prósentugjaldinu til þéttbýlisfjárins niður í 12%. Það kann rétt að vera að það geri hlut sveitarfélaganna, sem eru með þéttbýli umfram 200 íbúa, ekki lakari en hann er núna og ég gæti ímyndað mér að þetta væri rétt. Hins vegar þyrfti þetta að liggja nokkuð glöggt fyrir. Ég held að í ljósi þess að það hafa komið hér fram yfirlýsingar um að það -sé nauðsynlegt að opna vegalögin, helst strax á næsta hausti, þá sé ástæða til að taka bæði þessar brtt. og aðrar til rækilegrar meðferðar þegar vegal. verður breytt.

Það hafa orðið miklar deilur um þessa svokölluðu höfðatölureglu og hafa komið deilur upp um það hvort einhver væri að taka frá öðrum, hvort það væri verið að níðast á einu eða öðru sveitarfélagi til þess að koma fram því sem hefur verið kallað óeðlileg fyrirgreiðsla til annarra sveitarfélaga. Ég viðurkenni út af fyrir sig að þótt aukið fé verði tekið undan höfðatölureglunni, þá er út af fyrir sig ekki tryggt að þessu fé verði varið í ýmis dreifbýlissveitarfélög lögum skv., en ég held að það fallist allir á að tilgangurinn sé sá að hafa möguleika á hraðari framkvæmdum þar sem þær hafa verið litlar. Sem dæmi um það hversu ójafnt þetta hefur verkað til viðbótar við það, sem hv. ræðumenn upplýstu hér fyrr í kvöld, þá blasir það við að þetta fé hefur ekki orðið að raunverulegu framkvæmdafé í hinum smærri sveitarfélögum. Ef við tökum sveitarfélag, sem hefur 400–500 íbúa, og ætlum að athuga að hvaða gagni þetta kæmi þegar þessi sveitarfélög hugsa sér til hreyfings og framkvæma einn áfanga og taka til þess lán upp á svona 10 millj. kr. til þess að ná einhverjum markverðum áfanga, þá ætti vaxtabyrði af þessu að vera a.m.k. 1.5 millj., árleg vaxtabyrði, en framlagið úr þéttbýlissjóðnum yrði um hálf millj. eða u.þ.b. þriðjungur af vaxtabyrði vegna viðkomandi framkvæmda. Ég hygg að þetta skýri nokkuð vel við hvað er þarna að eiga. En ég vildi segja það að ef prósentan verður hækkuð sem ekki kemur til skipta eftir höfðatölureglu, þá skil ég það svo að henni verði varið til samhangandi verkefna, ekki svo sem fram kom í ræðu hjá hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur til gegnumgangandi vega í þéttbýli, heldur líka til þeirra sveitarfélaga sem hafa sameinast um ákveðin verkefni og að það verði metið hverju sinni af vegamálastjóra, Vegamálaskrifstofunni og fjvn.

Ég hafði raunar látið mér detta í hug að með breyt. á vegal. væri hægt að taka upp enn nýja reglu. Við erum að tala um átak í vegamálum. Ég held að við þurfum líka að líta til þess átaks sem þarf að gera í þessum þorpum, og mér hefði ekki þótt úr leið að setja upp nýja prósentu sem kæmi öll til skipta eftir höfðatölureglu annars vegar og svo aðra prósentu þá sem yrði varið eingöngu eftir þörf og framkvæmdastigi og að þetta fé yrði aukið lítillega frá því sem nú er í lögum. Ef við létum okkur detta í hug að taka sem næst 75% af þessum 12.5%, þá hefði það þýtt á þessu ári að til skipta skv. höfðatölureglu, miðað við sömu upphæðir og talað hefur verið um, koma um 210 millj. Ef við hefðum miðað við að auka þessi 121/2% upp í 15%, þá kæmu 6% af vegafé til skipta skv. verkefnaframkvæmdum. Og þá hefðum við fengið til þessara verkefna u.þ.b. 135 millj., sem væri veruleg hækkun frá því sem nú er skv. 25% reglunni. Ef menn gætu fallist á einhverja slíka hugmynd mætti segja að ekki væri verið að taka neitt frá neinum innbyrðis í þéttbýlissveitarfélögunum, ef næðist samkomulag um að þetta yrði nokkurn veginn 75% af þeirri prósentu sem nú er veitt til þessara mála.

Ég ætla ekki á þessum næturfundi að gera að umræðuefni þau ummæli og þær umræður sem áttu sér stað á Alþ. við 1. umr. þessa máls. Það voru margar undarlegar ræður fluttar þá þar sem rætt var um stuðning þéttbýlisins við dreifbýlið. Ég ætla að sleppa því að þessu sinni að ræða um það, nema þær umr. verði af öðrum teknar upp og tilefni gefist til.