27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

54. mál, skylduskil til safna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. um skylduskil safna var lagt fyrir 94. löggjafarþing alveg í sömu mynd og það er lagt fram núna, en varð þá ekki útrætt. Frv. var undirbúið þannig að menntmrn. fól Finnboga Guðmundssyni landsbókaverði, Ólafi Pálmasyni deildarstjóra í Landsbókasafni og Knúti Hallssyni skrifstofustjóra í menntmrn. að taka málið til meðferðar og undirbúa frv. um þetta efni.

Í I. kafla frv. er greint frá megintilgangi l., en hann er sá að tryggja að unnt sé að varðveita til frambúðar það efni sem skilaskyldan nær til, að unnt sé að gera og gefa út alveg tæmandi skrár um þetta efni eða tiltekinn hluta þess og að efnið geti enn fremur verið tiltækt til nota vegna rannsókna opinberra stjórnsýsluaðila eða til annarra eðlilegra þarfa. Í fyrri löggjöf hefur þótt bresta nokkuð á, að þessi tilgangur væri skýrður nægilega vel. Það er rétt að taka fram að þegar í II. kafla um skilaskylt efni segir að íslenskar prentsmiðjur skuli halda eftir 4 eintökum til skylduskila, þá felur það í sér að útgefandinn eða sá er prenta eða margfalda lét, eins og segir í frv., bera í rauninni allan kostnað af skylduskilunum. Það er svo nýmæli í íslenskum lögum að afhenda skuli hljómplötur eða annars konar tón- og talupptökur sem gefnar eru út, en nauðsynlegt er að tryggja einnig að þessu efni sé haldið örugglega til haga engu síður en því efni sem prentað er eða fjölfaldað á annan máta.

Um það efni, sem ætlað er til takmarkaðra nota innan þröngs hóps eða e.t.v. er trúnaðarmál þegar það er út gefið, er rétt að taka fram að því ber að skila engu síður en öðru efni. Það er svo skylda Landsbókasafnsins, sem er viðtakandi, en ekki prentsmiðjunnar að tryggja það síðan, eins og fram kemur í frv., að með það efni verði farið af þeirri leynd sem ætlast er til.

III. kafli frv. fjallar um framkvæmd skylduskilanna. Þar segir m.a., að Landsbókasafn Íslands veiti skyldueintökum viðtöku og hafi eftirlit með skylduskilum.

Í IV. kafla frv. er svo rætt um varðveislu og meðferð skyldueintakanna. Varðveisla alls hins skilaskylda efnis er ekki talin trygg til frambúðar nema í Landsbókasafni séu tvö eintök af hverju einu og sé annað þeirra varðveitt sem hreint geymslueintak, en hitt aftur til nota á lestrarsal. Til enn frekari öryggis á viðsjárverðum tímum þykir enn fremur nauðsynlegt að eitt eintak sé varðveitt annars staðar, í öðrum landshluta, og þá eðlilegast að Akureyri verði fyrir valinu sem fjölmennasti bær og augljós framtíðarstaður fjarri höfuðborgarsvæðinu. Til þess að varðveisla skyldueintaka verði þar sem allra tryggust verður að binda not þeirra við lestrarsal eingöngu eins og fram kemur í frv.

Þá er rétt að minna á það að með ráðstöfun eins eintaks til Háskólabókasafns er í fyrsta lagi litið á brýna þörf Háskóla Íslands til þess að hafa jafnan sem greiðastan aðgang að hverju einu, bæði stóru og smáu, vegna rannsókna hvers konar, en jafnframt er nauðsynlegt að eitt safn, ef ríka nauðsyn ber til, geti léð öðrum söfnum og stjórnsýslustofnunum innanlands íslenskt efni og einnig léð það erlendum söfnum sem hingað kunna að snúa sér með bókalán þegar svo stendur á.

Eins og áður sagði var sams konar frv. lagt fram á síðasta Alþ. og hv. þm. er því nokkuð kunnugt um efni þessa frv. nú þegar. Ég tel ríka nauðsyn á því að afgreiða þetta frv. sem allra fyrst og helst, ef mögulegt er, að afgreiða það nú á fyrri hluta þingsins. Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hv. þn., sem fær þetta mál til skoðunar, að hún greiði framgang þess eftir því sem hún sér sér fært.

Ég legg svo til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn.