13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3216)

235. mál, beitingavél

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 451 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um íslenska uppfinningu að beitingarvél.

Hér er um að ræða beitingarvél sem hafnfirskur hugvitsmaður, Garðar Ástvaldsson, hefur unnið að í mörg ár. Vél þessari er ætlað að gera það sem þarf að gera við fiskilínuna frá því að hún er dregin úr sjó og þar til hún er á ný lögð í sjó. Þar er í fyrsta lagi að taka línuna af línuspilinu eða dráttarskífunni, í öðru lagi snúa taumana ofan af línunni, í þriðja lagi hreinsa af slitna tauma og bæta nýjum á, í fjórða lagi laga gallaða öngla, í fimmta lagi stokka línuna upp og í sjötta lagi leggja línuna beint úr stokk og skera beituna og beita um leið og linan fer í sjóinn.

Málum er nú svo komið að búið er að finna upp aðferðir og tæki sem hvert fyrir sig svara til þeirra verkefna sem vélinni er ætlað. Hins vegar er eftir að samhæfa vélina og vinna að stjórnbúnaði hennar. Þegar því er lokið þarf að sannprófa vélina við veiðar á fiskiskipi. Og loks, ef hagnýti vélarinnar reynist eins og vonir standa til, þarf að gera gaumgæfilegar athuganir til undirbúnings á framleiðslu þessarar beitingarvélar til nota við línuveiðar landsmanna.

Það þarf ekki að lýsa fyrir hv. alþm., hve mikilvægt það er að þessi uppfinning að beitingarvél takist og komi að tilteknum notum. Þessi nýja tækni gæti skapað möguleika til að fækka um helming skipshafnar á línubátum í útilegu og samsvarandi á landróðrarbátum. Þarf ekki að fara orðum um rekstrarlega þýðingu slíks fyrir útgerðina eða raunar þjóðhagslega þýðingu slíkra tæknilegra framfara í undirstöðuatvinnuvegi landsmanna.

Með tilliti til mikilvægis þessa máls hef ég, herra forseti, gert fsp. til hæstv. sjútvrh. um, hvort hann vilji beita sér fyrir aðgerðum til að flýta fyrir að fullgerð verði og sannprófað hagnýti þessarar beitingarvélar svo að vélin mætti sem fyrst verða hagnýtt við línuveiðar landsmanna. Mér er kunnugt um að skilningur hefur verið hjá opinberum aðilum á því starfi sem hér er um að ræða og Fiskimálasjóður hefur styrkt það með fjárframlögum. En nú er að ræða um hersluátakið svo að einskis má láta ófreistað til að leiða málið til farsælla lykta án tafar. Þess vegna er fsp. þessi borin fram.