13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3968 í B-deild Alþingistíðinda. (3220)

333. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fsp. hv. þm. hljóðar svo:

„Hafa verið gerðar af opinberri hálfu ráðstafanir til að tryggja iðnfyrirtækjum næg rekstrarlán með tilliti til sívaxandi rekstrarkostnaðar þeirra að undanförnu?“

Á undanförnum missirum hafa átt sér stað verulegar hækkanir á framleiðslukostnaði iðnfyrirtækja. Þessi þróun hefur valdið sívaxandi rekstrarfjárþörf. Þessar hækkanir framleiðslukostnaðar má rekja til ýmissa ástæðna, en þær helstu eru:

1. Verðhækkanir á innfluttum og innlendum hráefnum.

2. Breytingar á gengi íslensku krónunnar.

3. Ýmsar aðrar hækkanir innlends framleiðslukostnaðar.

Í nóv. átti iðnrh. viðræður við bankastjórn Seðlabanka Íslands um þau vandamál sem þá var við að etja í þessum efnum. Síðan hafa frekari bréfaskipti, viðræður og fundir átt sér stað við hankastjórn Seðlabankans. Eftir þá gengisbreytingu, sem tók gildi 2, sept. s.l., var af hendi Seðlabankans tekin ákvörðun um sérstaka lánafyrirgreiðslu til framleiðsluiðnaðarins vegna gengislækkunar þeirrar sem þá var nýlega afstaðin. Var fyrirgreiðsla þessi í því formi að Seðlabankinn endurkeypti skuldabréf vegna gengistapa af innflutningi hráefna til iðnaðar sem flutt voru inn með gjaldfresti eða gegn ábyrgð og því ekki greidd fyrr en eftir gengislækkunina. Þessi skuldabréf voru til þriggja ára og nam samanlögð upphæð þeirra 152 millj. kr. Eftir gengislækkun þá, sem framkvæmd var 14. febr. s.l., var ákveðið að veita sams konar fyrirgreiðslu vegna gengistapa af iðnaðarhráefnum og er sú lánveiting hafin. Af hálfu iðnrn. hefur verið bent á nauðsyn iðnfyrirtækja á breytingu lausaskulda í löng lán, fyrst og fremst hjá þeim iðnfyrirtækjum sem hafa með höndum viðskipti við fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Af hálfu Seðlabankans voru þessi vandamál tekin til sérstakrar athugunar í sambandi við breytingu á lausaskuldum sjávarútvegsins í lán til lengri tíma og reynt að sjá til þess að skuldir iðnfyrirtækja falli undir þær skuldbreytingar sem framkvæmdar verða fyrir sjávarútveginn. Stendur framkvæmd á þessum skuldbreytingum nú yfir.

Það er augljóst að þótt gengisbreyting sú, sem framkvæmd var í febr., hafi bætt samkeppnisaðstöðu iðnaðarins gagnvart innflutningi, þá hefur hún haft viss vandamál í för með sér, einkum að því er varðar rekstrarfé. Rn. er kunnugt um að ýmis iðnfyrirtæki eiga nú við verulega greiðsluerfiðleika að etja.

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur tilkynnt iðnrn. að Seðlabankinn taki upp að nýju endurkaup á rekstrarlánum til framleiðsluiðnaðarins á grundvelli greiðsluáætlana. Í bréfi Seðlabankans varðandi þessa ákvörðun segir m.a.:

„Við þær aðstæður, sem nú eru að því er varðar útlánagetu viðskiptabankanna, má gera ráð fyrir að aukin lánafyrirgreiðsla þeirra til framleiðsluiðnaðarins verði miklum erfiðleikum háð, en hins vegar er þörf iðnaðarins ótvírætt fyrir hendi, m.a. vegna stórhækkunar á verði hráefna og hækkunar rekstrarkostnaðar af öðrum ástæðum. Það er með hliðsjón af þessu að Seðlabankinn hefur ákveðið að taka upp endurkaup á rekstrarlánum þeim sem að framan greinir. Er ætlað að lánafyrirgreiðsla þessi verði fyrst og fremst til þess að aðstoða við lausn mikilvægra rekstrarfjárvandamála, sérstaklega hinna stærri fyrirtækja, og er þá gert ráð fyrir að bankarnir eigi auðveldara með að leysa úr eðlilegri lánsfjárþörf minni fyrirtækja.“

Í framhaldi af bréfi iðnrn. frá 12. mars hafa frekari viðræður átt sér stað um þessi vandamál. Í þeim viðræðum hefur verið lögð áhersla á rýmkun gildandi reglna um endurkaup framleiðslu- og rekstrarlána iðnaðarins, m.a. með þeim hætti að í vaxandi mæli verði tekið tillít til þeirra framleiðslugreina sem njóta enn nokkurrar tollverndar, en munu lenda í mjög harðnandi samkeppni á næstunni af völdum tollalækkana. Enn fremur er lögð áhersla á sérstaka lánsfyrirgreiðslu til iðnfyrirtækja vegna gengistapa við innflutning hráefna, eins og að framan getur. Enn fremur er lögð áhersla á fyrirgreiðslu við iðnfyrirtæki sem hafa með höndum viðskipti við fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskiðnaði, en hafa lent í greiðsluerfiðleikum vegna hallarekstrar þessara greina.

Ég tel mjög brýnt með tilliti til stöðu þjóðarbúsins að innlend iðnaðarframleiðsla verði efld, ekki aðeins tímabundið á meðan við erum að komast úr þeim mikla efnahagsvanda sem við eigum nú við að etja, heldur einnig til frambúðar. Því er nauðsynlegt að gera iðnaðinum bæði fjárhagslega og á annan hátt kleift að nýta svigrúm sem nú er fyrir hendi til framleiðsluaukningar.

Að lokum er rétt að skýra frá því að rn. hefur nú þegar átt víðræður við heildarsamtök iðnaðarins um æskilegar aðgerðir til þess að auka enn frekar og til frambúðar almennan skilning þjóðarinnar á mikilvægi iðnaðarins fyrir þjóðarbúskap okkar. Einnig er fyrirhugað að samtökin með stuðningi iðnrn. hvetji til aukinna kaupa á innlendri framleiðslu. Sú hvatning á ekki eingöngu að ná til almennings heldur einnig þeirra fjölmörgu opinberu aðila sem hafa innkaup og framkvæmdir með höndum.