13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3971 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

262. mál, greiðsla sjúkrasamlags vegna tannlækninga

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. 8. maí 1974 voru samþ. hér á Alþ. lög um breyt. á l. um almannatryggingar sem fólu í sér ákaflega merkilegt nýmæli að minni hyggju, þ.e.a.s. að tannlæknaþjónusta skyldi tekin inn í sjúkratryggingakerfið í áföngum. Það var tekin upp ný grein í lögin um almannatryggingar, 44. gr.„ og hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjúkrasamlög greiða að hálfu þá tannlæknaþjónustu, sem veitt er á heilsugæslustöðvum, hjá skólatannlæknum eða á stofum tannlækna sem Tryggingastofnun ríkisins semur við um þjónustu í þágu sjúkratrygginga.

Meðan uppbygging tannlæknaþjónustu á heilsugæslustöðvum samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu stendur yfir skulu ákvæði 1. málsgr. aðeins gilda fyrir tiltekna þjónustu og tiltekna hópa fólks.

Frá 1. sept. 1974 skulu ákvæði 1. málsgr. gilda fyrir börn og unglinga 6–15 ára, enda leggi sveitarfélög 50% á móti. Greiða skal alla þjónustu, sem þessum aldursflokkum er veitt, hjá skólatannlækni eða á heilsugæslustöð. Sé ekki kostur á slíkri þjónustu á vegum viðkomandi sveitarfélags er heimilt að greiða þjónustu fyrir þessa aldursflokka hjá hverjum þeim tannlækni sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samið við.

Frá 1. jan. 1975 skulu ákvæði 1. málsgr. taka til barna 3–5 ára og 16 ára unglinga, ellilífeyrisþega, öryrkja samkv. 12. gr. og vanfærra kvenna. Fyrir þessa hópa skal þó ekki greiða kostnað við gullfyllingar né krónu- og brúargerðir.

Ráðh. er heimilt að auka með reglugerð þá þjónustu sem greiðslur samkv. 1. málsgr. taka til, eftir því sem uppbyggingu heilsugæslustöðva miðar og fé er veitt til á fjárl.“

Það eru sem sé tveir áfangar í þessu merka nýmæli sem eiga að vera komnir til fullnaðarframkvæmda. Sá fyrsti frá 1. sept. á síðasta ári og annar áfangi frá síðustu áramótum. Mér er kunnugt um að framkvæmdin á þessari lagaskyldu hefur því miður tafist og því hef ég spurt hæstv. ráðh. um það hvað liði framkvæmd á þessari grein.