13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3971 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

262. mál, greiðsla sjúkrasamlags vegna tannlækninga

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sú grein almannatryggingalaga, sem hér er til vitnað, kom, eins og fyrirspyrjandi sagði, inn í lögin um almannatryggingar, breyt. á l. nr. 67 1971, en það eru lög nr. 62 1974. Hv. fyrirspyrjandi las upp þessa grein laganna svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, þannig að þm. hafa það þá fyrir sér hvað hér er um fjallað.

Þessi lagaákvæði áttu að taka gildi 1. sept. 1974. Þau tóku gildi þá að því er tekur til tannlæknisþjónustu sem veitt er hjá skólatannlæknum, þ.e.a.s. þar sem sveitarfélög hafa komið skólatannlækningum í það gott horf að þau ná til skólabarna í heild. Hvað viðvíkur að tannlæknisþjónusta sé veitt á heilsugæslustöðvum, þá eru enn ekki neinar stöður til fyrir tannlækna í heilsugæslustöðvum og er því ekki um að ræða greiðslur í því sambandi.

Svo sem í 1. málsgr. 44, gr. segir, þá er gert ráð fyrir því að Tryggingastofnun ríkisins semji um þjónustu í þágu sjúkratrygginganna við tannlækna. Samningaumleitanir við Tannlæknafélag Íslands hófust ekki fyrr en á s.l. hausti og varð mjög margt til þess að samningar drógust á langinn. Það er í sjálfu sér eðlilegt að fyrstu samningar við heilbrigðisstétt, sem Tryggingastofnun ríkisins gerir samning við, séu vandasamir og taki langan tíma, og það var raunar vitað þegar lögin voru samþykkt á s.l. vori að svo mundi verða. Það er því óraunhæf bjartsýni að gera ráð fyrir því að samningar hefðu tekist fyrir 1. sept. s.l., þegar ákvæði laganna áttu að taka gildi, og reyndist einnig svo því að samningum var ekki fulllokið fyrr en í byrjun mars og voru þeir undirritaðir hinn 19. mars s.l.

Samningar við Tannlæknafélag Íslands eru með mjög svipuðu sniði eins og hafa verið gerðir við Læknafélag Reykjavíkur um sérfræðiþjónustu lækna, þannig að til grundvallar samningum liggur gjaldskrá Tannlæknafélags Íslands um einstök verk, og jafnframt því að samningurinn var gerður þurfti að endurskoða þá gjaldskrá og bæta inn í hana fjölmörgum líðum sem í raun voru ekki í gjaldskrá og Tannlæknafélagið hafði aldrei tekið afstöðu til, hvernig ættu að koma inn í gjaldskrána. Þannig má t.d. nefna gjaldtöku fyrir tannréttingar, tannholdsaðgerðir, rótarfyllingar o.fl. Við samningsgerðina komu því upp fjölmörg erfið og vandasöm matsatriði sem þurfti að leysa áður en samningurinn gat gengið í gildi. Þá gerir samningurinn ráð fyrir því á sama hátt og þeir samningar sem gerðir hafa verið við lækna, að einstakir sérfræðingar þurfi ekki, ef þeir velja þann kost, að starfa eftir samningnum, geti sagt sig undan honum og sé þá sjúkratrygging ekki skuldbundin til að greiða þau verk sem þeir vinna.

Það sem ólíkt er með samningum lækna og tannlækna er það, að í samningi tannlækna er gert ráð fyrir því að sjúklingur greiði tannlækni að fullu, fái kvittun fyrir greiðslunni og fái síðan endurgreitt frá samlagi. Þessi aðferð var gerð vegna mjög ákveðinna óska tannlækna um að svo yrði, þar eð þeir töldu vinnu við annað fyrirkomulag meiri en þeir gætu sætt sig við án sérstakra greiðslna.

Mál standa því þannig í dag að það hafa tekist samningar á milli Tryggingastofnunar ríkisins fyrir hönd sjúkrasamlaga og Tannlæknafélags Íslands. Tryggingastofnun ríkisins er nú að íhuga á hvern hátt greiðslur vegna tannlæknisþjónustu, sem veitt var á tímabilinu frá 1. sept. 1974 til 31. des. 1974 og aftur frá 1. jan. 1975 og þar til samningur tók gildi, verða inntar af hendi af sjúkrasamlögum. Er þess að vænta að bréf verði sent frá Tryggingastofnun ríkisins þar að lútandi þegar tryggingaráð hefur tekið afstöðu til málsins. Það má telja víst að allir reikningar, sem fólk hefur greitt á þessu tímabili og eru vegna þjónustu sem 44. gr. tekur til, verði greiddir í samræmi við hinn nýja samning.

Þegar samningur var undirritaður var ekki að fullu vitað, hve margir tannlæknar mundu kjósa að starfa utan samningsins, en líkur benda til að allflestir tannlæknar muni kjósa að starfa innan samningsrammans. Fari hins vegar svo að einhverjir fámennir hópar sérfræðinga innan tannlæknastéttar telji sér hag í því að vinna ekki innan ramma samningsins, þá geta skapast vandamál sem reyna þarf að leysa þegar upp koma, en of snemmt er að segja til um það á þessu stigi málsins.

Meðan á samningum stóð reyndi samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins að gera sér grein fyrir því, hvað sú tannlæknisþjónusta mundi kosta sem hér er verið að semja um. En sannleikurinn er sá að upplýsingar eru ekki fyrir hendi um kostnað við tannlæknisþjónustu að því marki að hægt sé að gera neinar nákvæmar áætlanir um þennan kostnað. Ráðuneytið mun því kappkosta að sjúkratryggingar afli þegar á þessu ári glöggra gagna um kostnað vegna tannlæknisþjónustu svo að hægt verði með nokkurri nákvæmni að áætla þennan kostnað almannatrygginganna við gerð næstu fjárlaga og þá jafnframt að gera sér grein fyrir því hvort og hvenær hægt er að auka þessa þjónustu sem 44. gr. ræðir um, því að lokamálsgrein greinarinnar gerir ráð fyrir því að ráðh. geti aukið með reglugerð þessa þjónustu eftir því sem uppbyggingu heilsugæslustöðva miðar og fé verður veitt til á fjárlögum.