13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

262. mál, greiðsla sjúkrasamlags vegna tannlækninga

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin sem voru skýr. Ég hlýt að harma það hversu langan tíma það hefur tekið að ná samningum við tannlækna. Þessi lagagrein átti að taka gildi, fyrsti áfangi hennar, 1. sept. í fyrra, en samningar tókust ekki fyrr en 19, mars í ár og þetta hefur að sjálfsögðu valdið ákaflega miklum óþægindum. Ég hef enga aðstöðu til að meta það, af hverju þessi mikla töf stafar, en ég hlýt sem sagt að harma hana mjög. Hæstv. ráðh. hefur sýnt það á öðrum sviðum að hann getur átt það til að vera mjög röskur til starfa, en þarna hafa greinilega orðið fyrir einhverjir erfiðleikar sem hæstv. ráðh. hefur ekki getað unnið bug á. (Sjútvrh.: Þeir eru nokkuð margir.)

Hæstv. ráðh. greindi frá því, að enda þótt þessir samningar hefðu ekki tekist fyrr en 19. mars, þá ætti fólk rétt á því að fá greiddan kostnað samkv. ákvæðum 44. gr. frá 1. sept. á síðasta ári, en til þess þurfa menn að sjálfsögðu að hafa haft forsjálni til þess að halda til haga reikningum og er ég ansi hræddur um að æðistór hluti fólks, sem þessi réttindi áttu að ná til, hafi hreinlega ekki vitað um þetta mál og að það kunni að verða ákaflega lítill hluti af því fólki, sem rétt á, er hafi aðstöðu til að hagnýta sér hann af þessum ástæðum. Á hitt vil ég svo leggja áherslu, að ég vænti þess að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því að ákvæði greinarinnar í heild hljóti fullt gildi eins fljótt og aðstæður leyfa, því að eins og ég sagði áðan tel ég þetta ákaflega mikilvægan áfanga í almannatryggingakerfinu íslenska. Þarna er um að ræða kostnað sem er ákaflega tilfinnanlegur, sérstaklega fyrir lágtekjufólk, og mjög mikilvægt að hann komi inn í þetta félagsmálakerfi.