13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3975 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

342. mál, mengunarhætta í Njarðvíkurhreppi og Keflavík

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar er rétt að upplýsa að þetta mál var fyrst tekið upp í rn. fyrir rúmlega tveimur árum og var tilefnið það að hinn 16. mars 1973 birtist í blaðinu Suðurnesjatíðindum grein undir nafninu „Vatnsból Rosmhvalaness í bráðri hættu“ og í þessari grein var rætt um umbúnað olíugeyma neðanjarðar á svæði Keflavíkurflugvallar. Hinn 26. mars 1973 ritaði rn. Heilbrigðiseftirliti ríkisins og vakti athygli þess á þessari grein og óskaði eftir að Heilbrigðiseftirlítið kannaði málið. Jafnframt ritaði rn. varnarmáladeild utanrrn. og vakti athygli þess á greininni og skýrði frá því að Heilbrigðiseftirlitinu hefði verið ritað um málið.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins svaraði rn. með bréfi, dags. 27. mars, og upplýsti, að það hefði þegar hinn 20. mars ritað varnarmáladeild utanrrn. um þetta mál, og skýrði frá því að það hefði þegar hafið könnun á málinu.

Svar við bréfi rn. frá varnarmáladeild utanrrn. barst hins vegar 26. apríl 1973 og var þar skýrt frá því að varnarmálanefnd hefði þegar verið tekin að kanna þetta mál áður en bréf heilbrrn. barst og hefði óskað eftir sérstakri umsögn varnarliðsins um málið. Niðurstöður þessarar könnunar voru afhentar varnarmáladeild 25. apríl 1973 og voru þær sendar með fyrrgreindu bréfi sem fskj.

Í bréfi varnarmáladeildar kom fram að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins eða einhver sérfræðingur frá þeirri stofnun gæti hvenær sem er sett sig í samband við varnarliðið fyrir milligöngu varnarmáladeildar og fengið þær upplýsingar sem óskað yrði eftir. Heilbrigðiseftirliti ríkisins var sama dag og rn. ritað um málið.

Með nýju bréfi, 27. sept. 1974, ritar varnarmáladeild rn. enn um þetta mál. Í þessu bréfi er rakið hvað gerst hafi í málinu, en óskað eftir því, að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits ríkisins taki málið til athugunar, og því lýst yfir að varnarliðið og varnarmáladeild séu sem fyrr reiðubúin til hvers konar aðstoðar í málinu.

Vegna þessarar beiðni varnarmáladeildar ritaði rn. Heilbrigðiseftirlitinu bréf 3. okt. 1974 og óskaði eftir því að gerð yrði könnun á olíumengun á Keflavíkursvæðinu, einkum með tilliti til þeirrar hættu sem vatnsbólum á þessu svæði stafaði frá olíumengun. Rn. barst niðurstaða af þeirri könnun, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins gerði, með bréfi 19. febr. 1975. Þar skýrir Heilbrigðiseftirlitið frá því, að eftir að þessi tilmæli bárust hafi það unnið að þessum málum í samráði við sveitarstjórnarmenn á þessu svæði. Það, sem einkum var gert, var að kanna sérstaklega staðsetningu olíugeyma á flugvallarsvæðinu og í næsta nágrenni, bæði þeirra, sem enn eru í notkun, svo og hinna sem lagðir hafa verið niður. Þá segir í þessu bréfi að í ljós hafi komið að mikil olía og fljótandi eldsneyti af ýmsum gerðum hafi farið niður í jarðveg á öllu þessu svæði og sums staðar hafi komið fram olíumengun í neysluvatni og þvottavatni, eins og t.d. við hraðfrystihúsið í Keflavík, en þar hafi orðið að leggja niður borholu af þessum sökum. Jafnframt skýrir Heilbrigðiseftirlitið frá því að á sjálfu flugvallarsvæðinu hafi borholur mengast og hafi flugvallarmenn, t.d. varnarliðið, orðið að flytja nokkrar borholur fyrir sig út fyrir vallarsvæðið. Niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins er sú, að í raun ríki hættuástand á þessu svæði og hugsanlegt sé að grunnvatn, sem í notkun er, kunni að mengast fyrr eða síðar.

Í þessu fyrrgreinda bréfi gerir Heilbrigðiseftirlitið tillögur um ákveðnar aðgerðir og rannsóknir til þess að geta gert sér betur grein fyrir því, hvers vænta megi. Tillögur þess eru þannig:

1. Könnun á því, a.m.k. í nánd við þær borholur sem nú eru í notkun, hvað olíumengun kunni að vera komin nálægt þeim í jarðvegi og jarðlögum. Til þess að framkvæma þessar rannsóknir telur Heilbrigðiseftirlitið að þurfi aðstoð Orkustofnunar ríkisins til að taka borkjarna.

2. Að kanna heildargrunnvatnsstöðu á Rosmhvalanesi með hæðamælingum yfir allt þetta svæði til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir hvar og hvenær beri að bora nýjar holur ef það sýnir sig að þær eldri séu í yfirvofandi hættu vegna aðsteðjandi olíumengunar.

3. Að gera meiri kröfur en nú er um aðgát og meðferð á olíu á vallarsvæðinu, þar með að gamlir olíugeymar, sem faldir eru í jörðu, verði teknir upp og fjarlægðir.

Bréf Heilbrigðiseftirlitsins upplýsti einnig að þær rannsóknir og aðgerðir, sem rætt var um, mundu taka 4 menn 2 mánuði, auk þeirrar vinnu sem Orkustofnun tæki að sér í sambandi við borkjarnatöku.

Að fengnu þessu bréfi Heilbrigðiseftirlits ríkisins ritaði rn. 24. febr. s.l. utanrrn. eða varnarmáladeild þess bréf, þar sem sent var með ljósrit af bréfi Heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrrn. sendi þau tilmæli til varnarmálanefndar að hún tæki tillögur Heilbrigðiseftirlitsins um frekari rannsóknir svo og aðgerðir til athugunar. Þá lýsti rn. því sem skoðun sinni að tafarlaust þyrfti að gera þær aðgerðir sem Heilbrigðiseftirlitið legði til, og rn. taldi eins og málum væri háttað eðlilegt að þessi aðgerð færi fram á vegum varnarmáladeildar en í samráði við Heilbrigðiseftirlitið og heilbrrn. eftir því sem kostur væri. Þá gerði rn. ráð fyrir því að allur kostnaður við þessar rannsóknir yrði greiddur á sama hátt og annar kostnaður við framkvæmdir innan varnarliðssvæðisins.

Rn. leitaði 21. apríl símleiðis til varnarmáladeildar utanrrn. og spurðist fyrir um hvort kannanir, sem fyrr eru nefndar, hefðu verið gerðar og fékk þær upplýsingar að svo væri ekki, málið væri enn í athugun hjá varnarmáladeild og lægi enn ekki fyrir að varnarmáladeild samþykkti að kostnaður af aðgerðunum yrði greiddur þann veg sem heilbr.- og trmrn. hafði talið eðlilegast.

grg., sem hér var flutt, svarar í raun öllum þeim spurningum frá hv. þm. sem hann hefur horið fram. Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur gert tillögu um að þær rannsóknir, sem upp eru taldar í þessum fsp. frá a–e, verði gerðar. Heilbrrn. hefur fyrir sitt leyti talið að hér væri um að ræða kostnað sem greiðast ætti á sama hátt og annar kostnaður vegna framkvæmda innan varnarliðssvæðisins, en varnarmáladeild utanrrn. hefur enn ekki formlega tekið afstöðu til málsins og framkvæmdir við rannsóknirnar hafa því ekki farið af stað, því miður.