13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

270. mál, viðbótarritlaun

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 556 fsp. til hæstv. menntmrh, um viðbótarritlaun til rithöfunda. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hver hafa orðið viðbrögð menntmrh, við áskorun 16 rithöfunda til Alþ. og ráðherrans 10. mars s.l. um endurskoðun á störfum úthlutunarnefndar viðbótarritlauna 1973 og 1974, og hvers má vænta af hálfu ráðherra sem andsvars við beiðni sextánmenninganna um leiðréttingu mála sinna?

2. Hvaða leið er fær til leiðréttingar?

3. Dugir ákvæði í væntanlegri reglugerð um úthlutun fjárins, t.d. að úthlutunin í ár megi ná til verka útgefinna 1970–1974, eða þarf til að koma breyting á fjárlögum?“

Þannig hljóðar þessi áskorun sem við alþm. höfum allir fengið í hendur. Ég ætla mér ekki hér að leggja neinn dóm á réttlæti eða ranglæti sem viðhaft hefur verið í úthlutun umræddra viðbótarritlauna og því síður að fara út í samanburð á einstökum rithöfundum, sem hlutu náð fyrir augum úthlutunarnefndar, og hinum, sem afskiptir urðu. Hér er annars vegar ákaflega viðkvæmt og vandasamt mál. Hitt finnst mér augljóst, þegar svo stór hópur þekktra og vel virtra listamanna leitar áheyrnar hv. Alþ. um leiðréttingu á óviðunandi ranglæti sem þeir telja sig hafa verið beitta, að þá sé okkur alþm. lítt sæmandi að láta ábendingar þeirra og umkvartanir sem vind um eyru þjóta. Hér er ekki einungis um metnaðarmál umræddra rithöfunda að ræða heldur einnig verulegt fjárhagslegt hagsmunamál.

Ég vil benda á og leggja áherslu á það að þessi viðbótarritlaun eru í eðli sínu hvorki verðlaun né viðurkenning hliðstæð hinum almennu listamannalaunum, heldur einfaldlega lögboðin eign þeirra höfunda sem samkv. ákvörðun Alþ. áttu rétt til að fá endurgreiddan söluskatt af bókum sem seldar voru á ákveðnu tímabili. Hér eru í rauninni nokkuð hreinar línur.

Spurt er, hvaða leið sé fær til leiðréttingar og hvort hugsanlega megi koma henni við þannig að viðbótarritlaun á fjárlögum yfirstandandi árs geti eftir endurskoðun og endurmat á síðustu úthlutun einnig náð til ritverka útgefinna á árunum 1970–1974.

Ég treysti því að hæstv. menntmrh. taki þetta mál til vandlegrar athugunar og að fundin verði lausn sem hinir 16 rithöfundar, sem í hlut eiga, geti við unað.

Ég vil einnig láta í ljós þá ósk mína og von að lagafrv. það um Launasjóð rithöfunda, sem hið háa Alþ. er nú um það bil að afgreiða sem lög, muni þýða batnandi tíð fyrir íslenska rithöfunda og ritmennt í landinu og að framkvæmd þeirra laga megi markast af sanngirni og menningarlegri yfirsýn.