27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

54. mál, skylduskil til safna

Friðjón Þórðarson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð í viðbót. — Hæstv. menntmrh. taldi að þessi 3 söfn, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, nytu mikilla forréttinda með því að fá umrædd skyldueintök. En ég vil jafnframt benda á að á þau eru lagðar miklar skyldur á móti. Þau verða að byggja yfir þessar bækur allar og varðveita eins og til er ætlast.

Ég viðurkenni fyllilega að það er hægt að bæta þetta upp, t.d. með því að hækka fjárveitingar almennt til bókasafna samkv. l. um almenningsbókasöfn. En ég hef nokkra reynslu af því að það hefur verið erfitt að fá þær hækkanir fram á undanförnum árum, sbr. styrkinn til húsabóta. Og ákvæði l. um almenningsbókasöfn að því er fjárveitingar varðar eru orðin býsna langt á eftir tímanum.

Ég vil einnig endurtaka það að ef þetta frv. á að ná fram að ganga óbreytt, þá skilst mér að óhjákvæmilegt sé að breyta 4. gr. l. um almenningsbókasöfn og fleiri ákvæðum þeirra laga. Ég læt þetta nægja að sinni.