13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

182. mál, breytingar á íslenskum rithætti

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég fagna síðustu ummælum hæstv. ráðh., og einmitt vegna þess að ekki er skaplegt á síðustu dögum þingsins að afgreiða lagafrv. með þeim hætti sem það er lagt hér fram af hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, þá höfum við nú breytt til í þá veru að bera fram þáltill., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um íslenska stafsetningu. — Þar til slík lög hafa verið sett, skal fylgja þeirri stafsetningu sem í gildi var áður en menntmrn. gaf út auglýsingar sínar nr. 272 frá 4. sept. 1973 og nr. 132 frá 3. maí 1974.“

Þarna er verið að fela ríkisstj. að undirbúa að setja þessa löggjöf (Gripið fram í.) Meðflm. mínir eru Gunnlaugur Finnsson, Helgi F. Seljan, Gylfi Þ. Gíslason og Ellert B. Schram. Þetta er einmitt í þá veru sem hæstv. menntmrh. segir. Það má ekki flana að þessu, nógu oft hefur það verið gert. Þess vegna mundi samþykkt slíkrar þáltill. gjörsamlega falla í þann farveg sem hann gat um að nauðsynlegt væri að þetta mál rynni í.