13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3253)

346. mál, utanríkismál 1975

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Sú hefur verið venja nokkur hin síðari ár að hæstv. utanrrh. flytti einu sinni á ári hverju skýrslu um utanríkismál sem síðan væri tekin til umr. hér á hv. Alþ. Þessi háttur var tekinn upp, ef ég man rétt, í utanríkisráðherratíð Emils Jónssonar og er ég honum jafnan þakklátur fyrir að hann skyldi verða við tilmælum um þetta því að ég tel að hér sé ekki aðeins um að ræða góða reglu heldur sjálfsagðan hátt sem ekki má niður falla. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar tók bað ákvæði upp í málefnasamning sinn að slík skýrsla skyldi lögð fyrir Alþ. Hefur hæstv. núv. utanrrh. jafnan gefið slíka skýrslu í sinni ráðherratíð og heldur því enn áfram svo sem sumu öðru frá tíð vinstri stjórnarinnar, einkum að því er til vinnubragða tekur, hvað sem utanríkisstefnunni sjálfri líður, en að því kem ég dálítið síðar.

Það er ekki ýkjaoft sem umr. um utanríkismál fara fram hér á hv. Alþ. Við alþm. erum býsna uppteknir dag hvern af innanlandsþvarginu, þar er um mörg úrlausnarefni að ræða, og er í sjálfu sér skiljanlegt að hugur þm. sé nokkuð bundinn við þau mál. En þó hygg ég að væri full þörf að gefa sér nokkru meiri tíma til þess að sinna alþjóðamálunum og glöggva sig á þeim heldur en gert er gjarnan hér á hv. Alþ. Það eru engin ákvæði mér vitanlega í neinum lögum eða í þingsköpum um það að slík skýrslugerð sem hér hefur nú verið lögð fyrir þingið skuli fyrir það lögð eða umr. um hana skuli fram fara. Ég tel að ákvæði um slíka skýrslu og ákvæði um umr. um utanríkismál, helst tvisvar á hverju þingi, ættu að komast inn í þingsköp næst þegar þau verða tekin til endurskoðunar. Ég tel — og byggi þar á talsverðri reynslu af þessari skýrslugerð og umr. um hana — að þar þurfi að sníða af vissa agnúa, sem komið hafa fram, og setja m.a. skýr ákvæði um það hvenær á þingtíma slík skýrsla skyldi lögð fram og rædd.

Þessi skýrsla um utanríkismál, sem lögð hefur verið fram nú í nokkur ár, hefur oft, a.m.k. síðustu árin, verið of seint á ferðinni og raunar allt of seint, hún hefur ekki komið fram fyrr en nálgast þinglok og það hefur verið borin von hver tími gæfist til umr. um skýrsluna og jafnvel hefur svo farið að hann hefur enginn verið. Ég athugaði síðustu tvö árin, fór ekki lengra aftur í tímann, en ég fletti upp á því að árið 1973 fara umr. um skýrslu utanrrh. fram 16. apríl, næstsíðasta starfsdag Alþ., en þá var því slitið 18. apríl. Var í það skipti að vonum undan því kvartað hve seint skýrslan var á ferðinni og hve lítið tóm gafst til almennra umr. Í fyrra, vorið 1974, var skýrslan einnig lögð fram mjög seint á þingi, og ég hygg að ég muni það örugglega rétt að þá féllu umr. um skýrsluna algerlega niður. Þannig var, eins og hv. þm. muna, að það var heldur óhægt um vik í hinu sérkennilega andrúmslofti sem hafði myndast síðustu daga þingsins áður en Alþ. var rofið og efnt til nýrra kosninga.

Sú skýrsla, sem hér nú liggur fyrir og ég vil leyfa mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hann hefur nú flutt, kemur einnig að mínu viti of seint og vegna þess er hún nú rædd í mestu þingönnunum rétt fyrir þingslit þegar hætt er við að hugir margra hv. alþm. séu töluvert bundnir af öðrum efnum.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, en vil aðeins ítreka að ég tel æskilegt og rétt að leitt verði í lög að utanrrh. skuli á hverjum tíma leggja skýrslu sína um utanríkismál fyrir á ákveðnum tíma, t.d. fyrir 1. dag marsmánaðar ár hvert, og væri þá ekki óeðlilegt að einnig væri um það ákvæði í þingsköpum að um skýrsluna skyldu fara fram umr., t.a.m. innan hálfs mánaðar frá útbýtingu hennar. Ég hygg að þetta sé að mörgu leyti góður tími þó að hugsanlegt væri að einnig mætti finna aðra tímasetningu, svo sem nokkuð snemma á þingi, í nóv., fyrri hl. nóvembermánaðar til að mynda, en þó hygg ég að hitt sé öllu betra. Slíka skýrslu sem þessa þurfa alþm. að geta rætt í nokkuð góðu tómi þegar hugurinn er hvorki bundinn við afgreiðslu fjárlaga né menn komnir á lokasprett undir þingslit eins og t.d. nú. Það er einnig að sjálfsögðu æskilegt að forðast að umr. um slíka skýrslu og utanríkismálin yfirleitt drukkni í hinum árvissu bjargráðafrv. sem að vísu geta dunið yfir á öllum tímum. En ég held að reynslan sýni þó að oft sé nokkurt stormahlé í síðari hluta febrúarmánaðar eða fyrri hl. marsmánaðar.

Áður en ég vík að þeirri skýrslu, sem hér liggur nú fyrir, vil ég sem fulltrúi Alþb. í utanrmn. ræða nokkur atriði sem varða utanrrn. og utanrmn., annan aðilann eða báða. Ég skal geta þess strax að hæstv. núv. utanrrh. hefur í mörgum efnum og raunar í flestum efnum haft meira og nánara samstarf við utanrmn. heldur en áður hefur tíðkast og þakka ég honum það. Hann hefur tekið upp þá reglu, sem er til fyrirmyndar, að ýmist hæstv. ráðh. sjálfur eða ráðuneytisstjórinn í utanrrn. gerir n. með vissu millibili grein fyrir helstu málum sem eru á döfinni eða til úrlausnar hjá rn. í það og það skiptið. Með þessu hefur hæstv. núv. utanrrh. sýnt n. meiri trúnað en áður hefur verið gert, og ég hygg að mér sé nokkurn veginn óhætt að fullyrða að það hafi ekki komið að sök og raunar hafi það stundum eytt eða komið í veg fyrir tortryggni sem annars kynni að hafa upp komið. En stundum og raunar helst til oft er hér nokkur hængur á. Málin eru, stundum a.m.k. lögð fyrir utanrmn. og tekin þar til umr. þegar búið er af hæstv. ríkisstj. að taka hinar formlegu ákvarðanir og jafnvel farið að framkvæma það sem á döfinni hafa verið. Að vísu er utanrmn., má e.t.v. segja, að mjög verulegu leyti ráðgefandi að því er ríkisstj. varðar, en hún er þó fyrst og fremst tengiliðurinn milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Og því aðeins kemur starf n. að þessu leyti að gagni sem ráðgefandi n. fyrir ríkisstj. og í sumum tilvikum aðvarandi aðili og vísbending um vilja þingflokka Alþ. því aðeins kemur slíkt starf n. að gagni að hún geti fjallað um málin áður en ákvarðanir hafa verið teknar. Ég veit að hæstv. utanrrh. er þetta ljóst. Og ástæðan til þess að ærið oft verður það nú svo að utanrmn. er að fjalla um mál, sem eru kannske komin á lokastig, eða fær fregnir af málum, sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um, er m.a. og e.t.v. ekki hvað síst sú að utanrmn. kemur að mínu viti of sjaldan saman og er of laus við það að hafa frumkvæði um eitt og annað sem ástæða væri til að hún hefði afskipti af. Ég vil þess vegna leggja á það áherslu við þetta tækifæri að ég tel að utanrmn. Alþingis eigi og þurfi að starfa meira en hún hefur gert, að hún eigi að hafa frumkvæði miklu meira en hún hefur haft um könnun mála, hún eigi að gefa sér miklu meiri tíma en gert hefur verið til að sinna ýmsum mikilvægum þáttum utanríkismála. Þetta getur n. gert án lagabreytinga að því er mér sýnist. N. er ætlað að starfa árið um kring, þ.e.a.s. einnig þegar Alþ. er ekki að störfum, en því miður er það svo um okkur nm. flesta, eða alla, eins og raunar þm. yfirleitt, að á þá hlaðast mörg störf og þeir hafa ekki síst þess vegna tæplega getað sinnt þessu verkefni sem skyldi. En ég held að það sé fyllilega tími til þess kominn að á þessu verði nokkur breyting og utanrmn. gefi sér meiri tíma til að sinna utanríkismálunum og kynna sér vissa þætti þeirra.

Þetta, sem ég nú segi, á ekki að skiljast á þann veg að starf utanrmn. hin síðustu ár hafi verið minna en einatt áður. Þvert á móti þori ég að fullyrða að á tímum síðustu stjórnar, vinstri stjórnarinnar, starfaði n. til muna meira og betur en löngum áður, þótt töluvert skorti á að hún sýndi það sjálfstæði í störfum sem ég tel að n. þurfi tvímælalaust að stefna að. Þess er svo að geta svona innan sviga að nú í vetur, sérstaklega síðari hluta vetrar, hafa verið helst til strjálir fundir í utanrmn. og er skýringin vafalaust löng fjarvera formanns, sem hefur verið að sinna öðrum mikilvægum störfum á erlendri grund. En hvað sem því líður tel ég að það sé mjög óheppilegt að störf jafnmikilvægrar n. eins og utanrmn. leggist að mestu eða jafnvel öllu leyti niður þó að þannig sé ástatt, jafnvel um allt að tveggja mánaða skeið. En þetta kemur nú til með að lagast.

Ég vil aðeins bæta því við þessar hugleiðingar um starfshætti utanrmn. að mér er um það kunnugt að utanrmn. annarra þjóðþinga, t.a.m. hér á Norðurlöndum, starfa á allt annan hátt en okkar n. gerir, á miklu sjálfstæðari hátt, og nm. telja það skyldu sína að leggja í þetta starf miklu meiri vinnu en enn sem komið er hefur verið krafist af nm. hér eða þeir hafa krafist af sjálfum sér. Verkefnin eru að mínu viti vissulega næg og þeim getur n. ekki hvað síst sinnt utan þess tíma sem Alþ. stendur. Í því sambandi er ástæða til að nefna það að nú fáum við alþm. kaup allt árið. Það er að mínu viti ekkert of hátt, en við erum að sjálfsögðu ekki of góðir til að vinna fyrir því allt árið.

Það má heita, og mun vera nýmæli í samskiptum utanrrn. og utanrmn., að nú fær n. orðið ársskýrslur allra íslenskra sendiráða og skýrslur um flesta meiri háttar fundi og ráðstefnur sem utanrrn. hefur einhver afskipti af. Nú er það gjarnan svo að við lestur þessara skýrslna, sumra hverra a.m.k., vakna hjá nm. ýmsar spurningar sem fróðlegt væri að fá svör við, fróðlegt og gagnlegt að ræða um við þá sem skýrslur þessar semja. Spurningar geta að sjálfsögðu vaknað að því er varðar verkefni sem sendiráðin sjálf hafa verið og eru að glíma við, spurningar geta vaknað um starfshætti sendiráða og annað þess konar, en einnig getur verið og væri fróðlegt og gagnlegt fyrir utanrmn: menn að fá nánari vitneskju um eitt og annað sem í skýrslum þessum segir um innri mál þeirra þjóða og þeirra fjölþjóðastofnana, sem sendiherrarnir starfa hjá og gera nokkra gein fyrir málefnum þessara þjóða og stofnana í skýrslum sínum.

Ég hef alloft á það minnst að ég teldi æskilegt að taka upp þann hátt að sendiherrar Íslands komi á fund utanrmn. að jafnaði einu sinni á ári og veiti n. upplýsingar, sitji þar fyrir svörum eins og það er orðað. Af þessu ætti ekki að þurfa að verða neinn aukakostnaður, að ég hygg, því að sjálfsagt er að grípa tækifærið þegar sendiherrarnir eru hér á landi, en ég þykist vita að þeir koma hingað og veit raunar að þeir koma hingað öðru hvoru, a.m.k. árlega og raunar oftar en það. Þetta hefur ekki komist í framkvæmd enn þá, en ég vil nú enn beina því til hæstv. utanrrh. og til hv. formanns utanrmn. að þeir ekki aðeins hugleiði þetta atriði, heldur hrindi nú þessu í framkvæmd.

Þá ætla ég að víkja að öðru atriði að því er varðar utanrrn. Eins og flestum mun kunnugt gildir um það rn. sú regla, sem ég hef jafnan talið afar hæpna og allt að því fráleita, að utanrrn. eitt er með lögum undanþegið frá því að þurfa að auglýsa stöður sem þar losna, svo sem ríki og ríkisstofnunum er annars skylt að gera. Þarna er aðeins gerð þessi eina undantekning og hún er alger að því er þetta rn. varðar. Þetta undantekningarákvæði er í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og til þessa ákvæðis er vitnað í lögum um stjórnarráðið. Eina skýringin, sem ég hef á því fengið hvernig á þessari undantekningu stendur, er sú að það hafi ekki þótt viðkunnanlegt og jafnvel ekki eðlilegt að auglýsa stöður sendiherra, m.a. af því að að forminu til a.m.k. þá þurfa viðkomandi erlend ríki að samþykkja útnefningu sendiberra. Einnig hefur verið á það bent að stundum kunni að vera rétt að velja sendiherra með hliðsjón af einhverjum sérstökum mikilvægum verkefnum sem þeim væri öðrum mönnum fremur treystandi til að leysa. Hefur m.a. verið bent á Sigurð prófessor Nordal og handritamálið í því sambandi. En látum það vera þótt þessi undantekning væri í lögum, undantekning varðandi sendiherrana sjálfa. En hvaða ástæða er til þess að slík undantekning gildi um annað starfsfólk, t.d. um skrifstofufólk utanrrn. starfsmenn á Keflavíkurvelli, sem í þjónustu þess eru, og þar fram eftir götunum? Ég tel þessa undantekningarreglu, svo víðtæk sem hún er fráleita og tel að hana ætti að nema úr lögum eða a.m.k. þrengja svo mjög að undantekningin tæki til sendiherranna einna. Þetta mál hefur komið, ekki mjög nýlega, en fyrir nokkru, einum þremur árum, til umr. í utanrmn., og ég held að ég muni það rétt að hæstv. utanrrh. léti þá orð falla eitthvað á þá leið að hann ætlaði sér að fylgja fram þeirri reglu, hvað sem þessu undantekningarákvæði líði, að auglýsa almennt stöður í utanríkisþjónustunni aðrar en sendiherrastöður að því er mér skildist, ef ég man þetta rétt. Ég skildi a.m.k. hæstv. ráðh. þannig, og hann leiðréttir mig þá síðar ef þetta er misminni mitt. En nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hver hefur verið meginreglan í þessu efni hjá utanrrn. undanfarin ár? Hafa stöður við utanrrn. eða á vegum þess yfirleitt verið auglýstar? Hefur svo verið um allar stöður eða sumar þeirra og þá — eftir hverju hefur verið farið? Eða hefur jafnvel engin staða við þetta rn. verið auglýst á undanförnum árum? Það er vissulega fróðlegt að vita þetta og eins og ég sagði áðan, ég held að það sé tímabært að gera þarna á lagabreyt. og þrengja þetta undantekningarákvæði mjög.

Fjöldi og staðsetning íslenskra sendiráða og allt skipulag íslenskrar utanríkisþjónustu hefur oft verið til umr. bæði í utanrmn. og hér á Alþ. og í fjölmiðlum og svo meðal þjóðarinnar. Það má segja að þær umr. hafi staðið öðru hvoru um margra ára skeið, og nú hin síðari árin hefur einkum verið rætt um tvennt í þessu sambandi: Í fyrsta lagi það að mörgum hefur fundist óeðlilegt og í raun og veru óheppilegt að langflest sendiráðin skuli vera í tiltölulega þéttum hnapp á litlum bletti í Norður- og Vestur-Evrópu, en hins vegar ekkert sendiráð í þremur heimsálfum. Í öðru lagi hefur verið allmikið um það rætt að sendiráðin kynnu að vera orðin býsna úrelt að formi og skipulagi og þetta gilti þá um sendiráð almennt, ekki okkar íslensku sendiráð eingöngu, heldur nokkuð almennt um sendiráð þó að það sé kannske dálítið misjafnt, þau séu föst í gömlum tíma, föst í úreltum formum og komi þess vegna að takmörkuðu gagni. Í því sambandi hefur verið um það rætt, hvort þessi sendiráð gætu ekki orðið að meiri notum ef þau skiptu sér meira af viðskiptahlið málanna og hefðu fulltrúa sem væru sérfróðir að því er viðskiptamál snertir. Um þetta kunna að hafa verið nokkuð skiptar skoðanir og skal ég ekki fara út í þá sálma, en vil aðeins minna á það að menn hafa orðið sammála um það, held ég, að það væri rétt og eðlilegt að láta fara fram endurskoðun á skipulagi utanríkisþjónustunnar. Ég er að vísu eitthvað byrjaður að ryðga í Ólafskveri, en mig minnir að þar sé ákvæði um slíka endurskoðun. Hitt man ég glöggt, að hæstv. utanrrh. hefur fyrir alllöngu valið tvo mæta menn svo sem sína sérstöku trúnaðarmenn til þess að kanna ýmsar hliðar þessa máls, til þess að safna gögnum og semja skýrslur og e.t.v. koma með till. og ábendingar. Þessir mætu menn eru annars vegar Ólafur Ragnar Grímsson prófessor og hins vegar Pétur Eggerz sendiherra. Ég hygg að þessir mætu menn hafi ekki átt að vinna saman, heldur algjörlega sjálfstætt. Um verkaskiptinguna veit ég ekki gjörla, en hygg þó að próf. og dr. Ólafur Ragnar Grímsson hafi átt að kanna sérstaklega hugsanleg tengsl og aukið samstarf utanríkisþjónustunnar og útflutningsatvinnuveganna, en Pétur Eggerz hafi hins vegar fremur átt að kanna og gaumgæfa hina hefðbundnari þætti þjónustunnar og hvaða breyt. skyldu á þeim gerðar. Nú held ég að það séu nokkrir mánuðir — ég hygg að það hafi verið á fundi utanrmn. í nóv. eða des. — síðan frá því var skýrt að þessir ágætu könnuðir hefðu hvor um sig skilað skýrslu um störf sín til utanrrn. Mér vitanlega hafa þessar skýrslur ekki verið sendar t.a.m. utanrmn.-mönnum nema þá ef það væru einhverjir útvaldir úr því líði sem hafa fengið að sjá þær og þó efast ég um það. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hvernig á þessu standi, hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að utanrmn. a.m.k. fái skýrslur þessara ágætu manna og till. þeirra um breyt. á utanríkisþjónustunni til athugunar og umfjöllunar. Ég efast ekki um að þessar skýrslur eru fróðlegar og sé enga ástæðu til þess að þær verði leyniplögg.

Þá mun ég snúa mér að þeirri skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur nú flutt. Ég nefndi það áðan að mér þætti skýrslan helst til seint fram komin þar sem nú líður svo mjög að þinglokum. Og þrátt fyrir það að allgóður tími hafi gefist til þess að semja skýrsluna verð ég að segja það að mér þykja sumir kaflar hennar dálítið flausturslega unnir og einn þeirra jafnvel með þeim hætti eða einhvern veginn í þeirri tóntegund að ég er dálítið hissa á því að hæstv. utanrrh. skuli hafa látið hann frá sér fara í þessari tóntegund, að hann skuli ekki hafa aðeins breytt þar um. Ég á hér við blæinn sem einkennir þann hluta skýrslunnar sem fjallar um Sameinuðu þjóðirnar, Allsherjarþing þeirra, ríki þriðja heimsins og afstöðu Íslands til mála þar. Áður en ég vík nánar að þessu vil ég gjarnan gera eina aths. og æskja dálítið gleggri upplýsinga um það, sem stendur í hinni prentuðu skýrslu á bls. 4, sbr. tvær síðari málsgr. á þeirri síðu, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er skoðun mín að þar sem Ísland hefur stjórnmálasamband við löglega ríkisstj. í Suður-Víetnam sé ekki nauðsynlegt að viðurkenna formlega bráðabirgðabyltingarstjórnina. Ef sú ríkisstj., sem tekur við stjórn af hernaðaryfirvöldum, óskar að skipta um sendiherra á Íslandi munum við að sjálfsögðu veita nýjum sendiherra viðurkenningu.“

Þetta er dálitið skrýtin þula, herra utanrrh., og er æskilegt að fá á henni nokkru nánari skýringu. Rétt er það að það mun hafa verið eitt af fyrri verkum hæstv. utanrrh. í þjónustu núv. ríkisstj., jafnhliða því að gera nýjan herstöðvasamning, að veita viðtöku sendiherra frá Thieu karlinum í Saigon, núv. gustukamanni á Formósu. Og samkv. orðanna hljóðan í þeirri skýrslu, sem ég var nú að vitna til, þá er því líkast sem hæstv. utanrrh. standi í þeirri meiningu að þarna í Suður-Víetnam hafi nú á dögunum átt sér stað ósköp venjuleg, hversdagsleg stjórnarskipti, líkt og þegar Anker Jörgensen tekur við af Hartling eða Geir af Ólafi. En það var nú töluvert annað sem var að gerast þarna í Suður-Víetnam, og þess vegna vil ég spyrja: Hvernig á að skilja þessa dularfullu setningu í skýrslunni að ef sú ríkisstj., þ.e. í Suður-Víetnam, sem tekur við stjórn af hernaðaryfirvöldum, óskar að skipta um sendiherra á Íslandi, munum við að sjálfsögðu veita nýjum sendiherra viðurkenningu? Lítur hæstv. ráðh. svo á að maður sá, sem Thieu útnefndi okkur til handa, sé enn sendiherra Suður-Víetnams á Íslandi og að hann verði það þangað til ný stjórn kynni að óska eftir að skipta um sendiberra? Ég spyr einnig: Felst í þessari véfrétt að ríkisstj. Íslands hafi eitthvað í áttina viðurkennt í raun núv. stjórn í Suður-Víetnam eins og svo mörg lönd hafa þegar gert, þ. á m. þrjú Norðurlanda að ég hygg? Ég held að í þessu geti ekki verið nein viðurkenning fólgin. En þá spyr ég enn: Táknar orðalag það, sem hæstv. ráðh. hefur hér viðhaft, það að ríkisstj. Íslands sé með því að gefa eða hafi gefið fyrirheit um að slík viðurkenning verði veitt ef hin nýju stjórnarvöld í Suður-Víetnam fara fram á slíkt? Ég teldi æskilegt að fá dálítið skýrara hvað við er átt með þessu dularfulla orðalagi á bls. 4 um stjórnmálasamband Íslands og Suður-Víetnams og þau sendiherraskipti hugsanlegu sem þar er gert ráð fyrir.

Frá því er einnig greint í skýrslunni á bls. 4 að hæstv. ríkisstj. hafi ákveðið að veita 1.5 millj. kr. til endurreisnarstarfsins í Indókína og að það fé muni ganga til líknarstarfsemi á vegum Alþjóða Rauða krossins. Þetta er að sjálfsögðu mjög góðra gjalda vert og ég efast ekki um að það muni koma að góðum notum þetta fé, við hin mikilvægu störf sem Alþjóða Rauði krossinn innir af höndum. En ég vildi í þessu sambandi aðeins nefna að það er sjálft uppbyggingarstarfið í þessu stríðshrjáða landi sem er ákaflega mikilvægt og ekki þá síst að atvinnuvegum landsmanna verði sem allra fyrst komið í sæmilegt horf. Það hljóta allir vel hugsandi menn að vilja leggja eitthvað af mörkum til þess að það geti orðið. Ég hygg að ég muni það rétt að Norðurlönd, önnur en Ísland, halda þegar uppi myndarlegu uppbyggingarstarfi í Indókína og þau hafa um þetta starf samvinnu, og ég hygg að farið sé eftir nokkuð svipuðum reglum um útgjöld til þessa uppbyggingarstarfs eins og gilda gjarnan um aðra norræna samvinnu, svo sem á vegum Norðurlandaráðs. Ég held það væri full ástæða til að athuga og vil beina því til hæstv. utanrrh., hvort Ísland ætti ekki að æskja þess að fá að taka þátt í þessari norrænu samvinnu og leggja þar með sinn skerf af mörkum til uppbyggingarstarfsins. Ég hygg að ekki síst á sviði fiskveiða getum við íslendingar orðið þarna að verulegu liði og lagt til menn sem hafa sérfræðiþekkingu á því sviði.

Eins og ég sagði áðan hef ég sitthvað við kaflann um Sameinuðu þjóðirnar að athuga eða þann blæ sem mér finnst yfir honum vera. Í stuttu máli er allur blær frásagnarinnar, að því er mér finnst, á þá lund að hann er heldur þungur í garð þróunarlandanna eða þriðja heimsins svonefnda þegar á átök er minnst milli þeirra og hinna auðugu ríkja. Mér finnst í kaflanum að verið sé að taka bæði með beinum og þó einkum óbeinum hætti undir dóma ýmissa fulltrúa vestrænna ríkja um þróunarlöndin, að þau eða fulltrúar þeirra kunni ekki almennilega að hegða sér meðal siðaðra manna, þessir halanegrar og hottintottar séu að eyðileggja Sameinuðu þjóðirnar og þar fram eftir götunum. Þessi tónn heyrist stundum. Vissulega er hæstv. utanrrh. alveg saklaus af að nota svona leiðinlegt orðbragð. Hann er kurteis maður og alls enginn orðhákur. En mér finnst samt of mikill keimur af því að þeir, sem samið hafa þennan kafla skýrslunnar — mér þykir ólíklegt að hæstv. ráðh. hafi gert það sjálfur nema þá að litlu leyti — þeir séu haldnir helst til mikilli vesturlenskri dómgirni þegar lönd þriðja heimsins eiga í hlut. Dæmi vil ég taka úr skýrslunni, ofarlega á bls. 6 segir svo:

„Hin nýrri ríki samtakanna“ þ.e. Sameinuðu þjóðanna, „virtust sér nú meira meðvitandi en áður um það vald sem hin mikla fjölgun þeirra innan samtakanna hefur lagt þeim í hendur. Þessu valdi var nú beitt meira en margir töldu góðu hófi gegna.“

Hverjir eru þessir sem hér eru nefndir margir! Eru það e.t.v. fulltrúar hinna fáu og auðugu ríkja sem finnst orðið nóg um aukna samstöðu og þar með aukið áhrifavald hinna mörgu og smáu? Vonandi þarf ekki að minna hæstv. utanrrh. á það að hinir mörgu og fátæku og smáu í hópi þjóðanna hafa flestir verið og eru samherjar okkar og vopnabræður í baráttunni fyrir góðri og viðhlítandi hafréttarlöggjöf, fyrir þessu mikla lífshagsmunamáli íslensku þjóðarinnar sem aldrei verður nógsamlega útmálað hversu mikilvægt er. Það hefur nokkuð skort á skilninginn hjá ýmsum hinum stóru og ríku þótt ögn sé það að lagast núna í seinni tíð. Sýnu verri e.t.v. en þessi leiðindatónn, sem ég hef gert hér örlítið að umtalsefni, er sú staðreynd að eftir að núv. stjórnarflokkar gengu í eina íhaldssæng hefur afstaða Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tekið þó nokkrum breytingum. Og þær breytingar eru fyrst og fremst í þá átt að taka afstöðu með Bandaríkjum Norður-Ameríku og nánustu fylgiríkjum þeirra, en þá gegn þróunarlöndunum og nýfrjálsum ríkjum í ýmsum tilvikum. Meðan hæstv. núv. utanrrh. var utanrrh. í vinstri stjórninni var vissulega höfð uppi nokkur viðleitni til að móta hér sjálfstæða utanríkisstefnu og það tókst að vissu marki. Utanríkisstefna okkar íslendinga á tímum vinstri stjórnarinnar var dálítið lík manni sem lengi hafði staðið álútur og hokinn í hnjánum. Svo fór hann að rétta úr sér og líta upp öðru hverju. En sú dýrð stóð ekki lengur en sú ríkisstj. Nú heykist maðurinn að nýju og gerist helst til niðurlútur.

Frá því greinir í skýrslu þeirri sem hér er til umr. að hvað eftir annað á síðasta Allsherjarþingi hafi Ísland skipað sér á fámennan bekk hörðustu andstæðinga þróunarlandanna, stundum er Ísland jafnvel að finna í innsta hring þeirra Pentagon-manna. Í skýrslunni er þess getið neðarlega á bls. 6 að samþ. hafi verið með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. að bjóða frelsishreyfingu Palestínu-araba að taka þátt í umr. um Palestínumálin á Allsherjarþinginu. 3 Norðurlandanna voru þessari till. fylgjandi, Finnland, Noregur og Svíþjóð. Ísland og Danmörk sátu hjá. Á 7. bls. getur þess að yfirgnæfandi meiri hl. 89 ríki hafi samþ. till. um réttindi Palestínuaraba í Palestínu. Allmörgum ríkjum, 37 að tölu, þótti sú till., sem þarna var verið að fjalla um, of einhliða og sátu þess vegna hjá, en 8 ríki, þ. á m. Ísland, greiddu atkvæði á móti. Þriðja dæmi: Á 8. bls. greinir frá því að 95 ríki hafi samþ. að veita frelsishreyfingu Palestínu-araba, PLO, leyfi til að hafa áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum. Ísland var meðal 17 ríkja sem greiddu atkvæði gegn þessari till. — Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma enda á ég von á því að annar talsmaður af hálfu Alþb. fjalli rækilegar um sum þau atriði sem ég hef nú nefnt varðandi Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Að því er varðar kaflann í skýrslunni um hafréttarráðstefnuna hef ég engar sérstakar athugasemdir að gera, aðrar en þá, að eins og hæstv. ráðh. vék raunar að er þessi kafli og raunar fleiri í skýrslunni að stofni til saminn fyrir nokkrum vikum og síðan skotið inn viðaukum á stöku stað. Um Genfarfundinn, hafréttarráðstefnufundinn í Genf, sem nú er nýlokið, mætti að sjálfsögðu sitt hvað segja. Mat manna á honum og heim árangri, sem þar náðist, virðist vera nokkuð misjafnt. Sumir eru svartsýnir, telja jafnvel að vonlítið sé um nokkur hafréttarlög fyrst þau hafa ekki verið sett á þessum fundi. Ég hygg að svartsýnastir séu þeir menn nú, sem voru e.t.v. bjartsýnastir áður og töldu að ekki skorti nema herslumuninn til þess að hafréttarlög yrðu sett. Ég er ekki í þessum svartsýna hópi. Ég hef frá upphafi, eftir að ég fór að kynnast þessum málum eitthvað að ráði, gert mér ljóst að þetta mikla verkefni, svo margbrotið sem það er, hlyti að taka nokkuð langan tíma. Hér er verið að reyna að byggja upp svo að segja frá grunni. Það er í rauninni ekkert eða sáralítið á mörgum sviðum við að styðjast í því sem verið er að reyna að byggja upp á þessari hafréttarráðstefnu. Og mitt mat er það, og ég held að í því sé fólgið töluvert raunsæl, kannske hófleg bjartsýni að menn megi gera sér vonir um viðhlítandi alþjóðalög um hafréttarmál innan tveggja ára, e.t.v. um eða upp úr miðju næsta ári, ef vel gengur, tæplega fyrr.

Það er rétt að hinir óánægðu í sambandi við seinagang hafréttarmála geri sér ákveðið atriði ljóst. Jafnvel þótt svo fari að ekki náist allsherjarsamkomulag á þessari ráðstefnu, jafnvel þótt ekki takist í bráð að setja allsherjarlög, heldur fari ráðstefnan út um þúfur, eins og það yrði kallað, þá mun það eftir standa, að ráðstefnan hefur þrátt fyrir það borið mjög umtalsverðan árangur og það nú þegar. Á þessari ráðstefnu, fyrst á undirbúningsfundum hennar og síðar á ráðstefnunni, hafa þroskast og dafnað býsna vel hugmyndir um 200 mílna auðlindalögsögu. Og nú er það á vitorði manna um allan heim, þeirra sem láta sig þessi mál nokkru skipta, að það er þessi hugmynd sem nýtur fylgis verulegs meiri hl. þjóða, það er þessi hugmynd, sem er bókstaflega hið eina sem hugsanlegt er að samþ. verði í þessum efnum, í fiskveiðiréttarmálum, eða gerð að alþjóðalögum í náinni framtíð.

Ef við lítum einungis tvö eða þrjú ár aftur í tímann og minnumst viðhorfa margra þjóða þá, þegar þessi hugmynd var fyrst að mótast að ráði, há er ljóst að hér er um mjög jákvæða framvindu mála að ræða og í þessu efni hefur nú þegar í dag náðst afar jákvæður árangur. Þá er það og mikilvægt frá sjónarmiði okkar íslendinga að í þeim frumvarpsdrögum, sem nú liggja fyrir eftir fundinn í Genf, eru mjög veigamikil atriði um rétt strandríkis til að ákveða sjálft hámarksafla og áætla eigin getu til að hagnýta leyfilegt aflamagn innan eigin auðlindalögsögu. Mér er vel um það kunnugt að formaður íslensku sendinefndarinnar, Hans G. Andersen, hefur unnið þarna sem og að öðrum þáttum þessara mála ágætt starf, enda hefur það nú þegar borið sýnilegan og mikinn árangur.

Á bls. 20 í skýrslunni er með örfáum orðum drepið á það stefnuskráratriði hæstv. ríkisstj. að færa fiskveiðitakmörkin út í 200 mílur fyrir lok þessa árs. Þar segir aðeins stutt og laggott að ákvörðun um útfærsludag verði tekin síðar. Nú vil ég einungis spyrja hæstv. utanrrh. eða hæstv. forsrh.: Er nokkuð nýtt af þessu máli að frétta? Er ráð fyrir því gert að það komi til kasta Alþ. nú, áður en því verður slitið, eða er ráð fyrir hví gert að einungis verði um málið fjallað í landhelgisnefnd eða utanrmn., annarri eða báðum? Nú er það að vísu svo að fyrir hendi er almenn heimild Alþingis til útfærslu í 200 mílur, en ég vil leyfa mér að spyrja: Telur ekki hæstv. ríkisstj., þrátt fyrir þessa heimild, sem er skýlaus, sterkara út á við að Alþ. ákveði útfærsludaginn, að það taki slíka ákvörðun í einu hljóði, eins og allt bendir til að orðið geti? Annars skal ég ekki fjölyrða meira um þetta atriði.

Næst staldra ég við síðustu bls. þeirrar skýrslu sem hér er til umr. Þar greinir hæstv. utanrrh. frá því með fáeinum orðum að hann hafi nýlega gist Sovétríkin í boði þarlendra og hlotið hinar bestu móttökur. Sannleikurinn er sá að þessi austurför hæstv. utanrrh. er nú sennilega lesendum íslenskra blaða í nokkuð fersku minni, a.m.k. lesendum helstu stuðningsblaða núv. hæstv. ríkisstj. En blaðaskrifin um þessa frægu austurför og alveg sérstaklega skrif stjórnarblaðanna vekja óneitanlega ýmsar spurningar sem æskilegt væri að fá svör við, og ég þykist vita að þeir hæstv. utanrrh. annars vegar og hæstv. forsrh. hins vegar verða fúsir til að upplýsa ýmis atriði sem mér þykja ekki liggja alveg ljóst fyrir, en þyrftu að skýrast til nokkurrar hlítar.

Þar er þá til máls að taka að hæstv. utanrrh. heldur með fríðu föruneyti austur í Garðaríki. Líður ekki á löngu uns um það taka að berast fregnir að hann muni þar allvel haldinn, hafi hann viðurgerning góðan og þyki aufúsugestur. Virðist hér allt fara fram, að breyttu breytanda, eins og segir í kvæðinu um Rússlandsför Ólafs Friðrikssonar, það er orðið nokkuð gamalt:

„Ólafur fór í Austurveg,

öll var sú förin glæsileg.

Hann talaði við hvern tiginn mann

og Trotsky og Lenin kysstu hann.“

Frá þessum ágætu móttökum, sem hæstv. utanrrh. fékk þar í Austurvegi, skýrðu íslensk blöð, að vísu að einu undanteknu sem einhvern veginn hafði misst af þessum fréttum. Nú lýkur þessari sæmdarför, og er þá birt samtímis í Reykjavík og Moskvu sameiginleg fréttatilkynning eða öllu heldur yfirlýsing — mér sýnist það réttara og virðulegra heiti — utanrrh. beggja þeirra landa sem hér áttu hlut að máli. Öll dagblöðin nema eitt virðast hafa fengið þessa yfirlýsingu og birtu hana hinn 10. apríl, eða a.m.k. kjarnann úr henni. Það var hins vegar Morgunblaðið sem hafði orðið útundan og birti þess vegna ekki þessa ágætu yfirlýsingu. En í þessari yfirlýsingu segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„það er álit beggja aðila að samskipti ríkja eigi að grundvallast á friðsamlegri sambúð. Í þessu sambandi kom fram að Ísland og Sovétríkin telja áframhaldandi þróun alþjóðasamvinnu sem grundvallast á gagnkvæmum hagsmunum, algeru jafnrétti og án afskipta af innanríkismálum hvors annars“ — menn taki eftir — „mjög þýðingarmikla, einkum á sviði viðskipta og efnahagsmála.“

Sitt hvað fleira athyglisvert segir í þessari yfirlýsingu, bæði um góð verslunarviðskipti landanna og menningarsamskipti. M.a. er frá því skýrt að undirrituð hafi verið áætlun um samstarf Íslands og Sovétríkjanna í menningar- og vísindamálum á tímabilinu 1975–1979. Loks segir, og vitna ég nú orðrétt í yfirlýsinguna:

„Það kom fram að afstaða beggja aðila til margra mikilvægra alþjóðamála er hin sama eða svipuð.“

Nú gefur auga leið og ég þarf ekki einu sinni um það að spyrja að ævinlega þegar utanrrh. tveggja þjóða gefa út slíkar sameiginlegar yfirlýsingar að loknum viðræðum, þá er þar ekki um að ræða einhverjar einkaskoðanir viðkomandi ráðh., heldur getur þar að sjálfsögðu að líta sameiginlega niðurstöðu, sameiginlega stefnu tveggja ríkisstj. Þeir ágætu kollegar, Gromyko og Einar Ágústsson, tala hér að sjálfsögðu fyrir hönd ríkisstj. sinna, fyrir hönd ríkisstj. Alexeis Kosygins og Geirs Hallgrímssonar. Það var bæði synd og skömm að Morgunblaðið skyldi ekki frétta þetta. Enda fór svo fyrr en varði að slys hlaust af þessari vanþekkingu Morgunblaðsins og verður það nú lítillega rakið.

Föstudaginn 11. apríl, daginn eftir að fréttatilkynningin birtist, þar sem hátíðlega er yfirlýst að ríkisstj. Geirs og Kosygins séu hjartanlega sammála um mjög mörg atriði alþjóðastjórnmála, birtist í Morgunblaðinu nokkuð áþreifanlegur vottur þess að ritstjórarnir höfðu þó þrátt fyrir allt veitt því athygli að hæstv. utanrrh. hafði skroppið til Sovétríkjanna. Þennan dag birtist nefnilega í Morgunblaðinu leiðari sem nokkuð lengi mun í minnum hafður, einkum þegar það er haft í huga að þar talar stjórnmálaritstjóri aðalmálgagns núv. ríkisstj. og alveg sérstaklega aðalmálgagns hæstv. forsrh. Þessi leiðari heitir „Ísland og Sovétríkin“ og er hvort tveggja í senn — með leyfi að segja — fádæma rætin árás á hæstv. utanrrh., krydduð svívirðingum og aðdróttunum í garð þess ríkis sem ráðh. hafði gist og mun annað eins nokkuð vandfundið. Morgunblaðinu farast m.a. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Einar Ágústsson utanrrh. hefur að undanförnu dvalist í Sovétríkjunum í opinberri heimsókn. Ferð utanrrh. er í alla staði eðlileg og sjálfsögð og þáttur í nútímaviðskiptum ríkja. Því er hins vegar ekki að neita að ferðin hefur vakið meiri athygli en titt er um slíkar kurteisisheimsóknir. Þær móttökur, sem utanrrh. Íslands naut í Moskvu, voru mun veglegri en almennt gerist í heimsóknum af þessu tagi og ber ekki að lasta þá gestrisni Sovétmanna. Hins vegar bendir sú staðreynd, að Kosygin forsrh. tók á móti utanrrh. Íslands, öllum að óvörum og án þess að gert væri ráð fyrir því, til þess að Sovétríkin hafi af einhverjum ástæðum lagt mun meiri áherslu á þessa heimsókn en fyrir fram mátti ætla. Og þá vaknar sú spurning, hvað fyrir þeim vakir.“

Nokkru síðar í leiðaranum segir: „Á sama tíma og þetta gerist verða sendiherraskipti hér á Íslandi. Fyrrv. sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi var nátengdur einum mesta valdamanni Sovétríkjanna og var hann sendur til Noregs, en Noregur hefur borið meginþunga þess þrýstings sem Sovétríkin hafa að undanförnu lagt á Norðurlönd. Í hans stað er gerður að sendiherra á Íslandi maður sem vitað er að hefur starfað að njósnum í þágu sovésku leyniþjónustunnar og hefur langa reynslu af svonefndri Finnlandiseringu, þar sem hann var um margra ára skeið næstæðsti maður sovéska sendiráðsins í Finnlandi. Þegar þessi heildarmynd er skoðuð hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvort þær óvenjulega veglegu móttökur, sem utanrrh. Íslands hlaut í Moskvu, og sú mikla áhersla, sem lögð var á heimsókn hans þar, boði að Sovétríkin muni nú leggja stóraukna áherslu á að efla áhrif sín á Íslandi með stjórnmálalegum samskiptum, heimsóknum listamanna og vísindamanna og hvort sú vinsemd að lækka olíuverðið til íslendinga um hvorki meira né minna en 21/2% sé þáttur í nýrri herferð sovétmanna til þess að efla áhrif sín á Íslandi. Þetta skulum við íslendingar hafa í huga á næstu mánuðum og misserum í samskiptum okkar við Sovétríkin.“

Og í lok þessa leiðara segir: „Látum okkur ekki detta annað í hug en að lokamarkmið Sovétríkjanna sé að innlima Ísland í áhrifasvæði sitt, og minnumst þess að ef við ekki erum á varðbergi kann sú ógæfa að verða örlög okkar þjóðar.“

Mér þótti rétt að kjarni þessa leiðara geymdist í þingtíðindum.

Daginn eftir að þessi leiðari birtist, hinn 12. apríl, svarar Tíminn, málgagn hæstv. utanrrh., þessum leiðara og það er ritstjóri blaðsins sem birtir leiðara um málið. Ritstjórinn segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ísland og Sovétríkin heitir forustugrein sem birtist í Morgunblaðinu í gær og er ritsmíð af því tagi að henni verður ekki annars staðar á bekk skipað en meðal grófustu furðuskrifa í íslenskri stjórnmálasögu. Þar eru hafðar uppi magnaðar dylgjur eftir verstu forskrift, meðfram byggðar á getgátum og slúðursögum í garð þjóðar sem íslendingar hafa lengi átt við mikil viðskipti og yfirleitt hagstæð og eiga alls engar sakir við. Þarna er að verki höfuðmálgagn forsrh. landsins og óhróðurinn er fluttur þegar Einar Ágústsson utanrrh. hefur nýlokið opinberri heimsókn í Sovétríkjunum og náð þar hagstæðari samningum en áður um jafnmikilsvert viðskiptaatriði og olíukaup okkar.“

Þetta og margt fleira sagði Tíminn, ritstjóri Tímans, í forustugrein daginn eftir að Morgunblaðsgreinin birtist. Enn þá hvassari forustugrein birti þó ritstjóri Tímans í blaði sínu þremur dögum síðar, hinn 15. apríl. Þar segir m.a. á þessa leið, og er þá að fjalla um Morgunblaðið:

„Uppi hafa vaðið hvers konar getsakir, dylgjur og fullyrðingar, fyrst og fremst ofnar og spunnar út af forsendum sem þessir sérkennilegu greinarhöfundar hafa sjálfir gefið sér, og jafnvel verið gengið svo langt að staðhæfa að lokamarkmið Sovétríkjanna sé að innlima Ísland. Þegar von var á nýjum sovéskum ambassador til landsins var það dymbilvikudund Morgunblaðsins að stimpla hann með harla vafasömum heimildum njósnara leynilögreglunnar rússnesku. Mun slík aðdróttun fáséð við þær kringumstæður í málgagni sjálfs forsrh. hvar sem leitað er í siðuðum löndum. Slíkt er að sjálfsögðu ber móðgun af grófasta tagi. En jafnframt var þetta klámhögg í garð utanrrh. okkar, Einars Ágústssonar, sem samþ. hafði útnefningu ambassadorsins eins og títt er við sendiherraskipti.“

Leiðara ritstjóra Tímans lýkur á þessum orðum: „Miklum meiri hluta þjóðarinnar stendur stuggur af æði Morgunblaðsins sem ekki verður kallað annað en þjóðfjandsamlegt. Í ljósi þess, á hve gálauslegan hátt þar er leikið með íslenska hagsmuni, verður að krefjast þess að forsrh. landsins, Geir Hallgrímsson, geri hreint fyrir sínum dyrum og láti alþjóð vita hvort þessi háskalegu sorpskrif eru birt með vitund hans og vilja.“

Þetta voru orð annars aðalstjórnarblaðsins, Tímans. Ég hirði ekki að lesa fleiri tilvitnanir úr þessum tveimur aðalmálgögnum núv. hæstv. ríkisstj., Morgunblaðinu og Tímanum, enda þótt af nógu sé að taka. Það er að sjálfsögðu langt fyrir neðan virðingu okkar allra alþm. að fara að elta ólar við ruslakisturnar í Morgunblaðinu, svo sem Staksteina- og Velvakandaskrifin. En um leiðara í málgagni sjálfs forsrh. gegnir allt öðru máli. Þegar ritstjóri Tímans var að gefnu tilefni að því spurður hvort það væru einkaskoðanir hans sem kæmu fram í ádeilunum á Morgunblaðið og forsrh., kvaðst hann að sjálfsögðu í leiðaraskrifum gera sér far um að túlka ríkjandi sjónarmið í sínum flokki og hann gerði það í samráði við forustu flokksins. Svipuðu máli þykir mér trúlegt, meðan ég veit ekki annað, að gegni um ritstjóra Morgunblaðsins. Sé svo ekki væri vissulega fróðlegt að heyra það af munni forustumanna flokksins og þá einkum af munni hæstv. forsrh. hvort hér hefur aðeins verið um einkaskoðanir ritstjóra Morgunblaðsins að ræða.

Nú er ég enginn aðdáandi ríkjandi stjórnarfars í Sovétríkjunum og hef aldrei verið það. Ég er sannarlega ekkert uppnæmur fyrir gagnrýni á það stjórnarfar sem þar hefur ríkt og ríkir, jafnvel þótt sú gagnrýni sé hörð og óvægin. Mörg sjónarmið valdhafa í því ríki og margir starfshættir þeirra eru afar fjarlægir þeim hugmyndum um sósíalisma sem ég aðhyllist. En hamagangur Morgunblaðsins undanfarnar vikur í garð Sovétríkjanna — og þar er ekkert lát á, það er haldið áfram á hverjum degi — á ekkert skylt við eðlilega gagnrýni á þjóðskipulag og stjórnarfar þessara ríkja. Hér er um að ræða mjög heiftarlega árás á opinber samskipti Íslands og Sovétríkjanna, árás á viðskipti þessara ríkja, árás á samstarf þeirra á sviði menningar, vísinda og rannsókna. Allt á þetta að vera af hinu illa. Munu þó flestir menn með nokkurn veginn óbrjálaða dómgreind viðurkenna að samskipti þessara tveggja landa, jafnt á sviði viðskipta sem menningarmála, hafi yfirleitt verið góð og Íslandi fremur hagstæð heldur en hitt. Þetta ætti að vera hægt að viðurkenna, hvaða skoðanir sem menn hafa á stjórnarfari því sem í Sovétríkjunum er.

Öllu öðru fremur má þó segja að skrif Morgunblaðsins um íslensk-rússnesk samskipti svo og skrif þess margfræg um hið svonefnda Kleifarvatnsmál og þó ekki síst skrif þess um núv. sendiherra Sovétríkjanna á Íslandi séu um leið mjög heiftarleg árás á hæstv. utanrrh. Íslands. Um það er hvað eftir annað dylgjað í skrifum þessa blaðs, aðalstjórnarblaðsins. Og stundum liggur við að hæstv. utanrrh. sé nokkurn veginn berum orðum borinn þeim sökum að hann hafi heimilað Sovétríkjum.m að stunda njósnir hér á landi svo að segja að vild, hann hafi fallist á að starfsmaður leyniþjónustu Sovétríkjanna yrði sendiherra á Íslandi. Og hvað eftir annað er látið að því liggja a.m.k. að hagstæður árangur þeirra tveggja ráðh. Framsfl., sem hafa farið í erindum til Sovétríkjanna, hæstv. viðskrh. í haust og hæstv. utanrrh. nú, að þessar viðræður og sá árangur, sem þær báru, ekki síst um viðskiptamál landanna, væru í rauninni ekkert annað en eins konar mútur.

Nú vil ég leyfa mér í þessum umr. að beina nokkuð svipuðum fyrirspurnum til hæstv. forsrh., eins og ritstjóri Tímans hefur gert, en hæstv. ráðh. hefur enn, að því er ég best veit, hliðrað sér hjá að svara. Þetta eru aðeins mjög einfaldar spurningar og ég vænti þess að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara heim skýrt og greinilega:

„1. Er hæstv. forsrh. í meginatriðum samþykkur þeim skoðunum sem koma fram í leiðara Morgunblaðsins 11. apríl s.l. og ritstjóri Tímans telur þjóðfjandsamlegar og klámhögg í garð hæstv. utanrrh.?

2. Er hæstv. forsrh. sömu skoðunar og ritstjóri Morgunblaðsins, aðalmálgagns þessarar hæstv. ríkisstj., sem fullyrðir að lokatakmark Sovétríkjanna sé að innlima Ísland?

3. Ætlar hæstv. forsrh. með þögninni að láta menn draga þá ályktun að hann leggi blessun sína yfir skrif Morgunblaðsins um samskipti Íslands og Sovétríkjanna jafnt á sviði viðskipta sem menningarmála og að þau samskipti séu þannig gerð tortryggileg með öllu hugsanlegu móti?

4. Hver er skoðun hæstv. forsrh. á endurteknum dylgjum Morgunblaðsins um hæstv. utanrrh., ráðh. í hans eigin ríkisstj.? Ætlar hæstv. forsrh. með þögninni að láta sér það vel líka að málgagn hans brigsli utanrrh. um óþjóðhollt athæfi, dylgi jafnvel um það að hann kunni að vera flæktur í einhvers konar samsæri sem að því miði að brjóta niður sæmd og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar?

Ég skora á hæstv. forsrh. að taka afstöðu til þessara og þvílíkra skrifa ritstjóra Morgunblaðsins ég tel skyldu hans að gera það.

Herra forseti. Um herstöðvamálið og aðild Íslands að NATO mun ég verða stuttorður að þessu sinni. Ástæðan er þó síður en svo sú að ég telji það lítilvægara mál en áður að losna við herinn og að losa okkur úr hernaðarbandalagi. En þessum málum báðum voru gerð nokkuð rækileg skil af hálfu okkar Alþb.- manna fyrr á þessu þingi, þegar umr. fóru hér fram um hinn nýja herstöðvasamning hæstv. núv. ríkisstj. Ég veit líka að stefna Alþb. í þessum málum er öllum kunn og hún hefur ekki breyst hætishót. Við Alþb.- menn munum hér eftir ekki síður en hingað til berjast af alefli fyrir því að Ísland verði herlaust land og laust úr viðjum hernaðarbandalags. Það kann að vera að ýmsum þyki ekki blása byrlega í þeim efnum nú um stundir þegar tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins hafa tekið höndum saman og framkvæma nú ómengaða hersetustefnu með öllu óduldara og blygðunarlausara peningasjónarmiði í huga en oftast áður. En við vitum að einnig er hrotalöm á þessu samstarfi, eins og fleiri þáttum þessa samstarfs, auk þess sem stóru flokkarnir báðir standa á leirfótum og geta fyrr en varir hlotið örlög Mökkurkálfa. Herstöðvaandstæðinga biður mikið starf, en það starf mun verða unnið, það mun bera árangur, jafnvel fyrr en margur hyggur.

Ég mun nú ljúka máli mínu. Ég hef gert ýmsar aths. við skýrslu hæstv. utanrrh. Eins og löngum vill verða gerist maður langorðari um það sem miður þykir fara heldur en um hitt sem maður er sammála og vel er gert. Ég vil að lokum þakka hæstv. utanrrh., Einari Ágústssyni, fyrir gott samstarf við utanrmn. og mig sem nm. Ég á ekki aðra ósk betri hæstv. utanrrh. til handa en þá að hann eigi eftir, þótt eitthvað síðar verði, að stuðla að framkvæmd þeirra þátta utanríkisstefnu vinstri stjórnarinnar 1971–1974 sem af ýmsum ástæðum hafa ekki orðið að veruleika enn þá.