13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4023 í B-deild Alþingistíðinda. (3256)

346. mál, utanríkismál 1975

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Í skýrslu sinni um utanríkismál ver hæstv. utanrrh. allmiklum tíma í umr. um Sameinuðu þjóðirnar og afstöðu Íslands til mála á síðasta Allsherjarþingi. Það er að mínum dómi lofsvert í sjálfu sér og ekki vanþörf á að oftar og ítarlegar sé rætt um þátttöku Íslands á þeim vettvangi hér í þinginu. Að þessu leyti er ég ósammála hv. síðasta ræðumanni, sem taldi að of miklum tíma væri varið í skýrslu um Sameinuðu þjóðirnar að þessu sinni. Á hitt legg ég þó ekki dóm hvort að það sé hlutfallslega of mikið miðað við annað. Mörg mál, sem koma fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna skipta okkur íslendinga miklu máli og eru hagsmunamál okkar, auk þess sem mál þar tengjast óhjákvæmilega afstöðu okkar til alþjóðamála í heild. Er því varla hægt að líta á þátttöku Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sem sérmál óviðkomandi alþjóðamálum að öðru leyti. Ég hlýt þó að finna að því að hin árlega heildarskýrsla um störf síðasta þings og þingnefnda Sameinuðu þjóðanna skyldi ekki vera tilbúin fyrir þessar umr. Hún var ekki tilbúin til afhendingar þm. eða þeim fulltrúum sem þing Sameinuðu þjóðanna sátu, en hún er vitaskuld nauðsynleg til glöggvunar og upprifjunar og til þess að fá heildarsýn yfir málin. Því mundi það spara þm. mikla fyrirhöfn og mikinn tíma að fá þá skýrslu í hendur. Mér er þó í þessu sambandi ljúft og skylt að geta þess að ég hef notið mjög góðrar fyrirgreiðslu hjá deildarstjóra utanrrn., Ólafi Egilssyni, og fengið hjá honum þá hjálp sem honum var unnt að veita með svo stuttum fyrirvara. Þessi heildarskýrsla, sem ég er að tala um, mun útbúin af fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, og ég beini eindregið þeim tilmælum til hæstv. utanrrh., að hann sjái til þess að skýrsla þessi liggi fyrir framvegis áður en umr. um utanríkismál fara fram hér á þingi.

Ég er sammála þeim sem hér hafa fundið að því að umr. um utanríkismál skuli ekki fara fram fyrr en á síðustu viku þings. Ég er þó þeirrar skoðunar að þær eigi ekki að fara fram fyrr en að þingi Sameinuðu þjóðanna loknu. Svo virðist þó að ástæðan fyrir því að hæstv. utanrrh. fer fleiri orðum nú um afstöðu íslendinga í málum Sameinuðu þjóðanna en áður sé hið fræga og margrædda Palestínumál, en afstaða Íslands í því máli vakti umr. og gagnrýni hér heima.

Útskýringar hæstv. utanrrh. á afstöðu Íslands í málefnum Palestínuþjóðarinnar á sér aðfararkafla, afar fróðlegan og athyglisverðan fyrir þá sök að hann ræðir þær breytingar á valdahlutföllum hjá Sameinuðu þjóðunum sem fylgt hafa fjölgun aðildarríkja úr 51 í 138. Langflest þeirra ríkja, sem hafa bæst í hóp Sameinuðu þjóðanna frá stofnun þeirra, eru, eins og allir vita, nýfrjáls ríki, fyrrv. nýlendur, sem hafa háð harða baráttu fyrir sjálfstæði sínu, — ríki sem hafa mörg hver í hörðum átökum og með miklum mannfórnum varpað af sér oki kúgunar- og nýlenduvelda, — þjóðir sem hafa átt það eitt takmark að ráða landi sínu sjálfar. Það ætti því að vera hverjum heilbrigðum íslendingi einhlítt fagnaðarefni þegar þessi ríki bætast í hóp aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. En svo undarlega bregður við í skýrslu hæstv. utanrrh. að hann talar um þennan nýja ríkjahóp í skýrslu sinni eins og hann væri bandarískur hershöfðingi eða fyrrv. eða núv. nýlendukúgari. Það er ekki hægt að firra hæstv. ráðh. ábyrgð á þeim tóni sem er í þessum kafla. Hann flutti hann hér í eigin nafni fyrr í dag og hlýtur því að vera samþykkur þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

Áður en ég vík nánar að þessu vil ég taka undir orð hv. síðasta ræðumanns um að það sé mjög varhugavert af íslendingum að taka afstöðu gegn þessum ríkjum. Það hefur, eins og kom fram í ræðu hans, verið allmikið rætt um að rétt væri að takmarka atkvæðisrétt smáríkja að einhverju leyti og þess varð jafnvel vart á síðasta Allsherjarþingi að andstaða var að myndast gegn því að smáríki hlytu sjálfsstjórn og frelsi. Fór ekki milli mála að þetta andóf eða þessi andstaða var réttlætt með því, að hin breyttu valdahlutföll væru óheppileg og ekki bætandi í hóp þróunarlanda sem fyrir væri. Þetta er fyrir okkur íslendinga afar athyglisvert og getur verið mjög hættulegt.

Um samstöðu þróunarlandanna, hinna nýfrjálsu ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum, og baráttu þeirra fyrir réttindum sínum og þeirra þjóða, sem enn þurfa að búa við órétt og kynþáttamisrétti, notar hæstv. utanrrh. hvað eftir annað orðið „valdbeitingu“ í skýrslu sinni, Þessi málflutningur heyrist í rauninni aðeins hjá bandaríkjamönnum og gömlum nýlenduveldum sem eru að missa tök sín til valdbeitingar á þessum þjóðum sem öðrum. Það er sannarlega smánarlegt að mínum dómi að heyra íslenskan utanrrh. taka undir slíkan málflutning og gera hann að sínum. Vissulega hafa þessar þjóðir nú meiri hl. hjá Sameinuðu þjóðunum, og það þarf engan að undra þótt þau hafi önnur sjónarmið en fyrrv. og núv. kúgarar þeirra. Það, sem raunverulega er að gerast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, er að stefna nýlendukúgunar og heimsvaldasinna er að bíða ósigur í hverri atkvgr. á fætur annarri. Um þessa skipan mála, þennan ríkjahóp, þróunarlöndin, segir hæstv. ráðh. í skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta: „Þessu valdi var nú beitt meira en margir töldu góðu hófi gegna.“ Það er því ástæða til að spyrja í framhaldi af því, sem ég hef áður sagt, við hverja sé hér átt. Hvaða fjöldi eða hópur telur valdbeitinguna meira en hóflega? Hverra sjónarmið er hæstv. ráðh. hér að túlka og bera á borð fyrir Alþ.? Á öðrum stað segir hann enn fremur, að hópskiptingin, þ.e.a.s. hin breyttu valdahlutföll. veki nokkurn ugg manna á meðal. Enn spyr ég: Við hvaða menn er hér átt? Hjá hvaða mönnum vekur þetta ugg? Hjá hæstv. utanrrh. Íslands eða bandaríkjamönnum eða hverjum, og um hvað eru þessir ótilteknu menn uggandi? Raunar þurfti ég ekki að spyrja þessarar síðustu spurningar. Auðvitað eru þeir uggandi um þá þróun mála að þeir eru nú óðum að missa forréttindi sin og aðstöðu til að ráðskast með aðrar þjóðir. En þetta er auðvitað ekki sagt beinum orðum. Nei, það er látið að því liggja að hin mikla vá liggi í því að stærri hópurinn, þróunarlöndin, knýi í gegn samþykktir sem brjóti í bága við sáttmála Sameinuðu þjóðanna eða séu í ósamræmi við anda hans. Vissulega get ég á það fallist að það hefur komið fyrir að þau hafa staðið að samþykktum á Allsherjarþinginu sem væri réttara að Öryggisráðið gerði. En ef við viljum líta á þessi mál af fyllstu sanngirni hljótum við að viðurkenna að Öryggisráðið speglar engan veginn valdahlutföll á þinginu.

Dæmi hæstv. utanrrh. um þetta eru þó mjög fá og lítt rökstudd. Í skýrslunni er vikið að því að þessi ríki hafi notað sér vafasamar túlkanir á fundarsköpum Allsherjarþingsins til að útiloka aðildarríki frá fullri þátttöku í störfum þess. Það er rétt að útilokun að vissu marki hefur átt sér stað. Nægir þar að minna á útilokun Suður-Afríku vegna kynþáttamisréttisins þar í landi. Auðvitað eru skiptar skoðanir um hvort slíkar aðgerðir nái tilgangi sínum. En ég vil benda á að slíkt er ekki fordæmalaust. Það þarf ekki lengra að líta en til Evrópuþjóða, og raunar kemur hæstv. ráðh. inn á það dæmi í skýrslu sinni, dæmið um Evrópuráðið og Grikkland, er Evrópuráðið áformaði að reka Grikkland úr ráðinu. Hæstv. ráðh. segir í skýrslu sinni að stjórnarhættir í Grikklandi þyki hafa breyst í nægilega lýðræðislegt horf aftur og því sé unnt að veita því á nýjan leik fulla aðild að Evrópuráðinu. Í þessu sambandi er ekki vikið einu orði að valdbeitingu af hálfu meiri hl. í Evrópuráði.

Það er affarasælla að líta á þessi mál íslenskum augum í stað þess að taka undir með deyjandi kór og bera svo þungar sakir á þróunarlöndin sem hæstv. ráðh. gerir. Við eigum samstöðu með þessum þjóðum, þær hafa stutt málstað okkar í landhelgismálinu dyggilega og af einurð. Stundum hafa þær raddir heyrst, sérstaklega á tímum vinstri stjórnar þegar breyt. varð á atkvgr. Sameinuðu þjóðanna, að við íslendingar værum að ganga of langt í stuðningi okkar við þróunarlöndin og við værum með því að gera nokkurs konar hrossakaup til að tryggja stuðning þeirra við okkur. Þeir, sem þannig tala, hugsa af mikilli skammsýni. Landhelgismálið er ekki einangrað mál í sjálfstæðisbaráttu okkar íslendinga. Samstaða okkar og þessara ríkja helgast ekki af landhelgismálinu einvörðungu, heldur af sögu okkar allri. Við höfum orðið að búa við þau örlög að vera nýlenda og barátta okkar fyrir eigin yfirráðum yfir auðlindum okkar og lögsögu er sama eðlis og barátta þessara þjóða fyrir tilverurétti sínum. Samstaða okkar við þessi ríki nær svo djúpt niður í innstu kviku þjóðarsögu að það sæmir okkur ekki að bergmála ásakanir annarra á hendur þessum þjóðum.

Því miður var vart á síðasta þingi breyttrar afstöðu til þróunarlandanna í ýmiss konar atkvgr. Ég segi ekki að það hafi orðið stökkbreyting, en það má greina að núv. ríkisstj. er hægt og sigandi að ganga aftur á bak. Þar sem vinstri stjórnin greiddi atkv. með þróunarlöndunum situr núv. ríkisstj. hjá, þar sem vinstri stjórnin sat hjá greiðir núv. ríkisstj. atkvæði á móti. Dæmi um þetta er till. um málefni Suður-Ródesíu, þar sem skorað er á Breta að koma minnihlutastjórn Ian Smiths frá vegna kynþáttastefnu sem hann heldur þar uppí. Nú var greitt atkv. gegn þessari till. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér að það hafi verið greitt atkvæði gegn fremur en hjáseta. Nú virtist frekar ráða tillitssemi við breta en stuðningur okkar við íbúa landsins, sem hafa orðið að sæta kúgun, misrétti og ofbeldi.

Þegar hæstv. ráðh. talar um valdbeitingu meiri hl. á þingi Sameinuðu þjóðanna nú, þá virðist gleymdur fyrri meiri hl. og gerðir hans. Meirihlutavald í sjálfu sér hjá Sameinuðu þjóðunum er ekkert nýtt fyrirbæri. En það hefði verið hollt fyrir hæstv. ráðh. að rifja upp misbeitingu valds þess meiri hl. áður en hann lét frá sér fara þessar dæmalausu fullyrðingar um valdbeitingu núv. meiri hl.

Vegna þess að tilefni hefur gefist til mun ég nefna hér nokkur dæmi um misnotkun valds fyrir meiri hluta hjá Sameinuðu þjóðunum. Nærtækasta dæmið er kannske Alþýðulýðveldið Kína sem var árum saman haldið utan við Sameinuðu þjóðirnar fyrir atbeina hins fyrri meiri hl. En leppstjórn Bandaríkjanna sat sem fulltrúi Kína bæði á þinginu og í Öryggisráðinu. Viðreisnarstjórnin íslenska barðist lengur og hetjulegar en Bandaríkjastjórn sjálf til að halda þessari leppstjórn inni hjá Sameinuðu þjóðunum. Og svo mikið lá við þegar fréttist að vinstri stjórnin ætlaði að greiða atkvæði með því að Alþýðulýðveldið Kína fengi sitt réttmæta sæti hjá Sameinuðu þjóðunum, að hv. 11. þm. Reykv., Ellert B. Schram, kvaddi sér hljóðs utan dagskrár til þess að mótmæla þessum ósóma. Mig minnir jafnvel að það hafi verið jómfrúræða hans hér á þingi.

Fleiri dæmi um misbeiting u valds fyrr á tímum mætti nefna. Grænland t.d. var undir vernd Sameinuðu þjóðanna þegar danir innlimuðu það í ríki sitt. Dönum bar skylda til þess að hafa samráð við Sameinuðu þjóðirnar áður en þeir létu til skarar skríða. Þeir gerðu það ekki og Sameinuðu þjóðirnar stóðu frammi fyrir gerðum hlut. Danir höfðu þannig skýlaust brotið gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna, en meiri hl. þá hrósaði þeim fyrir góða nýlendustjórn. Íslenski fulltrúinn sagði ekki orð í þeim umr. Örfá ríki úr þáverandi minni hluta mótmæltu þessari aðferð.

Í þriðja lagi skal nefna þann hátt er Sameinuðu þjóðirnar höfðu á um stofnun Ísraelsríkis á sínum tíma. Landinu Palestínu var skipt þrátt fyrir kröftug mótmæli og heiftúðlega andstöðu þeirra íbúa sem búið höfðu í landinu í þúsundir ára og algjörlega að þeim fornspurðum. Á þeim tíma er innflutningur síonista til Palestínu hófst, rétt um síðustu aldamót eða um það bil, voru arabar yfir 92% alls íbúafjölda landsins og áttu yfir 97% alls landsins. Það er ekki hægt að mótmæla því að skipting lands eða stofnun nýs ríkis innan landamæra annars ríkis án samþykkis íbúa þess sé brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem skuldbundu sig til að virða sjálfsákvörðunarrétt hverrar þjóðar. Hér er ekki tími til að rekja alla forsögu Palestínuþjóðarinnar frá því að hún laut tyrkjum megnið af síðustu öld og Palestína varð verndarsvæði breta eftir fyrri heimsstyrjöldina. En þeim þætti sem Sameinuðu þjóðirnar áttu í því að Ísraelsríki var stofnað, má ekki gleyma og hvernig það var gert má ekki gleyma þegar rætt er um málið nú því að þetta er sjálf undirrótin að þeim deilum sem nú er verið að reyna að leysa. Í skjóli Sameinuðu þjóðanna hafa ísraelsmenn neitað því að nokkuð það væri til er kallast gæti Palestínuþjóð, er ætti rétt til nokkurra heimkynna, og í framhaldi af því hafa þeir stöðugt neitað að viðurkenna hana sem samningsaðila um lausn deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Jafnvel þótt frelsishreyfing Palestínu, PLO, hafi nú hlotið viðurkenningu sem eini lögmæti fulltrúi Palestínuþjóðarinnar sitja ísraelsmenn við sinn keip. En það er viðurkennt af öllum að tvennt sé nauðsynlegt ef á að takast að leysa deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs og koma þar á friði: annars vegar að ísraelsmenn skili herteknu svæðunum frá 1967, hins vegar að tilvist Palestínuþjóðarinnar sé viðurkennd og þar með réttur hennar til sjálfsákvörðunar og sjálfstæðis. Fjölmargar samþykktir hafa verið gerðar hjá Sameinuðu þjóðunum um þetta hvort tveggja, en ísraelsmenn hafa haft þær að engu. Þeir hafa getað gert það vegna þess að þeir hafa notið stuðnings og verndar bandaríkjamanna.

Frægasta samþykktin og sú sem vitnað var mest til í umr. í haust, þ. á m. af hálfu íslenska sendiherrans, er samþykkt Öryggisráðsins frá 1967. Þar er skýrt kveðið á um að ísraelsmenn skuli hverfa frá herteknu svæðunum og þar er skýrt kveðið á um sjálfstæði ríkja á svæðinu og rétt þeirra til að búa þar við frið. Samkvæmt skilningi ísraelsmanna nær síðari liðurinn alls ekki til Palestínuþjóðarinnar, einfaldlega vegna þess að þeir viðurkenna ekki að hún sé til. Þetta hafa talsmenn ísraelsmanna, t.d. Golda Meir, sagt hvað eftir annað opinberlega. Í ljósi þessa er afstaða Íslands varðandi aðaltillöguna á síðasta þingi Sameinuðu þjóðanna um rétt Palestínuþjóðarinnar algjörlega óverjandi og siðferðilega fordæmanleg, en Ísland ásamt bandaríkjamönnum og 6 öðrum ríkjum greiddi atkv. gegn till. svo sem frægt er orðíð. Ísland var þar með enn á ný orðið eitt örfárra ríkja sem lafði aftan í bandaríkjamönnum. Viðreisnardraugurinn gekk aftur ljósum logum í salarkynnum Sameinuðu þjóðanna.

Áður en ég vík að sjálfri till. vil ég gagnrýna sérstaklega tvö atriði sem koma fram í skýrslunni varðandi till. og afgreiðslu hennar hjá Sameinuðu þjóðunum. Annað er ónákvæmt og villandi orðalag. Hitt atriðið varðar beinlínis rangar upplýsingar. Og ég tel nauðsynlegt að gera aths. við þessi atriði af því að mér virðast þau þjóna þeim tilgangi einum að sverta málstað þróunarríkjahópsins og gera samþykkt till. tortryggilega. Á bls. 7 er sagt varðandi umr. málsins í þinginu, að Ísrael hafi verið útilokað frá frekari umr. um málið. Þetta mætti skilja á þann veg að Ísrael eitt hafi verið útilokað frá frekari umr. Hið rétta er að takmörkun umr. náði til allra ríkja jafnt. Hitt er svo annað mál, að það má kannske segja að þetta hafi bitnað meira á ísraelsmönnum en öðrum vegna þess hvað þeir áttu fáa bandamenn og það segir sína sögu.

Hitt atriðið sem ég vil gagnrýna varðar sjálfa till. Á bls. 7 stendur að í till. hafi verið viðurkenndur réttur Palestínuþjóðarinnar til að neyta allra tiltækra ráða til að hverfa aftur til fyrri heimkynna og eigna. Þeir, sem þekkja til starfs Sameinuðu þjóðanna, vita að þetta orðalag: að neyta allra tiltækra ráða, hefur verið túlkað svo af vestrænum ríkjum og hinum gamla meiri hl. að með því væri verið að viðurkenna rétt til árása, styrjalda og vopnaviðskipta. Með einstrengingslegri túlkun þessa orðalags greiddi Ísland, allt þar til vinstri stjórnin tók við, atkv. gegn eða sat hjá við sjálfsagðar tillögur um réttindi til þróunarlandanna og afnám kynþáttamisréttis. Fulltrúum vinstri stjórnarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum tókst að brjóta á bak aftur þessa einstrengingslegu bókstafstúlkun með þeim árangri að sum Norðurlöndin fylgdu á eftir, og var öllum orðin ljós afstaða íslendinga í þessum efnum. Því miður hafa íslendingar nú horfið aftur til þeirra tíma er þetta haldreipi var notað til þess að unnt yrði að fylgja bandaríkjamönnum að málum. Og nú sjáum við dæmi þess í skýrslunni að þessu orðalagi er bætt inn ranglega. Ég vona að þetta séu mistök af hálfu hæstv. ráðh. og ekki gert viljandi til þess að asíska atkvgr. Íslands í málinu. Í till. stendur orðrétt um rétt Palestínuþjóðarinnar og viðurkenningu á endurheimt þess réttar, með leyfi hæstv. forseta, og nú verð ég að vitna í þetta á ensku:

„By all means in aeeordanee with the purposes and prineiples of the Charter of The United Nations,“ sem á sæmilega skiljanlegri íslensku þýðir: „Með öllum þeim ráðum er samrýmast markmiði og grundvallarreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna.“ Hér er því ekkert sem stríðir gegn anda og stefnumiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ísland greiddi atkvæði gegn till. um sjálfsákvörðunarrétt og réttindi Palestínuþjóðarinnar á þeim forsendum að till. hefði ekki kveðið á um tilvist Ísraelsríkis. Það er rétt að það var ekki kveðið sérstaklega á um það. En það var ekki heldur kveðið á um að leggja skyldi Ísraelsríki niður. Sameinuðu þjóðirnar hafa gert fjölmargar samþykktir um tilverurétt Ísraels og þessi samþykkt um réttindi Palestínuþjóðarinnar ógildir ekki fyrri samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Það hefði því verið fyllilega rökrétt og siðferðilega rétt að sitja hjá, eins og ég gerði sérálit um, en mótatkv. verður ekki túlkað öðru vísi en sem einhliða stuðningur við Ísrael, enda kom það skýrt fram í öllum fréttaskýringum eftir þessa sögulegu atkvgr.

Hæstv. utanrrh. reynir að afsaka þessa atkvgr. og vill raunar sem minnst úr gildi hennar gera með því að vísa til ræðu sinnar á Allsherjarþinginu og grg. sendiherra, þar sem mótatkv. var réttlætt með því að ekkert væri kveðið á um tilverurétt Ísraels. En allur þorri þeirra ríkja, sem sátu hjá, rökstuddi afstöðu sína með einmitt þessum sömu rökum og þau ríki sem vildu viðurkenna rétt palestínubúa, en ekki taka afstöðu einhliða með Ísrael, völdu hjásetu. Rökstuðningur hæstv. ráðh. fyrir atkvgr. fær því að mínum dómi ekki staðist.

Í sambandi við þessa atkvgr. langar mig til að beina til hæstv. ráðh. nokkrum spurningum:

1. Hvernig var ákvörðun um atkvgr. Íslands tekin?

2. Á hvaða upplýsingum og forsendum byggðist sú ákvörðun?

3. Var utanrmn. Alþ. látin fjalla um málið áður en endanleg ákvörðun var tekin?

Ég spyr að þessu síðasta vegna þess að ég veit að sá háttur var hafður á í öðrum Norðurlandaríkjum. Þar var málið lagt fyrir utanríkismálanefndir þjóðþinganna og er að mínum dómi sjálfsagt að hafa þann hátt á um svo mikilvæg málefni.

Því miður hlýt ég að segja það að mér finnst að með þessari atkvgr. hafi Ísland ekki stuðlað að friðsamlegri lausn deilunnar fyrir botni Miðjarðarhafs. Breyta þar engu um fögur orð í ræðu eða grg. Atkvgr. hefur meira gildi en nokkrar yfirlýsingar.

Í skýrslu utanrrh. er fjallað lítillega um stöðu fulltrúa þingflokkanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann lætur þess getið að sumir fulltrúanna séu óánægðir með að þurfa að vera bundnir við fundarsetu í stað þess að hafa frjálsari aðstöðu til að kynna sér þingmál og alþjóðamálefni. Ég vil lýsa ánægju yfir því að hann skuli hafa tekið þetta upp í skýrslu sinni, og hann tekur það fram að hann sé fús til að íhuga fyrirkomulag þessara mála nánar með fulltrúum þingflokkanna ef þess sé óskað. Ég er þeirrar skoðunar að rangt sé að binda fulltrúa við setu í sérstökum nefndum í stað þess að gefa þeim það frelsi að fylgjast með þeim málum sem þeir hafa áhuga á eða með almennum umr. yfirleitt, enda þótt ég hafi fullan skilning á því að fastafulltrúar Íslands hafa meira en nóg að gera meðan á þinginu stendur. Í þessu sambandi vil ég lýsa því yfir að þeir tveir sendiherrar, sem ég hef starfað með á þingi Sameinuðu þjóðanna, hafa haft fullan skilning á þessari afstöðu og reynt að hliðra til eftir föngum. En ég tel rétt að það sé komist að fullu samkomulagi við þingflokkanna um hvernig þessu skuli hagað.

Mig langar til að víkja að öðru sem ég tel raunar enn mikilvægara varðandi stöðu þingmannanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hæstv. utanrrh. tók upp þann sið fyrir, að ég held tveim árum, að fá þingfulltrúum í hendur 10 boðorð er þeir skyldu fylgja. Fyrsta boðorðið er mjög almenns eðlis, eins og títt er um boðorð, og það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkisstj. ákvarðar í höfuðdráttum stefnu Íslands í utanríkismálum, en framkvæmd þeirra mála er í höndum utanrrh.“ Ég hef nú raunar vilnað til þessa fyrsta boðorðs meira í gamni en alvöru, en mér finnst mjög þakkarvert að veita þm. og stjórnmálamönnum þessar upplýsingar því að það er varla sæmandi að senda þá úr landi ef þeir hafa ekki vitað þetta áður. En annað er alvarlegra í þessu sambandi og það er sú þagnarskylda sem þingmenn verða að lúta meðan þeir sitja þing Sameinuðu þjóðanna. Þingmenn eru kjörnir fulltrúar umbjóðenda sinna, en með undirritun þagnarskyldu og hinum 10 boðorðum liggur við að það sé verið að gera þá að starfsmönnum utanrrn. eða utanrrh. Þetta tel ég mjög varhugavert og ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh. að hann taki þessi mál upp með utanrmn. þingsins til þess að ræða einmitt þetta mál og hver eðlilegt sé að staða þm. sé á þingi Sameinuðu þjóðanna. Vissulega er mér ljóst að það kunna að koma fyrir þau mál er þarf að binda þagnarskyldu, en ég álít þá réttara að það sé á valdi formanns sendinefndarinnar að ákvarða slíkt hverju sinni, fremur en láta þagnarskylduna vera svo gagngera.

Herra forseti. Ég hef kosið að einskorða mig við þann kafla í skýrslu hæstv. ráðh. sem fjallar um Sameinuðu þjóðirnar, og þó að ég hafi gagnrýnt þar ýmislegt, þá vil ég ítreka það að ég er honum þakklát fyrir að verja þó þessum tíma í þann málaflokk. Ég vil aðeins víkja að örfáum atriðum öðrum.

Eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum hér í kvöld þykir kaflinn um Indókína heldur rýr. Og ég verð að segja það að mér hefði þótt betur viðeigandi um svo heimsögulegan viðburð sem sígur þjóðfrelsisaflanna er að honum hefðu verið gerð betri skil og raunar fagnað innilegar en hér er gert. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það eigi að vera frumkvæði íslensku ríkisstj. að bjóðast til að viðurkenna sendiherra bráðabirgðastjórnar Víetnams. Mér er kunnugt um að Noregur ætlar að hafa frumkvæði að því, og við heyrðum í kvöldfréttum í kvöld að breska stjórnin hefur skýrt bráðabirgðastjórninni frá því að hún mundi taka við sendiherra frá henni. Ég tel ekki annað sæmandi fyrir íslendinga en að gera eins.

Um sigur þjóðfrelsisaflanna í Víetnam mætti segja margt. Ég ætla þó að minnast hér aðeins á eitt atriði sem er mjög athyglisvert og varðar raunar Sjálfstfl. og málgagn hans, málgagn hæstv. forsrh., meira en hæstv. utanrrh.

Hinn 1. maí, þegar allir réttsýnir menn fögnuðu sigri og friði í Indókína, birtist rammagrein í Morgunblaðinu með þessari fyrirsögn, með leyfi hæstv. forseta: „Fall Indókína þýðir aukinn þrýsting á Ísland.“ Þetta var nokkuð stór fyrirsögn á grein eftir bandarískan blaðamann, og var látið líta svo út sem hann talaði þar fyrir munn bandaríkra ráðamanna í Washington, og þar var fullyrt að ein afleiðing þess, að Indókina væri að falla í hendur kommúnistum, yrði sú að pólitískur og hernaðarlegur þrýstingur Sovétríkjanna á Ísland mundi stóraukast. Hér eru sjálfstæðismenn við sama heygarðshornið. Sigurinn í Indókína varð Morgunblaðsmönnum tilefni til þess að magna enn kaldastríðsdrauginn, og nú er svo komið að það er ekki bara ófriðurinn sem er hættulegur okkur íslendingum og réttlætir tilveru erlends hers hér á landi, það er líka friðurinn.

Í síðasta lagi langar mig að víkja að málefni sem hv. þm. Gils Guðmundsson gerði raunar rækilega skil. Hann rakti skrif Morgunblaðsins um meinta landráðastarfsemi hæstv. utanrrh. í Sovétríkjunum meðan hann var þar gestur. Þessi blaðaskrif ætla ég ekki að ræða, en ég ætla að minna hér á að sögunni var ekki lokið með þessum blaðaskrifum. Átökin héldu áfram í sjónvarpssal 18. apríl í þættinum Kastljósi. Umsjónarmenn þáttarins höfðu kallað þangað hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og tvo ritstjóra. Sá eini, sem mætti, var hæstv. utanrrh. Skilaboð komu frá hæstv. forsrh. sem voru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hef ekki hugsað mér og tel enda ekki ástæðu til að gefa neinar yfirlýsingar í tilefni þessara skrifa.“ Þetta var haft eftir hæstv. forsrh. í sjónvarpinu. Hins vegar sagði hæstv. utanrrh. sjálfur í þessu viðtali, með leyfi hæstv. forseta: „Ég vildi gjarnan að forsrh. sæi sér fært að mótmæla slíkum skrifum.“

Nú gerðist það í dag að hv. þm. Gils Guðmundsson fór þess á leit við hæstv. forsrh. að hann kæmi í þennan ræðustól til þess að lýsa því yfir hvort hann væri samþykkur þessum skrifum eða ekki. Og mér virðist tilmæli hv. þm. Gils Guðmundssonar vera slíkur stuðningur við hæstv. utanrrh. að ég fæ ekki séð að hæstv. forsrh. geti vikið sér undan því að svara þar sem hann hefur fengið tilmæli bæði frá þm. og frá hæstv. utanrrh. gegnum sjónvarpið. Að öðru leyti var þessi sjónvarpsþáttur afar fróðlegur. Þetta var nokkurs konar rannsóknarréttur í ætt við það sem miðaldakirkjan tíðkaði hér forðum. Hæstv. utanrrh. var stillt upp við vegg eins og sakamanni og látinn svara því hvort dylgjur Morgunblaðsins væru réttar. Hann var að því spurður m.a. hvort hann teldi þá hagstæðu viðskiptasamninga, sem gerðir hefðu verið, þátt í nýrri herferð sovétmanna til þess að efla áhrif sín á Íslandi, og var í sambandi við þessa spurningu vitnað í forustugrein Morgunblaðsins 11. apríl. Það er svar hæstv. utanrrh. sem ég vil vekja athygli á í lok máls míns. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nei, það tel ég alls ekki. Enda skil ég ekki hvaða ástæða ætti að vera til þess nú með það stjórnarfar, sem nú ríkir hér á landi, að halda að það sé einmitt tækifæri til þess núna að kaupa landið. Það hefði kannske frekar mátt ætla að það hefði verið á öðrum tíma.“

Þetta eru stór orð. Það eru fleiri en þm. sem eiga rétt á því að vita hvað hæstv. utanrrh. á hér við. Það er þjóðin öll. Og ég vildi ljúka máli mínu með þessari spurningu:

Hvað á hæstv. utanrrh. við þegar hann segir: „Það hefði kannske frekar mátt ætla að það hefði verið á öðrum tíma.“