13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

346. mál, utanríkismál 1975

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr. um skýrslu utanrrh. um utanríkismál að þessu sinni, en að gefnu tilefni vildi ég segja nokkur orð.

Ég get verið hv. 3. þm. Reykn. mjög sammála að ýmsu leyti varðandi það er hann fjallaði um starfshætti utanrmn., utanrrn. og umr. um utanríkismál hér á hv. Alþ. Einkum hið síðast nefnda er mér ofarlega í huga, að ástæða er vissulega til þess að gefa utanríkismálum meiri gaum hér á hv. Alþ. en gert hefur verið. Við íslendingar þurfum að meta stöðu okkar í heiminum sífellt og hafa vakandi augu með þeim breytingum sem eiga sér stað í kringum okkur. Það verður ekki gert svo að vel sé nema við hér á Alþ. fylgjumst vel með málum, skiptumst á skoðunum og mörkum þá stefnu sem þjóðin fylgír á þessum vettvangi.

En um leið og ég fagnaði þessari skoðun hv. 3. þm. Reykn., þá varð ég fyrir vonbrigðum þegar hann fór efnislega að ræða utanríkismálin. Uppistaðan í þeirri umr. hans var nokkurra vikna blaðadeilur sem hann taldi m.a. í og með að bæru vitni um hve öðrum deiluaðilanum, Morgunblaðinu í þessu tilviki, væru mislagðar hendur og hvernig það blað drægi hið sanna undan því að það hefði ekki birt yfirlýsingu Einars Ágústssonar utanrrh. og Gromyko utanrrh. Sovétríkjanna að aflokinni opinberri heimsókn Einars Ágústssonar utanrrh. til Sovétríkjanna. Nú minntist ég þess að ég þóttist hafa séð þessa fréttatilkynningu birta í Morgunblaðinu, og í matarhléinu aflaði ég mér ljósrits af þessari fréttatilkynningu sem birtist í Morgunbl. og hv. þm. sagði að Morgunblaðið hefði látið undir höfuð leggjast að birta og byggði síðan meira og minna málflutning sinn, það sem eftir var ræðunnar, á því sem hann taldi vera, en er svo víðs fjarri sannleikanum. Um leið og ég get afhent hv. þm. þetta ljósrit get ég ekkert annað sagt en að ég ráðlegg honum að lesa Morgunblaðið betur hér eftir en hingað til.

Það var haft á orði af hv. þm. að þessi yfirlýsing væri ekki eingöngu yfirlýsing utanrrh., heldur væri þetta einnig í raun og veru yfirlýsing ríkisstj. Kosygins og Geirs Hallgrímssonar, eins og hann komst að orði. Jafnframt lét hann í veðri vaka, að fyrir þessa yfirlýsingu hefði hæstv. utanrrh. sætt miklum og harðvítugum árásum frá Morgunblaðinu Ég sé ekki betur en ég hljóti um leið að taka þessar árásir til mín samkv. því sem hv. þm. túlkaði þessi skrif Morgunblaðsins. Nú vil ég segja það sem mína skoðun að ég tek hvorki þessi skrif sem árás á hæstv. utanrrh. né mig og þess vegna er alveg óþarfi og ástæðulaust að gera þau að uppistöðu í umr. um utanríkismál á hv. Alþ.

Ég hef áður greint frá því, sem hér hefur fram komið, að vegna þessara blaðaskrifa sé ég enga ástæðu til neinna yfirlýsinga og geri það ekki frekar eftir ræðu hv. þm. en áður. Hins vegar gefur ræða hv. þm. tilefni til að vara við þeim hugsunarhætti sem þar kom fram og ég hefði talið að væri fjarlægur hv. þm. Það var eitthvað á þá leið að við mættum ómögulega stofna viðskiptahagsmunum íslands í hættu með skrifum, eins og hann taldi að skrif Morgunblaðsins væru fallin til. Ég hygg að fyrst allra hagsmuna beri að taka tillit til þess að vernda prentfrelsi, ritfrelsi og skoðanafrelsi hér á Íslandi, og við getum aldrei gefið það í skyn að við viljum með nokkrum hætti takmarka skoðanafrelsi, prentfrelsi eða ritfrelsi til þess jafnvel að vernda viðskiptahagsmuni okkar. Ég vonast til þess a.m.k. að hv. þm. sé mér sammála að þessu leyti að athuguðu máli.

Við höfum auðvitað þá skyldu í orðaskiptum hér innanlands að gæta hófs í öllu og fylgja rökum og réttu máli. En að svo miklu leyti og ef út af því bregður, þá ætti skoðanafrelsið sjálft og þau skoðanaskipti, sem fram fara til lengdar, að skapa það almenningsálit sem eitt er fært um að kveða upp réttan úrskurð í málum. Þess vegna þurfum við ekki eða ættum ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af því þótt í frjálsu ríki hvessi í blöðum eða orðaskiptum milli manna, jafnvel um málefni erlendra ríkja, og alla vega ekki að ætla erlendum ríkjum að þau taki tillit til slíkra orðaskipta eða frjálsra umr. þegar þau eiga viðskipti við okkur. Ég minnist þess ekki að þessi hv. þm. hafi verið neitt uppnæmur fyrir því þótt trúnaðarmenn og embættismenn annarra þjóða væru gagnrýndir og skammaðir, eins og kallað er hér, á opinberum vettvangi, enda engin ástæða til. En með einhverjum hætti var eins og blóðið rynni til skyldunnar þegar rætt var um skrif Morgunblaðsins að þessu leyti nú nýverið. Mér finnst það algerlega ástæðulaust, og sannast best að segja, þá hygg ég, að hér sé um langtum meiri móðgun að ræða við Sovétríkin af hálfu hv. þm. heldur en Morgunblaðið hefur nokkurn tíma gert sig sekt um. Að því er túlka mátti orð þm., þá var á honum að skilja að viðskipti okkar við Sovétríkin væru í hætta ef menn skrifuðu frjálst og óhikað m.a. um þau. Ég vil ekki ætla Sovétríkjunum það að þau láti okkur njóta lakari viðskiptakjara eða minni viðskipta en efni standa til af þessum sökum. En ég fæ ekki skilið hv. þm. öðruvísi en hann sé þessarar skoðunar. (Gripið fram í.)

Ég vildi svo aðeins segja það að gefnu tilefni að ég held að sá þm. og raunar sá íslendingur geri sér ekki raunverulega grein fyrir gangi utanríkismála sem ekki viðurkennir að sjálfstæði lands eins og Íslands getur verið í hættu og Ísland og íslendingar geta á öllum tímum orðið fyrir þrýstingi að utan til þess að hafa áhrif á gang mála meðal okkar landsmanna. Eitt meginmarkmið utanríkisstefnu er að tryggja sjálfstæði lands og þjóðar, tryggja það að skoðanafrelsi ríki innanlands og að stefnumótun í innanlandsmálum og utanríkismálum byggist eingöngu á okkar eigin hagsmunum eins og við sjálfstæðir og óháðir þrýstingi utan að sjáum þá hagsmuni. Ég vil að þessu leyti taka undir að ýmsu leyti mjög athyglisverða ræðu hv. 2. landsk. þm. er hann flutti hér um utanríkismál. Og ég vil endurtaka það enn á ný að við hljótum að verða að fylgjast vel með gangi mála umhverfis okkur, þróun alþjóðamála og skiptast á skoðunum, hvernig við snúumst við þeim á hverjum tíma, hvernig við tryggjum öryggi lands okkar og sjálfstæði.

Hv. 3. þm. Reykn. spurðist fyrir um það hver ætlunin væri um meðferð útfærslu fiskveiðilögsögunnar eða efnahagslögsögunnar á yfirstandandi ári. Í dag var haldinn fundur í landhelgisnefnd til þess að mönnum gæfist kostur á að bera saman bækur sínar eftir lok fundanna í Genf á hafréttarráðstefnunni, og ætlunin er að halda annan fund þegar í næstu viku og halda slíkum fundum áfram þar til kannaðar hafa verið þær grg. sem okkur berast um gang mála á þessum fundum frá fulltrúum okkar á þeim. Við munum á vettvangi landhelgisnefndar hafa samráð við þingflokka og ákveða með þeim hætti hvernig að verður farið svo og hvenær tilkynnt verður um útfærslu fiskveiðilögsögunnar eða hvaða dag útfærslan muni eiga sér stað. Eins og fram hefur komið hér liggur það ljóst fyrir að full heimild er fyrir stjórnvöld og ekki síst með slíku samráði að ganga til verks í þessum efnum og hefjast handa um framkvæmdir. En vera kann að á einhverju stigi málsins þyki ástæða til að Alþingi fjalli sérstaklega um málið þótt það verði ekki á þessum stutta tíma nú sem eftir er þings, ef þingi verður slitið fyrir lok þessarar viku. Um þetta voru allir fundarmenn á fundi landhelgisnefndar sammála nú í dag. Munum við kosta kapps um að fullt samráð verði að öllu leyti haft við þingflokkana og alla þm. um hverja og eina framkvæmd í máli þessu sem fyrir höndum er.

Það er engum blöðum um það að fletta að mesta og mikilvægasta viðfangsefnið á sviði utanríkismála er nú á næstunni að tryggja viðurkenningu annarra ríkja á útfærslu okkar í 200 mílur á þessu ári, tryggja raunveruleg yfirráð okkar yfir öllu þessu hafsvæði til þess að við ráðum nýtingu þeirra auðlinda sem þar eru og hvernig þeim skuli háttað. Ég fagna þeim einhug og samhug sem ríkir meðal þm. og allrar þjóðarinnar í þessu hennar mesta lífshagsmunamáli, og vonast til að sú eining megi haldast og leiða til þess að fullur sigur verði unninn í útfærslu fiskveiðilögsögunnar.