27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

58. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Tómas Árnason:

Herra forseti. Frv. til l. á þskj. 61 um breyt. á l. um verðtryggingu fjárskuldbindinga er flutt af Vilhjálmi Sigurbjörnssyni og fjallar um það að gera viðbót við lögin á þá leið að heimilt sé að setja í kaup eða verksamninga um húsbyggingar, mannvirkjagerð og aðrar verklegar framkvæmdir ákvæði þess efnis að verð hækki eða lækki í samræmi við byggingarvísitölu eða ákveðinn verðbótargrundvöll.

Það er aðalregla samkv. íslenskum l. að ekki sé heimilt að stofna til fjárskuldbindinga í íslenskum krónum á þann veg að upphæðin breytist í hlutfalli við vísitölu, erlent gengi eða annan verðmæli. Frá þessari aðalreglu eru þó ýmsar undantekningar: Í fyrsta lagi varðandi erlend lán sem íslenskir aðilar, sérstaklega sjóðir og bankar, taka og endurlána síðan. Þeim er heimilt samkv. l. að haga þessum endurlánum á þá leið að þau séu gengistryggð, sem sé lánuð út á sömu kjörum og lánin eru tekin erlendis frá. Í öðru lagi er Seðlabankanum heimilt að veita leyfi til þess að víss lánastarfsemi sé verðtryggð ef fullnægt er ákveðnum skilyrðum, sem sett eru í l. um verðtryggingu fjárskuldbindinga sem hér er lagt til að breyta.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál. Það vill svo til að annar þm. hefur flutt till. hér í hv. þd. um að gera breyt. á þessum lögum sem gengur í nákvæmlega sömu átt og frv. sem hér um ræðir, aðeins með nokkuð öðru orðalagi. Því frv. hefur verið vísað til n. Ég held að það sé nákvæmlega sama hugsunin sem felst í þessum tveim frv., það sé spurning um það hvernig eigi að orða þetta í lögunum. Þess vegna kemur til kasta n., ef hún felst á þá stefnu, sem mörkuð er í þessum tveim frv. að samræma þessar tvær till. í sem skynsamlegustu og heppilegustu orðavali.

Það má segja að þetta mál sé þannig til orðið að lagt sé til að lögfesta venju sem hefur ríkt um langan tíma. Það hefur tíðkast lengi að t.d. ríkisstofnanir hafa sett ákvæði í verksamninga um verðbætur í samræmi við byggingarvísitölu sem Hagstofan reikni út. Þannig er í raun og veru um að ræða lögfestingu á venju sem er orðin það rík að opinberir aðilar hafa fylgt henni um árabil. Því orkar sjálfsagt ekki tvímælis að rétt sé að lögfesta þetta. Það mætti segja að með lögfestingu svona ákvæðis ásamt með fjöldamörgum fleirum sem hafa verið lögfest á undanförnum árum, séu menn að reyna að fóta sig í verðbólguflóðinu. Íslensk löggjöf ber æ meiri keim af því hversu gífurleg verðbólga er í landinu og hefur verið um árabil. Það á nú e.t.v. ekki við að fara að ræða um verðbólguna í sambandi við þetta. Ég vildi þó vekja athygli á þessu.

Í raun og veru er kannske of lítið talað um verðbólguna og skaðsemi hennar, bæði hér á hv. Alþ. og annars staðar, því að hún er svo ranglát og leiðir af sér svo mikið ranglæti í þjóðfélaginu og er svo skaðsamleg á ýmsa vegu að það er vissulega ástæða til að gera það að umtalsefni miklu oftar en gert er. Hún eykur náttúrlega stórkostlega á eyðsluna, eins og kunnugt er. E.t.v. er hrikalegasta dæmið í sumar það sem hefur verið að ske í okkar þjóðfélagi miðað við 40–50% verðbólgu frá árinu 1973–1974. Verðbólgan leiðir bað af sér að ákaflega erfitt verður í vaxandi mæli, að afla fjármagns innanlands til þess að byggja upp atvinnulífið, til þess að fylgjast með framförum, til þess að tryggja nægilegt fjármagn til að við getum fylgst með öllum tækniframförum og vísindum í atvinnulífi sem er nauðsynlegt að gera.

Fjármagnskreppan er stórkostlega vaxandi í okkar landi, svo stórkostlega að það hlýtur að — ég segi kannske ekki springa, en allt að því, ef okkur tekst ekki að hægja verulega á verðbólgunni frá því sem nú er. Verðbólgan hjá okkur er margfalt meiri en hjá öllum þeim þjóðum sem við verslum nokkuð verulega við eða höfum veruleg skipti við. Sumar nágrannaþjóðir, eins og t.d. norðmenn, eru með verðbólgu sem er undir 10% á sama tíma sem við íslendingar búum við 40–50% verðbólgu. Að vísu má segja að verðbólgan sé orðið alþjóðlegt vandamál á sviði efnahagsmála í vaxandi mæli. En við skerum okkur úr hér í Evrópu svo mjög að það hlýtur að verða erfitt að ráða við okkar efnahagslíf, okkar efnahagsmál, ef svo horfir sem verið hefur. Verðbólgan skapar náttúrlega hrikalegt misrétti í þjóðfélaginu.

Menn tala réttilega mikið um jöfnuð og jafnrétti. En hvað er að gerast á hverjum einasta degi í okkar þjóðfélagi þegar við lífum við 40–50% verðbólgu? Fjármunir eru færðir til þegjandi og hljóðalaust frá einni hendi til annarrar án þess að nokkur finni til eða reki upp skræk. Þetta er eins og sjúkdómur, skæður, hættulegur sjúkdómur sem herjar á menn án þess að menn finni til. Það er auðvelt að sýna fram á þetta. Við þurfum ekki annað en taka dæmi. Við getum tekið dæmi um ungt fólk, sem er nærtækt. Það eru t.d. ung hjón sem eru að byggja upp sitt heimili, en eiga ekki íbúð. Svo eru aftur við hliðina á þeim önnur ung hjón, þau eiga íbúð. Svo líður eitt ár með 50% verðbólgu. Það þarf ekki mikinn reikningsmann til að reikna það út hvað þarna hefur skeð og misréttið náttúrlega sker í augu. Það er alveg rétt, sem vís maður sagði fyrir mörgum árum, að verðbólgan hefur þau áhrif að þeir fátæku verða fátækari. Þeir, sem hafa minnst milli handa og minnsta möguleika til þess að nota verðbólguvindinn, ef svo mætti segja, sigla, beita seglum í verðbólguflóðinu, verða verst úti. Hinir, sem eiga einhver efni, hafa möguleika af ýmsu tagi, geta hagnýtt sér verðbólguna.

Það þarf ekki að ræða um hag sparifjáreigenda í þessu sambandi eða t.d. um opinberar framkvæmdir. Hvernig fer um opinberar framkvæmdir?

Um verðbólguna má auðvitað flytja langt mál, en ég er á þeirri skoðun að málið sé þannig vaxið að það hlýtur að verða ákaflega erfitt að ráða við efnahagsmál þjóðarinnar á næstunni og koma í veg fyrir samdrátt í atvinnulífi og e.t.v. atvinnuleysi, vegna þess að verðbólgan er svo mikil. Við byggjum okkar efnahagslíf á viðskiptum við aðrar þjóðir mun meira en flestar aðrar þjóðir. Þess vegna er hætt við að erfiðara verði um vik fyrir okkur að lifa við svo miklu meiri verðbólgu hér í landinu heldur en tíðkast hjá okkar helstu viðskiptaþjóðum.

Ég er nú kannske kominn dálítið frá efninu, en þetta spannst út frá því að mér finnst að þetta frv. sé, ef það verður að lögum, eitt af mörgum lagaákvæðum sem sett eru til þess að menn reyni að fóta sig í því feiknalega verðbólguflóði sem við búum við.

Ég leyfi mér að leggja til að þessu máli verði vísað til fjh.- og viðskn. Ég hygg að frv. á þskj. 29, sem fjallar raunar um nákvæmlega sama efni, hafi verið vísað til þeirrar n. hér í gær og ég geri það þess vegna að till. minni.