13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4039 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

346. mál, utanríkismál 1975

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég mun nú ekki lengja þessar umr. að neinu marki, en þó eru nokkur atriði sem mig langar til þess að fjalla um í örstuttu máli.

Þessi skýrsla mín um utanríkismál hefur verið gagnrýnd fyrir margt og auðvitað má um það deila hvernig svona skýrsla á að vera, ég skal fúslega viðurkenna það. Það er vandasamt að ákveða hvað taka skuli með í svona skýrslu og hverju eigi að sleppa, og má vel vera að okkur í utanrrn. hafi sést yfir nokkur atriði sem þarna hefðu gjarnan mátt vera með.

Það hefur verið gegnrýnt að skýrslan sé seint á ferðinni, Má það til sanns vegar færa. Hins vegar var það sjónarmið mitt að gefa Alþ. sem nýjasta skýrslu áður en það færi heim. Ef mönnum hins vegar sýnist svo að slíka skýrslu eigi að gefa fyrr á Alþ., þá er mér það auðvitað algjörlega meinalaust og það kemur sjálfsagt vel til greina að hafa þessar skýrslur t.d. tvær á hverjum vetri og þá umr. tvær, þannig að málin væru ferskari þegar þau koma hér til umr. Þetta er allt saman athugandi. Þetta er ég fús til að taka til athugunar með utanrmn. og öðrum þm., hvort það er vilji fyrir því að hafa skýrslurnar tíðari. Og eftir þeim áhuga á utanríkismálum sem mér virðist hafa komið fram nú fyrr í kvöld og í dag, þá má vel vera að réttara væri að gefa skýrslur oftar og taka þá kannske minna fyrir í einu.

Ég held að við höfum út af fyrir sig nægan tíma til þess að ræða skýrsluna. Klukkan er nú ekki orðin nema rúmlega 11 og þm. eru orðnir svo vanir að vaka að þá munar ekki um nokkra klukkutíma í viðbót. A.m.k. skal ég ekki telja það eftir mér að vera hér eitthvað fram á nóttina ef ástæða þykir til.

Ég þakka hv. 3. þm. Reykn. fyrir þau ummæli sem hann viðhafði í minn garð um samstarfið við utanrmn. Það er, eins og ég hef margsinnis tekið fram úr þessum ræðustól, fullur hugur minn að hafa sem best samstarf við utanrmn. og hvenær sem utanrmn. kann að vilja boða mig til fundar er ég reiðubúinn að koma. Ég hef alltaf verið það þegar þannig hefur viljað til og það stendur enn. Núv. formaður utanrmn. hefur haft þann síð að hafa fund einu sinni í hverjum mánuði þar sem utanrrn. gæfi skýrslu um þau mál sem efst eru á baugi í það og það skiptið. Þetta hefur, held ég, gefist vel. Það hefur gefist tækifæri fyrir okkur til þess að skýra frá því við hvaða viðfangsefni við erum að fást, og það hefur gefist tækifæri fyrir hv. utanrmn.-menn að bera fram spurningar og eins og hv. þm. sagði að eyða þá þeim misskilningi sem kynni að rísa að öðrum kosti. Auk þessa hefur utanrmn. að sjálfsögðu haldið aðra fundi þegar ástæður hafa verið til, og ég hygg að starfsemi utanrmn. hafi verið með miklum blóma síðustu árin og meiri krafti en áður var.

Hv. 3. þm. Reykn. minnti á að það gæti verið gagnlegt að eiga viðræður við þá menn, sem sendiskýrslurnar gefa, þ.e.a.s. sendiherrana. Þessu er auðvitað auðvelt að koma fyrir vegna þess, eins og hann benti á, að þessir menn eru hér á ferð oftast einu sinni á ári, stundum kannske oftar. Það er þess vegna áreiðanlega gott tækifæri til þess að halda þessa fundi. Ef utanrmn. óskar þess, þá veit ég að sendiherrar eru mjög fúsir til þess að koma til viðræðna við n. Ég hygg að það gæti verið gott að taka upp þennan sið því að það er oft svo að fólk almennt álitur að sendiráðin geri lítið og hafi lítið fyrir stafni og það væri þá kannske eitt tækifæri þarna til þess að eyða þeim misskilningi.

Hv. 3. þm. Reykn. minnti á að ég hefði talað um það hér fyrir nokkrum árum að ég mundi sjá til þess að stöður í utanrrn. yrðu auglýstar þrátt fyrir þá undanþágu sem þetta rn. hefur eitt allra frá því að gera það. Þetta hefur verið gert að verulegu leyti. Það hafa allar fulltrúastöður og ritarastöður verið auglýstar. Hins vegar hefur þetta fyrirkomulag ekki verið tekið upp viðkomandi störfum á Keflavíkurflugvelli, það skal játað. Stöður sendiherra hafa ekki verið auglýstar, og ég hygg að þær muni ekki verða auglýstar. Þær eru þess eðlis. En aðrar stöður í rn. hef ég þó jafnan látið auglýsa. Það hefur þó komið fyrir að ráðið hefur verið úr fyrri umsóknum án þess að auglýsa stöðu á ný þegar hún losnar og umsóknir hafa legið fyrir um fyrri stöður sem auglýstar hafa verið. En aðalreglan er sú að þessar stöður eru auglýstar.

Það hefur oft verið rætt um staðsetningu sendiráða og ég minnist þess að hér urðu nokkrar umr. á hv. Alþ. einmitt um það efni í tilefni af fyrirspurn frá hv. 3. þm. Reykv., Magnúsi Kjartanssyni. Það hefur líka farið hér fram nokkur umr. um verkefni sendiráða, og það er alveg rétt sem hv. 3. þm. Reykn. minnti á að ég fól á sínum tíma tveim mönnum, Ólafi Ragnari Grímssyni og Pétri Eggerz, að gefa mér skýrslu um þessi mál, hvorum í sínu lagi, auk þess sem allir sendiherrar Íslands hafa gefið skýrslur um það sem þeir töldu að betur mætti fara í þjónustunni. Ég viðurkenni að staðsetning sendiráða er að mörgu leyti óheppileg. Við þurfum vissulega að hafa sendiráð í Asíu og Afríku, þó að maður kannske sleppi nú Suður-Ameríku í bili, og ég hef, eins og ég hef áður minnst á, farið fram á fjárveitingar í því skyni án árangurs.

Þá vil ég víkja nokkuð að þeirri gagnrýni, sem hv. 3 þm. Reykn. hafði uppi um kaflann á bls. 4 um Indókína. Það getur auðvitað verið til athugunar að við eigum að hafa frumkvæði að því að viðurkenna nýja stjórn í Suður-Víetnam. Ég skal ekki neita því. Hins vegar höfum við litið svo á að við hefðum fullt stjórnmálasamband við þá stjórn sem hefur vald í landinu og þess vegna út af fyrir sig þyrfti ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir til þess að viðurkenna þessa nýju stjórn. Þetta er sama afstaða og danir hafa haft. Önnur Norðurlönd hafa hins vegar, að ég hygg, haft frumkvæði að því að viðurkenna bráðabirgðabyltingarstjórnina. Þetta getur verið til athugunar enn. Það er enn verið að viðurkenna byltingarstjórnina í Víetnam. Hún er enn þá ekki tekin við völdum eftir því sem ég best veit. Eftir því sem ég best veit er herinn enn þá þar við völd og þess vegna alls ekki úrhendis að viðurkenna nýja stjórn þegar hún sest að völdum.

Hv. þm. Benedikt Gröndal, 2. landsk. þm., hafði uppi sams konar gagnrýni um kaflann um Indókína og talaði um að við ættum að hafa frumkvæði að því, að viðurkenna þá stjórn. Ég minni þennan hv. þm., að vísu nú fjarstaddan, á það að þegar breytingin varð á Kúbu, ég hygg að það hafi verið í tíð Alþýðuflokksráðh. sem utanrrh., þá var hafður sami háttur á og nú. Það var ekki gefin nein sérstök viðurkenning á ríkisstj. á Kúbu, en því lýst yfir að við nýjum sendiherra mundi verða tekið. Og ef það kemur ósk frá byltingarstjórninni í Suður-Víetnam um viðurkenningu, þá verður hún samstundis veitt. Eins og ég sagði í skýrslu minni áðan höfum við þegar stutt það að nýja stjórnin í Indókína fengi aðild að Alþjóðaveðurmálastofnuninni.

Það hefur verið mikið gagnrýndur hér blærinn á kaflanum um Sameinuðu þjóðirnar, þ.e.a.s á viðhorfinu til ríkja hins svokallaða þriðja heims. Ég viðurkenni ekki að hér sé um visvítandi lítilsvirðingu að ræða á þriðja heiminum. Hins vegar er bent á staðreyndir, og staðreyndin er sú að þessi ríki tóku mikið vald á síðasta Allsherjarþingi. Á það er bent í skýrslunni og jafnframt gefið í skyn að þau hafi á stundum farið óviturlega með það vald. Ég hef margsinnis undirstrikað samstöðu við þjóðir þriðja heimsins, og ég ætlast alls ekki til þess að skýrsla mín nú verði tekin sem neinn afturkippur í því efni. Ég hef ekki talað um halanegra og hottintotta, að þeir séu að eyðileggja Sameinuðu þjóðirnar. Það eru ekki mín orð. Það stendur hvergi í minni skýrslu. Það hef ég aldrei sagt. En ef það má ekki benda á og gagnrýna þessar þjóðir eins og aðrar, þá er vandlifað. Ég viðurkenni ekki heldur að við í núv. ríkisstj. séum aftaníossar Bandaríkjanna. Við höfum reynt að taka okkar ákvarðanir sjálfstætt, en ekki eftir ábendingum frá bandaríkjamönnum.

Hv. 3. þm. Reykn. spurði um ákvörðun um útfærsludag landhelginnar. Því hefur forsrh. þegar svarað og ég mun ekki þurfa að eyða frekari orðum að því. Ég mun ekki heldur gera að umtalsefni austurför mína til Sovétríkjanna að öðru leyti en því að staðfesta það hér, sem ég hef áður sagt, að ég fékk hinar bestu móttökur og ferðin var í alla staði að mínu mati vel heppnuð. Ég viðurkenni ekki heldur að í tíð þessarar stjórnar séu alls ráðandi peningasjónarmið í varnarmálunum. Það hefur verið gert visst samkomulag um aðskilnað hermanna og íslenskra ríkisborgara. Þetta kostar nokkurt fé sem ameríkanar eru skyldir til þess að leggja af mörkum, en að um eitthvert sérstakt peningasjónarmið sé hér að ræða, það viðurkenni ég ekki, heldur einungis hitt, að við teljum að það sé til bóta, meðan þetta herlið er hér, að það sé. þá a.m.k. einangrað og hafi ekki þann mikla samgang við íbúa Suðurnesja sem það hingað til hefur haft.

Hv. þm. Benedikt Gröndal, 2. landsk. þm., deildi á það að í skýrslu minni væri of mikil bjartsýni um frið í okkar heimshluta. Ég bendi á það að á fyrstu síðu í þessari skýrslu er sagt beinlínis: „Þótt árangur hafi náðst er enn þá óvíst um margt.“ Það er greinilega gefið í skyn að langt sé ennþá þangað til fullur friður og tryggur friður ríki í þessum heimshluta. Hann talaði einnig um að skýrslan næði yfir of langt tímabil, og ég hef áður vikið að því að hugsanlegt væri að flytja hana tvisvar á ári. Hann talaði um það, hv. þm., að samstaðan við Norðurlöndin væri eitthvað að riðlast. Það kann að vera að Norðurlöndin séu ekki eins samstæð heild nú og þau voru fyrir nokkrum árum í atkvgr. á þingi Sameinuðu þjóðanna, en ég held þó að ég geti fullyrt að við höfum alltaf í öllum málum haft samstöðu með einhverju þeirra. Meira að segja í því margrædda máli um réttindi Palestínuaraba höfðum við samfylgd eins Norðurlandanna, þ.e.a.s. Noregs. Ég minnist þess a.m.k. ekki að það séu neinar atkvgr. á þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem við höfum ekki haft samstöðu með einhverju Norðurlandaríkjanna. Og það er ljóst, sem raunar hefur komið fram í þessum umr., að við höfum mikið gagn af samstarfinu við Norðurlöndin. Það geta þeir borið um sem hafa verið fulltrúar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þar eru haldnir daglegir fundir með hinum Norðurlöndunum og það væri nánast algjör ógerningur fyrir okkur að fylgjast með öllum þeim aragrúa mála sem þar koma á dagskrá ef við hefðum ekki þetta nána samstarf við Norðurlöndin. Og ég vil segja að það er óbreytt. Hins vegar hefur það komið fyrir, sérstaklega á þessu þingi, að leiðir fara ekki alveg alltaf saman í afstöðu til einstakra mála.

Ég ætla ekki að gera hafréttarráðstefnuna hér að umtalsefni þó að margir hafi vikið að henni, vegna þess að það er svo mikið mál og mönnum hafa borist svo góðar fregnir af því í blöðum hvernig þessari hafréttarráðstefnu lyktaði að ég tel ástæðulaust að eyða tíma þingsins nú á síðkvöldi til þess að gera því skil. En vissulega væri ómaksins vert fyrir Alþ. að ræða það mikla mál og verður vonandi gert í sambandi við útfærsluna.

Hv. 2. landsk. þm. talaði um að það væri snubbóttur kaflinn um öryggismál sem svo er kallaður og að þar væri einungis sagt að gangur viðræðna við herinn gengi eins og áætlað hefði verið. Ég sá ekki ástæðu til þess að gefa hér sérstaka skýrslu um það hvernig framgangur mála er í þessum flokki. En ég get að sjálfsögðu fullvissað hv. þm. um að það, sem verið er að ræða um, er samkomulagið sem gert var í Washington 30. sept. sl.l.

Ég tek alveg undir það með hv. 2. landsk. þm. að útfærsla landhelginnar er okkar stærsta mál, og ég fagna því að allir þingflokkar hafa viljað hafa samstöðu um þetta mál með þátttöku í landhelgisnefnd. Eins og forsrh. gat um áðan verða margir fundir haldnir í þeirri n. á næstunni og vonandi berum við gæfu til þess að hafa samstöðu og standa fast saman um þetta mikilvæga lífshagsmunamál.

Ég ætla þá að víkja örfáum orðum að ræðu frú Svövu Jakobsdóttur, hv. 5. landsk. þm. Það er alveg rétt hjá henni að skýrslan um Allsherjarþingið er ekki tilbúin, og ég harma það. Hún er nú í fjölritun og verður tilbúin, eftir því sem skrifstofustjóri segir mér, eftir 10 daga og verður þá send öllum hv. alþm. Það hefði auðvitað verið til bóta að þessi skýrsla hefði legið fyrir nú við þessar umr., ég skal fúslega viðurkenna það. En umr. gat ekki farið seinna fram og af einhverjum ástæðum er skýrslan ekki tilbúin fyrr en þetta. Verður við það að sitja að þessu sinni, en reynt að gera ráðstafanir til þess að skýrslan verði fyrr tilbúin í framtíðinni þó að hún verði væntanlega tæpast tilbúin fyrir umr. um utanríkismál ef þær eiga að fara fram í febr. Þó má vera að það sé hægt.

Ég hef áður vikið að tóninum gagnvart þriðja heiminum, sem hv. þm. gagnrýndi mjög eindregið og með hörðum orðum. Hún viðurkenndi þó sjálf sumt af því sem vikið er að í skýrslunni, fannst mér, að e.t.v. hefði verið fulllangt gengið í einstaka tilvikum. Það má auðvitað alltaf deila um það hvernig á að setja fram slíka gagnrýni og ég skorast ekkert undan ásökunum í þessu efni, en aðeins endurtek það að afstaða mín gagnvart þriðja heiminum er alveg óbreytt. Við höfum viðurkennt samstöðu með þróunarlöndunum hvað eftir annað, en það hlýtur að mega benda á það sem maður telur að miður hafi farið.

Um Ródesíutillögurnar vil ég segja það, að það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði að afstaða okkar breyttist lítið eitt. Við sátum hjá nú við báðar till., en greiddum atkv. 1973 með annarri þeirra. Ástæðan fyrir þessu er sú að við töldum nú að við vildum ekki standa að því að skora á einn eða annan að beita valdi sem almennt er skoðað að leiði til þess að beita vopnavaldi. Ég ætla ekki að taka að mér að verja misbeitingu valds fyrri meiri hl. hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún hefur eflaust átt sér stað, a.m.k. er það rétt sem hv. þm. sagði að Pekingstjórninni var allt of lengi haldið utan við þing Sameinuðu þjóðanna, og ég hef áður sagt það og segi enn að Sameinuðu þjóðirnar risu ekki undir nafni meðan stærsta veldi heims var útilokað frá þátttöku í þeim. En við höfum nú sem betur fer löngu viðurkennt Pekingstjórnina og það er liðin tíð.

Hv. þm. minntist á, að það væri ekki rétt frá skýrt í skýrslunni á bls. 7 eða villandi frásögn að Ísrael hafi verði útilokað frá frekari umr. um málið. En þetta er staðreynd. Ísrael var útilokað frá frekari umr. um málið. Enn fremur gagnrýndi hún það að villandi væri sagt frá till. um Palestínumálið, rétt til sjálfsákvörðunar, sjálfstæðis og fullveldis, og las upp enska textann og þýðingu á honum. En ég sé ekki betur en að á bls. 7 sé einmitt þessi texti prentaður. (Gripið fram í.) Það er hér á miðri síðu, ef ég má lesa, með leyfi forseta: Það eru „tvær till. Önnur almennt um réttindi Palestínu-araba í Palestínu, þ. á m. rétt til sjálfsákvörðunar, sjálfstæðis og fullveldis, auk þess sem í till. var lýst yfir viðurkenningu á rétti þeirra til að hverfa aftur til fyrri heimkynna og eigna — og neyta til þess allra tiltækra ráða í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna.“ Þetta er á bls. 7 í mínu eintaki, á miðri síðu. Ég held að þetta sé alveg sama og hv. þm. var að benda á. (Gripið fram í.) Já, í till. sjálfri segir þetta sem ég var að lesa, auk þess sem í till. var lýst yfir viðurkenningu á rétti þeirra til að hverfa aftur til fyrri heimkynna og eigna og neyta til þess allra tiltækra ráða í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta stendur hér. Er þetta röng þýðing? (Gripið fram í.) Það er einmitt það, en mér finnst endilega að þetta sé sama orðalag og hv. þm. hafði á sinni eigin íslenskun á þessari till. En sérfræðingar athuga þetta.

Hv. þm. vildi sitja hjá við þessa till. Það gat auðvitað komið til greina og því var mikið velt fyrir sér hvort við ættum ekki að sitja hjá. Hvernig var ákvörðunin tekin? spyr þm. Ákvörðunin var tekin af mér og meiri hl. sendinefndarinnar. Ég hygg að öll sendinefndin hjá Sameinuðu þjóðunum hafi verið samþykk þessari afstöðu, að hv. þm. einum undanskildum, eða er það ekki rétt? Það er rétt, já. Og hún getur þá talið sér það til tekna, ef svo vill verkast. Og ákvörðunin var tekin á þeim forsendum sem skýrslan greinir. Ég hygg að það sé greint alveg frá því í skýrslunni á hvaða forsendum ákvörðunin var tekin. Svo var spurt hvort utanrmn. hefði verið kvödd til ráða og svarið við því er því miður nei. Utanrmn. var ekki kvödd til ráða um þessa atkvgr. frekar en margar aðrar sem ber að með skjótum hætti hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er oft mjög erfitt hér heima að taka ákvarðanirnar því að þær verður yfirleitt að taka í flýti af því að beiðnir um afstöðu berast seint frá sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Mér dettur ekki í hug að halda því fram eitt andartak að afstaða mín sé alltaf sú rétta og það megi ekki við betri skoðun komast að því að öðruvísi hefði mátt greiða atkv. Og ég get alveg viðurkennt það, að í þessu tilviki kom það vel til álita að sitja hjá, þó að hin leiðin yrði valin, m.a. vegna ráðlegginga sendinefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sem var einhuga í þessu máli, að undanskildum hv. 5. landsk. þm.

Ég skal, eins og ég segi í skýrslunni, mjög gjarnan taka það til athugunar með sendifulltrúum Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og með utanrmn að reyna að stilla svo til, að þingmannasendinefndin sé ekki jafnbundin af fundarsetum og hún hefur verið. Það er erfitt að koma því fyrir með svo fámenna nefnd sem við höfum af embættismönnum, en það er sjálfsagt að taka þetta til athugunar. Ef þm. vilja vera frjálsari og hafa betri möguleika til þess að fylgjast með einstökum atriðum, þá mun ekki standa á mér að veita liðsinni til þess, ef það er talin heppilegri leið en sú sem farin hefur verið, að einstakir þm. ættu sæti í tilteknum nefndum og fylgdust alfarið með störfum þar. Það má gjarnan ræða líka stöðu þessara þm. við hv. utanrmn. Ef Alþ. vill meira sjálfstæði fyrir sína sendinefnd, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar hvort ekki er hægt að verða við því.

Ég man ekki eftir fleiru í ræðu hv. 5. landsk. þm. sem voru beinar spurningar, að undanskildum síðustu orðum hennar þar sem hún spurði mig að því hvað ég hefði átt við með tilteknum ummælum í sjónvarpi. Ég vil taka það fram hér af þessu tilefni að það var ekki meining mín að sneiða að einum eða neinum með þessum ummælum. En ég sá það eftir á að það mætti hugsanlega skilja ummælin á þann veg, og ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til að leiðrétta það, að það var ekki meining mín. Þetta er eins og hver önnur óhugsuð setning sem sjálfsagt hefði betur verið ósögð. En það er nú svo, a.m.k. með mig, að í hita umræðna og fyrir framan sjónvarpsvélar er ekki alltaf tími til að íhuga það sem maður segir. Og ég vil gjarnan endurtaka það, að þetta átti ekki að vera sneið til eins eða neins, og leiðrétta það hér með að þessu gefna tilefni.

Ég vil svo að lokum aðeins segja það, að ég fagna þeim áhuga, sem þm. almennt hafa sýnt á utanríkismálum með þeim umr. sem farið hafa fram hér í dag og kvöld, og ég fagna þeim áhuga sem komið hefur fram á utanríkismálum og vonast til þess að við getum sem oftast átt málefnalegar umræður um þessi mál eins og þær sem farið hafa fram hér í kvöld.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að lengja mál mitt frekar nema önnur sérstök tilefni gefist til.