13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

346. mál, utanríkismál 1975

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör þau sem hann gaf við fsp. í ræðu minni. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna misskilnings okkar á milli varðandi orðalag í till. um Palestínumálið þar sem hann fullyrti að ég hefði farið rangt með og það væri rétt, sem í skýrslunni stæði, að viðurkennt væri í till. að Palestínuþjóðin hefði rétt til þess að endurheimta réttindi sin með öllum tiltækum ráðum. Það er orðið „tiltækur“ sem er þarna aðalatriðið vegna þess að það hefur alveg sérstaklega merkingu í till. Sameinuðu þjóðanna og samþykktum, eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh. Það er þetta orð sem hefur verið túlkað sem allt að því heimild eða leyfi til að hefja styrjaldir. Mér skilst að hæstv. utanrrh. hafi ekki sjálfa till. Nú, þá vil ég biðja hann um að líta á tölul. 5, þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: „By all means,“ sem þýðir „með öllum ráðum“. Ef hin íslenska þýðing „með öllum tiltækum ráðum“ væri rétt, þá mundi standa í enska textanum, með leyfi hæstv. forseta: „by all available means“.