13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

32. mál, fjáraukalög 1971

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft frv. til fjáraukalaga fyrir 1971 til athugunar. Samkv. frv. hafa viðbótargreiðslur umfram gjöld samkv. 2. gr. fjárlaga það ár, reynst 2 milljarðar 519 millj. og 48 þús. kr.

Svo sem venjulega hafa yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna gert ýmsar fyrirspurnir varðandi umframgreiðslur til viðkomandi rn. og talið sig fá fullnægjandi svör. Hér er um verulegar umframgreiðslur að ræða miðað við heildarupphæð fjárlaga fyrir það ár sem hér um ræðir. Stærstu fjárupphæðirnar eru svo sem oftast áður vegna heilbrigðis- og tryggingamála, 462 millj. 688 þús. kr., vegna viðskrn., m.a. vegna aukinna niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum, 517 millj. 37 þús. kr., vegna menntamála 345 millj. 205 þús. kr. og vegna vegamála 643 millj. 911 þús. kr., en þessir liðir samtals eru tæplega 2 000 millj. kr. Verulegur hluti af þessum auknu útgjöldum ríkissjóðs er til kominn vegna ýmissa efnahagsbreytinga, sem átt hafa sér stað á árinu. Kemur þar til m.a. breyting á kjarasamningum, auknar niðurgreiðslur á búvörum, lífeyrisbætur o.fl. sem ég sé ekki ástæðu til að ræða sérstaklega. Það, sem ég vildi þó taka fram og fjvn. er ekki alls kostar ánægð með, er að komið hefur fyrir að rn. hafa leyft sér að greiða úr ríkissjóði fjárupphæðir til ákveðinna málefna, sem fjvn. hafði hafnað við afgreiðslu fjárlaga og Alþ. ekki samþ. Slík vinnubrögð má ekki viðhafa.

Eins og fram kemur í aths. við þetta frv. hafa yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna lagt til að þær aukafjárveitingar sem hér um er að ræða samkv. frv., verði samþ. Það er einnig till. fjvn. að frv. verði samþ. óbreytt.