13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

50. mál, virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandasýslu

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. til þál. um virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi í Vestur-Barðastrandasýslu. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að heimila væntanlegri Vestfjarðavirkjun eða öðrum aðila að virkja Suður-Fossá á Rauðasandi í Vestur-Barðstrandarsýslu í allt að 2 mw. raforkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Patreksfjarðar til tengingar þar við aðalorkukerfi Vestfjarða. Jafnframt er ríkisstj. falið að gera nú þegar af sinni hálfu ráðstafanir til að hraðað verði eins og frekast er unnt framkvæmdum þessum. Stefnt skal að því að ljúka virkjunarframkvæmdum fyrir lok ársins 1976.“

Fjvn. sendi till. þessa til umsagnar orkuráðs. Hinn 11. febr. s.l. barst fjvn. svar frá Orkustofnun um málið. Koma þar ýmsar upplýsingar og þar segir m.a.:

„Á árunum 1971–1972 var gerður rækilegur samanburður á hagkvæmni virkjunar í Suður-Fossá og Mjólká II sem næsta skrefs í virkjunarmálum Vestfjarða. Varð niðurstaðan sú að Mjólká II væri mun hagkvæmari, sérstaklega ef búast mætti við að notkun á raforku til húshitunar ykist ört. Reynslan hefur síðan sýnt að ásókn í rafhitun er jafnvel enn meiri en þá var reiknað með. Á árinu 1973 fól iðnrn. Orkustofnun að láta fram fara frekari rannsóknir á Suður-Fossá í því skyni að unnt væri að gera traustari áætlun um virkjun hennar. Áður hafði Orkustofnun komið upp vatnshæðasírita við ána þannig að nú liggja fyrir nokkurra ára sírennslisskýrslur.“

Þá segir einnig í þessu bréfi Orkustofnunar: „Rannsókn sú, sem rn. fól Orkustofnun, var framkvæmd sumarið 1974. Var þar fyrst um að ræða landmælingar af virkjunarsvæðinu og gerð yfirlitsskorts af því svo og jarðfræðirannsóknir á yfirborði. Mælingum þessum er nú lokið og búið er að teikna yfirlitskortið. Orkustofnun hefur nú falið Virki h.f. að gera nýja áætlun á grundvelli þeirra gagna er nú liggja fyrir, og búist er við að sú áætlanagerð taki um tvo mánuði. Fyrr en niðurstöður hennar liggja fyrir er ekki unnt að gefa neina þá umsögn um virkjun þessa er marktæk geti talist.“

Síðan er vikið að því í þessu áliti Orkustofnunar að Virki hafi verið falið að gera áætlun um virkjun af þeirri stærð er þarf til að nýta orkuvinnslugetu Suður-Fossár, sem búist er við að verði nálægt 10 gwst. Það er áætlun um grunnorkustöð. Sú virkjunarstærð verður líklega um 2 þús. kw. Jafnframt hefur þeim verið falið að áætla hver kostnaðaraukinn yrði af því að auka afl stöðvarinnar í 4–5 þús. kw., en orkuvinnslugetan verði óbreytt, en sú stærðaraukning mundi auka að mun gildi stöðvarinnar sem varastöðvar.

Skv. orkuspá fyrir landið allt, er Orkustofnun vinnur nú að í samvinnu við fleiri aðila, má gera ráð fyrir að afl- og orkuþörf á Vestfjörðum öllum og í Dalasýslu verði sem hér segir: Áætlað er að árið 1980 verði orkuþörfin 123 gwst. og aflþörf 29 mw. 1985 er hins vegar gert ráð fyrir að orkuþörfin verði 222 gwst. og aflþörf þá 53 mw. Til samanburðar má geta þess að árið 1974 var orkuvinnslan á þessu sama svæði 38.4 gwst., þar af 11.3 með dísilvélum eða 29.4%. Samanlagt afl vatnsaflsstöðva á svæðinu var 5.8 mw. í árslok 1974. Með aukningu þeirri á Mjólkárvirkjun, sem nú er á lokastigi, eykst afl vatnsaflsvirkjana á svæðinu um 5.7 mw., úr 5.7 mw. í 11.5 mw.

Þessar tölur sýna að mikilla aðgerða er þörf til þess að mæta væntanlegri raforkuþörf Vestfjarða í næstu framtíð. Hin mikla aukning orkuþarfarinnar stafar að verulegu leyti af hitun með raforku, en einnig vegna þarfa atvinnulífsins ef mannfjöldi á Vestfjörðum verður í samræmi við mannfjöldaspá Framkvæmdastofnunarinnar, enda er orkuspá sú, sem framangreindar tölur fyrir 1980 og 1985 eru teknar úr, unnin á grundvelli þeirra áætlana um mannfjölda á Vestfjörðum sem Framkvæmdastofnunin reiknar með í sínum landshlutaáætlunum.

Eins og fram kemur í grg. fyrir þessari þáltill. er aðdragandi þessa máls nú orðinn alllangur. Þegar á árinu 1951 var gerð áætlun á vegum raforkumálastjóra um litla virkjun í Suður-Fossá. Var það einn liður í heildarkönnun á orkuöflun fyrir Vestfirði. Kom þá þegar í ljós að hér var um einn hagstæðasta möguleikann að ræða. Af skiljanlegum ástæðum hefur virkjun Mjólkár, sem nú er að komast á lokastig, verið látin sitja í fyrirrúmi hvað framkvæmdaröð snertir, og enda þótt hér sé ekki um stóra virkjun að ræða getur hún samt sem áður verið þýðingarmikill þáttur í heildarraforkukerfinu á Vestfjörðum.

Eins og fram kom í þessu áliti Orkustofnunarinnar er verið að ljúka seinni áætlun í sambandi við þetta mál og gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir nú alveg á næstunni. Komi hins vegar í ljós við endanlega athugun þessa máls að hér sé ekki um hagstæða virkjun að ræða í sambandi við aðra valkosti, þá hefur ríkisstj. að sjálfsögðu aðstöðu til endurmats á málinu í heild.

Fjvn. mælir með því að till. til þál. um virkjun Suður-Fossár á Rauðasandi verði samþ.