13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það var aðeins varðandi lítið mál í mínu kjördæmi sem mig langaði til að segja örfá orð. Það er liður nr. 42 í till. um hafnaáætlun fyrir árið 1975–1978, Bakkafjörður. Það er gert ráð fyrir því, að á árinu 1976 verði löguð niðurkeyrsla að hafnarbakka á Bakkafirði, en frekari áform er ekki að finna í áætluninni um framkvæmdir þar á árunum 1975–1978. Ég vildi leyfa mér að beina því til hæstv. samgrh. hvort hann gæti látið athuga það, þegar framhaldsathugun fer fram í sumar á frekari undirbúningi að gerð hafnaáætlunar, að bæta nokkuð hafnaraðstöðu á Bakkafirði, ekki með tilliti til þess að þar sé um að ræða stórframkvæmd, heldur með tilliti til hins, að bæta við hafnargarðinn, sem þar er fyrir, t.d. einu keri eða tveimur, á þann veg sem talið er æskilegt og skynsamlegt á þessu tímabili sem hafnaáætlunin mun ná yfir.

Það væri að vísu freistandi að ræða dálítið um hafnamálín. Þetta er stór málaflokkur og býsna þýðingarmikill vegna þess að víða háttar svo til úti um landsbyggðina að hafnaraðstaðan er undirstaða atvinnulífsins og byggðarlögin verða viða að treysta á höfnina sem aðalundirstöðu að atvinnulífi viðkomandi staðar. En ég ætla ekki að lengja umr. með því að ræða almennt um málið, heldur vildi ég leggja áherslu á það að áætlanagerðin, sem hefur vaxið í ýmsum efnum á undanförnum árum, hefur að minni hyggju orðið til gagns og nytsemdar: áætlunargerð í samgöngumálum, t.d. samgönguáætlun í vegamálum fyrir Vestfirði, samgönguáætlun í vegamálum fyrir Austurland svo og fyrir Norðurland, svo og þegar tekinn var upp sá háttur að gera sérstaka vegáætlun, almenna vegáætlun, til nokkurs tíma og einnig sá háttur að gera sérstakar áætlanir um hafnamálin. Ég er þeirrar skoðunar, að hér hafi orðið framför og það sé þýðingarmikið, það séu skynsamleg vinnubrögð að haga málum í þessum efnum á þann veg að gera vandaðar áætlanir um framkvæmdir til nokkurs tíma.