13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hefur af einhverjum ástæðum gleymst að setja hér eina höfn inn á Norðurlandi, þ.e.a.s. Tungulendingu á Tjörnesi. Fyrir nokkuð mörgum árum var þar gerð bryggja og þar eru gerðar út einar 8 eða 9 trillur og er að því mikill stuðningur fyrir þessa sveit. Ef þessi útgerð ætti sér ekki stað mundu þeir bændur, sem þarna eru, þurfa að auka bústofn sinn og fara í miklar byggingarframkvæmdir. Þarna er að vísu ekki hugsað um stóra framkvæmd á næstunni, en það má til að bæta þessa aðstöðu til að gera þessum mönnum mögulegt að halda áfram sinni smábátaútgerð. Ég vil mælast til þess, þegar þessi áætlun verður nú athuguð fyrir næsta þing, að það gleymist ekki að þarna er útgerðarstaður og þarna er bryggja, sem þarf að veita svolítið fjármagn í þó að ekki sé um stóra upphæð að ræða.

Enn fremur hefur orðið sú breyting með Kópasker að þar eru komin tvö skip, 66 tonna skip og 24 tonna bátur. Það er þess vegna enn þá meiri þörf að gera þar skjólgarð fyrir vestanáttinni til þess að gera höfnina tryggari. Ég vil koma því hér á framfæri að þetta þarf að skoða vegna þess að þarna eru breyttar aðstæður og brýn þörf á að laga þarna höfnina. Það er gert ráð fyrir því að það þurfi að dýpka þarna, en ég held að heimamenn telji þó enn þá brýnna að fara í þennan varnargarð.