13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3271)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætlaði nú ekki að hafa mörg orð um þessa till. til. þál. um hafnaáætlun og alls ekki að fara út í skiptingu milli hafna. Það urðu miklar umr. um það við fjárlagaafgreiðslu í vetur. Ég vil þó ekki láta hjá líða að tjá ánægju mína yfir hinni einu breyt. sem hefur orðið í þessari þáltill. miðað við hafnaáætlunina eins og við fengum hana um áramótin í vetur. Hún hefur orðið að mínu mati til mikilla bóta, þ.e.a.s. að höfn í Súðavík fær nú fjárveitingu sem áður var ætluð til Selárdals. Ekki þar fyrir að ég unni ekki Selárdal alls hins besta, en ég tel að Súðavík hafi enn meiri þörf fyrir þessa fjárveitingu en Selárdalur.

Það, sem ég vildi fyrst og fremst vekja máls á nú, eru vinnubrögð við gerð fjárlaga, eins og þau hafa verið hingað til. Það fer ekki á milli mála að þarna er Hafnamálaskrifstofan valdamesti aðilinn. Það er til þess ætlast að hún hafi samráð og samband við sveitarstjórnir, en það mun mála sannast að sú samvinna og samband er ekki með þeim hætti sem æskilegt væri, og staðreynd er það varðandi svokallaða óskalista hafna utan af landi, sveitarstjórna utan af landi, sem hafa sent óskir inn til Hafnamálastofnunar, að mjög hefur verið kvartað undan því að í sumum tilfellum jafnvel hafi óskalistanum verið snúið við og Hafnamálaskrifstofan hafi sett efst á blað það sem var neðst í óskum sveitarstjórna. Ég vildi eindregið mælast til þess við hæstv. samgrh. að tekið yrði til athugunar hvort ekki væri hugsanlegt að Hafnamálaskrifstofan hefði eitthvað svipuð vinnubrögð og gerist hjá Vegagerð ríkisins, sem í sjálfu sér er mjög jákvæð vinnuaðferð, að þm. viðkomandi kjördæma hafi aðstöðu til þess að fara yfir óskir kjördæma sinna í samráði við vegamálastjóra. Ég tel ákaflega æskilegt að þarna gilti það sama um Vita- og hafnamálaskrifstofuna, að þm. kjördæmanna væri gert fært að fylgjast með því hvernig Hafnamálaskrifstofan afgreiðir óskir hlutaðeigandi sveitarstjórna.

Það hafa líka komið fram mjög eindregnar óskir utan af landi um að starfsháttum Hafnaskrifstofunnar yrði breytt í þá átt að hún hefði sína fulltrúa, sérstakar deildir úr Hafnamálaskrifstofunni, við hinar ýmsu hafnir. Ég á þá ekki við hverja höfn, heldur hugsanlega eina aðalhöfn í hverjum landshluta. Ég vitna aftur í Vegagerðina. Vegagerðin hefur sent út á land sína menn, sína umdæmisstjóra, sem eru í náinni snertingu og sambandi við viðkomandi heimamenn um þarfir og framkvæmdir á sviði vegamála. Ég sé ekki annað en að þarna séu nákvæmlega sömu þarfir fyrir hendi hvað snertir hafnaframkvæmdir.

Mér er ljóst að samin hefur verið nýlega reglugerð um starfshætti Hafnamálaskrifstofunnar og hún er vafalaust nokkuð til bóta. Þar kemur inn í fulltrúi sveitarfélaganna sem er hafnarstjórinn í Reykjavík sem ég treysti til alls hins besta. En ég vil eindregið mælast til að þetta verði tekið til nánari athugunar, hvort kleift væri að breyta starfsháttum Hafnamálaskrifstofunnar í þá átt sem ég gat um.

Við fyrri umr. um þetta mál kom Reykjavík til umr. og hvað hún hefði orðið afskipt miðað við aðrar hafnir landsins. Ég veit að þarfir Reykjavíkur eru miklar og mikilvægar á þessu sviði. Eftir því sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. hefur Reykjavíkurborg verið synjað um erlenda lántöku, ef ég man rétt. Finnst mér það slæmar fréttir að henni skuli settur stólinn fyrir dyrnar í því efni. Ég vil hins vegar benda á þá staðreynd, sem okkur er öllum kunn, að enda þótt Reykjavíkurhöfn njóti ekki beinna framlaga úr ríkissjóði til jafns við aðrar hafnir úti á landi, þá er hennar aðstaða gerólík að því leyti að hún situr að svo til öllum hafnar- og aðflutningsgjöldum á öllum vörum sem til landsins koma. Þau hafnar- og aðflutningsgjöld koma fram aftur sem hækkað vöruverð á höfnum úti á landi svo að ég held að hlutur Reykjavíkurhafnar samanborið við aðrar hafnir, fiskihafnir, sem standa undir meginútflutningsframleiðslu okkar, sé ekki verri en efni standa til, án þess að ég vilji á neinn hátt standa í vegi fyrir að greitt sé fyrir hafnarframkvæmdum í Reykjavík sem ég veit að eru mikið nauðsynjamál. En þetta, sem ég benti á, finnst mér það þungt á metunum að Reykjavík sæmi ekki að kvarta á þessu sviði þegar tekið er tillit til hvað þörfin er knýjandi og mikið lífsspursmál fyrir staði úti á landi sem eiga alla afkomu undir fiskveiðum og undir hafnarskilyrðum fyrir fiskiskip.