13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð og þá fyrst og fremst út af því, sem fram hefur komið í ræðum hv. 12. þm. Reykv. og hv. þm. Ellerts B. Schram hér fyrir nokkrum dögum. Báðir þessir hv. þm. virðast hafa tekið nærri sér ummæli þau sem ég viðhafði hér við 1. umr. þessa máls og vörðuðu framlög til hafna, annars vegar til almennra hafna úti á landsbyggðinni og hins vegar Reykjavíkurhafnar.

Ég get fullvissað hv. 12. þm. Reykv. um, að ekkert einasta orð af því sem ég sagði, af því sem hann var að vítna til, var vanhugsað eða nein ástæða fyrir mig til að taka það aftur. Það, sem ég hélt fram, var að miðað við þær aðstæður, sem hinar almennu fiskihafnir, útflutningshafnirnar, búa við víðs vegar í kringum landið, hafa búið við og allar líkur eru á að verði að búa við enn um sinn a.m.k., þá sé ég ekki neitt sem réttlætir það að Reykjavíkurhöfn njóti, eins og mál standa nú, neinna beinna framlaga á fjárlögum. Vel má vera að hagur Reykjavíkurhafnar hafi versnað. Það má vel vera. En hvað með hina staðina. Ég veit ekki betur en nokkuð mörgum sveitarstjórnarmönnum víðs vegar í kringum landið hafi verið stefnt fyrir dómstóla vegna vanskila sem viðkomandi hafnarsjóðir hafa staðið í í nokkur ár, bókstaflega vegna þess að það er útilokað að þessi tiltölulega fámennu sveitarfélög geti staðið undir öllum þeim skuldbindingum sem á þau hafa verið lögð til þess að byggja upp fiskihafnir og skapa þannig gjaldeyri fyrir þjóðina sem hún lifir á. Fjöldi sveitarstjórnarmanna hefur því staðið fyrir framan tugthúsdyr í nokkur ár einmitt vegna skulda sem á þessum hafnarsjóðum hvíla, vegna þess að ríkið hefur vanrækt að veita nægilegt fjármagn til þessara mikilsverðu undirstöðuatvinnutækja, vil ég kalla, sem fiskihafnirnar eru fyrir landsheildina. Og það er þetta sem ég byggi afstöðu mína á. Meðan ekki er betur sinnt lífsnauðsynjum fyrir þessar hafnir sem staðið hafa í þessum erfiðleikum í áraraðir, þá sé ég ekki að það mæli neitt með því að Reykjavíkurhöfn komi nú, eins og málum er nú háttað, til þess að njóta fjárframlaga á fjárlögum ríkisins. En það verður vitanlega endurskoðað komi betri tímar.

Það skal vissulega viðurkennt að það var gert stórátak til hins betra varðandi framlög ríkisins til hafna í tíð fyrrv. ríkisstj. Það var stórt skref og ekki skal ég vanmeta það. En ég hef sagt og segi enn að mér finnst að allflestar ríkisstj. hafi vanrækt þá skyldu sína að sjá einmitt þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar fyrir nægilegu fjármagni til þess að geta framleitt meira, og það er aðalatriðið í þessu máli. Ég get því endurtekið að meðan svo illa er séð fyrir fjárframlögum eða stuðningi ríkisvaldsins við uppbyggingu á þessum stöðum í hafnargerð, þá sé ég ekki að það sé neitt sem réttlæti það, eins og málum er nú háttað, að Reykjavíkurhöfn komi til með að njóta fjárframlaga á fjárlögum ríkisins. Þetta er mín ákveðin skoðun, hvort sem hv. 12. þm. Reykv. eða hv. 11. þm. Reykv. tekur það nærri sér. Þeir verða þá að hafa það. Þetta er mín skoðun og við hana stend ég.