13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4056 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta menn með langri ræðu. Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. fyrir þau innlegg sem þeir hafa lagt inn í þetta mál og mun beita mér fyrir því að þeir aðilar, sem vinna að þessum málum, kynni sér þessar umr. og geti því betur metið þessi verkefni sem hafnagerðir í landinu eru.

Ég vil líka taka það fram, að ég vona að sú till. mín að fresta afgreiðslu þessa máls til haustsins reynist happadrjúg. Þá gefst starfsmönnum Hafnamálastofnunarinnar, heimamönnum og þm. kostur á að fylgjast með þessum málum og vinna að þeim sameiginlega í undirbúningi undir þessa áætlunargerð. Ég álít að það skipti meginmáli að til hennar sé vel vandað því að þetta er grundvöllur að áætlunargerð sem hér er verið að gera um hafnargerðir, og þess vegna tel ég að flaustur eigi ekki við. Auk þess hef ég sem ráðh. hafnamála ekki haft þann tíma sem ég tel nauðsynlegan til þess að kynna mér einstaka þætti á því tímabili sem ég hef sinnt því starfi en ég taldi að brýna nauðsyn bæri til að ég ætti kost á því.

Ég vil svo segja það út af því sem hv. 9. landsk. þm. sagði, að einmitt tel ég það rétt og vel farið að vinna í sameiningu að þessum málum með heimamönnum og hv. þm. á þeim svæðum, sem þeir eru þm. fyrir og hef einnig verið með áætlanir um að athuga möguleika á því að setja upp verkfræðiskrifstofur úti um landsbyggðina, í landshlutum, til þess að vinna að hafnargerðum. Það getur auðvitað ekki farið með neinum hraða vegna kostnaðar og fleiri atriða sem þarf að athuga áður en þetta er gert.

Ég vil svo segja það út af því sem hefur komið fram, að nokkru leyti sem skemmtiþáttur hjá hv. 12. þm. Reykv. og 5. þm. Vestf. sem leggur venjulega mikið inn af efni í þá grein í umr., að auðvitað erum við ekki að deila um landsbyggðina og höfuðborgina því að hvort tveggja er jafnnauðsynlegt. Eðlilegt samstarf á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar er það sem gerir þessa þjóð sjálfstæðari bæði fjárhagslega og stjórnarfarslega og það þurfum við að efla. Ég vona að á það sé litið sem stefnumörkun af minni hendi að hafa valið hafnarstjórann í Reykjavík í stjórn Hafnamálastofnunarinnar. Hann er formaður Hafnasambands Íslands og ég tel mjög áríðandi að ná góðu samstarfi á milli Hafnamálastofnunarinnar, Hafnamálasambandsins og samgrn. Þetta vona ég að takist með þessari nýju skipan og ég lít á það björtum augum að sú tilhögun muni verða hafnamálunum í heild til farsældar. Og samstarf á milli landsbyggðarinnar og Reykjavíkur á að efla því að það er þjóðinni fyrir bestu.