13.05.1975
Sameinað þing: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

71. mál, ellilífeyrisgreiðslur til lífeyrissjóðsfélaga

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 75 er till. til þál. um auknar ellilífeyrisgreiðslur til lífeyrissjóðsfélaga óverðtryggðra lífeyrissjóða. Í till. segir að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að láta kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að breyta lífeyrisgreiðslukerfi óverðtryggðra lífeyrissjóða þannig, að eftirlaunagreiðslur þessara sjóða fullnægi eðlilegri framfærsluþörf sjóðfélaga og við framkvæmd þessarar þál, skuli haft samráð við heildarsamtök vinnumarkaðarins og landssambönd lífeyrissjóða.

Þessari till. var vísað til hv. fjvn., en sú n. óskaði eftir því að þetta mál væri tekið til meðferðar í hv. allshn. Sþ. Sú beiðni barst allshn. nú á síðustu dögum þessa þings. N. hefur því ekki haft mikinn tíma til þess að skoða þessa till., en lítur þó svo á að hér sé um eðlilegt réttlætismál að ræða sem eðlilegt sé að skoðað verði og unnið að því að koma þessu í framkvæmd. Því leggur n. til að till. verði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar og framkvæmda.