27.11.1974
Neðri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

63. mál, landshöfn í Rifi á Snæfellsnesi

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., kemur mér nokkuð á óvart. Ég lít svo á að það sé einn liður í því hjá hinum nýja formanni Alþfl. að reyna að færa út kvíarnar og fá aukið fylgi í flokk sinn. Hann hefur síðan hann tók við forustu Alþfl. átt tvö sjónvarpsviðtöl þar sem það hefur komið fram hvernig hann hugsar sér að gera flokk sinn stærri en hann nú er. Hann sagði frá því eftir að hann var kjörinn formaður að það hefði verið áhugi fyrrv. formanns og annarra flokksmanna að leiða nýja áhrifamenn til valda og jafnvel konur. Svo langt átti að ganga í leit Alþfl. að fylgismönnum að það átti „jafnvel“ að fara að leita til kvenna. Ég held að margir hafi nú álitið að orðið „jafnvel“ hafi verið óþarft í þessu tilfelli því að flestir viljum við fá fylgi kvenna ekkert siður í pólitík en á annan veg.

Svo kom formaðurinn fram í þættinum kastljósi síðast. Þá var hann spurður að því hvernig það væri, hvort þeir Alþfl.- menn væru búnir að týna hugsjónunum, þeir hafi orðið að skipa sérstaka hugsjónanefnd til að leita að hugsjónum og verkefnum. Þá tók formaður til og sagði að margt væri nú breytt og eitt af því, sem átti að verða til þess að auka áhrif Alþfl. í framtíðinni, var frv. til l. um fóstureyðingar. Fannst þá mörgum að nú færi að verða skiljanlegt hvernig áhugamál formannsins væru til að auka fylgi flokksins.

Nú er komið frv. af hendi þessa hv. þm. sem er í stíl við þetta. Í stjórn Rifshafnar sitja 5 menn. Þeir eru þannig að það munu vera 2 sjálfstæðismenn, einn framsfl.- maður, einn alþfl.-maður og einn alþb.-maður. Ég verð að segja það eins og er að ég hef verið að velta því fyrir mér síðan ég varð samgrh. hvort ekki ætti að setja eina löggjöf um landshafnir og láta þær þá lúta sams konar stjórn að formi til og mannfjölda og þess háttar. Það, sem hefur staðið í mér, er að í stjórn Rifshafnar eru nú tveir keppinautar mínir úr framboði í Vesturl. Annar er fyrrv. þm. Pétur Pétursson sem var í 2. sæti á lista Alþfl. meðan sá listi fékk kosinn mann í Vesturl. Þegar Pétur hætti að vera á listanum féll hv. 2. landsk. þm. og hefur verið landsk. þm. síðan. Pétur Pétursson var formaður í stjórn landshafnarinnar í Rifi þann tíma sem ég sat í þeirri stjórn. Ég man ekki eftir að það hafi komið til átaka á milli stjórnarmanna innbyrðis eða á milli stjórnarinnar og hreppsbúa. Það er þá alveg nýtt mál ef það eru komin einhver sérstök átök á milli þeirra á Hellissandi og stjórnar Rifshafnar. Ég þekkti það ekki á þeim tíma sem ég var í þessari n. Í hana var ég skipaður af Emil Jónssyni og var í henni þangað til ég varð ráðh., þá sagði ég því af mér. Og heimamaður á Hellissandi, skipstjóri, Sævar Friðþjófsson, er í stjórninni.

Nú er það svo að í stjórn Rifshafnar er Sævar Friðþjófsson, aflamaður mikill þar vestra og góður skipstjóri, í öðru lagi Kristján Guðmundsson sem ég hygg að sé oddviti núna og var áður skipstjóri, en er nú fiskkaupandi og hefur fiskverkunarstöð, og þriðji maðurinn er Skúli Alexandersson fyrrv. oddviti. Sigurður Ágústsson er þarna einnig, Haraldur Henrýsson og Pétur, ef ég man þetta rétt. — Kristján er sennilega varamaður Sigurðar eða Sigurður hefur fallið út síðast. Ef þetta frv. yrði samþ. og kosið væri á Alþ. eftir venjulegum leiðum og stjórnarflokkarnir stæðu saman, þá mundu þeir fá þessa 3 menn kosna og þá væri frv. búið að slátra Pétri Péturssyni út úr Rifshafnarnefnd. Það var meira en ég hafði hugsað mér að gert yrði og það stóð í mér að fara að semja frv. til þess eins, ég hafði ekki þá sögu af Pétri að segja. Ef við hugsum okkur svo að hreppsnefndin á Hellissandi kjósi, þá mundi annar vera framsóknarmaður og hinn sjálfstæðismaður og stjórnarflokkarnir fá alla 5 mennina. Á þennan hátt á að auka fylgi Alþfl. Mér finnst þetta í stíl við fóstureyðingafrv. og „jafnvel konur.“

Ég verð að segja það að ég er alveg hættur að skilja hv. 2. landsk. þm. og hans hugsanagang. Það er aðeins eitt í þessu, sem gæti e.t.v. verið tilgangur, að eins og þetta er í lögum núna á ráðh. að skipa alla mennina. Ef ég sæti í því sæti eftir ár ætti það að falla í minn hlut að skipa þá alla og það væri það eina sem breytingin gæti haft í för með sér. Ég held að það mundi aldrei verða af minni hendi gefin sú skipun að ýta Pétri Péturssyni út úr þessari n. fyrir það eitt að hann ætti ekki heima þarna fyrir vestan eða að hann væri pólitískur andstæðingur minn. Hitt er annað mál, ef á að gera lagabreytingu. Það getur vel verið að þetta frv. verði til þess að ég geri þá breytingu að láta gera ein lög um landshafnir eins og er ein löggjöf um aðrar hafnir í landinu sem ekki tilheyra landshöfnum. Það er eðlilegast að kosning til hafnarstjórnar sé með sama hætti um allar þessar hafnir. Ég sé á l. um landshöfnina í Þorlákshöfn, sem eru yngst af þessum l., að þar hefur verið miðað við það að allir flokkar fengju fulltrúa í hafnarstjórnina, því að þá var miðað við 7 menn í hafnarstjórnina, en eins og kunnugt er var breytt þingsköpum Alþingis og fjölgað í nefndum úr 5 mönnum í 7 til þess að flokkarnir gætu komið að sínum fulltrúum. Það er mál út af fyrir sig sem rétt er að athuga. En fyrir breytingu í þessu formi með þeim forsendum, sem greindar eru í þessu frv., sé ég engin rök, nema ef vera skyldi að leyfa ekki ráðh. að skipa þessa mena. En þar finnst mér of langt seilst til að sparka í sína eigin menn. Ég verð að segja það að ég sé svo sem enga ástæðu til þess að fara að óska hinum nýja formanni Alþfl. að hann auki fylgi flokksins. Hitt hefði ég haldið, að hann væri ekki eins slysinn og raun ber vitni.