14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (3321)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. iðnn. með fyrirvara svo sem formaður n. greindi frá. Ég er formanni fyllilega sammála um að frv. það, sem hér um ræðir, hafi alls ekki verið nógu vandvirknislega undirbúið og hvergi nærri svo. Það kom fyrir iðnn. þessarar hv. d. eftir að hafa legið heilt ár í endursmíð hjá rn. og að því er sagt er fengið vandlega yfirferð þriggja lögfræðinga rn., en þó var það meira að segja þann veg orðað að í meginatriðum var ekki auðvelt fyrir meðalgreinda menn, eins og ég hygg að nm. í iðnn. séu, að skilja það. Iðnn. gafst ekki heldur tækifæri til að ganga úr skugga um það hvernig á því stendur að aðalfundir þeirra samtaka, sem samkvæmt bréfi standa að frv., hafa ekki beinlínis samþykkt þetta 0.1% gjald á félagsmenn? Til þess hefur okkur ekki gefist tækifæri til að ganga úr skugga um þetta. Þar af leiðandi er iðnn. alls ekki ljóst hvort hér er um að ræða vafasamt uppátæki af hálfu stjórna þessara samtaka, uppátæki án samþykktar eða vilja meiri hl. samtakanna, eða hvort hér býr að baki vilji samtakanna sjálfra. Ég hef rökstudda ástæðu til þess að ætla að hér sé beinlínis um að ræða að það sé verið að fá hæstv. Alþ. til þess að samþ. þá kvöð á ríkissjóð að hann taki að sér að rukka inn félagsgjöld fyrir illa skipulögð samtök sem kynnu þá kannske að verja þessu fé eftir því. Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir allmikla eftirgangsmuni, þó einkum af hálfu Landssambands iðnaðarmanna, um að málið verði samþ. á þessu þingi, enda þótt iðnn. hafi ekki einu sinni gefist sómasamlegur tími til þess að athuga frv., þá liggi ekkert á að afgr. þetta frv., það sé ekki hundrað í hættunni, nema síður sé, að láta það bíða haustþingsins, þannig að n. fái eðlilegan tíma og eðlilega möguleika til að athuga efni frv.

Það er ekki að öllu leyti notaleg tilhugsun að þeim brögðum kunni að verða beitt að leggja fram frv. af þessu tagi á allra síðustu starfsdögum þingsins, beinlínis vegna þess að það er vitað að þá gefst ekki tóm til þess að athuga málið nógu rækilega. Hér er að vísu um að ræða 0.1% álag, en þess ber að geta að þegar búið er að færa þetta álag í lög, þá kann að verða auðveldari eftirleikurinn að fá álagið hækkað. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að miklu réttara hefði verið að taka inn þetta fé með hækkun á iðnlánasjóðsgjaldi, það hefði verið hægt að ná því inn á þann veg ef vilji hefði verið fyrir hendi. Ég er sem sagt hræddur um að hér sé undirbúningurinn svo tæpur að ekki sé forsvaranlegt að samþ. frv. á þessu þingi, það þurfi nánari athugunar. Ég lýsi yfir samúð minni með formanni iðnn. þessarar hv. d. sem hefur lent í þeirri klemmu að þurfa að mæla með afgreiðslu frv. á þessu stigi. Af þessum sökum mun ég þrátt fyrir þau meðmæli frá stjórn samtakanna, sem frv. fylgja, greiða atkv. gegn því.