14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4070 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég þakka hv. iðnn. fyrir skjóta afgreiðslu málsins og hv. frsm., 2. þm. Vestf., fyrir framsögu hans í málinu.

Það, sem veldur því að ég tel rétt að segja nokkur orð, er ræða hv. 5, þm. Norðurl. e. sem er einn nm. Það er í fyrsta lagi að hann skrifar undir nál. með fyrirvara, en n. í heild mælir með samþykkt frv. Þegar menn skrifa undir meðmæli með frv., en hafa fyrirvara, er gert ráð fyrir að menn hugsi sér kannske að flytja brtt. við það, en þessi hv. þm., sem mælir með frv. með fyrirvara, lýsir svo yfir í ræðustól að hann muni greiða atkv. á móti því. Þetta er, held ég, nokkuð óvenjuleg afstaða. Látum það vera. Hitt er lakara, að í ræðu hans kom fram margvíslegur misskilningur á gangi þessara mála og óskiljanlegar fullyrðingar. Hann talar um að það sé verið að beita Alþ. brögðum með flutningi þessa máls. Ég tel rétt að skýra frá því að þetta mál var undirbúið af fyrrv. ríkisstj., þannig að þau þrenn samtök sem hér eiga hlut að máli, Landssamband iðnaðarmanna, Félag ísl. iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga, höfðu sameiginlega óskað eftir því við fyrrv. ríkisstj. að málið yrði flutt. Fyrrv. ríkisstj. var búin að samþ. að málið skyldi flutt, en áður en það yrði kom í ljós nokkur formgalli á frv. þannig að ekki varð af því. Sá formgalli var svo lagaður og frv. lagt fram nú eftir að þetta hafði verið lagfært. Ummæli í þá átt að verið sé að beita Alþ. brögðum með framlagningu frv. eru óskiljanleg með öllu.

Varðandi það atriði hjá hv. þm. að það séu aðeins nokkrar stjórnir eða ráðamenn sem óski eftir þessu, en ekki félagsmenn almennt, þá er rétt að taka fram í fyrsta lagi að þetta frv. er mjög hliðstætt lögum sem áður hafa verið samþ. varðandi búnaðarmálasjóðsgjald sem leggst ekki á verð vöru, heldur er greitt af bændum sjálfum, og það gjald rennur til Stéttarsambands bænda og búnaðarfélaganna. Þetta var lögfest á sínum tíma eftir beiðni samtakanna, og mér er ekki kunnugt um að farið hafi fram allsherjaratkvgr. meðal allra bænda í landinu um stuðning við það. Á sömu lund er með hluta af útflutningsgjaldi á sjávarafurðum sem rennur til samtaka útvegsmanna og einnig var ákveðið eftir beiðni þessara samtaka. Mér er ekki kunnugt um að fram hafi farið allsherjaratkvgr. meðal þeirra sem þar eiga hlut að máli. Er því ekki fremur ástæða til þess nú í þessu tilviki en varðandi hin fyrri hliðstæðu tilvik, búnaðarmálasjóðsgjald og útflutningsgjald. Þegar hv. þm talar um að þetta sé háskalegt fordæmi og þó að það sé nú aðeins una 0.1% að ræða, þá sé viðbúið að það hækki síðar, þá gleymir hv. þm. því ger samlega að þetta gjald á alls ekki að leggjast á vöruna, það kemur alls ekki fram í verði hennar, heldur eru það framleiðendur sjálfir sem taka þetta gjald á sig, þannig að það, sem þetta frv. felur í sér, er eingöngu innheimtuaðferðin. Það eru því ekkert sérstaklega sterkar líkur fyrir því að þeir aðilar, sem eiga sjálfir að greiða gjaldið án þess að mega taka það inn í verð vörunnar, fari svo að óska eftir verulegum hækkunum á því gjaldi. Ég tel það heldur ólíklegt.

Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið, en aðeins taka fram að þær brtt., sem fluttar eru af n., eru fyrst og fremst orðalags breytingar, þ.e.a.s. 1. a og b, en brtt. í 2. tölulið er efnisbreyting og hún er í samræmi við óskir frá Sölustofnun lagmetisiðnaðarins um að það gjald, sem fellur til af þeirri atvinnugrein, renn til þeirrar sölustofnunar, og tel ég það eðlilega ósk. Ég vænti þess, um leið og ég endurtek þakklæti til n. og frsm. hennar, að hv. d. fallist á að samþ. frv.