14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4076 í B-deild Alþingistíðinda. (3331)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara um þetta frv. nokkrum orðum því að það er áhugamál mitt þó að ég sé þar einungis áhugamaður, en ekki atvinnumaður. Við erum allir leikendur á leiksviði lífsins og það er stundum sagt um okkur stjórnmálamennina, að við séum góðir leikarar, og því miður vil ég segja, er það oftast sagt í niðrandi tón. Ég tel þetta hins vegar vera mikið hrósyrði. Þeim, sem taka að sér að túlka persónur sem skáldin búa til, er viss vandi á höndum. Þeim tekst misjafnlega vel að leysa sín hlutverk, og þess vegna segi ég að það er ekki í mínum huga niðrandi þó að ég heyri að sagt sé: Þessi stjórnmálamaður er góður leikari. Leikari er fyrst og fremst í mínum huga sá sem getur túlkað þær skoðanir, sem hann vill láta koma fram, og þann persónuleika sem hann vill túlka hverju sinni. (Gripið fram í: En ef stjórnmálamaður er vondur leikari?) Það mega ávallt allir kveða upp sinn dóm um það hvort þessi eða hinn sé góður leikari og hvort þessi eða hinn sé góður stjórnmálamaður. Það er á valdi hvers og eins og hver og einn verður að hlíta þeim dómi.

Menntmn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess eins og fram kemur á þskj. 713. Ég vildi samt, herra forseti, fara um þetta nokkrum orðum vegna þess, eins og ég sagði, að þetta er eitt af mínum hjartans áhugamálum, og vildi gjarnan, að örfá orð um sögu leiklistar á íslandi yrðu hér fest á blað í Alþingistíðindum.

Það fyrsta, sem vitað er um leiklist hér á landi, er leikur Herranætur skólapilta, fyrst í Skálholtsskóla og eftir að skólinn var fluttur þaðan á Hólavelli í Reykjavík, síðan að Bessastöðum og svo aftur í Reykjavík og gekk skólinn þá undir nafninu Lærði skólinn. Fyrsta íslenska leikritið var Sperðill eftir Snorra Björnsson á Húsafelli, skrifað um 1760, og tvö næstu þar á eftir eftir Sigurð Pétursson, Hrólfur fluttur 1796 og Narfi 1799.

Þegar upp úr 1800 fara borgarar Reykjavíkur að sinna leiklistinni og leikritun meira, en það var leikið á dönsku. Sigurður Guðmundsson málari barðist mjög fyrir því frá því um 1850 og sér í lagi til 1874 að leikið væri á íslensku fyrir íslendinga. Flestöll leikritin voru þá dönsk, en mikill munur þótti Sigurði og fleirum þegar þeim var þó snúið yfir á íslenska tungu. Síðan koma Útilegumenn Matthíasar Jochumssonar, leikrit sem betur er þekkt undir nafninu Skugga-Sveinn, og er fyrst flutt 1862 af skólapiltum og í svolítið annarri mynd en við nú þekkjum það. Það var svo fullgert 1898 sem Skugga-Sveinn. Nýársnótt Indriða Einarssonar er fyrst flutt 1871.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þátt Sigurðar Guðmundssonar málara sem gerði leiktjöld að flestum þeim fyrstu leikritum sem sýnd voru hér í Reykjavík og sjóður, sem kallaður var Kúlissu-sjóður og átti öll þessi merku leiktjöld, var stofnaður eftir fyrstu opinberu sýninguna í Reykjavík sem Jón Guðmundsson, þáv. ritstjóri Þjóðólfs, stóð fyrir 1850.

Töluvert var leikið í Reykjavík á 19. öldinni og um og rétt eftir 1890 voru hér starfandi tveir leikflokkar, annar í húsi sem kallað var í daglegu tali Gúttó og þar sem m.a. hin fræga íslenska leikkona Stefanía Guðmundsdóttir kom fyrst fram á leiksviði, en hinn staðurinn bar nafnið Fjalakötturinn. Sameining þessara tveggja leikflokka varð 11. jan. 1897 þegar Leikfélag Reykjavíkur er stofnað. Aðalhvatamaðurinn að sameiningunni og stofnun félagsins var Þorvarður Þorvarðarson prentari og var hann formaður félagsins fyrstu 7 árin. Stofnfélagar voru þá 19 og voru í fyrstu stjórn auk Þorvarðar, sem var formaður, Borgþór Jósefsson, maður Stefaníu, og Friðfinnur Guðjónsson, viðkunnur leikari um áratuga skeið.

Leikfélag Reykjavíkur erfði eigur hins svokallaða Kúlissu-sjóðs sem ég nefndi áðan. Árið 1899 eða tveimur árum eftir stofnun þess sótti Leikfélag Reykjavíkur um styrk til Alþ. Það er ákaflega fróðlegt að lesa umr. í Alþingistíðindum frá þeim tíma. Það eru mismunandi skoðanir í fyrsta lagi meðal þéttbýlis- og dreifbýlismanna og einstaklinga á gildi þessarar greinar okkar lista og menningar. En á þessu þingi var samþ. 300 kr. framlag til Leikfélags Reykjavíkur gegn því að bæjarstjórn Reykjavíkur legði fram 150 kr., sem sé 300 kr. frá Alþ. og 150 kr. frá Reykjavíkurborg. Þetta var veruleg fjárveiting miðað við fjárlög Alþ. og fjárhagsáætlun Reykjavíkur á þeim tíma.

Fyrsti styrkurinn, sem Alþ. samþ. til leikara til náms erlendis, var til Stefaníu Guðmundsdóttur og það var einmitt ein af fyrstu till. Ólafs Thors að flytja till. um þennan styrk eftir að hann var þá nýkominn til setu á Alþ.

Ýmsir mætir menn störfuðu hjá Leikfélagi Reykjavíkur árum saman. Ég nefni aðeins Indriða Einarsson, Einar Hjörleifsson Kvaran, sem voru leiðbeinendur og þýðendur margra verka, Bjarna frá Vogi, sem var þýðandi m.a. margra okkar stærstu erlendu verka, sem þýdd hafa veríð á íslenska tungu, ásamt mörgum fleirum sem of langt væri upp að telja.

1907 eru þáttaskil í sögu Leikfélags Reykjavíkur, og standa raunar fram yfir heimstyrjöldina fyrri eða fram til 1918, hvað snertir það að frumflytja íslensk leikrit. 1908 er Skugga-Sveinn fluttur og fyrsta verk Jóhanns Sigurjónssonar, Bóndinn á Hrauni, og síðan gengur þetta svo áfram koll af kolli, hvert nýja íslenska verkið er flutt eftir annað: 1911 Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar, 1913 Lénharður fógeti Einars Hjörleifssonar Kvarans og 1914 Galdra-Loftur Jóhanns Sigurjónssonar. Síðan verður, að segja má, fremur hlé á frumflutningi íslenskra verka hjá Leikfélagi Reykjavíkur. 1933 er svo Maður og kona í leikgerð Emils Thoroddsens samkv. sögu Jóns Thoroddsens flutt og árið eftir, 1934, Piltur og stúlka eftir sömu höfunda. Og þannig væri hægt að telja áfram eftir þann tíma. 1934–1935 verða að vissu leyti aftur þáttaskil. Þá er fyrst ráðinn leikstjóri til Leikfélagsins, erlendur maður, Gunnar Hansen, sem vann hér ómetanlegt starf fyrir þessa listgrein. Lárus Pálsson, hinn mikilhæfi listamaður, kom til starfa um 1940 og 1941 leikstýrði hann frumsýningu á Gullna hliði Davíðs Stefánssonar.

Eins og hv. alþm. mun vera kunnugt tekur síðan Þjóðleikhúsið til starfa 20. apríl 1950 og þá voru 14 af leikurum Leikfélags Reykjavíkur þegar fastráðnir þar. Fyrsta hugmyndin um stofnun þjóðleikhúss, svo að vitað sé um, var rædd að frumkvæði Indriða Einarssonar 1906 og því þótti m.a. tilhlýðilegt að sýna eitt hans fyrsta verk, þ.e.a.s. Nýársnóttina, við opnun Þjóðleikhússins 1950, en þá voru einnig sýnd, eins og kunnugt er, Íslandsklukka Halldórs Laxness og Fjalla-Eyvindur Jóhanns Sigurjónssonar.

Ég hef hér aðeins, herra forseti, vikið að eldri sögu leikfélagsins og leikritahöfundum og þeim sem fyrst og fremst mótuðu þessa listgrein okkar í upphafi, Yngri leikritahöfunda má svo nefna, eins og t.d. Jónas og Jón Múla Árnasyni, Jökul Jakobsson, Agnar Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur. Þannig mætti lengi telja.

Frv. felur það í sér, eins og fram kemur, að stofnaður sé skóli sem fyrst og fremst á að verða til þess að efla þessa listgrein í landi okkar. Menntmn. Nd. gerði nokkrar breyt. þar á, allar að mínu mati og n. hér í Ed. til þess að gera frv. fyllra.

Vil ég fyrst og fremst vekja athygli á 1. brtt. þar sem tekið er fram að heimilt sé að reka undirbúningsdeildir í tengslum við skólann annars staðar á landinu en í Reykjavík og að heimilt sé að starfrækja nemendaleikhús á vegum skólans.

Brtt. við 2. gr. er nánast viðtækari útfærsla og skal ég ekki, herra forseti, eyða frekari tíma í að ræða hana.

En við 3. gr. var gerð sú breyt., að skólastjóri skyldi ráðinn til 4 ára í stað þess að það var ótiltekið í frv. áður.

4. brtt., við 4. gr., frá hv. menntmn. Nd., er um að bæta tveimur við í skólanefnd þessa skóla, einum frá Leikfélagi Akureyrar, sem rekur fast leikhús, og öðrum frá kennurum Leiklistarskólans.

Ég vísa síðan, herra forseti, að öðru leyti til frv. og grg. sem þar fylgir með og nál. menntmn. Nd. varðandi það sem ég hef látið ógetið í sambandi við brtt. þeirrar hv. nefndar.

Aðstaðan úti um landsbyggðina hefur vissulega mikið batnað á síðustu árum. Ég fullyrði að áhuginn var fyrir hendi áður en það hefur skapast betri aðstaða. Þrátt fyrir það vantar enn ýmislegt á að hægt sé að halda þeirri starfsemi uppi sem áhugi manna úti á landsbyggðinni stendur til og raunar aðstaða að ýmsu leyti er fyrir hendi til að það geti verið.

Það er von mín og trú að þetta frv., ef að lögum verður, megi stuðla að því að þarna geti orðið breyting á til bóta. Og það er ákaflega athyglisvert hversu mikill áhugi er á leiklist úti á landi og hér á höfuðborgarsvæðinu. Það sýnir best hin mikla aðsókn sem er að leiksýningum útí um landsbyggðina og leiksýningum hér í Reykjavík, hvort heldur er hjá Leikfélagi Reykjavíkur eða Þjóðleikhúsinu.

í grg. með frv. segir svo, með leyfi forseta: „Frv. þetta mótast af reynslu undangenginna ára og er samið í samráði við þá aðila sem gerst eiga þar til að þekkja. Reynslan ein getur skorið úr um hvort það nær þeim tilgangi sem því er ætlað að ná.“

Ég sagði í upphafi, herra forseti, að þetta væri mikið hjartans áhugamál mitt, og þó að ég standi ekki í leiklist, þá hef ég kannske sem áhugamaður einhvern tíma úti í sveit komið fram sem slíkur. Ég tel þetta svo nátengt okkar bókmenntum og listum að það komi þar fljótlega á eftir. Við höfum átt mjög mikilhæfa leikritahöfunda og höfunda sem hafa samið verk sem síðan hefur verið búið til leikrit eftir eða verið flutt í leikritsformi. Við höfum átt mikilhæfa menn sem hafa snúið frægustu leikverkum veraldarinnar á íslenska tungu. Við höfum átt leikendur sem hafa flutt þessi verk með hinni mestu prýði.

Ég vil svo, herra forseti, ljúka máli mínu og vonast til þess að þetta frv. nái fram að ganga og verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.