14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4078 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

100. mál, sérkennslumál

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Menntmn. Ed. hefur rætt till. þá til þál. um sérkennslumál sem hér er til framhaldsumr. N. hefur orðið sammála um að mæla með því að hv. Ed. samþ. till. eins og hún kom frá hv. Nd. Um till. bárust umsagnir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, frá Félagi ísl. sérkennara og Kennaraháskóla Íslands. Allar þessar umsagnir eru jákvæðar og taka mjög undir efni till. Nægir í því efni að benda á eftirfarandi: Ég hef hér fyrir mér þær umsagnir sem menntmn. Nd. bárust, nema frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég hirti ekki um að hafa hana með mér hingað í ræðustól því að hún var eingöngu um að Sambandið mælti með því að till. yrði samþ., en rökstuddi það ekki frekar.

Í svari Kennaraháskólans segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Um aðgerðir og skyldur Kennaraháskólans, sem að er vikið í 3. málsgr. þáltill., leyfi ég mér að senda hér með upphaf að stuttri skýrslu, sem gerð var, frá menntmrn. 19. júlí 1971, svo og yfirlit um fjölda þeirra kennara er sótt hafa nám í Kennaraháskólanum í kennslu afbrigðilegra barna frá því haustið 1968 og enn fremur gögn um viðfangsefni og framkvæmd kennslu á þessu sviði, einnig nál. er skýrir stefnu skólans á næstu árum.

Ég leyfi mér að biðja yður að færa flm. till. þakkir skólans fyrir áhuga þeirra á þörfu málefni og er að sjálfsögðu fús að veita frekari upplýsingar ef þess er óskað.

Með virðingu, Broddi Jóhannesson.“ Ég tel ekki þörf á því að kynna þessa umsögn eða skýrslu mjög náið. Ég vil aðeins geta þess að það hafa verið haldin námskeið í Kennaraháskólanum fyrir kennara til þess að geta sinnt þeim störfum sem gert er ráð fyrir hér við sérkennslu, og eru það 88 kennarar sem á árabilinu frá 1968–1974 hafa sótt námskeið og lokið prófum frá þeim við Kennaraháskólann. Það er því augljóst að nokkur tök munu vera á því að veita þá fræðslu sem tillgr. gerir ráð fyrir að innt verði af hendi. þó að trúlega þurfi að halda þarna vel vöku sinni um það að sérmennta kennara á þessu sviði.

Ég vil leyfa mér einnig að benda hér á kafla úr umsögn Félags ísl. sérkennara sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Félag ísl. sérkennara hélt félagsfund þann 5. mars s.l. þar sem þessi þáltill. var rædd. Lýstu fundarmenn ánægju sinni yfir framkominni till. um sérkennslumál og töldu hana spor í rétta átt. Félagið mælir eindregið með því að ráðinn verði starfsmaður innan menntmrn. sem hafi yfirumsjón með sérkennslumálum alls landsins og telur að skjótra úrræða sé þörf úti á landsbyggðinni. Fundurinn taldi jafnframt nauðsynlegt að kanna möguleika á aukinni menntun sérkennara við Kennaraháskóla Íslands og ekki síður að námskeið verði haldin fyrir almenna kennara í kennslu og handleiðslu afbrigðilegra barna. Aukin þekking og skilningur almennra kennara á þessum málum er forsenda þess að sérkennsluþjónustan flytjist út í almenna skólakerfið.“

Þetta er ályktun Félags ísl. sérkennara.

Ég þarf litlu við þetta að bæta, en vil vekja athygli hv. dm. á því að þótt grunnskólalögin séu nýsett, þá hefðu þau þó mátt taka meira til vanda þeirra nemenda sem haldnir eru einhverri vöntun, andlegri eða líkamlegri. Stærð þessa vanda er mönnum allajafna ekki ljós nema við nána skoðun. Stundum er lausn hans ekki ýkjakostnaðarsöm ef nægilega snemma er tekið til að leysa hann. Það hefur komið í ljós t.d. af starfsemi fræðsluyfirvalda Reykjavíkurborgar, en á fræðsluskrifstofu borgarinnar starfar sérstakur sérkennslufulltrúi sem skipuleggur og leiðbeinir um hinar ýmsu greinar sérkennslu. Þá hafa í ýmsum skólahéruðum úti um sveitir landsins verið reyndar nýjar leiðir í þessum málum með athyglisverðum árangri í formi farkennslu, skiptikennslu og námskeiðahalds Þetta er fremur sjaldgæft, enda hafa ekki komið til neinar samræmdar aðgerðir stjórnvalda til örvunar eða stuðnings þessari nauðsynlegu starfsemi. Ég vil minna á í þessu sambandi að á árabili beitti fræðsluráð Árnessýslu sér fyrir því að leiðbeinandi í sérkennslu gengi milli skólanna á Suðurlandi, og þó að það væri í mjög ófullkomnu formi fer ekki á milli mála að með því var mörgu barninu bjargað áfram með litlum aukakostnaði sem annars hefði setið eftir og kannske aldrei beðið bætur þeirrar vanrækslu sem það var undirorpið.

Eins og till. liggur nú fyrir hv. Ed. er með henni hvatt til þess að sérstökum starfsmanni innan menntmrn. verði falið að skipuleggja þessa starfsemi, en ekki er gert ráð fyrir að ráða nýjan mann til starfa, heldur aðeins að rn. taki upp þetta sjálfsagða þjónustustarf við hina strjálu byggð með því að fá þessu efni nokkurn forgang í verkefnaröðun innan rn.

Ég get látið máli mínu lokið um till., en árétta það, sem fram kemur í nál. á þskj. 712, að menntmn. mælir með því að þáltill. um sérkennslu verði samþ. eins og hún birtist á þskj. 644.