14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4083 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram hjá frsm. meiri hl. varð ágreiningur í n. og skilum við tveir nál. á þskj. 707 og brtt. á þskj. 708. Frsm., sem var fyrirhugaður hv. þm. Stefán Jónsson, varð að fara í rannsókn á sjúkrahúsi nú síðdegis og er ekki kominn til baka svo að ég hleyp hér í skarðið fyrir hann um að hafa framsögu fyrir málinu.

Það er alveg rétt, eins og frsm. meiri hl. drap á, að hér er um mikið mál að ræða og raunar ekki nýtt, en það verður jafnan ágreiningsmál hvernig skipta eigi gengismun. Þar sem ekki getur verið um neinn ótvíræðan réttan mælikvarða að ræða og um stórar upphæðir er fjallað — í tveimur gengisfellingum er mismunurinn um 3.7 milljarðar kr. — er eðlilegt að ýmsir hagsmunahópar, sem í blaðagreinum hafa verið kallaðir þrýstihópar, reyni að toga eitthvað til sín, hver eftir bestu getu. Því ber að harma það eins og fram hefur komið, að hv. sjútvn. Ed. var ekki gefinn kostur á því að heyra í þessum mönnum, sem vildu hver verja sína hagsmuni, og að nm. höfðu ekki tíma til þess að tala við forsvarsmenn þessara hópa. Hefði verið fróðlegt að heyra margvísleg rök frá þeim með því að hver hagsmunaeining fengi sem mest út úr þessum gengismunartölum. En hvað um það, þetta er líðið og þýðir ekki að vera að fjalla um það of lengi og hægt að snúa sér beint að því að gera grein fyrir því hvers vegna við teljum að annar háttur eigi hér á að vera heldur en frv. gerir beint ráð fyrir.

Hér er ráðstafað upphæðum sem eru hátt í tvo milljarða og er þeim skipt á allmarga líði og fleiri liði en oft hefur verið, og er það jákvætt út af fyrir sig að sjá góða sundurgreiningu á því efni. En brtt. okkar í minni hl. á þskj. 708 fjalla um að síðari málsgr. b-liðar orðist svo, að í staðinn fyrir 400 millj., sem frv. gerir ráð fyrir, þá viljum við skipta því upp í 330 millj. með sama hætti og frv. gerir ráð fyrir, en eiga 70 millj. kr. af þessari fjárhæð til lánveitinga til 2–3 ára til fiskverkunarstöðva til framkvæmda við að bæta hreinlætisaðstöðu og aðra aðbúð verkafólks. Þýðing þessa þáttar er óumdeilanleg. Spurningin er aðeins um það með hvaða hætti við tryggjum fjármagn í þessu skyni, en gengisfelling hefur einnig íþyngjandi áhrif fyrir þessa þætti framleiðslunnar alveg eins og bátaflotann þar sem margir hafa tekið gengistryggð lán undanfarið og fá nú á sig nokkurn skell í því sambandi. Einnig er það alþekkt að mjög vantar aðstöðu fyrir verkafólk í hinum ýmsu verstöðvum og sérstaklega úti um allt land og veitti ekki af að fá smámöguleika til að bæta úr þeirri aðstöðu sem er varðandi fyrst og fremst íbúðarþátt verkafólksins.

B-liður till. okkar er, að í stað orðanna „12 millj.“ komi: 20 millj. — sem er til orlofsheimilishúsa sjómannasamtakanna, aðeins hækkuð skipting fjárins vegna vaxandi verðbólgu og aukins kostnaðar við að koma slíkum húsum upp.

Síðan er afgangs tala sem er að vísu ekki stór, en við leggjum til að Alþ. fái að vita um slíkar tölur og til þess að setja það ákveðið setjum við orðið „Alþingis“ í stað „sjútvrn.“ Þessi tala er að vísu ekki stór. En fyrst er verið að gera Alþ. á annað borð grein fyrir því með hvaða hætti skipta á öllum gengismuninum, þá er rétt að hafa það í lokin að Alþ. fái um þetta að fjalla, hvort sem talan er stór eða lítil, er til lokaskipta kemur.

Stærsti ágreiningurinn er eðlilega um 2. gr. í frv. Það var, eins og síðasti ræðumaður drap á, um það samkomulag á sínum tíma að stefnt yrði að því að ekki skyldi eiga sér stað aukning í sjóðakerfinu, jafnvel byrjað að höggva þar niður. En svo reyndist annað upp á teningnum þegar frv. kom í ljós.

Það hefur verið mjög rætt um að nauðsynlegt sé að hækka fiskverð og fiskkaupendur geti borgað hærra fiskverð og eru um það ýmsar sögur á lofti. Það eru lögð hér mikil gjöld á fiskverkendur í landinu og flokkað eftir því hvað menn meta fiskverkunina sterka og mismunandi útflutningsgjöld því réttlætanleg samkv. þeirri forsendu. En ég persónulega dreg í efa að rétt sé að mismuna eftir vinnuaðferðum vegna slæmrar reynslu af því í mörg, mörg undanfarin ár. Ég tel að hér hefði átt að stokka hreint upp eins og um var rætt. Og þrátt fyrir það að sérstök n. sé samkomulagsatriði hjá aðilum í þessu máli sem skuli vinna að því að þetta kerfi taki á sig smækkandi mynd gagnvart framtíðinni eða jafnvel hverfi alveg úr sögunni, þá leggjum við til að 2. gr. gjörbreytist og verði orðuð upp að nýju og fiskverð hækkað og komi þá hlutir til skipta eins og skiptasamningar gera ráð fyrir. En annað geri útgerðinni mögulegt að greiða hærri rekstrargjöld og þá auðvitað almennt.

Hv. 2. þm. Vesturl. býsnaðist yfir því að við skyldum orða það að hafa heimild til þess að ríkissjóður mætti hlaupa undir bagga með allt að 200 millj. kr. ef illa tækist til. Þetta finnst honum óguðleg hugsun í dag. En við vorum nú að tala hér um 1% söluskattshækkun og þá stóðum við að því í stjórnarandstöðunni að tala um að hafa heimild ríkisstjórnar til að hlaupa undir bagga í því sambandi og skal ég ekki rekja það nánar. En þá lögðum við til að heimild væri fyrir því, að ríkissjóður mætti styðja það verkefni allt að 400 millj. Þá kom hann inn á að það væri óguðleg heimild og taldi hana óverjandi með öllu. En nokkru síðar skeði aðeins það að það þurfti skyndilega að hjálpa annarri grein í landinu, landbúnaðinum, og þá var ákveðið í skyndi að 600 millj. kr. væru til til þess að greiða niður áburð og auka einnig niðurgreiðslur á matvælum. Þá var nóg til í ríkissjóði, þannig að stundum finnast nú leynihólf ef réttir menn leita í þeim stóra sjóði og þeim stóra kassa. En ef við í stjórnarandstöðunni förum fram á einhverja heimild ætlar allt af göflunum að ganga í því efni. Ég vísa þessum aths. hv. þm. því heim til föðurhúsanna. En það er ekki gott að sjá fyrir hver heildarniðurstaðan verði, jafnvel þó að þröngt sé í búi í dag, og það skal viðurkennt og er ekki annað en það sem við í stjórnarandstöðunni höfum margsinnis bent á að sé. En þá væri líka hægt að spara með ýmsu móti á öðrum liðum.

Síðan eru tveir minni háttar liðir. Við bætum við og tökum undir það sem var breytt í Nd.hæstv. sjútvrh. yrði heimilað að fella niður gjöld af verkuðum fiski og það komst í gegn í Nd. Hins vegar voru deilur um það að hjálpa með saltfiskinn sem væri minni vegna mikilla söluerfiðleika á þeirri vöru. Fyrst og fremst er framleiðslan úr togurunum og það mun ekki breyta nokkru um málið hvort lítið verði á þennan þátt sem gefur 8–10–12 millj. í heild, en skiptir máli fyrir vissa staði á landinn. Og ef þetta verður ekki samþ., þá vil ég a.m.k. mælast til þess að á annan veg verði munað eftir þessum svæðum sem hafa enga möguleika aðra en að verka sinn fisk í salt. Þar býr dugnaðarfólk við þröng kjör og þrengri aðstæður en yfirleitt gerist annars staðar á landinu og ýmsa erfiðleika, atvinnuleysi á vissum árstímum og þarf að leggja hart að sér á bjargræðistíma, og þess vegna verður að muna eftir þessu fólki. Það á ekki kost á öðru en að róa til fiskjar á litlum bátum og handvinna afla sinn að langmestu leyti og bjargar þannig verðmætum í land eins og það hefur gert um árabil. Þessi afli er ekki stór í sníðum, alls ekki, svo að það skiptir engum sköpum hjá einum eða neinum. Ég vil miklu heldur nefna hér dæmi sem skeði fyrir rúmri viku í kjördæmi frsm., en það er á þessa leið og sýnir hvert við stefnum í togaraútgerðinni.

Togari kom þar að landi og einn verkandi keypti 50 tonn af togarafiski, Hann fullyrti í samtali við mig að í þessum 50 tonnum hefðu verið fleiri fiskar — og ég bið hv. þdm. að taka eftir þessu — það hefðu verið fleiri fiskar í þessum 50 tonnum en í 500 tonna afla hjá öðrum bát hjá sér, sem sagt um 1200 fiskar í tonninu í staðinn fyrir um 120–150. Það kann því að hljóma sem mótsögn að við skulum vera að gera það mögulegt að salta eitthvað af þessum fiski. En ég er hér að drepa á vandamál fárra lítilla staða á vissum svæðum á landinu. Og ég óska eindregið eftir því ef þetta verður ekki samþ. í heildarformi að hæstv. ráðh. líti þá til þessara staða eftir því sem aðstæður leyfa í gegnum annað sjóðakerfi því að þessir staðir eiga þess ekki kost undir neinum kringumstæðum að velta auknum álögum af sér sem eru gerðar til þess að togaraúthaldið í landinu geti gengið. Ég er ekki að mæla með auknum möguleikum í saltfiskverkun á smáfiski, öðru nær. En ég aðeins minni á vandamál vissra staða sem komast ekki hjá því að bjarga fiskinum í landi eins og hann er, í næsta nágrenni og sóttur á litlum bátum, og hafa enga möguleika til að bjarga sér á annan hátt en að salta fiskinn eða hengja hann upp á vissum tíma árs, þó heldur skamman tíma. Þetta er kjarninn í okkar málflutningi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að karpa um þetta mál í heild sinni. Það er komið svo að samkv. útreikningi Þjóðhagsstofnunar verða útflutningsgjöld nú á frystum fiski, frystum flökum 15.1%, ef þetta frv. fer óbreytt í gegn, á humri, rækju og hörpudiski 15.9%, óverkuðum saltfiski 18.3%, skreið 14.9%, fiskmjöli 16.9%, loðnumjöli 17.9% og loðnulýsi 17.9%. Slík er upphæð útflutningsgjalda orðin. Það fer í marga staði þetta gjald og fengum við sundurliðun í því efni. En aukin þróun í hærra og hærra gjald með sífelldum mismun er ekki rétt stefna og kannske er hér lokaþáttur stiginn í þessari þróun miðað við orð flestra eða allra manna sem um það tala í báðum deildum og er það vel ef svo reynist. Það hefur verið reynt á mörgum undanförnum árum að afla Tryggingasjóði og fleiri sjóðum tekna með útflutningsgjaldi, þá miklu lægra en nú er greint, og oft gripið til þess að mismuna eftir vinnuaðferðum. En það vita allir af reynslu s.l. 10 ára að verðlag á sjávarafurðum sveiflast það mikið að þetta er ekki tryggur tekjustofn og þess vegna er þetta ekki heilbrigt. Og við vitum það mætavel að frystur fiskur hefur oft náð hámarki á undan öðrum tegundum, saltfiski og skreið. Svo byrjar frysti fiskurinn að falla, hinir halda sér nokkuð vel og svo falla þeir á eftir, kannske heilu ári á eftir og svo þarf að hreyfa milli tegunda með breytingu á útflutningsgjaldinu. Þetta hefur skeð með síldina einnig og þess vegna eru breytingar á þessum gjöldum sífellt að koma hér inn á Alþ. meðan við höldum þessu kerfi.

Þess vegna fagna ég því ef samstaða er nú fyrir hendi að vinna að því að stokka þetta allt upp, koma skiptaprósentu á hreint aftur, því að með þessu frv. lækkar raunveruleg skiptaprósenta niður fyrir helming af afla upp úr sjó þó að kjarasamningar geri ráð fyrir því að skipshöfn njóti hálfvirðis á móti útgerð af afla upp úr sjónum. Það er því að vonum að hagsmunaaðilar fyrir skipshöfnina séu óánægðir með þessa þróun. Þó að þeir sætti sig við þetta í bili, þá er þetta ekki til frambúðar.

Ég vænti þess að það verði a.m.k. munað eftir þeim minnstu í þessu efni, þeim aðilum sem eiga við sérstakt vandamál að stríða, og á ég þar við þá aðila sem eru úti um land á erfiðum stöðum. En hitt væri miklu betra ef hv. d. vildi samþykkja að breyta 2. gr. í það form sem við leggjum til.