14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4095 í B-deild Alþingistíðinda. (3347)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki leggja orð í belg um þetta síðasta dæmi um ágætt samstarf og samstarfsvilja ríkisstjórnarflokkanna að því er varðar loðnu í þró og úr þró í þessu sérstaka máli. Ég hefði aftur á móti fagnað því meira að þeir hefðu komið sér saman um annað og miklu brýnna verkefni fyrir íslenskan sjávarútveg en afgreiðslu þessa frv., það verkefni að koma togurunum okkar, þeim stærstu og afkastamestu, til veiða.

Ég gekk hér upp í ræðustólinn aðeins til þess að víkja lítils háttar að orðum sem hæstv. sjútvrh. lét falla um þá stefnu að halda niðri verði á smáfiski sem hann útskýrði mjög eðlilega á þá lund að að því verði að miða af verndarástæðum, að koma í veg fyrir smáfiskadráp. Ég tel yfirlýsingu hæstv. ráðh. góðra gjalda verða um það að hann hyggist bæta sjómönnum á smástöðunum sérstaklega utan umfangs þessa frv., sjómönnum sem róa á smáum bátum og eru þannig settir við miðin að tiltölulega mikill hluti af afla þeirra verður smáfiskur sem hlýtur að fara í salt vegna þess að ekki er aðgangur að frystihúsum. Þessa yfirlýsingu hans, þótt lausleg sé, tel ég góðra gjalda verða og hef rökstudda ástæðu til þess að ætla að hann hafi þegar séð leið til þess að bæta þessum sjómönnum það sem þeir missa í sambandi við gengishagnaðinn. Þessir staðir eru fáir og fámennir, en íbúarnir eiga afkomu sína gjörsamlega undir sjávarfangi og ef við athugum framlag þeirra í þjóðarbúið á liðnum árum, þá hygg ég að það hljóti að teljast varhugaverð stefna að miða að lágu verði í smáfiski. Ég vil mótmæla því að 54 cm fiskur af línu veiddur fyrir norðan og austan og kominn í frystingu eða salt 8 tímum seinna sé miklu verðminni en 85 cm fiskur sem hirtur er úr neti hér á Selvogsbanka á þriðja eða fjórða degi eftir að hann festist í netinu.

Og ef við hugleiðum af nokkurri alvöru þessa frasa sem menn tyggja hver upp eftir öðrum varðandi smáfiskadrápið og ráðstafanir í verndarskyni, þá hef ég ekki orðið var við það að hvorki okkar ágætu fiskifræðingar né ræðumennirnir hjá L.Í.Ú. hérna syðra hafi minnst á þá hliðina sem snýr að drápi á hrognfiski hér syðra, á hrygningarfiskinum á hrygningarslóðunum hérna syðra — jafnvel þó að þessum fiski væri skilað í sæmilega vinnslu. En ég vil beina þeirri ósk til hæstv. sjútvrh. þó að ekki gefist tími til þess nú fyrir þinglok að hann geri ráðstafanir til þess í vetur — og skelfing mundi það gleðja mín gömlu eyru ef hann vildi láta það verða eitt af sínum fyrstu verkum á haustþingi, ef hann verður þá enn þá sjútvrh. — að veita okkur upplýsingar um hversu mikill hluti af vertíðarfiskinum hérna syðra, netafiskinum, telst vera tveggja til þriggja og upp í fjögurra nátta, hversu stór hluti af þessum fiski er raunverulega markaðshæf vara. Hér kemur nefnilega fleira til en aðeins það af hvaða stærð fiskurinn er þegar hann er drepinn. Mér er það enn þá minnisstætt veturinn 1963, þegar kapparnir hérna syðra luku við að drepa stóra Grænlandsþorskinn sem taldist frá 80 og niður í 50 í tonnið. Hann var tekinn í nót, hann kom sannarlega ferskur um borð. En mér er það minnisstætt þegar 50 tonn af 83 tonna afla Eldborgar fóru í gúanó vegna þess að það hafði ekki verið séð fyrir salti í fiskinn. Verkunin á fiskinum kemur hér mjög til álita líka og ég vil aðeins varpa fram þeirri spurningu hvort þið haldið að það sé af tilviljun að fiskiðjuverið á Húsavík, sem verkar að ákaflega miklu leyti millifisk og smáan millifisk, hefur getað borgað frá 12 og upp í 17% ofan á umsamið fiskverð til sjómanna á sama tíma og verkendurnir hérna syðra, sem verka þennan stóra, fína fisk sem er allt að því, að því er manni skilst á sumum mönnum, göfugt starf að drepa, mega varla vatni halda yfir því að þurfa að borga umsamið fiskverð. Líkurnar benda til þess að millifiskurinn og smái millifiskurinn fyrir norðan sé þrátt fyrir allt betri markaðsvara og kunni e.t.v. að borga sig betur að nýta hann á þeim slóðum ef sæmilega er staðið að verkuninni heldur en stóra Skagamannafiskinn hérna syðra.