28.11.1974
Efri deild: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

72. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er ekki flókið. Ég vil þó leyfa mér að fara um það örfáum orðum.

Frv. er flutt í samræmi við samþykktir, sem gerðar hafa verið í háskólaráði, og að meginefni er það tvíþætt: Annars vegar er um að ræða stjórnsýslu Háskólans eða stofnun embættiskennslustjóra, og hins vegar er gert ráð fyrir að lögfest verði heimild til stofnunar námsbrauta innan Háskólans fyrir sérmenntun sem ekki fellur með eðlilegum hætti undir verksvið einstakra háskóladeilda.

Gert er ráð fyrir því að embætti kennslustjórans verði jafnsett og embætti háskólaritara að öllu leyti, og það er gert ráð fyrir nánu samstarfi milli þessara tveggja embættismanna. Frv. felur í sér nokkur ákvæði um verkaskiptingu milli þeirra, en þó er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að reynslan verði að móta það frekar hvernig þessir embættismenn skipti með sér verkum. Kennslustjórinn léttir að einhverju leyti störfum af háskólaritara sem hafa verið mikil, en þó er honum fyrst og fremst ætlað að létta störfum af rektor, ýmsum daglegum störfum. Rektorstörfin eru, eins og gefur að skilja, umfangsmikil, bæði stjórnunarstörf og margvísleg fyrirgreiðsla við nemendur, einkum þá sem eru að byrja háskólanám.

Ég vil leyfa mér að benda á það einnig að frv. felur í sér ákvæði um hver gegna skuli störfum rektors ef hann forfallast vegna veikinda eða af öðrum ástæðum, en í núgildandi lögum eru ekki skýr ákvæði um þetta atriði.

Varðandi seinni liðinn, þ.e.a.s. þann sem felst í 6. gr. frv., vil ég minna á þetta:

Tillagan um lögfestingu heimildar til stofnunar námsbrauta er fram komin í tengslum við undirbúning reglugerðarákvæða um námsbraut í hjúkrunarfræðum, en kennsla á því sviði hófst haustið 1973 með bráðabirgðaskipan innan vébanda læknadeildar. Nefnd, sem skipuð var til að semja drög að reglugerðarákvæðum um þetta nám, taldi æskilegt að sett yrði í lög um Háskólann almenn heimild til stofnunar sérnámsbrauta, og eins og ég hef nú þegar tekið fram, hefur háskólaráð fallist á þetta sjónarmið með samþykkt þeirrar till., sem felst í 6. gr. þessa frv. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir að heimildin verði notuð þegar um verður að ræða nám, sem ekki verður með hentugum hætti komið fyrir innan háskóladeilda þeirra sem fyrir eru. Það má minna á að þegar hefur verið stofnuð slík sjálfstæð námsbraut í almennum þjóðfélagsfræðum, en hún var stofnuð með sérstakri lagasetningu árið 1970. Það er, eins og hv. þdm. er vafalaust kunnugt, verið að athuga um ýmsar fleiri námsbrautir sem hentugt gæti verið að setja á stofn innan Háskólans. Má minna á nám eins og félagsráðgjöf og sjúkraþjálfun, en það mál var fyrir skömmu rætt í Sþ. út af fyrirspurn sem þar kom fram. Þá hefur einnig verið rætt um hugsanlega kennslu í fjölmiðlun á háskólastiginu og er nefnd starfandi sem er að kanna það mál nánar. Nefnd hefur setið að störfum og athugað möguleika á því að hefja kennslu fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði. Sú nefnd hefur þegar skilað áliti til Háskólans, ég hygg á miðju sumri, og það er í athugun þar.

Leggja ber áherslu á, að þótt um verði að ræða sjálfstæðar námsbrautir nú eða siðar, þá er ekkert því til fyrirstöðu að kveðið verði á um meiri eða minni tengsl þeirra við háskóladeildir, eina eða fleiri, eftir því sem hagkvæmt kann að þykja í hverju tilviki. Einnig er rétt að minna á það að stofnun slíkra námsbrauta er að sjálfsögðu því háð að fé sé veitt til þess á fjárlögum hverju sinni.

Ég læt þá máli mínu lokið, herra forseti, og legg til, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn. og ég vil leyfa mér að mælast til þess að hv. nefnd greiddi fyrir afgreiðslu þessa máls eftir því sem hún telur tök á.