14.05.1975
Efri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4109 í B-deild Alþingistíðinda. (3372)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Á þskj. 469 flyt ég ásamt Inga Tryggvasyni brtt. við það mál sem nú er til umr., happdrættislán til Norður- og Austurvegar. Ég ræddi þetta nokkuð ítarlega við 1. umr. og gerði þá grein fyrri því að með þessu móti og þessari fjáröflun verða vissir landshlutar mjög utangarðs. Ég gerði grein fyrir því þá að ég væri að vísu ekki mótfallinn því að taka happdrættislán til vegagerðar þótt ég viðurkenni að þau geti orðið nokkuð kostnaðarsöm í endurgreiðslu. Hins vegar er mín skoðun sú að ef við getum með þessu flýtt vegagerð og notið arðsins af bættum vegum, þá sé það rétt. En aðalatriði mitt var hins vegar að með þessu móti væri mjög verið að mismuna landshlutum og taldi ég tvennt koma til greina í þessu máli: Annars vegar að slík fjáröflun sem þessi rynni beint í Vegasjóð og yrði þá skipt til hinna almennu þjóðbrauta og landsbrauta eða ráðstöfun þessa fjár yrði með þeim hætti að hennar nytu allir landshlutar. Við nánari athugun á málinu eftir 1. umr. komst ég að þeirri niðurstöðu að líklega væri seinni þátturinn líklegri til árangurs og því fluttum við Ingi Tryggvason fyrrnefnda brtt. á þskj. 469.

Ég vildi gjarnan gera með örfáum orðum grein fyrir því sem ég tel varasama stefnu í vegáætlun og kemur fram í því sem hér er til umr. Ég veit að hv. þm. vita það allir að vegáætlun eða fjármagn til nýrra þjóðvega skiptist í nokkra meginliði. Þar er fyrsti liður hraðbrautir. Síðan koma þjóðbrautir og landsbrautir og síðan má segja að það sem eftir er séu fyrst og fremst ýmsar séráætlanir. Segja má að fjármagn til nýrra þjóðvega skiptist í þessa þrjá meginþætti.

Svo að ég afgreiði fyrst síðasta þáttinn, þ.e.a.s. ýmsar séráætlanir, þá eru þær hugsaðar til þess að bæta landshlutum upp það, sem þessir landshlutar kunna að hafa dregist aftur úr í þessu sambandi, og setja þar inn sérstaka áætlun til þess að ná þeim upp á svipað svið og aðra landshluta. Þannig var Vestfjarðaáætlun fyrst samþ. og framkvæmd á árinu 1965–1966. Náði það, sem framkvæmt var, fyrst og fremst til vega sem tengja kjarna á Vestfjörðum þéttbýlissvæðum, fyrst og fremst Patreksfirði og Ísafirði.

Norðurlandsáætlun kom inn á svipuðum grundvelli og þar er Strandasýslan tekin með þar sem hún var ekki með í því, sem framkvæmt var af Vestfjarðaáætlun, og Austfirðirnir loks sem sérstök áætlun. Auk þess komu sérstök meiri háttar átök, eins og Skeiðarársandur, sem bar eiginlega eins konar ægishjálm yfir framkvæmd síðustu vegáætlunar. Einnig kom þar smávegis fjáröflun til Djúpvegar. En allt einkenndist þetta af því að þetta er sérstök fjáröflun til þess að lyfta ákveðnum þætti vegamála upp á hið almenna stig.

Hraðbrautir ákvarðast með sérstökum lögum, og fer það eftir talningu eða eftir umferð hvort þjóðbraut getur talist hraðbraut eða ekki. En það, sem einkenndi fyrri vegáætlun, var að hraðbraut náði aldrei meiru en 20–22% heildarfjármagnsins til nýrra þjóðvega, en þjóðbrautir og landsbrautir voru öll árin frá 1972–1975 með meira fjármagn til framkvæmda en hraðbrautir og töluvert meira sum árin, nálgaðist 25–30% heildarfjármagnsins. Fjármagn til hraðbrauta er að mestu leyti ákveðið að fenginni till. vegamálsstjóra, en fjármagn til þjóðbrauta og landsbrauta skiptist hins vegar á kjördæmin í ákveðnum hundraðshluta. Það hefur nú undanfarið numið 16% til hvers kjördæmis, nema til Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis sem fá minna, Reykjavík ekkert og Reykjaneskjördæmi, ef ég man rétt, 3–4%. Síðan hafa þm. viðkomandi kjördæmis verið ábyrgir fyrir því að skipta þessu fjármagni til hinna ýmsu þarfa innan kjördæmisins og þar er óskalistinn æðilangur. Mér sýnist því rétt að segja að vegáætlun hafi einkennst af því að reyna að koma vegakerfi landsins, þ.e.a.s. þjóðbrautum og landsbrautum, í viðunandi horf þannig að það séu færir vegir mestallt árið, fremur en að leggja áherslu á hraðbrautir, nema hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu þar sem umferð er ákaflega mikil og þörf fyrir hraðbrautir óvefengjanleg.

Þegar fram kom till. til þál. um vegáætlun fyrir 1974-1977 var sýnileg allmikil breyting. Þar var gífurleg aukning á hraðbrautafénu. Fer það gjarnan upp í 30–35%. Þar er einnig mjög eftirtektarverð sérstök áætlun: Norður- og Austurvegur, 500 millj. 1975, 1976 og 1977. Með öðrum séráætlunum leiðir þetta að sjálfsögðu til þess að fjármagn, sem er til ráðstöfunar í þjóðbrautir og landsbrautir, er hverfandi að verða og stórum minna en áður hefur verið, yfirleitt ekki yfir 25%. Þetta þýðir m.ö.o. að hraðbrautirnar, hinar sérstöku brautir sem því nafni hafa náð eins og ég sagði áðan, með sérstakri talningu, og fyrrnefnd séráætlun, sem að sjálfsögðu fellur raunar nánast undir hraðbrautaáætlunina, taka, þegar þetta tvennt er lagt saman, um 55–60% heildarfjármagns. Nú er það að vísu rétt að á þessu hafa orðið töluverðar breytingar og ég ætla ekki að lengja tímann með því að ræða um það. Til þess vinnst tími við umr. um vegáætlun í Sþ. og mun ég gera það þar. En ég dreg þetta fram til þess að vekja athygli á því að með þessari sérstöku fjáröflun til Norður- og Austurvegar sem ég sannarlega ann alls góðs, er verið að hvarfla frá þeirri stefnu sem hefur verið ríkjandi, að koma þjóðbrautum og landsbrautum í viðunandi horf. Hundraðshlutinn, sem þar er til skiptanna, er óbreyttur, 16% af því fjármagni á hvert kjördæmi, en fjárupphæðin hins vegar nokkurn veginn sú sama, á sama tíma og vegáætlun stóreykst að magni og það er orðið svo að ekki er nema um örfáa km að ræða sem gera má fyrir þetta fé. Sérstaklega verður þetta óréttmætt þegar vissir landshlutar, eins og Vestfirðirnir og Norðausturlandið, komast ekki undir þessa séráætlun og ekki undir hraðbrautakaflann, þá eru þessir landshlutar nánast orðnir annars flokks, það er eiginlega orðið annars flokks fólk sem byggir þessa landshluta. Það fær lítið sem ekkert af þessu mikla fjármagni, 60% vegáætlunar. Þar eru ekki hraðbrautir og þar er ekki þessi sérstaki flokkur vega: Norður- og Austurvegur, eða mestur hluti hringvegar.

Þetta teljum við, sem flytjum þessa till., ákaflega varhugaverða þróun, mjög varhugaverða vægast sagt, og slíka að ekki verði við unað. Við höfum því leitast við með þessari brtt. á þskj. 469 að ná þessu fjármagni til ráðstöfunar fyrir landið allt — ekki aðeins fyrir hluta af landinu — þar með talið Vestfirðina og Norðausturlandið sem verða út undan. Þetta teljum við að gera megi með því að breyta 7. gr. þannig að hún orðist svo:

„Fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið til að greiða kostnað við gerð hringvegarins“ — þ.e.a.s. þá er það komið alveg í kringum landið, Norðausturlandið með — „og þjóðbrauta sem tengja landshluta þeim vegi, skv. nánari ákvörðun Alþ. við gerð vegáætlunar.“ Að sjálfsögðu vísar síðasti þátturinn til Vestfjarðanna sem eru mjög sér á báti.

Ég ætla ekki að fara að flytja hér langt mál um vegamál Vestfjarða. Ég ræddi allítarlega um þau við 1. umr. þessa máls og gerði grein fyrir því að þar er þörf á stóru átaki. Ég skaut þar á tölu eins og 500–600 millj. til að tengja Vestfirðina þessum hringvegi, og ég teldi ekki óeðlilegt þó að til þess kæmi nokkur hluti af þessu happdrættisláni.

Annars vil ég segja það, að ég tel vegamálin forgangsmál í okkar þjóðfélagi og sjálfsagt að afla til þeirra meira fjármagns og því get ég fallist á þessa leið, þó að ég viðurkenni að við séum kannske komnir út á ystu nöf. Ég tel gagnlegt að fá þetta fjármagn til veganna.

Ef þessi till. verður ekki samþ., þá mun ég að sjálfsögðu leita allra leiða til þess að auka hlut Vestfjarða af þjóðbrautafénu. Ég held að hv. þm. hljóti að telja það eðlilegt þegar svo að segja allir aðrir landshlutar nema Vestfirðir og Norðausturlandið eru komnir með sérstakar áætlanir sem bera ægishjálm yfir þetta fjármagn allt. Það hlýtur að vera sanngjarnt að þessi hundraðshluti, sem skiptist nú jafnt á öll kjördæmin nema Reykjavík og Reykjanes, breytist og þá verði tekið tillit til þess að vissir landshlutar hafa sáralítið af hraðbrauta- og Norður- Austurvegar-fjármagni.

Ég sagði það við 1. umr. að ég væri raunar hlynntastur því að þetta rynni í Vegasjóð. Komin er fram brtt. um það. Ég mun fylgja henni. En ég taldi þó líklegra, þar sem menn eru mjög hraðbrautarsinnaðir og ég tala nú ekki um hringvegarsinnaðir í dag, að það fengi meiri stuðning að halda þessu við hringveginn, en um leið á þann hátt, sem ég hef lagt til, nokkurn hluta af fénu til þessara óumdeilanlega nauðsynlegu verkefna í þeim tveimur landshlutum sem verða utangarðs.