14.05.1975
Efri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4119 í B-deild Alþingistíðinda. (3377)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég benti á það við 1. umr. um þetta frv. til l. um happdrættislán ríkissjóðs fyrir hönd Vegasjóðs vegna framkvæmda við Norðurveg, að ég sæi þar í ákveðnar hættur og sérstaklega þá í fjáröflunaraðferð þeirri sem hér er gert ráð fyrir. Ég minntist þess líka að í þessu frv. er eingöngu talað um Norðurveg. Síðan hlaut þetta meðferð í Nd. og þá er talað um framkvæmdir við Norður- og Austurveg. Sem sagt það er búið að afla fylgis við till. með þeim skilyrðum að Austurvegur verði þar með. Síðan kemur þetta aftur til umr. hér í d. svo breytt og þá er lögð á það öll áhersla að upphæðin, 1200 millj., verði hækkuð vegna Austurvegar upp í 2000 millj. og svo að hún verði hækkuð enn einu sinni upp í 2 500 millj. og fylgi Vestfjarðaþm. tryggt ef Vestfirðirnir komi þar inn líka. Svona vinnubrögð og kaup á fylgi við till. eru mér alveg jafnandstæð nú og var við þær umr. Ég lýsi hreinlega furðu minni á slíkum vinnubrögðum og tel að þau eigi alls ekki að eiga sér stað.

Annars er ég farinn að furða mig meira og meira á því að það er eiginlega sama hvaða till. þm. bera fram, Vestfjarðapólitíkin skal alltaf koma á dagskrá í hvorri d. sem er eða hvort það er í Sþ., Vestfjarðaþm. raða sér á mælendaskrá og vilja alltaf fá sneið af því sem aðrir eru með sem hagsmunamál sinna kjördæma. Þetta er áberandi í mínum augum sem byrjanda hér á hv. Alþ. Ég gat ekki betur skilið en að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, 3. þm. Vestf., sé reiðubúinn til að samþ. þessa fjáröflunarleið, sem hann annars lýsti sig frekar andsnúinn, gegn því að upphæðin renni í Vegasjóð og það yrði þar með tryggt að Vestfirðirnir fengju einhvern skerf. Þetta álít ég að séu alls ekki rétt vinnubrögð. Ef menn eru á móti fjáröflunarleiðinni eða þeir telja að þarna sé ekki rétt að staðið þá eru þeir á móti því hvort sem kjördæmi þeirra fá einhverja sneið af því eða ekki.

Ég benti á það við fyrri umr. hér að það væri mikil hætta á því, að skuldabréf, sérstaklega verðtryggð skuldabréf, væru í það mikilli samkeppni við vinnufé landsmanna að viðskiptabankarnir væru þegar í mjög miklum vandræðum með að starfa eðlilega og þar væri óheiðarleg og óeðlileg samkeppni af hálfu ríkisvaldsins sjálfs við ríkisbankana. Ég er enn þá þessarar skoðunar. Og vegna þeirra ummæla minna og fullyrðinga, sem þá voru viðhöfð og eru nú staðreynd, að frá 1964–1974 hafa þessi skuldabréf meira en tífaldast og sumir segja tólf eða þrettánfaldast í meðförum á meðan erlend lán í dollurum hafa tæplega þrefaldast, þá óskaði ég eftir því að bæði seðlabankastjórar og viðskiptabankastjórar svöruðu því skriflega hvort þeir álitu að hér væri um heppilega fjáröflunarleið að ræða eða ekki og þá hvort þeir teldu að þjóðarbúið þyldi þetta. Þeir svöruðu allir skriflega og töldu að þjóðarbúið þyldi ekki frekari útgáfu á happdrættislánabréfum eða verðtryggðum bréfum yfirleitt, enda kemur það fram í þessu nál., sem ég samþ. með fyrirvara, að nm., sem ekki samþ. þetta nál. með fyrirvara, eru líka hræddir við þá fjáröflunarleið sem hér er farin þó að n. fallist á þessa leið nú. Þeir vilja gera það fyrir flm. að fallast á þessa till. þeirra nú, en það þýðir líka helst aldrei oftar.

Ég furða mig á því að þegar þm. bera fram ágætar till., sem hægt er að framkvæma einu sinni eða kannske oftar, en með löngu millibili, þá skuli svo fljótt vera hlaupið til þeirra sömu hugmynda. Ég held að það hafi verið þm. að austan, þó að ég sé ekki alveg viss um að ég fari með rétt mál, sem bar fram þá hugmynd að fjármagna á þennan hátt framkvæmdir við Skeiðarársand. Og þjóðin öll var samþykk þeim framkvæmdum og tók myndarlega undir fjárfestingu í þessum skuldabréfum. En hér segir í grg. að framkvæmdum á Skeiðarársandi sé nú lokið og sé þá eðlilegt að við taki nýtt stórátak í vegagerð og rétt að nota m.a. þá fjáröflunarleið sem felst í útgáfu á happdrættisskuldabréfum. Og þetta er skrifað á þeim tíma sem við vitum að ríkissjóður þarf að gefa út, ef ég man rétt, 1700–1750 millj. kr. í nýjum bréfum til þess að standa í skilum með þær skuldbindingar sem hvíla á herðum ríkisins til endurgreiðslu á þeim skuldabréfum sem þegar voru að falla í gjalddaga. Svona fjármálapólitík get ég hreint ekki skilið.

Sem sagt, ég álít að þetta séu óheppileg vinnubrögð og óheppileg fjáröflunarleið. Ég er hræddur við hana, ég hef lýst því hér áður. En ég vil stuðla að því að varanlegt slitlag komi á sem flesta vegi úti um land og það sem fyrst. Ég lít ekki svo á að þessir vegir verði neitt greiðfærari á vetrum, eins og hv. þm. Stefán Jónsson kom að í sinu máli. Ég álít ekki að þeir vegir, sem hljóta þá meðferð sem hér er um getið, sem sagt endanlegt slitlag, verði neitt greiðfærari á vetrum. Ég held að þegar vegir eru komnir á kaf í snjó séu þeir ekkert greiðfærari, hvort þeir eru malbikaðir eða ekki malbikaðir, það skiptir ekki öllu máli. (Gripið fram í). Þá hef ég misskilið, fyrirgefið, þeir eru greiðfærari, ég leiðrétti það þá hér með aftur. En aftur á móti ef þm. allra kjördæma vilja sneiða af þessari köku, sem hér er verið að baka, og rífast um þær tekjur landsmanna sem af þessum bréfum koma, af hverju þá ekki að bjóða út skuldabréf fyrir þessa upphæð þar sem hver og einn, sem leggja vill peninga í vegi kringum landið, kaupir þá bréf sem tilheyrir þeim vegarkafla sem um er að ræða? Þá fær þjóðin sjálf að ráða í hvað hún eyðir sínum peningum, hvort það er þá Austurvegur, Norðurvegur eða Vestfjarðavegur, ef það eru sérbréf fyrir hvern kafla fyrir sig, og látum þá reyna á það hvar þjóðin vill sjálf byggja. (St.J: Þá er bara best að hver maður leggi sinn veg.) Ég held að það sé langbest að hv. þm. kveðji sér hljóðs. (StJ: Ég ætla að gera það.)

Þessi aðferð er mér semsagt ekki beint hjartfólgin og ég ætla ekki að fylgja henni, hvorki í þessu máli né öðrum. Þegar þm. eins og sá þm., sem bar þessa fjáröflunarhugmynd fyrst fram gera það og hugmyndin reynist vel, en er íþyngjandi fyrir greiðsluþol þjóðarinnar, þá held ég að við verðum að passa okkur á að misnota ekki aðferðina, nota hana ekki það oft að hún verði ofnotuð og við komumst í greiðsluþrot eins og á sér stað nú um þau bréf sem eru fallin í gjalddaga.

Ég las hér smákafla úr grg. sem fylgdi frv. í upphafi og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta að vitna hér í tvo stutta kafla til viðbótar þar sem allt bendir í sömu átt. Hér á bls. 2 stendur: „Æskilegt væri að ljúka þessum framkvæmdum á 2–4 árum og hefjast þá handa við enn aðrar stórframkvæmdir í vegamálum einmitt með því m.a. að hagnýta happdrættisskuldabréf. En fjáröflun með þessum hætti til meiri háttar vegaframkvæmda gerir það að verkum að meira fjármagn verður til annarra aðkallandi framkvæmda í vegamálum.“

Við vitum að þetta er íþyngjandi fjáröflunaraðferð og við ætlum samt sem áður að halda henni áfram.

Neðar á sömu bls. stendur: „Þess vegna er auðveldast að afla fjár til þessara framkvæmda með skuldabréfaútgáfu. Ef útgáfa þeirra bréfa, sem hér er gert ráð fyrir, gengur vel má hefja ný útboð vegna annarra vegaframkvæmda.“ Þetta er margítrekað. Það er eins og að reynslan kenni okkur ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég skal nú ekki lengja þessar umr. um of. Ég skrifaði undir nál. á þskj. 727 með fyrirvara, eins og þar stendur: „N. mælir því með samþykkt frv., en Albert Guðmundsson skrifar undir með fyrirvara þar sem hann er andvígur þeirri fjáröflunarleið sem hér er gert ráð fyrir.“ Þessi fyrirvari felst í því að ég er samþykkur vegagerðinni, en ég er andvígur fjáröflunarleiðinni. Ég vil ekki spilla fyrir framkvæmdunum með því að vera á móti frv. og mun því sitja hjá við atkvgr. um þetta mál.