14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð um þetta mál. Ég geri ráð fyrir að þm. allir séu um það sammála að hér er nauðsynjamáli sem þarf að koma á, en í mínum huga er þetta fyrst og fremst spurningin um það hvernig að þessu er staðið. Það hefur komið fram hjá hv. síðasta ræðumanni að í heilbr.- og trn. þessarar d. komu fram á fundi, einum stuttum fundi, það margar og að mér finnst mikilvægar aths. við svo margar gr. þessa frv., að það hefði vissulega átt að vera ástæða til þess að tími hefði gefist til að fá gagnrök frá þeim aðilum sem sömdu þetta frv.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það hljóta að vera fyrir því takmörk hvað hv. þm. geta látið bjóða sér að því er varðar vinnubrögð, þó að sé á síðustu dögum þings. Hér er um svo geysilega stórt mál og fjölþætt að ræða að það hlýtur að verða að gefa eðlilegan tíma til þess að málið sé skoðað, þrátt fyrir það að allir séu sammála um efnislega að það þurfi að koma málinu í gegn. Mér hefði fundist tilhlýðilegt af hv. frsm. meiri hl. n. að hann hefði a.m.k. getið þess að á fundi n., þ.e.a.s. öðrum fundi sem um þetta mál var fjallað, gerði formaður stjórnar Viðlagasjóðs, Helgi Bergs, fjöldamargar aths. við margar gr. þessa frv. sem hann taldi a.m.k. að væru þess eðlis að hann teldi nauðsynlegt að skoða betur áður en frv. yrði gert að lögum. Og ég a.m.k. fyrir mitt leyti lít svo á að hér hafi um talað maður sem hefur reynslu í efnum sem þetta frv. lýtur að. Ég fyrir mitt leyti treysti mér vart til þess að gera mér grein fyrir svo flóknu og fjölþættu máli eins og hér er um að ræða, án þess að fá upplýsingar frá sérfróðum mönnum þar um. Og mér finnst það alveg furðuleg vinnubrögð ef þm. láta bjóða sér það, eins og sagt er að hafi gerst í hv. Ed., að það hafi ekki mátt kalla menn til fundar í heilbr.- og trn. þeirrar d. til þess að fá upplýsingar varðandi málið, ég tala nú ekki um að það væri neinn tími til þess gefinn að senda málið til umsagnar einna eða neinna aðila. Slík vinnubrögð eru náttúrlega fráleit og ekki sæmandi þingi og þm. að láta bjóða sér það.

Eins og hér hefur komið fram eru margar aths. við frv., aths. sem allir nm., að ég hygg, í heilbr.- og trn. eru sammála um að sumar hverjar eigi fullan rétt á sér. Hefði því verið eðlilegt að fá höfunda frv. til þess að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þær fjölmörgu aths. sem komu fram í þeim viðtölum þeirra tveggja gesta sem heilbr.- og trn. kvaddi á sinn fund til þess að ræða við. Og það var einmitt þetta sem m.a. mér fannst eðlilegt og óskaði því eftir að a.m.k. einhverjir af höfundum frv. yrðu kvaddir á fund n. til þess að gera grein af sinni hálfu fyrir þeim aths. sem höfðu fram komið. En þetta fékkst ekki. Og ég er alveg viss um að þó að þetta hefði verið gert, að nm. í heilbr.- og trn. hefðu fengið nokkurn tíma til þess að afla sér frekari upplýsinga varðandi málið, þá hefði það ekki þýtt að það hefði þurft að fresta málinu á þessu þingi. Það hefði verið hægt að afgr. það eigi að síður. Ég a.m.k. treysti mér ekki til þess að fella neinn dóm um réttmæti þeirrar gagnrýni sem kom fram hjá þessum tveimur mönnum sem til voru kvaddir, og ég taldi því alveg ótvírætt að okkur bæri skylda til þess að fá á fund n. höfunda frv., þannig að þeir gætu svarað gagnrýni. Þetta fékkst ekki og ég harma það mjög. Ég er viss um að hv. form. heilbr.- og trn. og ég hygg allir nm. þeirrar n. eru okkur sammála um að slík vinnubrögð er vart hægt að þola. Það verður að gefa þm. eðlilegan tíma til þess að fjalla um mál, ekki síst svo stór og flókin mál eins og hér eru á ferðinni.

Ég skal ekki fara út í að rekja hér aths. þær sem fram komu. Það er búið að verulegu leyti að gera það af hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni. En ég ítreka það að mér finnst þetta mál þannig vaxið að það sé óeðlilega að því staðið, vinnubrögð við málið óhæf og að það sé vart hægt að ætlast til þess að þm. almennt geti á nokkurn hátt gert sér eðlilega grein fyrir því hvað felst í þeim aths. sem gerðar hafa verið nú þegar við frv. Og ég vil benda á það að Viðlagasjóður hefur nú samkv. nýsamþykktum lögum heimild til þess að grípa inn í á a.m.k. svipaðan hátt og þetta frv. gerir ráð fyrir að gert verði ef eitthvað slíkt kemur upp á sem menn eru að tala um, þannig að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að Viðlagasjóður geti fram til haustsins gripið inn í þau tilfelli sem upp kunna að koma á þessum tíma.

Mér sýnist á öllu að hæstv. heilbr.- og trmrh., sem mál þetta ber fram, ætli sér að láta málið fara hér í gegn á þinginu og ekki skal ég standa í vegi fyrir því. En ég vil ítreka það að ég mótmæli slíkum vinnubrögðum eins og hér hafa verið viðhöfð og ég tel ekki sæmandi Alþ. og alþm. að láta bjóða sér slíkt.