14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4134 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál í þessari hv. þd. benti ég á ýmsa galla sem mér sýndust augljósir vera á þessu frv. Ég benti á að samkv. því kæmu engar bætur t.d. fyrir hafnarmannvirki, ekki fyrir raforkumannvirki nema þau hús sem eru brunatryggð, ekki fyrir vatnsveitur, ekki fyrir samgöngumannvirki og ekki fyrir neitt land, og ég taldi að hér væru slíkir agnúar á ferðinni að það væri vart stætt á því að setja um þetta lög ef ekki yrði reynt að finna aðferð til iðgjaldagreiðslu vegna þessara eigna, sem tryggðu það, að fyrir skemmdir eða eyðileggingu á þeim kæmu bætur. Ég vænti þess þá að heilbr.- og trn. hefði aðstöðu til þess og gæti tekið frv. til meðferðar og freistað þess að koma inn þessum breytingum, en úr því hefur ekki getað orðið.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt. Í fyrsta lagi að það er algjör samstaða um þetta mál í eðli sínu að mínu mati og í öðru lagi að hér er á ferðinni svo yfirgripsmikið, viðamikið og þýðingarmikið mál að það er vart fært að afgr. það með slíkum hraða á svo stuttum tíma. Ég benti á það um daginn að það mundu ekki falla saman á nokkurn hátt þær reglur sem bætur yrðu greiddar eftir annars vegar frá Viðlagatryggingunni og hins vegar frá Bjargráðasjóði Íslands. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það mundi mjög erfitt að fella saman þessa tvo sjóði eða þessi tvenn lög í ein lög og leggja niður þá t.d. Bjargráðasjóð Íslands vegna þess að veigamikill þáttur í störfum Bjargráðasjóðs er að bæta skaða — sérstaka stórskaða sem verða í landbúnaði, bæta að nokkru marki, ef bændur verða fyrir sérstöku tjóni á bústofni sinum. Hins vegar kann að vera að það sé hægt að samræma aðrar bætur Bjargráðasjóðs, úr hinni almennu bótadeild, Viðlagatryggingarsjóði, en það þyrfti miklu meiri könnun til. Og ef það yrði gert og Bjargráðasjóður lagður niður, þá væri það ekki hægt nema því aðeins að setja lög um búfjártryggingar á Íslandi.

Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt, ef þessi lög verða sett, að þau ásamt lögum um Bjargráðasjóð verði endurskoðuð strax á næsta hausti. Ég undraðist að vísu nokkuð yfirlýsingu hæstv. heilbr.- og trmrh. að það væri til þess hugsað að Viðlagasjóður eða ríkið stæði undir bótum á næstunni ef tjón yrði á þeim eignum sem ég minntist á áðan að væru undanþegnar bótaskyldu. Ég undraðist þetta vegna þess að gert er ráð fyrir þessu í lögunum og ég hef skilið slíka lagasetningu þannig að tryggingin ætti einmitt að standa undir þessu, en ekki þyrfti að koma til kasta ríkisins eða sérstakra aðgerða af þess hálfu.

Ég vil þess vegna freista þess áður en umr. um þetta mál lýkur, herra forseti, að fá fram yfirlýsingu, bæði frá hæstv. félmrh. varðandi Bjargráðasjóð og frá hæstv. heilbr.- og trmrh. vegna Viðlagatryggingarsjóðs, um að þeir beiti sér fyrir því að lög um viðkomandi sjóði verði endurskoðuð á næsta hausti. Ég tel það ekki nóg sem fram kom hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. um daginn þegar hann lýsti því yfir að hann mundi ekki hafa á móti því að lögin yrðu endurskoðuð. Ég tel það ekki nóg. Ég tel nauðsynlegt að hann lýsi því yfir, að hann muni hafa frumkvæði um að þau verði tekin til endurskoðunar strax á næsta hausti og þá mun ég una við það að lögin verði sett eins og nú stendur til.