14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4138 í B-deild Alþingistíðinda. (3390)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar, 6. landsk. Honum fannst, að því er mér finnst á hans ræðu, að það væri óþarfi af okkur að vera að gera aths. við meðferð málsins, það væri að hans áliti eðlilegt þar sem þm. væru með það góða dómgreind almennt til mála að þeir ættu að geta melt þetta á svona skömmum tíma.

Mér datt í hug atvik sem kom fyrir í einum kaupstað hér á landi ekki alls fyrir löngu, þar sem tveir menn voru að ræða saman og rökræddu allharkalega. Þegar komið var í lok þeirra rökræðna og öðrum þeirra fannst hann vera að verða undir í rökræðum, þá afgreiddi hann andstæðing sinn á þann hátt að hann lauk máli sínu með því að segja: „Mér er alveg sama þó að það sé satt, það er lygi fyrir það.“ Mér fannst eitthvað álíka hljóð vera í hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Hann er ekki sannfærður um það — greinilega ekki — að hér sé eðlilega á málum haldið.

Hann tók það fram að þetta frv. hefðu samið færir menn. Það hefur enginn efast um það, enginn dregið í efa að það hafi verið færir menn sem sömdu þetta frv. En það er væntanlega hægt að finna færa menn til þess að semja sennilega öll frv. sem lögð eru fyrir Alþ. þannig að þm. þurfi þá ekkert um þau að hugsa, embættismennirnir geti afgreitt þetta á einu bretti án þess að það komi til þess að þm. þurfi að fjalla um málin eða setja sig inn í þau. Það er þetta sem við erum að gagnrýna, að það sé matreitt svo fyrir þingið að þm. sé ekki gefinn eðlilegur tími til þess að athuga málin, og það er aðalatriðið. En kannske í og með vegna þess, að við erum sjálfsagt allir sammála, nm. í heilbr.- og trn., um að það hafi verið færir menn sem sömdu frv., þá var eðlilegt að gefa þessum færu mönnum kost á því að hrekja þær aths. sem fram höfðu komið bæði frá Helga Bergs sem formanni stjórnar Viðlagasjóðs svo og Erlendi Lárussyni. Þeim hefði væntanlega ekki orðið skotaskuld úr því að koma með gagnrök og sannfæra þá væntanlega hv. nm. heilbr.og trn. um að frv. væri gott eins og það er. Og það var kannske þetta í og með sem var grundvöllur að því að sumir hverjir nm. í heilbr.- og trn. vildu fá viðræður við höfunda frv.

Ég hef ekkert við það að athuga þó að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson dragi í efa viðhorf Helga Bergs, að þau séu rétt. Það hefur enginn dómur verið á það lagður, hvorki af mér né öðrum. Hins vegar fannst okkur það veigamiklar aths. sem hann kom með að það væri ástæða til þess að fá málíð skoðað betur. Það má vel vera að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sé þeirrar skoðunar að þetta mál sé ekki flókið. En ég man ekki betur en að hann væri okkur sammála, og Helga Bergs og Erlendi Lárussyni um ákvæði 13. gr., þar sem segir að heimilt sé að lækka eða synja alveg um bætur, — ég man ekki betur en þessi hv. þm. væri okkur um það sammála eða kannske réttara sagt að hann hafi sannfært okkur um það ásamt Helga Bergs að þetta stæðist ekki tryggingalega séð. Eigi að síður á að lögfesta það þrátt fyrir það að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er sammála Helga Bergs og fleirum um að þetta standist ekki. Ekki einu sinni því má breyta. (Gripið fram í: Ég skýrði mína afstöðu til þess.) Hún er sú að þetta stenst vart tryggingalega séð, sagði hv. þm. Eigi að síður má ekki breyta, Svo kynni að vera um fleiri þeirra aths. sem fram komu hjá þessum tveimur mönnum.

Það hefði verið sjálfsagt, það fannst a.m.k. mér, að fá höfunda frv. til þess að koma með sínar aths. við aths. hinna og sannfæra þá heilbr: og trn.- menn um það, gætu þeir það, að málum væri ekki betur komið á neinn veg annan en þennan, a.m.k. að það væru ekki það miklir ágallar á að það væri ekki eðlilegt að frv. færi í gegn eins og það liggur fyrir. Og það er einmitt þetta sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði í lokin: „Það er ekki hægt að leggja skyldur á menn án þess að þeir fái rétt á móti.“ En það er það sem verið er að gera með ákvæðum 13. gr. eins og hún er nú. Það er verið að skylda menn til þess að borga tryggingu þrátt fyrir það að þeir geti átt á hættu að fá ekkert á móti. Og það er þetta sem stenst ekki. Eigi að síður má engu breyta. Þetta er meðferð sem ég fyrir mitt leyti tel að sé ósæmandi Alþ., að haga vinnubrögðum með þeim hætti og afgreiða mál á þann hátt að það sé a.m.k. fullkomið vafamál hvort það standist. En eigi að síður er svo mikil áhersla á það lögð að keyra málið í gegn, ekki bara fyrir lok þingsins, heldur strax. Það hafa engir sagt það mér vitanlega að þeir vildu tefja þetta mál þannig að það næði ekki fram að ganga á þessu þingi, Það eina, sem óskað hefur verið eftir, er að menn fái hæfilegan tíma til þess að athuga það.

Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, en ég vildi að þetta kæmi fram vegna ummæla hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar.