14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4162 í B-deild Alþingistíðinda. (3402)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Garðar Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál, sem hér er til meðferðar, er býsna stórt í sniðum. Ég fjallaði nokkuð um þetta mál við 1. umr. og minntist á ýmsa þætti þess sem hafa komið enn skýrar í ljós við athugun málsins í n. og í þeim umr. sem nú hafa þegar farið fram við 2. umr. Það er sama um þetta mál að segja eins og svo mörg önnur sem hv. alþm. þurfa að glíma við núna síðustu daga þingsins, að þessu máli upp á nokkur þús. millj. kr. ábyrgð er kastað hér inn á borð alþm. rétt fyrir þinglok algerlega skýringarlaust. Hitt er annað mál að sú n., sem málið fékk til meðferðar, hefur fengið skýringar á nokkrum þeirra hluta sem nauðsynlegt var að kanna áður en málið var afgreitt.

En hinn almenni þm. hefur hins vegar ekki fengið ýkjamiklar skýringar á þessum hlutum öllum því að málið er flókið og fyrirtækið, sem lánið tekur og ábyrgðina fær, er margsamansett og starfar víðar en hér á Íslandi og hefur dótturfyrirtæki í öðrum heimsálfum.

Ég held að það sé vægt að orði komist þegar maður segir að það sé óhætt að átelja þessa málsmeðferð. Sannleikurinn er sá að það er ætlast til þess að hinn almenni þm. afgreiði þetta stóra mál án þess að vita nokkurn skapaðan vegna þeirrar gömlu reglu að þeim verði fyrirgefið af því að þeir viti ekki hvað þeir gera?

Ég legg áherslu á það að mér er ljós nauðsyn flugrekstrar á Íslandi og nauðsyn þess að flugsamgöngur séu greiðar á milli landa. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hver nauðsyn er fyrir íslenska ríkið að styrkja með stórkostlegum fjárhæðum flug milli Lúxemborgar og Ameríku eða flug félagsins Air Bahama, sem mun vera í eigu Hekla Holding Company í New York. Og það mál allt saman væri þess virði að það væri rætt hér nánar.

Hæstv. samgrh., sem talaði hér við umr. fyrr í dag, var greinilega ekki allt of hress í sambandi við afgreiðslu þessa máls og ég heyrði ekki betur en hann reyndi í sinu máli að koma með ýmsa fyrirvara sem þó var hvergi að finna í frv. sjálfu. Hæstv. ráðh. ræddi þar ýmsa hluti og m.a. að það væri nauðsynlegt að vernda áætlunarferðir Flugfélags Íslands og Flugleiða og það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir að leiguflugfélög tækju kúfinn ofan af þegar margir farþegar væru til flutnings, en létu svo áætlunarflugfélögin um að sjá um það, þegar um minna væri að flytja. Hann minntist einnig á ákveðið mál sem rætt hefur verið nokkuð hér í fjölmiðlum að undanförnu. Það var þegar flugfélagi nokkru hér á landi var neitað um að flytja hóp skandinava hér á milli og það var gert í þeim tilgangi að vernda Flugleiðir. Það kom hins vegar á daginn, eins og hæstv. ráðh. sagði, að það var leiguflugfélag í Danmörku sem fékk flutningana. Slíkt má alls ekki koma fyrir. Það má ekki passa svo vel upp á þetta óskafyrirtæki vissra aðila að komið sé í veg fyrir að eðlilegt leiguflug geti verið á höndum íslendinga einnig.

Það má líka geta þess að Flugfélag Íslands eða Flugleiðir hafa nú einkaleyfi til þess að fljúga til Kanaríeyja á þeim forsendum að þeir reki þar fastar áætlunarferðir á milli. Þeir, sem skoða það mál, eru fljótir að sjá að þessar föstu áætlunarferðir Flugfélagsins til Kanaríeyja eru ekki til, heldur er þar um hreint leiguflug að ræða, sem er verndað fyrir þetta félag. Og ég get ekki séð að það samrýmist skoðunum hv. sjálfstæðismanna, a.m.k. sem þeir segjast hafa stundum á hátíðlegum stundum í þinginu, nm frjálsa og eðlilega samkeppni.

Hér er hins vegar um ábyrgðarspursmál að ræða, hvort eigi að veita þessu fyrirtæki svo mikla ábyrgð sem nemur á 3. milljarð kr. Þegar veittar eru ábyrgðir fyrir lánum skoðar venjulega sá, sem ábyrgðina ætlar að veita og á að vera ábyrgur fyrir ef eitthvað fer úrskeiðis, hvernig fjárhag þess fyrirtækis er háttað sem lánið fær. Það kom fram í umr. í dag að veð félagsins væru búin og ekki væri um neitt veð að ræða nema sem næmi verðmismun á flugvélunum, þ.e.a.s. muninum á því verði sem Flugleiðir geta keypt vélarnar á, og hins vegar á því verði, sem nú í dag er talið markaðsverð. Slíkt markaðsverð getur breyst mjög fljótt og það er enginn vafi á því, að markaðsverð þessara véla fer lækkandi, þótt ekki væri nema vegna þess að það er hætt að framleiða þessa tegund fyrir þremur árum. Það er kannske ekki höfuðatriðið í sambandi við þetta mál, vegna þess að flugvélarnar geta verið í fullu gildi og nothæfar nokkuð mörg ár í viðbót, og haldið sínu notagildi. En söluverðmætið hins vegar fer örugglega hraðlækkandi þar sem aðrar mjög vinsælar flugvélategundir af sömu stærð eru komnar í gang um allan heim.

Með þessari ábyrgð er verið að hækka ábyrgð ríkisins á skuldum Flugleiða hf. upp í upphæð sem nemur samtals yfir 4 000 millj. kr. Ég hélt að það væri dálítið forvitnilegt fyrir hv. alþm. að reikna lauslega út hversu mikið flugfélagið þarf að greiða í vexti og afborganir af þessu láni einu sem nú að veita ábyrgð fyrir þó að horft sé fram hjá álíka háum skuldum fyrirtækisins. En vextir og afborganir af þessu láni eru lauslega reiknaðir á ári fyrstu 6 árin um 700 millj. kr. Það er hins vegar tala sem maður kannast nokkuð við vegna þess að á tveimur undanförnum árum hefur félagið tapað einmitt upphæð sem nemur þessari tölu. Tap félagsins á undanförnum tveimur árum er jafnmikið og félagið þarf að greiða af þessu láni einu á ári. Það er þess vegna sýnilegt að ef ekki verður breyting til batnaðar í flugrekstri og ef ekki verður meiri og betri útkoma hjá fyrirtækinu á þessu og næstu árum, þá stendur félagíð alls ekki undir vöxtum og afborgunum af þessu stórkostlega láni. Það þýðir ósköp einfaldlega að Ríkisábyrgðasjóður verður að taka á sig baggann og sá baggi er ekki lítill. Hann er mörg hundruð millj. kr. árlega. Það þýðir aftur að ríkið er hreinlega að styrkja Flugleiðir sem nemur þessari upphæð á ári hverju. Það er ekki aðeins að styrkja Flugleiðir til þess að halda uppi eðlilegum flugrekstri innanlands og milli landa, heldur er öllum ljóst sem fylgst hafa með þessu að þeir eru jafnframt að styrkja Flugleiðir til þess að hafa betri samkeppnisaðstöðu við keppinauta sína hér á landi.

Mér finnst einhvern veginn að þessar staðreyndir séu í nokkuð miklu ósamræmi við allt tal manna hér í hv. d. um frjálsa samkeppni og heilbrigða samkeppni o.s.frv. Og ég er viss um það að ef hv. þm., fulltrúi einokunarhringsins, Sverrir Hermannsson, væri á móti þessu máli, þá hefði hann verið fljótur að grípa til samþykkta landsfundar Sjálfstfl. og stefnuskrár eins og hann gerði hér í vetur sem frægt er orðið. (Gripið fram í.) Af þessari upphæð eru 5 millj. bandaríkjadala í beint rekstrarlán handa fyrirtækinu, ég vil undirstrika það. Það eru 5 millj. dollara í beint rekstrarlán handa fyrirtækinu. Hvernig er staða samkeppnisaðilanna þegar keppinauturinn fær upp í hendurnar og að því er má segja frá ríkinu 750 millj. Ísl. kr. til þess að geta staðíð betur í samkeppni við þá? Ég átti ekki von á því að sumir hv. þm, mundu vilja standa að því að styrkja einokunaraðstöðu Flugleiða. En síst átti ég von á því, að eftir að hafa fylgst með auglýsingasamkeppni ferðaskrifstofa, þ.e.a.s. auglýsingasamkeppni Flugleiða og ferðaskrifstofa sem það félag rekur og annarra, vildu menn nú endilega láta ríkið koma þessum sterkasta aðila til aðstoðar með því að styrkja reksturinn með svo háu rekstrarláni.

Virðulegi forseti. Ég ræddi þessi mál allnokkuð við 1. umr. og ég vil ekki verða til þess að tefja mjög þann stutta tíma þingsins sem eftir er. Þó vil ég endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að þetta mál er aðeins eitt af þeim sem hægt er að finna að hvernig farið er með hér inn á mesta annatíma þingsins. Hverju stórmálinu er kastað inn af öðru sem þm. eiga að afgreiða og það hlýtur að hafa í för með sér að venjulegir þm. hafa alls ekki tíma til þess að kanna málin nægilega rækilega. Og það læðist að manni sá grunur þegar maður skoðar þetta mál í heild að sú aðferð hafi verið vísvitandi notuð einmitt til þess að koma í veg fyrir nægilega góða skoðun á málinu í heild.