14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3427)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Eyjólfur K. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að andmæla máli því, sem hér er á dagskrá, og ýmsu því, sem fram kom í máli hv. flm., þótt ég hins vegar sé sammála sumu því, sem hann sagði, og þ. á m. því meginatriði er varðar starfshætti Alþ. sem ég leyfi mér að koma að nokkru síðar.

Að undanförnu hefur allmikið veríð rætt um kjör alþm. og nokkuð sýnst sitt hverjum. Og varla leikur á því vafi að frv. þetta er fram komið í tilefni þeirra umr., enda er það rökstutt með því að óeðlilegt sé að þm. einir manna ákveði launakjör sín, eðlilegt sé að kjaradómur fjalli um þau eins og önnur laun hins opinbera. Á það hefur raunar verið bent að ekki sé ástæða til þess að ætla að kjaradómur mundi ákveða laun þm. lægri en þingið sjálft gerir og það hygg ég, að sé rétt skoðun.

En meginástæðurnar fyrir því að ég er andvígur frv. þessu, eru tvær. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að Alþ. ræður sjálft starfsháttum sínum og hlýtur að gera ef það vill ekki glata í senn virðingu landslýðs og sjálfsvirðingu sinni. Þingið hefur það þess vegna í valdi sínu að ákveða lengd þingtíma á ári hverju, starfstíma í hverri viku og á hverjum degi, Það getur m.ö.o. ráðið vinnutíma þm. Og þm. sjálfir vita gerst hve mikill hann er og ættu þess vegna að vera til þess hæfastir að úrskurða um þingfararkaup og vera menn til að gera það. Kaleikurinn ætti ekki að vera tekinn frá þm., svo að vitnað sé til orða hv. flm., sem taldi að þennan kaleik ætti frá þm. að taka. Ég tel að hann eigi ekki frá þeim að taka. Hann sagði einnig að þm. ættu að vera því fegnir að þurfa ekki að ákveða laun sín sjálfir. Ég efast ekki um að sumir væru því fegnir að þurfa ekki að gera það, en ég tel, eins og ég sagði áðan, að þeir eigi að vera menn til að gera það.

Og þar er komið að hinni ástæðunni, þeirri að þm. eiga ekki sífellt að vera að færa ábyrgð frá sér og þar með áhríf og völd. Auðvitað orkar allt tvímælis sem hér er gert og auðvitað eru þm. gagnrýndir fyrir ákvarðanir um þingfararkaup eins og allt annað. Ég hef skilið það svo að við þm. værum kjörnir til að bera ábyrgð og axla gagnrýni eða eins og Bjarni Benediktsson einhvern tíma orðaði það eitthvað á þessa leið: Stjórnmálamenn eru til að skamma þá og þeir fá laun fyrir. — Mín skoðun er sú að þm., hver einstakur þeirra og þingið í heild, eigi að bera meiri ábyrgð, en ekki minni en nú tíðkast og vera reiðubúnir að rísa undir gagnrýninni, ekki að þverskallast við, ef rangt hefur verið gert, eða berja hausnum við steininn, heldur hlýða á raddir, skiptast á skoðunum og breyta um stefnu ef þeir sannfærast um að í ranga átt horfi. Og það hygg ég raunar að sé nú um starfshætti Alþ., því miður.

Þegar ákvörðun var tekin um það árið 1971 að stórhækka laun þm. og greiða þeim laun allt árið var ég staddur í þessum sal sem varaþm. og leyfði mér þá að bera fram brtt. um nokkru lægri laun þm. en ákveðin voru, en jafnframt að því ákvæði, að þm., sem embættum gegndu úti á landi, fengju aðeins greidda 3/7 hluta embættistekna sinna, yrði breytt. Ég lagði til, að þm. sem þannig væri ástatt um, héldu helmingi tekna sinna og þar með embættunum í raun réttri og væri þá til þess ætlast að þeir sinntu embættunum sem svaraði helmingi eðlilegs vinnutíma. Benti ég á að í nýmæli því, sem verið væri að lögfesta, fælist yfirlýsing af löggjafans hálfu um að líta bæri á þingmannsstarfið sem 81/2 mánaða starf á ári hverju, en þeir, sem önnur störf hefðu með höndum jafnframt þingmennsku, gætu ekki sinnt þeim nema sem svaraði til 31/2 mánaðar árlega ef ekki er tekið tillit til eðlilegra sumarfría, en ella væri þingmannsstarfið um 8 mánuðir og tími til annarra starfa rúmir 3. Við þessar umr. sagði ég það m.a. skoðun mína að það væri mjög óheillavænleg þróun ef þingtími yrði verulega lengdur. Þvert á móti teldi ég ástæðu til að leitast við að stytta hann, bæði þann heildartíma, sem þing situr að störfum ár hvert, og eins mætti gjarnan koma við meiri störfum í þinginu á færri dögum víkunnar en nú er ef skipulega væri að unnið. Hvort tveggja þetta mundi mjög auðvelda þm. að sinna öðrum störfum en þingmennskunni, ekki einungis þeim sem búa í Reykjavík og nágrenni, heldur einnig þm. sem eiga heima fjær, og mun það þó einkum verða svo í framtíðinni er samgöngur fara stórlega batnandi.

Hv. flm. gat þess að lögin 1971 hefðu verið samþ. hér í þingi shlj. Ég var þá í þinginu, eins og ég gat um áðan, og andmæli þeim skoðunum sem þá voru uppl. Með hliðsjón af þeim orðum sem hann lét falla og gáfu til kynna að engin rödd hefði um annað heyrst en þann hátt sem þá var upp tekinn, þá leyfi ég mér að vitna hér í örstuttan kafla úr þeirri ræðu, sem ég þá flutti, orðrétt, með leyfi forseta. En þar segir:

„Hin mikla launahækkun þm, er rökstudd með því að störf þeirra fari nú stórum vaxandi. Ég hygg að hitt sé sönnu nær, að kjörin hafi verið allt of rýr og þm. réttilega til þess fundið að þeir gátu ekki úr býtum laun á borð við aðra sem svipaða vinnu leggja af mörkum og svipuðum hæfileikum eru gæddir, enda útgjöld þm. margvísleg og mörg dæmi eru þess að menn hafi ekki treyst sér til að takast stjórnmálastörf á hendur af fjárhagsástæðum. Á þessu er sjálfsagt að ráða bót. En slík ákvörðun má undir engum kringumstæðum leiða til þess að grundvallarbreyting verði á aðstöðu manna til stjórnmálaafskipta. En sem betur fer hefur það verið svo að þm., sem ekki gegndu sérstökum trúnaðarstörfum í stjórnmálum umfram þingmennskuna, hafa allir eða a.m.k. flestir haft með höndum hin margbreytilegustu störf í þjóðfélaginu og ekkert dregið af sér við þau, hvort heldur hefur verið búskapur eða skrifstofustörf. Ég tel að það hafi verið til mikillar gæfu að þm. flestir hafi verið í nánum tengslum við atvinnuvegi þjóðarinnar og hin margháttuðu störf í þjóðfélaginu. Ég held að það hafi verið þeim styrkur og þar með löggjafarsamkundunni. Og ég dreg meira að segja í efa að það hafi íþyngt mönnum eða gert þeim lífið erfiðara að sinna hálft árið öðrum störfum en stjórnmálavafstri. Þvert á móti hygg ég að sjóndeildarhringur þm. mundi þrengjast ef þeir eiga ekki að ganga til annarra starfa, og ég held líka að þeir mundu þá þreytast fyrr en ef þeir geta gengið að öðrum störfum en stjórnmálum verulegan hluta ársins. Mér er ljóst að ekki eru allir sammála þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að reyna að takmarka lengd þingtímans og gera þm. kleift í sem ríkustum mæli að sinna öðrum störfum en stjórnmálum. Hefur þeim rökum jafnvel verið hreyft gegn þeim skoðunum, sem ég hér flyt, að embættismannavald styrkist nú svo að nauðsyn beri til að þm. hafi aðstöðu til þess mestan hluta ársins að fylgjast með störfum embættismanna og koma í veg fyrir að þeir, sem ekki hafa veríð kjörnir til þess fulltrúar af þjóðinni, ráði ráðum hennar í stöðugt vaxandi mæli.

Mér er spurn: Er það líklegast til þess að draga úr embættismannavaldi að bæta við nokkrum tugum embættismanna, að allir þm. yrðu einungis embættismenn og sinntu ekki öðrum störfum? Menn svara því sjálfsagt til að frv. taki einungis til þeirra sem hvort eð er gegni embætti, annars vegar sem þm. og hins vegar sem embættismenn í öðrum ríkisstofnunum, ekkert segi þar um það hvernig fara skuli um launakjör þeirra þm., sem störf hafa hjá einkafyrirtækjum eða sveitarfélögum og ekki heldur hjá hálfopinberum stofnunum eða fyrirtækjum. En hætt er við því að stjórnendur stórra fyrirtækja, sem ógjarnan vildu liggja undir gagnrýni, hneigðust til þess að styðjast við reglur ríkisvaldsins í þessu efni, og er ekki nokkurn veginn ljóst að sú stefnuyfirlýsing, að ekki sé gerandi ráð fyrir því að alþm. geti sinnt öðrum störfum nema svo sem eins og í ársfjórðung, leiði til þess að þingtíminn lengist jafnt og þétt og menn hverfi frá öðrum störfum, a.m.k. ábyrgðarstörfum? Eða hví skyldi embættismaður útí á landi vera að halda í embætti sitt ef hann á ekki nema tveggja kosta völ, annað hvort að sinna því eins vel og honum er unnt samhliða þingmennskunni, þ.e.a.s. nota a.m.k. helming starfskrafta sinna í þágu embættisins og vinna þá helming þess tíma launalaust, eða hinn kostinn, að gegna embættinu aðeins sem svarar ársfjórðungi og sitja þá í óþökk flestra því að slík embættisfærsla yrði auðvitað gagnslítil, en auk þess stæði hann í vegi fyrir því að aðrir fengju viðkomandi embætti? Mergurinn málsins er að mínu viti sá, að það væri mjög óæskileg þróun og ég vil segja hættuleg þróun ef eingöngu ættu að sitja á þingi svokallaðir atvinnustjórnmálamenn og hver sá, sem til þingmennsku veldist, ætti þegar í stað að hverfa með húð og hári inn í þann ágæta hóp sem þar situr, en úr sinni stétt í sveit eða bæ.“

Hér lýkur þessari tilvitnun. Eins og þeir, sem hlustuðu á frsm. hér í fyrradag, víta, þá var hann mjög á þessari sömu skoðun og ég setti fram fyrir nokkrum árum. Og ég er enn í einu og öllu sömu skoðunar og þegar ég mælti þessi orð. Og það sem verra er, þróunin hefur verið og er að verða sú sem ég óttaðist og tel að til mikilla óheilla horfi. Nú er t.d. flutt um það þáltill. af hv. þm. Sigurði Blöndal og Helga F. Seljan að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að undirbúa lög og reglur sem feli í sér að alþm. sitji ekki í fastlaunuðum embættum eða störfum á vegum hins opinbera. Þessi till. er raunar táknræn um málatilbúnað hér á hv. Alþ. á síðustu tímum. Menn leggja það ekki lengur á sig að ganga sjálfir frá lagafrv., heldur fela það ríkisstj. og embættismannavaldi með þál. Þetta á ekki við um flm. þess máls sem hér er til umr. því að þeir flytja um það frv. En ég get ekki stillt mig um að vekja á þessu athygli til gamans, ekki vegna þess að þeir hv. þm., sem þáltill. flytja, hagi sér eitthvað öðruvísi hér en við hinir, heldur einmitt til að undirstrika að ábyrgð og vinnusemi Alþ. hefur ekki vaxið með hinu nýja fyrirkomulagi og árslaununum.

Ég hef nú um 8 ára skeið verið gestur hér á hinu háa Alþ., setið á hverju þingi í nokkrar vikur sem varamaður. Einhvers staðar segir að glöggt sé gests augað, og í von um að það sé það í þessu tilfelli eins og öðrum leyfi ég mér að láta í ljós þá skoðun að starfshættir Alþ. hafi ekki batnað síðan ákvörðun var tekin um hið nýja launafyrirkomulag á árinu 1971. Mér er nær að halda að þeir hafi því miður versnað.

Ég get auðvitað ekki fullyrt að þetta stafi af hinum breyttu háttum um launagreiðslur og þeirri stefnu að þm. eigi helst ekki að sinna öðrum störfum en þingmennskunni, en ég hygg þó að það eigi ríkan þátt í þessari þróun. Raunar geta menn bent á það að bæði hér á landi og í öðrum lýðræðisríkjum hafi vandamál hrannast upp á undanförnum árum sem gert hafi það að verkum að stjórnmálamenn jafnt sem aðrir eigi erfiðara með að fóta sig en áður var þegar meiri stöðugleiki ríkti og festa í stjórnmálum. Þetta kann að orka einhverju um það hve störf margra þjóðþinga og ríkisstj. hafa verið laus í reipum. Aðrir kunna á það að henda að kjördæmaskipun okkar leiði fremur til lausungar en festu, og raunar hallast ég að því og tel að tímabært sé að taka kjördæmamálið til rækilegrar skoðunar og leitast við að hagnýta kosti einmenningskjördæma og þá ábyrgð, sem með þeim er lögð á hvern einstakan þm., samhlíða því sem réttlætis sé gætt gagnvart minnihlutaflokkum, t.d. með fyrirkomulagi á borð við það sem tíðkast í Frakklandi eða Þýskalandi. En um kjördæmamálið skal ég ekki ræða að sinni, enda er það ekki beint á dagskrá.

En það er annar háttur sem mér virðist nú tíðkast í ríkara mæli en áður var og ég vil hér gera að umræðuefni, enda hygg ég hann vera í nánum tengslum við þá stefnu að þjóðnýta alla alþm., ef ég má svo að orði komast. Mér virðist nú meira gert að því en áður var að fela þm. margvísleg störf í nefndum og ráðum og stofnunum utan þings og er það einn liðurinn í því að búa til 60 atvinnustjórnmálamenn, hvort sem það er nú beinlínis haft í huga í hverju einstöku tilfelli eða ekki, Hitt er ljóst, að það ber við að þm. beinlínis bítast um bitlingana, ekki einungis af hugsjónum eða til að láta gott af sér leiða, heldur til að treysta aðstöðu sína og bæta launakjör. Þeir eru í vaxandi mæli nauðugir viljugir að verða háðir þingmannsstarfinu til lífsframfæris og þeir helga sig, eins og það er orðað, stjórnmálunum í stöðugt vaxandi mæli. Það hlýtur að vera framtíðin að styrkja sjálfa sig í hinu pólitíska völundarhúsi, segja þeir og hugsa, úr því að stjórnmálin eiga að verða ekki einungis aðalstarf, heldur eina starf þeirra sem að þeim gefa sig. Ég held að hollt sé að við séum ekkert að fara eins og kettir í kringum heitan graut. Það stefnir í þá átt að mynda hér hina nýju stétt, stétt atvinnustjórnmálamanna sem óhjákvæmilega einangrast meir frá íslensku þjóðlífi en vera mundi ef þm. almennt sinntu öðrum störfum hálft árið eða svo. Mér liggur við að segja að hætta sé á því að Alþ. verði klúbbur, enda er það nú tíska að helst þurfa allir að vera í klúbbum og hví þá ekki þm. eins og aðrir?

Ég held, að fjöldi þeirra, sem sæti hafa átt í þessari virðulegu stofnun, hafi litið á störf sín hér sem þjónustustörf, en ekki bisniss. Ég held að menn hafi yfirleitt ekki hugsað sér að hagnast á þingmannsstörfum né heldur gert það, þvert á móti hafi menn tekið þátt í stjórnmálum af hugsjónum þótt þeir hafi vitað að þeir sköðuðust á því fjárhagslega. Sumir hafa boðið sig fram til þings vegna þess að þeir hafa talið að þeir hafi þar mál að flytja, en aðrir vegna áskorana og hvatningar þeirra sem best treystu þeim. Menn hafa hér ekki orðið háðir þingmannsstarfinu af fjárhagsástæðum heldur þvert á móti. Þeir hafa getað hugsað sér að staldra hér við eitt eða tvö kjörtímabil, en snúa sér síðan á ný eingöngu að þeim störfum, sem þeir þekktu eða höfðu sérmenntað sig til að sinna. En hræddur er ég um að á þessu sé að verða breyting og teiknin um það leyna sér ekki ef grannt er skoðað.

Flutningur frv. þess, sem hér er til umr., og þáltill. þeirrar sem ég áðan gat um, er gott tilefni til frjálslegra umr. um þessi efni, enda stendur það engum nær en þm. sjálfum að ræða opinskátt bæði um starfshætti Alþ. og launakjör alþm. Og mín skoðun er enn sem fyrr sú að breyta ætti starfsháttum Alþ. Í fyrsta lagi hygg ég að þing ætti á ári hverju að standa skemur en nú er, t.d. 2–21/2 mánuð að hausti og aftur að vori. Þá væri unninn fastur vinnutími, t.d. frá 9 á morgnana og til 7 á kvöldin, e.t.v. með hléi milli 11 og 2 þar sem þm. gætu sinnt ýmiss konar erindum og rætt við umbjóðendur sína. Nefndarstörfin yrðu sem fyrr unnin á morgnana, en skipulögð miklu betur en nú er gert, en þingfundir og þingflokksfundir stæðu síðari hluta dagsins. Lengst af þingtímanum væri nægilegt að starfa í 3 daga með þessum hætti, þ.e.a.s. mánudag, þriðjudag og miðvikudag, en síðan gæti þorri þm. horfið til annarra starfa samhliða stjórnmálaþátttöku síðari hluta vikunnar, þar með taldir utanbæjarþm., eftir því sem samgöngur batna. Ef svo væri lítið á að laun þm. væru nú hæfileg árslaun ber að lækka þau, enda þá gert ráð fyrir að þm. hafi af öðrum störfum tekjur sem svara nokkurn veginn til hálfs árs launa. En ég vil taka skýrt fram að ég er ekki einn þeirra sem telja laun þm. of há nú miðað við það að þeir sinni lítt eða ekki öðrum störfum, því að vissulega hafa þm. margháttuð útgjöld sem aðrir þurfa ekki að bera.

Ég minnist þess að um þessi mál urðu miklar umr. hér á hinu háa Alþ. fyrir nokkrum árum. Ég hygg að það muni hafa verið árið 1968. Þá benti Bjarni Benediktsson á þau sjónarmíð sem ég hér hef gert að umræðuefni og hv. flm. þessa máls einnig ræddi um. Þessi mikli leiðtogi þings og þjóðar sá þá þegar á lofti teikn þess sem síðar hefur orðið og varaði við þeim. Nú er að mínu mati tímabært að þingið stingi við fótum og komi í veg fyrir að Alþingisklúbburinn verði að raunveruleika. Auðvitað er mér ljóst, að helstu forustumenn flokka geta naumast sinnt öðrum störfum en stjórnmálum, en það á hins vegar alls ekki við um fjölda þm. Þvert á móti væri það betra fyrir þeirra eigin sálarheill og hamingju þjóðarinnar að þeir sinntu margháttuðum þjóðnýtum störfum samhliða þingmennsku og yrðu ekki háðir stjórnmálunum, heldur reiðubúnir að sinna ýmsum þýðingarmiklum störfum jafnt utan þings sem innan, Ég hygg að ábyrgð þm., starfsgleði og afköst mundu aukast, en ekki minnka, ef slíkur háttur yrði upp tekinn.

Ég hygg, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að samhliða því sem þm. skipuleggja betur starfshætti Alþingis, þá eigi þeir að bera ábyrgð á þeim launakjörum sem þm. hafa hverju sinni, og þess vegna er ég andvígur frv. Hitt er aftur á móti alveg ljóst, að engin launung má hvíla yfir launagreiðslum til alþm., eða þeim sérstöku greiðslum sem þeir hafa til ferðalaga, dvalarkostnaðar o.s.frv. Allt slíkt á að vera aðgengilegt fyrir hvern og einn og að mínu mati ekki einungis hinar almennu reglur sem gilda, heldur beinlínis að hver sem er geti kynnt sér hvað hver einstakur þm. og einstakur varaþm. hefur fengið greitt af opinberu fé vegna ferðalaga, dvalarkostnaðar, símakostnaðar o.s.frv., enda hygg ég að handahóf ráði að nokkru í því efni, ekki vegna þess að starfsmenn Alþingis vilji mismuna mönnum, heldur af hinu, að þm. gangi misjafnlega ríkt eftir því að fá slíkar greiðslur af hendi inntar. Allt þetta á að mínu mati að liggja ljóst fyrir og enginn að kinoka sér við því að grein sé gerð fyrir fjárheimtu hans úr ríkissjóði. Almenningur á vissulega heimtingu á að vita ekki aðeins eitt, heldur allt í því efni og þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir á hverjum tíma, en ekki seint og um síðir.

En úr því að ég á annað borð hér að framan hef talsvert fjallað um starfshætti Alþingis langar mig til að víkja að einu furðufyrirbæri, Eins og menn vita er það meginregla helguð af stjórnarskránni að fundir Alþ. skuli haldnir í heyranda hljóði, auðvitað vegna þess að landslýður á heimtingu á því að fá að vita hvað sagt er og gert í þinginu. En þrátt fyrir þetta stjórnarskrárákvæði er framkvæmdin sú að þeim mönnum, sem eiga að koma á framfæri því sem í þinginu gerist, fréttamönnunum, er gert eins erfitt fyrir og frekast er hægt að hugsa sér. Þeir hafa að vísu nú allra síðustu árin sæmilega vinnuaðstöðu hér uppi á lofti, en þeim er stranglega bannað að nota hjálpartæki. Þeir mega ekki taka upp umr. á segulbönd nema starfsmenn útvarpsins. Á alla hina fréttamennina er litið sem njósnara og afbrotamenn ef þeir dirfast að reyna að taka upp umr. þannig að þeir séu hæfari til að skýra rétt og satt frá öllu sem gerst hefur. Og starfsmenn útvarps og sjónvarps þurfa raunar að leita sérstaks leyfis til þess að taka upp umr. og útvarpa þeim hverju sinni. En ekki nóg með þetta. Í viðbót eru um það reglur að fréttamenn geti ekki fengið útskrift af ræðum þm. frá skrifstofu Alþingis þótt búið sé að vélrita þær nema með sérstöku leyfi viðkomandi þm. Þessi afstaða er einna helst rökstudd með því að þm. hafi leyfi til að leiðrétta málvillur og mismæli sem okkur þm. öllum verða að sjálfsögðu á. Slíkur fyrirsláttur er auðvitað alveg út í bláinn. Í fyrsta lagi getur það engan drepið þótt honum verði það á að misstíga sig í orðavali. Í öðru lagi eru blaðamenn ekki þannig gerðir að velta sér upp úr slíkum saklausum mistökum, nema þá til gamans, og einnig það eigum við „virðulegir“ þm. að þola. Í þriðja lagi er alveg ljóst að miklu meiri hætta er á því að rangt sé skýrt frá umr., þegar fréttamaðurinn þarf að styðjast einungis við það sem hann heyrir einu sinni, en vera mundi ef hann hefði ræðuna skrifaða fyrir framan sig. Og raunar er þess að gæta að blöðin hafa ekki mannafla til þess að hafa hér að staðaldri tvo fréttamenn sem fylgst geta með umr. í báðum deildum, þannig að fréttamennirnir þurfa sífellt að vera að skipta á milli þess að hlýða á umr. í Nd. og Ed.

Sú þröngsýni að leyfa fréttamönnum ekki að notast við segulbandstæki og meina þeim aðgang að vélrituðum ræðum þm., jafnvel þótt þær hafi verið yfirlesnar, er að mínu mati með öllu óverjandi. Þvert á móti ætti að sjá til þess að allar fréttastofur hefðu aðgang að umr, hér í þinginu strax og þeim er lokið, að vélritun færi fram jafnharðan og enginn hörgull yrði á fréttamiðlun. Ég vona að forsetar þingsins, hv. forsetar eða hæstv. forsetar á ég víst að segja, taki þetta mál til athugunar og beiti sér fyrir umbótum. Skulu það verða mín lokaorð, að öðru leyti en því að mig langar til að koma á framfæri við fólk þeirri málaleitan að það hætti að titla þm. og ráðh. utan þings hv. og hæstv. þótt okkur sé ætlað að gera það hér í þingsölunum. Á vinstristjórnartímunum færðist allt titlatog mjög í vöxt, enda voru þá meðal ráðamanna þeir sem mest gangast upp við hvers kyns snobbi þótt þeir þykist sérstakir umboðsmenn alþýðunnar. En mál er að linni.