14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3428)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í raun og veru finnst mér að það sé tæplega tími til þess að ræða þetta mál að þessu sinni þar sem annríki síðustu þingdagana er svo mikið sem raun ber vitni um. En fyrst þetta mál er hér til umr. langar mig að segja mína skoðun á því og hef til þess sérstaka ástæðu.

Þegar þingi lauk í sumar hafði ég setið 20 þing, og mér var það hugstætt þegar ég fór þá heim frá þingslitum að ég hef aðeins setið í tveim þn. Önnur þn. var að mínu mati eftirsóknarverð og ánægjuleg, það er fjvn. Það er sú n. sem ég hef alltaf borið mesta virðingu fyrir af n. þingsins og hef alltaf lítið mjög upp til og haft ánægju af störfum í þeirri n. Hin var þfkn. og þangað var ég neyddur af flokksmönnum mínum af því að ég sat ekki í öðrum nefndum. Að sjálfsögðu tók ég þátt í störfum þeirrar n. eins og hinir, en var óskaplega atkvæðalítill þar um og það var reglulega leiðinleg nefnd. Ég var því einn af þeim þm. sem undirbjuggu lög um þingfararkaup alþm., þau sem nú gilda.

Ég minnist þess að þegar ég fór á þann fund hafði verið rætt í flokki okkar um afstöðu til þess hvort við skyldum vera með því að Alþ. ákvæði sjálft launin eða setti þau í kjaradóm. Ég þori nú ekki að fullyrða um afstöðu þm. þar yfirleitt, en a.m.k. var það svo að ég hafði fullt umboð til þess að fylgja minni skoðun í því að vera með málinu um að það yrði látið ganga til kjaradóms. Ég stóð því að till. í þfkn. um að slíkt yrði gert. Þáv. forseti þingsins, Birgir Finnsson, og nokkrir aðrir þfkn.-menn voru andstæðir þessu og töldu að þingið ætti ekki að afsala sér þessum rétti frekar en öðru. Ég er því fylgismaður þessa frv. Ég hef ekki skipt um skoðun á því þótt ég sitji nú öðrum megin við borðið en ég sat þá.

Ég ætla ekki að fara að segja frá hugmyndum mínum um launakjör þm. á þessum nefndarfundi því að blaðið, sem ég var með í vasanum og var búinn að skrifa á hugmyndir mínar, dró ég aldrei upp því að ég sá að ég yrði mér til hálfgerðs athlægis ef ég sýndi það. Það voru aðrir sem höfðu forustu um þessi mál á fundinum og út í það fer ég ekki. Ég ætla ekki heldur að fara að ræða sérstaklega um launakjör alþm., en hef þó, að ég tel, allmikla reynslu af þeim, m.a. af kjörum þm. utan af landsbyggðinni og þeirra sem hér búa. Það var þannig 15 ár, sem ég sat á þingi, að þá var fjölskylda mín uppi í Borgarnesi. Ég var því hér eins og einhleypur maður að því leyti að heimilið var ekki hérna. Ég varð því að fá mér fæði á veitingastöðum hér og þar og kann í sambandi við það eina dálítið góða sögu og ég held að það sé nú orðið svo á kvöldið liðið að ég segi frá henni. En eins og hv. þm., sem hér hafa setið, þekkja, þá er maður allvel í holdum þótt nokkuð hafi af mér gengið nú upp á síðkastið.

Stundum kom það fyrir mig að ég fór að reyna að halda í við mig út af holdafarinu og borðaði því bara hádegismat og annað ekki. Þetta gekk illa til megrunar og ég mæli ekki með þessari leið til þeirra verkana. Hins vegar gerðist það að Björn bóndi á Löngumýri, sem þá sat hér á þingi, var spurður að því í heimabyggð sinni — en menn þar kunna að meta hvort menn eru efnaðir eða ekki — hvort þeir væru efnaðir, þingbræður hans í Framsókn, Hermann Jónasson sat þá hér á þingi og Björn sagði að þar væri enginn efnaður nema hann og Hermann. Þá spurðu þeir um einstaka menn og þ. á m. um mig. Þá sagði Björn: „Nei, ég held að hann sé nú ekki ríkur, étur einu sinni á dag.“ Þetta hafði ég út úr þessari megrunaraðferð og það var ekki lítils virði.

Hins vegar er eitt af því sem ég tel nauðsynlegt að við breytum þessari aðferð, að þingmenn ákveði sjálfir sín launakjör. Ég er ekki á þeirri skoðun að það sé nein niðurlæging fyrir þingið, eins og ég er ekki á þeirri skoðun að það sé niðurlæging þó að maður breyti afstöðu til mála ef maður sjálfur er sannfærður um að betri kantur komi upp en maður hugði. Og ég lít svo á, að eins og kom fram í ræðu hv. fyrri flm., þá sé það ekki óeðlilegt þó að kjaradómur fjalli um þessi mál eins og um mál ráðh. og hæstaréttardómara. Ég álit að það væri í raun og veru mjög eðlilegt að hann gerði þetta eins og hann fjallaði um mál þeirra.

Það er líka önnur ástæða fyrir því að ég legg verulega upp úr þessu. Sú ástæða er að það umtal, sem orðið hefur um þetta mál, er hreint ekki lítið. Við skulum gera okkur grein fyrir því, hv. alþm., sem viljum vega Alþ. og viljum búa við þingræði og höfum þá lífsskoðun að ekkert stjórnarfar sé betra en þingræðið, að við verðum að gera allt sem við getum til þess að halda virðingu þess og veldi í landinu. En þegar tæki eins og sjónvarp og útvarp eru komin, þá er ekki víst að hægt sé að koma svo til skila þessum málum að þjóðin sé sannfærð um að þm. geri rétt með því að ákveða sjálfir laun sín. Ég minnist þess frá sjónvarpsþáttum í vetur að meðal þeirra, sem þar tóku þátt í, var einn af þeim mönnum sem að mínu mati eru með færustu sjónvarpsmönnum okkar — ég hef oft lent í þáttum hjá þeim manni — þessi maður er Eiður Guðnason. Ég hef alltaf treyst honum og mér hefur fundist hann vera harður spyrjandi, hann vissi um hvað hann var að tala og það var yfirleitt gott að fá spurningar frá honum. Það er eitt skipti sem ég hef horft á Eið Guðnason ræða mál í sjónvarpi þar sem mér fannst hann ekki vera samkvæmur sjálfum sér. Mér fannst hann ekki hafa fullt vald á skapgerð sinni eða spurningum og t.d. fannst mér það afar mikið lýti á svo ágætum sjónvarpsmanni eins og honum að hann virti forseta Alþingis ekki sem skyldi í þeim þætti, að láta hann t.d. gera fyrst grein fyrir þessum málum sem var auðvitað sjálfsagt fyrst hann var með í umræðunum. Og það eru mjög slæmir hættir hjá sjónvarpi og útvarpi, sérstaklega er það leiðinlegt í sjónvarpi, þegar þeir, sem fyrir svörum sitja, verða að troða sér áfram eins og fé á jötu. Þetta eru siðir sem góðir sjónvarpsmenn eiga að forðast. Þessi þáttur var með þeim hætti að það var ekki það gagn að honum fyrir Alþ. sem skyldi. Og það var m.a vegna þess að það voru allt of margir menn, bæði spyrjendur og svarendur. Það hefði verið langeðlilegast, að þar hefðu verið forseti þingsins og formaður þfkn. og í hæsta máta að skrifstofustjórinn hefði þá verið líka — en þó er það mikil spurning — til þess að þetta kæmi eðlilega til skila. Og ég er alveg sannfærður um að slíkir þættir, þótt ágætismenn séu í þeim, geti, ef þannig er á þeim haldið, orðið til tjóns fyrir Alþ.

En Alþ. er, eins og ég sagði áðan, stofnun sem þjóðin þarf að virða. Eins og nú er komið hafa menntaðir og ágætir menn í okkar þjóðfélagi ótal möguleika og það er fullt af mönnum sem væru reiðubúnir til þess að taka þátt í þingstörfum, en kæra sig ekki um að gera það vegna þess hvað þm. eru útataðir og þeim lýst eins og hálfgerðum misindismönnum og hafa í raun og veru ekki rétt til þess að verja sig sem skyldi. Menn vilja þess vegna ekki leggja síg í þetta. Ég óttast að þróunin geti orðið sú að það einmitt hverfi inn á þessa braut ef ekki er haldið svo vel reisn Alþ. sem nauðsyn ber til. Og við megum, hv. alþm., gæta okkar í því efni. Þótt við séum kappsfullir og deilum hart sem andstæðingar, þá megum við gæta okkur á því að vera alltaf að tala um þessi og þessi vinnubrögð Alþ. Allir flokkar, sem nú eru á Alþ., hafa átt aðild að ríkisstj. og allir hafa lent í því að verða að afgreiða mikil málefni á síðustu stundu fyrir þinghlé og þingslit. Enda vitið þið það, hv. alþm., að þá er búið að sitja í þessum málum í n. og aftur n. og vinna þar aðalstörfin og þetta er lokaþátturinn sem við sjáum um. Þess vegna þurfum við að gæta okkar á því að gera ekki lítið hver úr öðrum þó að okkur mislíki eða höfum út á þetta að setja. Tímans vegna má ég ekki fara langt út í þau mál sem ég hefði þó gjarnan viljað koma að í þessum umr.

Ég vil í samræmi við það, sem ég sagði hér áðan um afstöðu mína til alþm., geta þess að þegar lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var breytt í minni fjmrh.- tíð og tekin var upp sú regla að þegar búið var að gera rammasamning, þá var samið við einstök félög fyrir sína hópa, þá bauð ég Alþ. að starfsfólk Alþ. kæmist inn í lögin og fengi þar sín réttindi og skyldur og við það væri samið á þennan hátt. Því miður var sú ákvörðun ekki tekin hér að það yrði gert. Hins vegar hefur þróunin orðið sú síðan að það er farið að semja fyrir starfsfólk Alþ. með því að taka mið af þessum launaflokkum og hliðstæðu starfsfólki. Ég held að það hefði betur farið að þetta hefði verið gert eins mg ég lagði til.

Ég vil svo segja það í sambandi við það, sem hér hefur komið fram um atvinnupólitíkusa og ekki atvinnupólitíkusa, að ég er alveg sammála hv. 1. flm. og því, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að það sé ekki æskilegt að þm. hafi þingsetu eingöngu að starfi. Ég hef ekki þá skoðun. En ég hef hins vegar þá reynslu að það er afskaplega erfitt að sameina þetta, a.m.k. fyrir menn utan af landsbyggðinni. Ég var 12 ár sveitarstjóri og þm. og ég tel mig meðalþrekmann, en ég gafst í raun og veru upp á því af því að mér fannst þetta orðið óframkvæmanlegt, að sinna þessu hvoru tveggja var svo mikið erfiði og að mínu viti svo mikil áhætta. Ég átti svo mikið undir því komið hvernig starfsmenn ég fékk, því að ég taldi mig bera höfuðábyrgð á öllum fjármálum þau 12 ár sem ég var einnig þm., að ég ákvað að hætta þessu, enda óttaðist ég eftir því sem ég tók meiri þátt í þingstörfunum og flokkurinn kvaddi mig til fleiri starfa að fyrir þetta gæti starf mitt liðið. Hins vegar verð ég að segja það að umskipti mín um launakjör í þessu sambandi voru ekki æskileg og auðvitað kemur það ekki málinu við því að ég réð þar mestu um sjálfur. En það er mikill misskilningur að halda að embættismenn utan af landsbyggðinni séu vel haldnir með 34% launa. Ég t.d. vil í þessu sambandi nefna einn samþm. minn úr Vesturl. sem er sýslumaður í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Ég þekki það að það er afskaplega langt frá því að hann gegni ekki störfum í sýslumannsembættinu nema um sumartímann. Hann fer heim um hátíðir og helgar og hann vinnur í þeim hér. Í umtali og öðru þar vestra er hann talinn bera höfuðábyrgðina á þessu embætti og af því að gera það fyrir 30% af launum er enginn maður ofhaldinn. Þess vegna er það nú mitt mat að við ákvörðun á þessu, þegar þetta var ákveðið síðast, þá hafi þarna verið misráðið.

Ég vil líka segja það að enda þótt ég sé fylgismaður þess að menn þurfi að sinna öðrum störfum, þá endurtek ég að það er afskaplega erfitt að koma því fyrir og menn þreytast afar mikið á því þegar fram líða stundir og flestir gefast í raun og veru upp á þessu. Þarna kemur annað sem er líka nokkurt mál í sambandi við launakjör þm., og það er að í tvennum síðustu kosningum hafa fallið menn við kosningarnar sem voru þá algerlega atvinnulausir. Þeir voru farnir út úr öllum þeim störfum, sem þeir höfðu sinnt, og sátu eftir atvinnulausir þegar þeir vorn farnir sem þm. Við þessu er auðvitað ekkert annað að segja en það að menn velja þetta og þá verða þeir að gangast undir það. En á þessu vil ég nú vekja athygli því að þetta er ekki neitt smár þáttur. Hins vegar er ekki nokkur vafi á því að það er afskaplega mikils virði að vera í tengslum við atvinnuvegina. En það er erfitt að vera bóndi eða skipstjóri eða framkvstj. fyrir fyrirtæki og vera jafnframt þm. Allt þetta er afskaplega erfitt að sameina. Þess vegna fer það svo, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þeir menn, sem fara verulega í pólitíkina, lenda í þessu sem aðalstarfi og það er erfitt að komast fram hjá því.

Ég skal svo fara að stytta mál mitt, en vil að lokum segja það að menn hafa rætt hér — m.a. kom það fram í þessum nefnda sjónvarpsþætti — um kjör sem þm. utan af landi höfðu í sambandi við fæði og annað þess háttar. Það kom t.d. ekki fram í þessum þætti sem ég heyrði í fyrra í fyrsta sinn af því að ég er ekki vel að mér í verkalýðs- og stéttarmálum hér, að eitt af þeim atriðum, sem var deilt um við kjarasamningana þá og mér þótti broslegt þegar ég heyrði það, það var línan um Fúlalæk. Það er lækur hér austur í bæ, ég veit ekki vel hvar hann hefur verið, en búið er að byrgja hann. En þeir, sem vinna fyrir austan þann læk, hafa rétt á fullu fæði hjá vinnuveitanda sínum, en ef þeir vinna vestur í bæ hafa þeir það ekki. Sjálfsagt er talið, að ef opinberir starfsmenn eða aðrir fara í ferðalög út um landsbyggðir á vegum síns fyrirtækis, þá fái þeir borgað fæði og annað því um líkt á þessum ferðalögum og dettur engum í hug að hafa neitt við það að athuga, enda mundu margir þessir menn eyða öllum sínum launum ef þeir hefðu ekki þennan rétt. Sama er um bílakeyrsluna og annað því um líkt. Ferðakostnað fá menn greiddan þegar þeir fara vegna starfs síns. Og ef, eins og kom fram hjá forseta sameinaðs Alþingis í vetur, kannaður yrði akstur þm. vegna starfs síns og þeim greiddur bilakostnaður eins og öðrum opinberum starfsmönnum, þá held ég að fáir yrðu fyrir neðan þá upphæð sem þm. er nú ætluð þessa vegna. Og ég get sagt það, þó að það komi ekki þessu máli við í raun og veru, en ég hef reynslu fyrir því, að þau ár sem ég var hér einhleypur og heimilislaus, þá var minn kostnaður við fæði og þess háttar eins mikill og konu minnar og þriggja krakka heima. Þó held ég að ég geti sagt það með nokkrum rétti að ég sé ekki eyðslumaður um daglegar nautnir í sambandi við hótel eða þess háttar. En ég hafði engan hagnað af þessu. Þetta er hins vegar erfitt að sannfæra menn um.

En ég vil að lokum segja það að ég tel fulla ástæðu til að þm. hugsi það með mikilli gætni að þeir eiga ekki að vera að streða við það að ákveða sjálfir sín kjör. Þeir eru með því að stofna þingræðinu sjálfu í hættu og það megum við síst af öllu gera. Þess vegna eigum við — þótt það verði ekki á þessu þingi, það dettur mér ekki í hug — að taka menn, einn mann úr hverjum flokki, og láta taka þessi mál til athugunar og endurskoða lög um þingfararkaup og þess háttar. Það ber brýna nauðsyn til þess því að okkur ber höfuðskylda til þess að verja Alþ. svo að þingræðinu sé ekki hætta búin. Ég tek undir það að við eigum að reyna að halda í það að menn geti sinnt öðrum störfum. Þó eiga að vera viss störf eins og bankastjórastörf og dómarastörf, ef dómaskipuninni yrði breytt þannig, eins og ég tel eðlilegt, að dómarar yrðu yfir stærri svæðum og væru ekki bundnir við sýslumannssvæðin eins og þau eru núna, — það eru viss störf þar sem menn yrðu að velja á milli þingmennskunnar og starfsins, en almennt eiga þeir að vera í starfi og þá á að reyna að tryggja þeim það. Þetta er afstaða mín til málsins, og ég mun fylgja þessu máli hver sem kann að verða flm. að því meðan ég sit á Alþingi.