14.05.1975
Neðri deild: 89. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4188 í B-deild Alþingistíðinda. (3458)

241. mál, þingfararkaup alþingismanna

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Kaup og kjör þm. hafa verið í sviðsljósinu allverulega á undanförnum árum og kannske einna mest nú hina síðustu mánuði. Ég tek undir með öðrum hv. þm., sem á það hafa bent, að það er ekki nema eðlilegt að þessi mál séu rædd opinberlega og vissulega á ekki að vera neitt á huldu hvað hér er um að ræða, hvert hið raunverulega kaup þm. og kjör eru á hverjum tíma. Ég tek einnig undir það að ég tel það mjög miður farið að frv. það, sem hér liggur fyrir, skuli hafa verið hér lagt fram. Ég tel að það mundi setja virðingu Alþ. mjög niður ef það yrði gert að lögum, sem ég er þó ekki hræddur um að verði. En ég harma að það skuli hafa verið gengið það langt að þm. skuli hafa fundið hvöt hjá sér til þess að bera fram slíkt frv. Og ég tek einnig undir það, að ég tel verst af öllu að það skuli vera borið fram nú þegar þm. liggja undir nokkru ámæli hjá þjóðinni af misskilningi sem fram hefur verið settur um kaup þeirra og kjör.

Ég tel að það beri að undirstrika að það er mjög hæpin túlkun að halda því fram, eins og fram hefur komið í blöðum og fjölmiðlum, að þm. sjálfir ákveði laun sín og kjör. Það hefur verið bent á það hér að laun þm. eru samkvæmt tilteknum launaflokki sem er samkv. lögum frá árinu 1964, og a.m.k. þeir þm., sem eftir þann tíma hafa komið inn á þing, verða varla gerðir ábyrgir fyrir því að þeir séu sjálfir að skammta sér laun sín. Það er einnig í lögum frá 1964 svo ákveðið að þfkn. skuli ákveða kjör þm. og þau hlunnindi sem þm. eru í té látin. Ég vil undirstrika það og benda á að það hefur, frá því að Alþ. var endurreist, verið svo að Alþ. sjálft hefur ákveðið kaup og kjör þm. og mun þfkn. ætið hafa haft með höndum að taka slíkar ákvarðanir.

Ég tel að það sé nauðsynlegt að það komi fram hver þróun þessara mála hefur verið, tel það nauðsynlegt vegna Alþ. sjálfs, því að ef sá misskilningur á að halda áfram hjá þjóðinni eins og nú er að þarna sé um eitthvað óeðlilegt að ræða, þá ber að sjálfsögðu að leiðrétta það. Eftir að ég heyrði það í fjölmiðlum, í sjónvarpi og útvarpi, að laun þm. væru frá 200 til 250 þús. kr. á mánuði þá hlaut maður að hrökkva við og fara að athuga hvað væri hið raunverulega rétta í þessum málum. Ég harma það að opinberir fjölmiðlar, eins og útvarp og sjónvarp, skuli fara með víllandi upplýsingar um mál eins og hér er um að ræða, því að það er engum til góðs, en þjóðinni í heild til tjóns, þegar er verið að afflytja og gefa rangar og villandi upplýsingar eins og gert var í sjónvarpsþætti sem hér hefur verið minnst á, þar sem þar var haldið fram að kaup þm. væri 200–250 þús. kr. á mánuði. Að vísu var því bætt við, að segja má með smærra letri: a.m.k. þeirra sem einhver aukastörf hefðu. En ég hygg að almennt hafi verið skoðað svo að þetta væri hin fasta regla, að þetta væri hið raunverulega kaup þm., sú upphæð sem þar var nefnd, 200–250 þús. kr. á mánuði, sem gera þá yfir árið 2.4–3 millj. kr.

Hvert fastakaup þm. er vita allir orðið. Það hefur verið birt og er það gott. Ég hygg að það sé engin deila um það eða menn telji þá ákvörðun neitt óeðlilega þótt þm. hafi verið settir í launaflokk með forsvarsmönnum og forstjórum hinna ýmsu ríkisfyrirtækja. Það, sem hefur valdið meira umtali, eru hlunnindi sem þm. utan Reykjavíkur, þm. utan af landsbyggðinni hafa nú og hafa haft áður. Ef það er skoðað hver þróun hefur orðið í þessum málum, þá sýnir það sig að í dag eru þessi hlunnindi, miðað við verðbreytingar síðan þau fyrst voru ákveðin, nokkru minni en þau hafa áður verið. Ég fletti upp fundargerðabók þfkn. og vil t.d. benda á það að árið 1955 voru dagpeningar þm. ákveðnir 115 kr. á dag eða röskar 3000 kr. á mánuði. Það er að sjálfsögðu ekki gott að ákveða við hvað á að miða ef gerður er samanburður við verðlagsþróun, en ef tekin er sú þróun sem hefur orðið í launamálum, t.d. hjá verkalýðsfélögunum, þá sýnir það sig að þessi hlunnindi þm. eru mun minni en þau voru þegar þau voru fyrst ákveðin árið 1955. Þau munu í dag vera um 34 þús. kr. og þó að húsaleigupeningum, sem nú eru 23 þús. kr., sé bætt þar ofan á, þá kemur samanlagt út hlutfallslega lægri upphæð í dagpeninga og húsaleigupeninga en þfkn. ákvað árið 1955.

Það atriði, sem mjög hefur verið haldið á lofti, að þm. sjálfir ákvæðu þetta, það er eins og ég segi mjög hæpin túlkun því að ég held, að það hafi verið alla tíð föst regla, að þfkn. hefur verið látin ein um að úrskurða þetta. A.m.k. veit ég það síðan ég tók sæti á Alþ. að þá hafa aldrei verið bornar upp í þingflokki Sjálfstfl. ákvarðanir þfkn., heldur hefur hún tekið sínar ákvarðanir sjálf og tilkynnt það síðan til skrifstofu Alþ. sem hefur tekið þær þá til meðferðar og framkvæmdar. Það verður því ekki sagt með neinum rétti að þm., ekki heldur í þessu tilfelli, séu að ákveða kjör sín sjálfir, heldur er þetta gert af þeirri n. sem lögum samkv. ber að gera þetta. Það hefur ekki mér vitanlega, a.m.k. í Sjálfstfl., nokkurn tíma verið borið undir flokkinn eða þm. hvort þeir teldu ákvörðun n. rétta eða ekki. Auðvitað bera þm. ábyrgð á gerðum þfkn., þannig að að því leyti má segja að þeir beri ábyrgð á þessu. En að þeir hafi tekið um það beina ákvörðun, eins og mjög hefur verið látið að liggja, það er ekki rétt.

Ég vil ítreka það, sem ég sagði í upphafi máls míns og hefur mjög greinilega komið fram hjá öðrum þm. sem um þetta hafa rætt, að ég mundi telja mjög miður farið og mundi beinlínis telja að Alþ. setti mikið niður ef það færi inn á þá braut að láta einhvern aðila utan Alþ. taka um þetta ákvarðanir. Það hefur réttilega verið á það bent að Alþ. ber að taka miklu viðameiri ákvarðanir og stærri ákvarðanir en hér er um að ræða, og ég tel að það sé höfuðnauðsyn að það sé í meðvitund þjóðarinnar að Alþ. sé æðsta stofnun þjóðarinnar á hverjum tíma og að þeir menn, sem þar sitja, eigi að vera þess umkomnir að ákveða þetta sjálfir, en Alþ. verði ekki sett undir neina aðra stofnun til þess að taka ákvarðanir eins og hér um ræðir. Við það mundi að mínum dómi Alþ. sem stofnun setja mjög niður og væri það illa farið.

Ég benti á það áðan að ég tel mjög miður að það skyldu vera ríkisfjölmiðlar sem urðu til þess að koma því umtali af stað sem undanfarna mánuði hefur verið um þessi mál, af því að þar er byggt á ónógri þekkingu og röngum forsendum. Ég get ekki fallist á það sem hv. 3. þm. Austf. sagði hér að sá útvarpsþáttur, sem þar mætti í sem formaður þfkn., hefði snúið þessu máli við, sem sagt að Alþ. hefði verið hreinsað af öllu þessu, því að ef menn hafa hlustað á leiðara hinna ýmsu landsmálablaða undanfarna mánuði, þá hefur þar mjög verið áberandi sú afstaða, sem kom fram hjá fjölmiðlum upphaflega, að þarna væri ýmislegt athugunarvert frá hendi þm. og að það væri ekki nóg að þeir ákvæðu kaup sitt og kjör sjálfir, heldur jafnvel að þessi hlunnindi þeirra og kaup þeirra og kjör kæmu ekki fram á skattaframtölum eins og ætti að vera og almennt væri hjá starfsmönnum sem laun tækju hjá ríkinu. Alþ. liggur nú undir þessum ásökunum og hefur ekki tekist að mínum dómi nægilega að gera grein fyrir hinu rétta í þessu máli, hvert hið raunverulega kaup og kjör þm. eru og að þetta er ákveðið nú eins og hefur verið gert frá fyrstu tíð, af Alþ. sjálfu og af þeirri nefnd sem til þess er kjörin og ég lít á sem nokkurs konar kjaradóm fyrir þm. því að hún hefur fengíð um það algert sjálfdæmi á hverjum tíma að ákveða kaup og kjör þm.

Það er nú orðið það framorðið að ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umr. En ég vona að frv. eins og hér um ræðir sjái ekki dagsins ljós aftur á komandi hausti eða nokkurn tíma síðar því að ég tel að virðing Alþ. mundi setja mikið ofan í augum þjóðarinnar ef þm. sjálfir litu svo á að þeim væri ekki treystandi til að taka þær ákvarðanir sem nauðsynlegt er að gera í sambandi við kaup þeirra og kjör á hverjum tíma.