14.05.1975
Efri deild: 92. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4202 í B-deild Alþingistíðinda. (3471)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Ragnar Arnalds (frh.):

Herra forseti. Eins og ég nefndi í upphafi míns máls eru það einkum tvær hliðar á þessu máli sem þurfa athugunar við. Í fyrsta lagi til hvers fénu verði varið og í öðru lagi hvernig fjárins er aflað. Ég hafði rætt allítarlega um það sem þyrfti að hafa forgang í vegagerð hér á Íslandi og mun víkja nánar að því á eftir, en vil nú víkja að þeim þætti málsins sem snertir fjármögnunina og hina fyrirhuguðu útgáfu happdrættisskuldabréfa.

Ég vil þá byrja á því að kynna hér umsagnir sem bárust um frv., en þar var um að ræða að bankastjórn og bankaráð Búnaðarbankans, Landsbankans og Útvegsbankans sendu sameiginlega umsögn um frv., sem er harla óvenjulegt í þingstörfum, en átti sér stað í þessu tilvíki vegna þess að viðkomandi aðilar töldu málið vera það brýnt. Mun ég nú lesa umsögnina:

„Á undanförnum 10 árum hefur ríkissjóður árlega selt almenningi verðtryggð spariskírteini og hefur þessi sala verið mjög aukin á undanförnum árum. Þá var einnig hafin sala verðtryggðra happdrættisskuldabréfa vegna vegagerðar á Skeiðarársandi. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er ráð fyrir því gert að sala verðtryggðra skuldabréfa verði enn stórlega aukin og heimiluð útgáfa slíkra bréfa vegna vegagerðar um allt að 2 000 millj. kr. á næstu 4 árum.

Þegar sala skuldabréfa er aukin er að sjálfsögðu ekki unnt að gera ráð fyrir að sparnaður aukist að sama skapi. Meginhluti andvirðis bréfanna kemur frá tilfærslu eldri sparnaðar, þ.e. menn taka innistæður úr sparisjóðsbókum og öðrum bankainnistæðum og verja þeim til kaupa á bréfunum. Að einhverju leyti stafa fjármunirnir einnig frá tekjum ársins, sem varið er í þessu skyni. En það má jafnframt gera ráð fyrir að sá sparnaður hefði hvort eð er komið fram í öðrum myndum og þá fyrst og fremst sem aukning bankainnstæðna. Það er því fullvíst að aukin sala skuldabréfa muni að yfirgnæfandi hluta ganga út yfir aðra myndun sparnaðar og þá fyrst og fremst bankainnistæður.

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á um hversu háar upphæðir er að ræða. Árleg útgáfa verðbréfa samkv. frv. er 500 millj. kr., sbr. að aukning spariinnlána í öllum viðskiptabönkum er 5 200 millj. kr. á árinu 1974. Nú greiða bankarnir 22% af innlánsaukningu sem bindifé til Seðlabankans og lána Framkvæmdasjóði 10% samkv. samningum. Þeir hafa því ekki nema 68% af innlánaaukningunni til ráðstöfunar eða um 3 500 millj. kr. Hin fyrirhugaða árlega verðbréfaútgáfa samkv. frv. er 14% þessarar upphæðar og kemur hún að sjálfsögðu til viðbótar sölu spariskírteina og happdrættisverðbréfa vegna framkvæmda á Skeiðarársandi. Horfur eru á því að verði þetta frv. samþ. muni heildarútgáfa verðtryggðra skuldabréfa á árinu 1975 geta numið yfir 1 600 millj. kr. sem samkv. ofansögðu er nærri því helmingur af þeirri aukningu spariinnlána sem bankarnir höfðu til ráðstöfunar á árinu 1974.

Þegar um sölu verðtryggðra skuldabréfa er að ræða standa bankarnir illa að vígi í samkeppni um spariféð þar sem þeim er ekki heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum hliðstæð kjör. Eina tæki bankanna í slíkri samkeppni eru vextirnir. Má því gera ráð fyrir að aukin sala verðtryggðra skuldabréfa leiði m.a. til þess að halda verði hærri vöxtum en ella hefði verið ástæða til.

Hlutverk bankanna í miðlun sparifjár er alkunnugt. Rekstrarfé fyrirtækja í öllum greinum kemur frá bönkunum að öðru leyti en því sem það myndast innan fyrirtækjanna sjálfra. Þar að auki miðla bankarnir miklu fé til fjárfestingarfyrirtækja, einkum á byggingartíma áður en lán fæst úr fjárfestingarlánasjóðum. Það, sem til opinberra framkvæmda og starfsemi fjárfestingarsjóða er varið, kemur frá bönkunum með reglubundnu framlagi þeirra til Framkvæmdasjóðs ríkisins, sem um mörg undanfarin ár hefur numið 10% af aukningu innistæðna. Þá sjá bankarnir sveitarfélögum fyrir árstíðabundnu rekstrarfé og styðja þau til margs konar framkvæmda. Síðast en ekki síst lána bankarnir hluta af ráðstöfunarfé sinn til almennings vegna íbúðabygginga og margs konar persónulegra þarfa.

Á árinu 1974 námu lán til atvinnulífsins 81% af heildarútiánum viðskiptabankanna, lán til almennings 13% og til sveitarfélaga og annarra opinberra aðila 6%. Eru þá ekki talin með samningsbundin lán til Framkvæmdasjóðs.

Verði sala verðtryggðra skuldabréfa aukin hlýtur það að rýra getu bankanna til að sjá fyrir þeim þörfum sem að framan hefur verið gerð nokkur grein fyrir. Þar að auki stendur svo á að á þessu ári og á næstu tveimur árum munu sumir bankanna þurfa að endurgreiða Seðlabankanum háar upphæðir sem þeir fengu að láni frá honum á s.l. ári þegar hröð aukning verðbólgu skyndilega jók þörf rekstrarfjár í atvinnulífinu, en dró jafnframt úr aukningu sparifjár. Bankarnir munu því á næstunni eiga mjög örðugt með að sinna eðlilegri eftirspurn eftir lánsfé og sérhver dráttur í myndun bankainnistæðna mun því skipta enn meira máli en við aðrar aðstæður. Það, sem um er að ræða við afgreiðslu áðurnefnds frv., er því blátt áfram hvort Alþ. kýs að stórauka vegaframkvæmdir á kostnað starfsemi atvinnuveganna og þarfa almennings sem sinnt hefur verið með aðstoð bankanna. Eins og ævinlega verður í þessu efni að velja og hafna.

Með tilliti til þess, sem hér hefur verið sagt, vilja bankastjórnir neðangreindra banka hvetja til ítrustu varfærni í öllum ákvörðunum um sölu skuldabréfa og í veitingu heimilda til slíkrar sölu. Þeirrar varfærni er vissulega ætíð þörf, en þó aldrei frekar en nú.

Virðingarfyllst,

f.h. bankastjórnar Búnaðarbanka Íslands,

Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands.

Jónas Haralz. Jóhannes Elíasson.

Stefán Hilmarsson.“

Líklega er það ekki algengt að bankastjórnir þriggja voldugra ríkisstofnana sendi Alþ. bréf og hafi uppi mjög eindregin tilmæli í ákveðna átt sem ekkert tillit er síðan tekið til við afgreiðslu málsins og erindið jafnvel tæplega kynnt í þinginu. Það mun ekki oft sem slíkt gerist. En það er einmitt það sem hefði gerst hér ef ég hefði ekki kynnt þetta bréf hér.

Ég vil snúa mér að öðru bréfi sem n. barst, en það er frá bankastjórn og bankaráði Iðnaðarbankans og fjallar um sama mál, en bankastjórn og bankaráð Iðnaðarbankans óska eftir því að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við Alþ.:

„1. Með frv. þessu er stefnt að stórauknum lántökum ríkisins hjá almenningi með því að bjóða lánskjör sem öðrum er ekki unnt að keppa við. Gera verður ráð fyrir, meðan annað ekki sannast, að slíkar lántökur auki ekki á sparnað landsmanna. Það fé, sem almenningur notar til kaupa á slíkum verðtryggðum bréfum til ríkissjóðs, er því tekið af öðrum sparnaðarformum og þá fyrst og fremst innistæðum í bankakerfinu. Langmestur hluti þeirra fer til fjármögnunar atvinnulífsins og er því með skuldabréfaútgáfu ríkisins verið að færa lánsfé frá atvinnulífinu til opinberra framkvæmda. Miklar lántökur ríkisins hjá almenningi geta því raskað stórlega fjármagnsmarkaðnum í landinu.

2. Engar áætlanir eru til um arðsemi þeirrar vegagerðar sem hér um ræðir. Almennt séð eru vegabætur taldar arðvænleg fjárfesting, en nauðsynlegt er að skipta vegakerfinu eins og öðrum opinberum framkvæmdum í álags- eða notkunarsvæði og miða framkvæmdir við arðsemi hvers svæðis.

3. Það er að voru mati mjög varhugavert að leggja jafnmikla greiðslubyrði á ríkissjóð á jafnfáum árum og hér um ræðir. Nauðsynlegt er að dreifa greiðslum vegna svo mikilla framkvæmda á miklu fleiri ár.

4. Vér erum andvígir þeirri stefnu að Alþ. ákveði skattlagningu á skattgreiðendur framtíðarinnar án þess að nokkur viti hve mikil hún verður.

5. Eins og fram hefur komið leggjum vér ekki dóm á skynsemi þeirra framkvæmda sem lagt er til að ráðist verði í, enda eru upplýsingar um kostnað og arðsemi ekki til. Hins vegar erum vér mjög andvígir þeirri fjármögnunaraðferð sem lögð er til í frv. og leyfum oss því að mæla eindregið gegn samþykkt frv. í þessari mynd.“

Ég vil gera þá aths. við það bréf, sem ég hef hér lesíð frá stjórn Iðnaðarbankans, að þarna er haldið fram mjög líkum röksemdum og ég hafði gert við 1. umr. þessa máls. Bankastjórnin hefur ekki neitt við það að athuga að meira fjármagni sé varið til vegagerðar en ella yrði ef frv. yrði ekki samþ., en leggur áherslu á það að mestu máli skiptir um hvaða verkefni yrði þarna að ræða, og það er einmitt það sem ég hef lagt þunga áherslu á.

Í öðru lagi leggur stjórn Iðnaðarbanka Íslands og bankaráð þunga áherslu á það, sem ég hafði einmitt rætt við í. umr, málsins, að verið væri að leggja þunga byrði á skattgreiðendur framtíðarinnar án þess að nokkur viti hve mikil þessi byrði yrði, Og í þriðja lagi er verið að benda á það að ríkissjóður getur tæplega valið sér fjármögnunaraðferð sem verður honum jafnþungbær og einmitt þessi fjármögnunaraðferð. Í fjórða lagi er svo lögð áhersla á það sama og hinar bankastjórnirnar höfðu gert í bréfi sínu, þ.e.a.s. að með þessu sé verið að draga verulega úr því fjármagni sem bankarnir hafa til útlána til annarra þarfa og verði því að sjálfsögðu að meta þá fjárfestingu, sem hér sé verið að ráðast í, með hliðsjón af því sem dregst saman við það að bankarnir hafa ekki eins mikið fjármagn til útlána.

Ég sný mér þá að umsögn Seðlabanka Íslands, en sú umsögn er einan jákvæðust af þeim umsögnum sem bárust um frv. Ég sleppi hér upphafsorðum bréfsins, en Seðlabanki Íslands segir um þetta efni:

„Fjármögnun opinberra framkvæmda með vísi. tölutryggðum lánsútboðum innanlands hefur færst í aukana á undanförnum árum. Sala slíkra verðtryggðra skuldabréfa hefur almennt gengið vel, enda hefur verið um takmarkaðar upphæðir að ræða. Þó er þegar fengin reynsla af því að þessi markaður er háður miklum sveiflum eftir almennu efnahagsástandi. Á þenslutímum, þegar mikill uppgangur er innanlands í atvinnulífi og íbúðabyggingum, virðast önnur fjárfestingartækifæri keppa mjög bæði við happdrættisbréf og spariskírteini og sala þeirra gengur því treglegar en ætla mætti. Einnig virðist mikill almennur samdráttur hafa óhagstæð áhrif á sölu.

Nú fyrst í ár er svo komið að endurgreiða verður samtals rúmlega 700 millj. kr. af spariskírteinum sem fallin eru endanlega í gjalddaga. Ætlun stjórnvalda er að endurfjármagna þessa endurgreiðslu með útgáfu nýrra spariskírteina, en ekki er útlit fyrir að nema þriðjungur endurgreiðslufjárins verði festur í nýjum skírteinum þótt slíkt standi nú til boða. Þó má vel búast við að á næstu árum muni endurgreiðslur spariskírteina vega að talsverðu leyti upp á móti útgáfu nýrra spariskírteina happdrættisbréfa. Þó er ekki svo áríð 1976, en þá fellur engin útgáfa endanlega í gjalddaga.

Af framangreindu má sjá að ekki er hægt að slá því föstu að hægt verði að selja happdrættisskuldabréf fyrir 2 milljarða kr. á næstu 4 árum, enda mundi sú upphæð koma til viðbótar við fyrirhugaða útgáfu ríkissjóðs á spariskírteinum til alls konar framkvæmda. Er því ráðlegra að setja ekki nein tímamörk á útgáfu happdrættisbréfa vegna Norður- og Austurvegar, en í stað þess verði útgáfa bréfanna ákveðin árlega í sambandi við frágang framkvæmda- og fjáröflunaráætlana þannig að hún falli jafnan inn í heildaráætlanir um framkvæmdir á vegum ríkisins.“

Ég vil gera þá athugasemd nú þegar í sambandi við það, sem ég nú las seinast í bréfi Seðlabankans, að hann kemur hér fram með ákveðna tilhögun, ákveðna brtt. við frv., og óskar eftir því að orðalagi sé þar hagað á annan veg. En það er að sjálfsögðu alveg eins með þessa ábendingu utanaðkomandi aðila eins og allar aðrar að það er ekkert mark á þeim tekið. Þær eru hvorki teknar til umr. innan n. né eru þær kynntar af þeim sem hafa framsögu fyrir málinu hér við 2. umr. málsins. Hefur vist áreiðanlega einhvern tíma fyrr verið tekið svolítið meira mark á stjórnendum Seðlabankans heldur en gert er í þetta sinn.

Ég held svo áfram lestri bréfs Seðlabanka Íslands:

„Varðandi þá stefnu umrædds frv. að marka ákveðinni framkvæmd tiltekna verðbréfaútgáfu teljum við reynsluna hafa sýnt að hagur sé að því í sölustarfi að um sé að ræða framkvæmd sem nýtur almenns stuðnings og vinsælda, sbr. bréf vort til fjh.- og viðskn. Nd. dags. 1. febr. 1974. Til viðbótar viljum við þó benda á að um það verður aldrei sagt með vissu að hve miklum hluta útgáfa happdrættisbréfa hvetur til nýs sparnaðar og að hve miklum hluta sé um tilfærslu sparnaðar að ræða frá öðrum formum, svo sem sparifé í bönkum og spariskírteinum. Hver sem niðurstaðan verður keppir þessi fjárráðstöfun beint eða óbeint við aðrar framkvæmdir sem Alþ. kann að bera fyrir brjósti og verður því að meta hvort slíkur forgangur er réttlætanlegur. Um þetta atriði er ekki ætlunin að fjalla í þessari umsögn, en þó er augljóst að endurbætur einstakra kafla hringvegarins eru mismunandi mikilvægar sé hreint arðsemismat lagt til grundvallar. Einnig eru vitanlega til ýmsir vegakaflar utan hans þar sem endurbætur mundu gefa jafnmikinn arð.

Til svara við sérstökum spurningum yðar fylgja hér með 6 töflur sem sýna útgáfu og núvirði spariskírteina og happdrættisskuldabréfa. Tafla 1 svarar spurningum 1 og 2, tafla 2 vísar til 3. spurningar, töflur 3 og 4 vísa til spurningar 4a og töflur 5 og 6 til spurningar 4b.“

Gallinn er að sjálfsögðu sá að hér eru spurningarnar ekki tilgreindar. En ég held áfram lestri bréfsins:

„Að öðru leyti viljum við taka eftirfarandi fram um samanburð þann sem gerður er í þessum útreikningum:

Í fyrsta lagi er það hæpið að bera saman lántökur með spariskírteinum og happdrættisskuldabréfum innanlands annars vegar og erlendar lántökur hins vegar. Kemur þar til að vextir erlendis eru mjög mismunandi, enda hefur umræddur samanburður verið gerður þannig að erlendar lántökur eru reiknaðar á þeim vöxtum sem ríkissjóður hefur almennt orðið að greiða fyrir erlendar lántökur sínar. Þá er þess og að geta að erlent lánsfé er aðeins fyrir hendi í takmörkuðum mæli. Þá gefur það ekki heldur rétta mynd að nota eingöngu stofngengi dollars til erlends samanburðar þar eð lán í dollurum er ekki nema takmarkaður hluti af heildarlántökum erlendis. Lán í öðrum myntum, svo sem þýskum mörkum eða svissneskum frönkum, eru einnig algeng, en gengi þessara mynta gagnvart ísl. kr. hefur breyst mun meira en gengi dollarsins. Því hefur í töflu 3 verið reiknað með tvenns konar gengisstuðlum, þ.e. miðað við dollar annars vegar og við vegið gengismeðaltal hins vegar.

Í öðru lagi ber að benda á að þótt nafnvextir af fyrstu spariskírteinunum kunni nú að sýnast háir, þá reyndust þeir vart nógu háir í fyrstu til að bréfin seldust. Því teljum við rangt að álykta að umrætt lánsfé hefði getað fengist með öðrum og betri kjörum þá. Það tók langan tíma að vinna þessu sparnaðarformi markað, en eftir því sem spariskírteini urðu kunnari og útbreiddari hafa vextir verið lækkaðir. Í nýjustu útgáfu bréfanna, sem nú er að fara á markað, eru vextir lækkaðir enn eða úr 5% niður í 4%.

Virðingarfyllst,

Seðlabanki Íslands,

Jóhannes Nordal. Davíð Ólafsson.“

Ég hef talið sjálfsagt að kynna hér bréf Seðlabanka Íslands en þótt því fari víðs fjarri að ég sé að öllu leyti sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Ég bendi hins vegar á að margt, sem kemur fram í bréfi Seðlabanka Íslands, er athugunarvert og það er síður en svo að umsögnin sé eingöngu jákvæð, heldur koma þar fram ýmsar ábendingar sem því miður hefur ekkert tillit verið tekið til við afgreiðslu þessa máls.

Ég vil hins vegar benda á það jafnframt að þó að ég beri hina dýpstu virðingu fyrir bankastjórum Seðlabankans, þá geri ég mér nú grein fyrir því eins og allir aðrir, að faðirinn er alltaf dálítið veikur fyrir afkvæmi sínu og í þessu tilviki vill svo til að það eru einmitt bankastjórar Seðlabankans sem staðið hafa að útgáfu spariskírteina, verðtryggðra spariskírteina, um mjög langt skeið og bera því fáir jafnmikla ábyrgð á þessari gegndarlausu útgáfu spariskírteina og happdrættisskuldabréfa eins og einmitt þeir. Það þarf því sem sagt engan að undra þótt nokkuð annað hljóð sé í þeim, sem rita bréf til Alþ. frá Seðlabanka Íslands, en þeim sem rita bréf frá viðskiptabönkunum.

Ég er sammála þeim ábendingum sem fram koma hér um að ekki sé einfalt mál að bera saman gengislán annars vegar og verðtryggð lán hins vegar vegna ýmissa vankanta sem þar kunna að vera á. En ég vil þó benda á að þetta er hægt að gera og er mjög eðlilegt að það sé þá miðað við einhverja fasta mynteiningu og vegna þess að á alþjóðlegum peningamarkaði hefur einmitt verið mikið um dollaralán, þá er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að miða við þau lán og er þá hægt að fá nokkurn samanburð á því hversu miklu hagstæðari slík lán væru eða hefðu verið en vísitölulánin hafa reynst.

Ég verð að viðurkenna það að ég treysti mér ekki til að gera hv. d. grein fyrir þeim töflum, þeim margháttuðu og viðamiklu töflum, sem Alþ. hafa borist frá Seðlahankanum, enda yrði ég í alla nótt að lesa þessar töflur ef ég setti nú að byrja á því og að sjálfsögðu aldrei ætlun mín að tefja tíma hv. þm. um of. En ég vil leyfa mér hins vegar að segja hv. d. frá því í stuttu máli hver er meginniðurstaðan af þeim töflum, sem við höfum fengið í hendur, og þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá starfsmönnum Seðlabankans.

Ef við viljum bera saman þrjár fjármögnunarleiðir, þ.e.a.s. í fyrsta lagi spariskírteini, í öðru lagi venjulegt bankalán og í þriðja lagi venjulegt erlent dollaralán, þá getum við tekið 3 dæmi og hugsum okkur í öllum tilvikum að lán hafi verið tekið árið 1964. Á árinu 1964 voru gefin út spariskírteini sem á að greiða á næsta ári, á árinu 1976, og þau voru að nafnverði 53 millj. kr. Ef þessar 63 millj. kr. hefðu verið teknar að láni beint úr bankakerfi ríkisins og reiknað væri með meðalvöxtum 10% ætti ríkissjóður nú að endurgreiða lánið með 1371/2 millj. kr. Þetta er sem sagt niðurstaðan af þeirri spurningu sem fjh.- og viðskn. lagði fyrir starfsmenn Seðlahankans. Niðurstaðan er sem sagt sú að endurgreiðslan hafi vaxið 2.6 sinnum frá því að upphaflega lánið var tekið. Ef lánið hefði hins vegar verið tekið erlendis og það hefði verið miðað við dollar og reiknað væri með þeim vöxtum sem þá tíðkuðust á lánum til íslenska ríkisins — það eru að sjálfsögðu einu vextir þess sem eðlilegt er að miða við og ég sé ekki að það sé í sjálfu sér neitt vandamál að verja þá viðmiðunartölu, en þá voru vextir á erlendum lánum 5% - þá næmi endurgreiðslan, þegar að henni kemur, 237.4 millj. kr. Niðurstaðan er sem sagt sú hvað þessa lánategund snertir að endurgreiðslan væri 5.5-föld á við upphaflega lánið, þ.e.a.s. að lánið væri liðlega tvöfalt óhagkvæmara en innlent bankalán með venjulegum vöxtum, jafnvel þótt innlendu vextirnir hefðu verið allmiklu hærri eða tvöfalt hærri en erlendu vextirnir. En þetta liggur að sjálfsögðu í þeim gengisfellingum sem átt hafa sér stað í millitíðinni.

Mér er kunnugt um það að gengistryggð lán hafa verið með afbrigðum óvinsæl hér á landi um langt skeið og er það í sjálfu sér ekkert furðulegt þegar menn hafa gjarnan átt kost á helmingi hagstæðari lánum en gengistryggð lán eru. En ef þessi lán eru hins vegar borin saman við verðtryggðu lánin munu menn fljótt sjá að þar er um stórkostlegan mun að ræða. Á árinu 1964 valdi ríkissjóður sér nýja leið til fjáröflunar sem var reynd í fyrsta sinn þá, að verðtryggja skuldabréfin. Hann þarf nú að greiða 700.9 millj. kr. fyrir þessar 53 millj. Endurgreiðslan er sem sagt 13.2 sinnum hærri en upphaflega lánið. Þetta er sá samanburður sem fram kemur í bréfi Seðlabankans, að vísu í miklu ítarlegra og flóknara máli en ég hef hér dregið saman í meginstaðreyndir. Og það kemur sem sagt fram að miðað við bankalán, innlend bankalán, þá er gengistryggða lánið liðlega tvöfalt óhagstæðara en verðtryggða lánið. Það er hvorki meira né minna en 5 sinnum óhagstæðara en innlenda bankalánið.

Það þarf ekki að segja neinum það, að þegar kemur að endurgreiðslu þessara verðtryggðu lána, þá verður að afla fjár til þeirra með sköttum. Það þarf því ekki að útskýra það fyrir neinum að þegar þau falla í gjalddaga, þá leggst mjög þung greiðslubyrði á ríkissjóð.

Í upplýsingum Seðlabankans kemur einnig fram hvað raunvextir eru á verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs og í þeim upplýsingum kemur glöggt fram að um er að ræða 28–67% raunvexti á því 12 ára tímabili sem liðið er frá því að spariskírteinin voru gefin út árið 1964. Þeir hafa sem sagt verið lægstir 28%, en eru hæstir á þessu ári, 67% samkv. útreikningum Seðlabankans. Oft hefur verið rætt um okurvexti í þessu þjóðfélagi, en mér er til efs að nokkru sinni hafi nokkur íslenskur okrari lánað fé með jafnofboðslegum vöxtum og þeim sem ríkissjóður er tilneyddur að greiða fyrir þau spariskírteinalán sem hann hefur tekið á undanförnum árum og falla á verðbréfaskuldir ríkissjóðs á þessu ári.

Ég vil þá snúa mér að umsögn Þjóðhagsstofnunar, en Þjóðhagsstofnun sendi einnig umsögn um málið og ræddi þar um hvort tveggja, annars vegar sjálfar framkvæmdirnar, gerð Norðurvegar, og hins vegar þá sérstöku till. um fjármögnun sem frv. felur í sér. Í grg. Þjóðhagsstofnunar segir m.a.:

„Undanfarin ár hafa ýmsar athuganir verið gerðar á gildi vegaframkvæmda í landinu, einkum á vegum Efnahagsstofnunar, áætlanadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins og Vegagerðarinnar. Á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur hafa athuganir verið gerðar á Hvalfjarðarleið, vegi og brú yfir Borgarfjörð og í sambandi við samgönguáætlun Norðurlands á leiðinni frá Bifröst í Borgarfirði til Akureyrar. Í ljós hefur komið að framkvæmdir við vegakafla þá, sem athugaðir hafa verið, hafa reynst fullnægja lágmarksarðsemiskröfum, þ.e. að samfélagslegur ávinningur, sem með þeim fengist, svari til a.m.k. 10% vaxta af stofnkostnaði miðað við framkvæmd 1973, auk þess að nægja fyrir afskriftum sem miðast við 30 ár. Framkvæmdir fyrir allmarga þessa vegakafla virðast jafnvel munu skila 15–25% vöxtum af stofnkostnaði og er arðsemi nokkurra vegakafla á Norðurlandi mest; svo sem á Öxnadalsheiði, í Hrútafirði og á Hrútafjarðarhálsi. Hins vegar eru allmargir vegakaflar annars staðar á aðalvegakerfi Norðurlands þar sem framkvæmdir væru jafnarðbærar eða arðbærari en á miklum hluta vegarins milli Akureyrar og Reykjavíkur.“

Ég staðnæmist sem sagt við þessar upplýsingar sérstaklega vegna þess að hér er á það bent að alls ekki sé það sjálfgert mál að vegurinn milli Reykjavíkur og Akureyrar sé endilega arðbærasta vegaframkvæmdin sem hægt sé að ráðast í á Norðurlandi um þessar mundir. Hér er beinlínis bent á það að fyrir utan nokkra heiðakafla, — ég veg athygli á því að það eru einkum heiðakaflar sem Þjóðhagsstofnunin leggur sérstaka áherslu á, ekki þeir vegaspottar sem hæstv. samgrh. og hæstv. 1. flm. frv., Eyjólfur K. Jónsson, hafa lagt þunga áherslu á að yrði ráðist í, heldur eru það heiðakaflarnir sem Þjóðhagsstofnunin leggur sérstaka áherslu á, en að öðru leyti segir hún að á miklum hluta vegarins séu framkvæmdir arðminni en vera mundi á öðrum hlutum aðalvegakerfis Norðurlands. Þar er að sjálfsögðu átt við það að tengibrautirnar, sem tengja Norðurveg við helstu þéttbýlisstaðina, séu enn mikilvægari en Norðurvegurinn sjálfur.

Einnig segir í bréfi Þjóðhagsstofnunar:

„Á veginum milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Suðurland hafa jafnframt verið gerðar talsverðar athuganir, en gera má ráð fyrir að opnun Skeiðarársandsvegar hafi breytt niðurstöðum athugana þessara talsvert, Því er þeim vart að treysta lengur. Hins vegar virðist sýnt að hið sama yrði þar upp á teningnum og á Norðurlandi, þ.e. að framkvæmdir við allmarga vegakafla annars staðar í aðalvegakerfi Suðurlands en á Austurvegi reyndust arðbærari en á miklum hluta þessa vegar. Hið sama á eflaust við um vegi í öðrum landshlutum.“

Hér er aftur það sama uppi á teningnum, að sú stofnun, sem mest hefur rannsakað og mest hefur kynnt sér þessi mál, bendir hv. alþm. á að það sé kannske ekki svo einfalt mál að slá því föstu að alla áherslu eigi að leggja á einhvern tiltekinn veg, heldur kunni að vera að með því að leggja áherslu á þennan veg einn sé verið að sniðganga aðra vegi í sömu landshlutum sem séu í reynd miklu þýðingarmeiri. En þessar ábendingar, sem byggðar eru á vísindalegum útreikningum starfsmanna Framkvæmdastofnunar á undanförnum árum, eru að sjálfsögðu sniðgengnar og hefðu ekki komið hér fram ef ég hefði ekki tekið að mér það hlutverk að kynna þessi gögn hér. Og ég vil enn undirstrika að þetta er að sjálfsögðu hið mesta hneyksli hvernig Alþ. ætlar sér að afgreiða þetta mál. — En ég held áfram með lestur ábendinga Þjóðhagsstofnunar í þessu sambandi:

„Rétt er að benda á að frumathuganir gefa til kynna að lagning bundins slitlags sé arðbær á ýmsum vegaköflum á Norðurlandi og Suðurlandi, bæði utan þeirra vega, sem hér eru nefndir, Norðurvegar og Austurvegar, og á þeim vegum. Virðist því skynsamlegt að við ákvörðun um vegalagningu sem þessa verði tekin afstaða til lagningar bundins slitlags svo að komist verði hjá tvíverknaði eða að nokkru tvöföldum kostnaði við lagningu slitlags.“

Ég vil sem sagt undirstrika það hér að þessi orð ber ekki endilega að túlka svo að Þjóðhagsstofnun leggi áherslu á að hafin verði lagning bundins slitlags í stórum stíl nú þegar, heldur er fyrst og fremst verið að benda á það að við ákvörðun vegastæðis og við gerð góðs upphækkaðs malarvegar sé vitað fyrir fram hvort um verði að ræða slitlag á þessum vegi að skömmum tíma liðnum eða ekki. Og ég held áfram í bréfinu frá Þjóðhagsstofnun, en þar segir:

„Þá ályktun virðist helst mega draga af þessum athugunum að eins og vegakerfi okkar er nú háttað geti ekki talist skynsamlegt að ákveða mjög löngum samfelldum vegaköflum forgang í heild, heldur velja fyrst arðgæfustu vegakaflana hvar sem þá er að finna á landinu.“

Þetta er sem sagt mjög eindregin ábending um að samþykkt þessa frv. óbreytts sé ekki ýkjaskynsamleg frá vísindalegu og fjárhagslegu sjónarmiði. En það er enn með þessa aths. eins og aðrar, sem fram hafa komið, að þeim er lítið sinnt og þær hefur átt að fela við afgreiðslu þessa máls. – Í grg. Þjóðhagsstofnunar segir enn fremur:

„Frv. gerir ráð fyrir að framkvæmdir við gerð Norður- og Austurvegar verði fjármagnaðar með lánsfé sem fáist með útgáfu happdrættisskuldabréfa að upphæð allt að 2000 millj. kr. og er þetta önnur megintill. frv. Þjóðhagsstofnun lítur svo á að á fjármögnunartill. frv. séu nokkrir annmarkar. Í fyrsta lagi þarf að athuga að útgáfa happdrættisskuldabréfa verður ekki skilin frá öðrum lántökum innanlands. Þannig er ljóst að möguleikar ríkissjóðs til lántöku innanlands með útgáfu og sölu ríkisskuldabréfa til almennings eru takmarkaðir á hverjum tíma hvort sem um er að ræða verðtryggð spariskírteini eða happdrættisskuldabréf. Ljóst er að hér skiptir heildarútboð ríkisskuldabréfa meginmáli, en ekki útboð hverrar tegundar ríkisskuldabréfa, þ.e. á hverjum tíma er aðeins unnt að selja ríkisskuldabréf fyrir takmarkaða upphæð og skiptir þá sennilega minna máli hvort báðar tegundirnar eða einungis önnur þeirra er í boði. Hér á landi er þegar fengin af því reynsla að sala happdrættisskuldabréfa á fyrst og fremst í samkeppni við sölu hinna verðtryggðu spariskírteina ríkissjóðs, þannig að aukning á sölu happdrættisskuldabréfa getur falið í sér samdrátt eða takmörkun á sölu spariskírteina og öfugt.m.a. virðist þetta hafa komið allgreinilega fram við útboð happdrættisskuldabréfa vegna Skeiðarársandsvegar. Sú fullyrðing, sem fram er sett í grg. frv., að „fjáröflun með þessum hætti til meiri háttar vegaframkvæmda gerir það að verkum, að meira fjármagn verði til annarra aðkallandi framkvæmda í vegamálum,“ virðist því fremur hæpin, ekki síst þegar um er að ræða fjáröflun til almennrar vegagerðar í mörgum landshlutum án þess að hún tengist einstökum sögulegum áfanga í vegagerð eða ákveðnu héraði, ólíkt því sem var um Skeiðarárbrúargerðina og hringvegarhugmyndina. Samþykkt fjármögnunartill. frv. hefði þannig fremur í för með sér talsverða takmörkun á möguleikum ríkissjóðs til lántöku á innlendum markaði til annarra þarfa. Með fjáröflunartill. frv. er enn fremur gert ráð fyrir að verulegum hluta þess heildarlánsfjár, sem unnt er að afla á almennum lánsfjármarkaði innanlands, sé ráðstafað fram í tímann. Í þessu felst hvort tveggja: binding stórrar sneiðar lánsfjáröflunar ríkissjóðs við ákveðna framkvæmd og ákveðið form fjárskuldbindingar fram í tímann.

Sé fyrst hugað að fjárhæðinni er lagt til í frv. að aflað verði með útgáfu happdrættisskuldabréfa 600 millj. kr. til jafnaðar á ári næstu 4 árin. Heildarútboð og sala ríkisskuldabréfa, þ.e. bæði happdrættisskuldabréfa og spariskírteina, nam 880 millj. kr. á árinu 1974, en hafði numið 580 millj. kr. 1973 og 460 millj. 1972. Í fjárl. fyrir árið 1976 hefur þegar verið gert ráð fyrir 180 millj. kr. útgáfu happdrættisskuldabréfa vegna Skeiðarársandsvegar og Djúpvegar, 600 millj. kr. annarri innlendri verðbréfaútgáfu, svo og um 1070 millj. kr. innlendri lántöku vegna vegamála og orkumála.“

Ég skýt því hér inn í upplýsingar Þjóðhagsstofnunar að allar hafa þessar upphæðir hækkað allverulega síðan Þjóðhagsstofnun ritar bréf sitt og m.a. hafa verið teknar inn í nýsamþ. frv. hér í þinginu einar 500 millj. kr. sem ætlaðar eru til vegagerðar og búið er að úthluta í till. til breyt. á þáltill. um vegáætlun sem lögð hefur verið fram hér í þinginu, þannig að þótt ég hafi nú ekki töluna sundurliðaða, þá er óhætt að fullyrða að bara spariskírteinaútgáfan hefur aukist mjög verulega frá því sem fyrirhugað var þegar Þjóðhagsstofnun ritar sitt bréf, fyrir svo utan allar aðrar lántökur sem hafa verið ákveðnar síðan þetta var. En ég held áfram bréfi Þjóðhagsstofnunar. Þar segir:

„Á þessu ári kemur enn fremur til endurgreiðsla fyrstu spariskírteina ríkissjóðs sem samkv. fjárl. er áætluð nema 715 millj. kr. í ár. Endurgreiðslur þessar munu síðan aukast ár frá ári og hafa vaxandi áhrif á fjáröflun ríkissjóðs og ráðstöfun. Ljóst er því að svigrúm til viðbótarfjáröflunar skv. frv. mun í ár og næstu árin verða næsta lítið.“ Ég endurtek þessa setningu. „Ljóst er því að svigrúm til viðbótarfjáröflunar skv. frv. mun í ár og næstu árin verða næsta lítið.“

Þetta ritar Þjóðhagsstofnun áður en ákveðið er að bjóða út enn eitt 500 millj. kr. skuldabréfalánið, sbr. nýsamþ. frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum, en ég held áfram lestrinum á bréfi Þjóðhagsstofnunar:

„Í öðru lagi ber að athuga að með fjáröflunartilhögun þessari er allsendis óvíst hvort besta nýting hins erlenda lánsfjármarkaðs sé möguleg á hverjum tíma þar sem hér hefur lánsfjáröflun ríkissjóðs verið bundin ákveðnu formi fjárskuldbindingar í verulegum mæli nokkuð fram í tímann, þannig að ekki gefst færi á að leita á hverjum tíma heppilegustu lántökuleiða frá sjónarmiði opinberrar fjáröflunar í heild. Því verður það að teljast óhyggileg stefna,“ segir Þjóðhagsstofnun, „ef upp yrði tekið að binda fjáröflunarleiðir ríkisins yfirleitt við einstakar framkvæmda sem þetta gæti haft. Þess ber einnig þeim ófyrirséðu áhrifum á forgangsröð framkvæmda sem þetta gæti haft. Þess ber einnig að gæta að með samþ. till. um útgáfu verðtryggðra happdrættisskuldabréfa í þeim mæli sem hér um ræðir væri af hálfu ríkisins verið að ákveða lánskjör fyrir umtalsverðar fjárhæðir nokkur ár fram í tímann með þeim hætti sem ekki er víst að teljist heppilegur til frambúðar. Á þetta bæði við um happdrættisformið og verðtryggingarformið, sem hvort tveggja orkar tvímælis sem almennt fordæmi lánskjara.

Hér að framan hefur verið fjallað um fjáröflunarmálið frá sjónarhóli lánsfjáröflunar ríkissjóðs til opinberra framkvæmda. Áhrif frv. þessa á forgangsröðun framkvæmda eru engu síður mikilvæg. Ljóst er að sú fjáröflunartilhögun, sem gert er ráð fyrir í frv., hlýtur að hafa veruleg og sennilega oftast nær ófyrirsjáanleg áhrif á forgangsröðun framkvæmda í landinu. Í fyrsta lagi yrði forgangsröðun og framkvæmdahraði háður sölu happdrættisskuldabréfanna, þannig að ef að því væri stefnt að veita ákveðnum framkvæmdum sérstakan forgang með þessum hætti væri það til lítils ef bréfin reyndust ekki seljast í þeim mæli sem gert væri ráð fyrir. Í öðru lagi og að því gefnu að ekki reyndust vandkvæði á sölu skuldabréfanna virðist tæplega skynsamlegt að ákveðnum vegaframkvæmdum sé veittur slíkur forgangur sem gert er með frv. þessu án tillits til samfélagslegs ávinnings og arðsemi þeirra í samanburði við aðrar vegaframkvæmdir og opinberar framkvæmdir aðrar. Þegar hefur komið fram að ýmsar vegaframkvæmdir á Norðurlandi og Suðurlandi og sennilega víðar, aðrar en uppbygging Norðurvegar og Austurvegar, geta reynst arðbærari en þær framkvæmdir sem gert er ráð fyrir í frv. Í ljósi þessa verður það að teljast óeðlilegt að gerð Norðurvegar og Austurvegar í heild sé veittur forgangur t.d. fram yfir arðbærari vegaframkvæmdir einstakra vegakafla víðs vegar um land eða aðrar opinberar framkvæmdir sem ekki eru siður brýnar, svo sem í orkumálum.

Fjórða: Hér að framan hafa verið leidd að því nokkur rök að ekki sé alls kostar heppilegt að fara þá fjáröflunarleið sem lagt er til með frv. þessu, og má þá sérstaklega tilfæra þá þrengingu á svigrúmi og möguleikum ríkissjóðs til lánsfjáröflunar innanlands sem felst í bindingu einstakra fjáröflunarleiða við tilteknar framkvæmdir og þeim áhrifum á forgangsröð framkvæmda sem í þessu gæti falist. Auk þess væri með frv. verið að ákveða lánskjarastefnu fyrir mikinn hluta árlegrar lántöku ríkissjóðs án samhengis við almenna stefnumótun um lánskjör. Eðlilegast virðist að fjáröflun ríkisins til framkvæmda sé yfirleitt almenns eðlis með sköttum eða almennum ríkislántökum innanlands og ekki tengd einstökum framkvæmdum eða málaflokkum.

Virðingarfyllst, f.h. Þjóðhagsstofnunar,

Jón Sigurðsson.“

Hér er sem sagt í bréfi Jóns Sigurðssonar forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar flutt niðursallandi gagnrýni á það frv. sem hér er til meðferðar, bent á fjöldamargar röksemdir gegn því að það sé samþ. óbreytt, en sú n., sem um þetta fjallar hér í þinginu, telur ekki einu sinni ómaksins vert að ræða þessar röksemdir forstöðumanns Þjóðhagsstofnunar. Hún lætur ekki svo litið að kynna bréfið, annaðhvort sem fskj. með nál. eða með lauslegu yfirliti yfir þær eindregnu röksemdir sem Þjóðhagsstofnunin hefur gegn þessu frv. Gegnir þar svipuðu máli og um allar hinar neikvæðu umsagnirnar um þetta frv. að það er ekkert tillit til þeirra tekið, þær eru ekki einu sinni ræddar og engin tilraun gerð til að ganga til móts við þær, jafnvel þó að menn vildu nú samt sem áður koma málínu í gegn. Þetta kalla ég auðvitað ekkert annað en þinghneyksli sem er stærra en mörg þau hneyksli sem verið hafa á ferðinni um skeið.

En það er ekki nóg með að menn neiti algjörlega öllum lagfæringum á þessu frv., neiti því að taka til greina nokkrar hugsanlegar breyt., heldur gerist það furðulega að þetta frv. um 2000 millj. kr. fjáröflun til vegagerðar virðist á engan hátt skoðað í neinu samhengi við þá vegáætlun sem þó er til umr. hér á nákvæmlega sama tíma og mun ætlunin að afgreiða á morgunn. Það virðist enginn vita með vissu til hvers þetta fé verður notað. Ég hef spurt ýmsa stuðningsmenn þessa frv. um það hvort þetta fé verði notað og til hverra verka það verði notað, en ég fæ aldrei nein ákveðin svör við þeirri spurningu. Sumir segja mér að í raun og veru séu þetta sömu 500 millj. og fólust í frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum sem var afgr. hér í þinginu fyrir nokkrum víkum og að það séu hraðbrautarframkvæmdirnar í vegáætluninni sem þar sé raunverulega átt við. Aðrir segja að þetta sé misskilningur, ef frv. verði samþ., þá verði um það að ræða að 500 millj. til viðbótar á þessu ári komi til hraðbrautarframkvæmda. Ég hef t.d. spurt ráðh. að þessu og þeir hafa svarað mjög ólíkt, sumir á þennan veginn, aðrir á hinn veginn. Ég hef spurt fjvn: menn að þessu og þeir svara mjög til skiptis. Ég verð því að segja að það er meiri fljótaskrift á afgreiðslu þessa frv. en dæmi eru til um flest þau mál sem hér hafa verið til meðferðar í seinni tíð.

Um þessa fjármögnunarleið ætla ég svo ekki að orðlengja miklu frekar en ég hef nú gert. Ég ræddi þessi mál allítarlega við 1. umr. málsins og sé ekki ástæðu til að endurtaka þau orð, en sérstaklega vil ég þó koma því hér á framfæri og leggja á það áherslu að ég er alls ekki andvígur því að aflað verði 500 millj. kr. til þess að hraða framkvæmdum við leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og við hringveginn umhverfis landið. En ég tel að fjáröflunarleiðin sé fráleit, að við séum búnir að ganga allt of langt í útgáfu þessara gífurlega óhagstæðu spariskírteinalána og happdrættisskuldabréfalána, að lengra verði ekki gengið í þeim efnum og miklu skynsamlegra væri hreinlega sagt að taka erlent lán í þessu skyni og þá að gera að sjálfsögðu ráð fyrir því að lánið verði síðan greitt upp á ákveðnum tíma, t.d. 7 árum eða 10 árum, og afla til þess fjár með einhverjum tilteknum, ákveðnum hætti á hverju ári, t.d. með einhverri ákveðinni vegaskattlagningu eða bensínskattlagningu eða ferðamannaskattlagninga — eða með hvaða hætti sem það yrði gert — sem ætlað væri til að standa undir þessu erlenda láni, þannig að að 7 árum liðnum eða að 10 árum liðnum, ef um 10 ára lán væri að ræða, þá væri þessi fjármögnun úr sögunni, þá væri þjóðin búin að borga þennan reikning í eitt skipti fyrir öll. Hitt tel ég aftur á móti fráleitt, að ætla sér að fara út í þessa framkvæmd nú sem sjáanlega er fjármögnuð á þann hátt að hún verður þjóðinni a.m.k. tvöfalt ef ekki þrefalt dýrari en ella væri ef hún væri fjármögnuð með öðrum hætti, að ætla að fara út í þetta með þessum hætti og gefa þannig ávísun 10 ár fram í tímann, ávísun sem ekki verður greidd fyrr en með skattlagningu á þjóðina eftir heilan áratug. Enginn veit hvernig þjóðin verður í stakkinn búin til þess að byrja að borga þessa skuld sem þá mun hafa tvöfaldast og sennilega þrefaldast að raungildi, sennilega a.m.k. tífaldast ef ekki tuttugufaldast að krónutölugildi. Það veit sem sagt enginn hvernig þjóðin verður í stakkinn búin þá til þess að greiða þá skuld. Þetta tel ég sem sagt hið fráleita. Hitt tel ég ekki fráleitt, að afla þessara fjármuna, en hefði þá viljað ganga frá því með tryggari hætti í frv. til hvaða framkvæmda fjármagninu er varið. Og þá teldi ég rétt að skoða það rækilega, eins og Þjóðhagsstofnunin nefnir mjög ákveðið í sínum umsögnum og eins og fram kemur í áliti Seðlabankans og eins og kemur reyndar fram í öllum álitsgerðunum, hvort ekki er raunverulega um að ræða ýmsar vegaframkvæmdir á Norðurlandi og Austurlandi og Vesturlandi sem eru miklu brýnni í svip og væri því eðlilegra að eyða þessu fjármagni í.

Þá vík ég sem sagt aftur að þessari hlið málsins, og fer ég nú, herra forseti, að ljúka máli mínu senn, en þá vík ég sem sagt að þessari hlið sem snertir notkun fjármagnsins. En áður en ég vík að því atriði vil ég eindregið mælast til þess við forseta — ég hef hugsað mér að flytja brtt. við frv. og það yrði að sjálfsögðu skrifleg brtt., en áður en ég flyt hana vil ég fá upplýsingar hjá hæstv. samgrh. í sambandi við vegamálin og ég held að hann geti ekki veitt mér þær öðruvísi en að hann sé viðstaddur, þannig að ég tel alveg óhjákvæmilegt að óska eftir því að hann verði sóttur því að öðruvísi get ég ekki fengið þessum fsp. svarað. Ég tel, herra forseti, að ég hafi ekki verið strangur við hæstv. samgrh., að hann skuli leyfa sér að vera fjarverandi við þær umr. sem hér fara fram í kvöld, og væri þá sem sagt lágmarkskrafa að hann yrði hér til að svara þessum fsp. (Forseti: Já, ég skal gera ráðstafanir til þess að það verði athugað hvort ráðh. er í húsinu. Það er ekki á mínu valdi að fá hann hingað, en ég mun athuga það. En ég bendi á að það hefði verið heppilegra ef hv. ræðumaður hefði athugað þetta fyrr en nú, að hafa ráðh. við. Þá hefði í tíma verið unnt að gera betri ráðstafanir e.t.v.) Já, herra forseti, ég skil vel aths. þá sem gerð var og viðurkenni það að hugsanlegt hefði verið að hyggja að þessu fyrr, hvenær háttatími hæstv. ráðh. væri, en ég reiknaði satt að segja fastlega með að þegar um það er að ræða að verið sé að ráðstafa 2000 millj. kr. til framkvæmda sem hann ber ábyrgð á, að þá sæi hann sóma sinn í því að vera hér viðstaddur. En ég veit að herra forseti gerir það besta sem hann getur til að hafa upp á ráðh., og náist ekki í hann, þá verður svo að vera og virðist þá ekki annað að gera en að fresta fsp. til morguns. (Forseti: Ráðh. er ekki í húsinu, er upplýst.) Já, ég tel þess vegna ástæðulaust að bera fsp. upp.

Ég á sem sagt eftir að flytja brtt. við frv. sem snertir það hvernig fénu verði ráðstafað, en áður en ég flyt þá till. verð ég að fá einhverjar upplýsingar um hvað ráðh. hefur í huga í sambandi við ráðstöfun fjárins. Þess vegna vil ég óska eftir því að umr. verði frestað til morguns og ég fengi tækifæri til að bera fsp. þá upp. (Forseti: Það var ætlunin að freista þess að ljúka þessari umr., en ég vil benda hv. ræðumanni á að sú leið er í þessu máli að hann beri fram brtt. sínar við 3. umr. Ég mun láta hæstv. samgrh. vita um þá ósk sem hér hefur veríð borin fram, og vænti ég þess að þá verði öllu réttlæti fullnægt.) Herra forseti. — (Forseti: Já.) Já, eins og ég gerði grein fyrir áðan, þá hafði ég hugsað mér að bera hér fram brtt. sem snertir það til hvers konar framkvæmda þessu fé yrði varið. Ég ætlaði að bera þessa brtt. fram við 2. umr. málsins þegar fram fer atkvgr. um hverja frvgr. fyrir sig, og ef till. næði ekki samþykki, þá hafði ég hugsað mér að freista þess að bera fram aðra till. við 3. umr. sem væri kannske annars eðlis. Þess vegna er mér ómögulegt að fallast á þessa uppástungu hæstv. forseta, vegna þess að ég tel óhjákvæmilegt að fá fsp. svarað áður en till. er flutt. Ég get ekki séð, herra forseti, að það breyti í sjálfu sér einu eða neinu hvort þessar umr. fara fram nú við 2. umr. og verði þá úr sögunni eða hvort þetta gerist við 3. umr. En sem sagt, ég get, herra forseti, ekki fallist á þessi tilmæli, en að sjálfsögðu er æðsta vald hér í þessu húsi a.m.k. í höndum forseta.