15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það mál, sem ég mæli hér fyrir, er þess efnis að ríkisstj. verði veitt heimild til þess að ábyrgjast lán fyrir Flugleiðir hf. að upphæð 18.5 millj. dollara. Hér er um að ræða ábyrgð vegna kaupa á tveimur flugvélum af gerðinni DC8-63-CF að upphæð 13.5 millj. dollara og 5 millj. dollara til að bæta rekstrarfjárstöðu félagsins.

Nefndin hefur rætt þetta mál á fjórum fundum og voru þrír fundir sameiginlegir með nefndum beggja deilda. Málið kemur að vísu seint fram, en ég tel hins vegar að nefndin hafi athugað málið allítarlega og lögðu nm. allir á sig mikla vinnu nú yfir síðustu helgi vegna þessa máls. Þeir aðilar, sem komu til fundar við nefndina og veittu margvíslegar upplýsingar og svöruðu fsp., voru ráðuneytisstjórarnir í samgrn. og fjmrn., einnig komu fulltrúar frá Ferðamálaráði og í þeim hópi var einn fulltrúi frá hótel- og gistihúsaeigendum. Einnig komu fulltrúar frá vinnuhópi sem vann að athugun á rekstri Flugleiða hf. vegna þessarar beiðni. Þá kom framkvæmdastjóri Flugfélagsins Air Viking, matsnefnd vegna sameiningar flugfélaganna Loftleiða og Flugfélags Íslands hf., sem fór fram vegna forgöngu þáv. ríkisstj., og að síðustu komu til fundar við nefndina tveir forstjórar Flugleiða hf.

Nm. urðu ekki sammála um endanlega afgreiðslu þessa máls. Þó hygg ég að það hafi komið fram á sameiginlegum fundum nefndanna að allir væru sammála um að það bæri að veita þessa ábyrgð, en nm. urðu ekki sammála um það með hvaða skilyrðum það skyldi gert. Meirihl. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var afgr. frá Nd., með því skilyrði, að áður en ríkisstj, notar heimild frv. — það er prentvilla hér í nál. — notar heimild frv. um ríkisábyrgð til Flugleiða hf., þá undirriti stjórn Flugleiða hf. yfirlýsingu sem er prentuð í nál. fjh.- og viðskn. Nd.

Ég ætla aðeins í örstuttu máli að fara yfir þessi atriði sem eru sum tæknilegs eðlis, en önnur eru bein skilyrði.

Í fyrsta lagi er það gert að skilyrði, að í yfirlýsingu Flugleiða hf. sé setning að félagið skuldbindi sig til að halda áfram skipulegum aðgerðum til þess að bæta fjárhagsstöðu sína og auka hagkvæmni í rekstri. Í grg., sem þeir aðilar gerðu sem unnu fyrir hönd ríkisins að athugun á rekstri félagsins, kemur fram, að það sé nauðsynlegt að athuga og gera ýmsar breytingar á starfsemi félagsins. Þau atriði, sem þeir nefna, eru m.a. fækkun starfsliðs, hlutafjáraukning, þátttaka í flugrekstri erlendis, eignamat flugfélaganna og samdráttur og endurskipulagning flugrekstrarins. Þetta fyrirtæki er mjög mikilvægt fyrir samgöngur þjóðarinnar og þess vegna er enn mikilvægara að haldið sé uppi skipulegri starfsemi til áframhaldandi hagkvæmni í þessum rekstri.

Í öðru lagi er það gert að skilyrði að Ríkisábyrgðasjóður og samgrh. tilnefni tvo fulltrúa til að fylgjast með fjárhagslegum ákvörðunum félaganna. Skulu þessir trúnaðarmenn eiga rétt á því að sitja fundi með framkvæmdastjórn Flugleiða hf. þegar þeir óska, og heita félögin því að veita þeim allar þær upplýsingar um rekstur fyrirtækjanna sem óskað er eftir á hverjum tíma, þar með að leggja fyrir þá fjárhagsáætlanir, skýrslur um fjármál og rekstur og fyrirætlanir um meiri háttar fjárskuldbindingar. Hér er um miklar ábyrgðir að ræða og þess vegna eðlilegt, að Ríkisábyrgðasjóður og samgrn. hafi eftirlit og fylgist með starfsemi félagsins, enda er hér um gífurlega hagsmuni að ræða.

Þá skuldbindur stjórn Flugleiða sig til að bjóða út hlutafé félagsins í hámark þess sem samþykktir leyfa, þ.e. 600 millj. kr., eins fljótt og aðstæður leyfa að dómi Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands. Það varð ljóst að eiginfjárstaða þessa fyrirtækis er fremur veik og þess vegna nauðsynlegt að bæta hana. Það er hins vegar annmörkum háð að auka hlutafé nú þegar vegna þess að sameiningu flugfélaganna er ekki lokið. Það var skipuð matsnefnd til að meta eignir félaganna í því skyni að komast að niðurstöðu um hver eignarhlutur þeirra aðila, sem félögin eiga, yrði og er þessu mati ekki lokið. Það er algjör forsenda þess að hægt sé að auka hlutafé í félaginu að þetta liggi fyrir, svo að þeir aðilar, sem hefðu áhuga á að kaupa hlutabréf, hefðu vitneskju um hvað þeir væru að kaupa.

Þá mun stjórnarnefnd Flugleiða láta gera athugun á því, hvort hagkvæmt sé að koma upp fullkominni viðgerðarmiðstöð fyrir flugvélar hér á landi á vegum félaganna.

Og í fimmta lagi mun stjórn og stjórnarnefnd félaganna skuldbinda sig til þess, meðan ábyrgðin stendur, að ráðast ekki í verulega fjárfestingu í flugrekstri né öðrum rekstri eða taka á sig verulega fjárskuldbindingu nema að fengnu leyfi Ríkisábyrgðasjóðs.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja önnur atriði sem prentuð eru hér í nál., en þau eru flest tæknilegs eðlis og þykja sjálfsögð í slíkum tilfellum, þ. á m. að til viðbótar flugvélunum sem settar eru að veði, skuli einnig standa að handveði öll hlutabréf félagsins. Þetta þýðir að það muni standa að handveði öll hlutabréf í dótturfyrirtækjum Flugleiða hf., sem eru m.a. flugfélagið Air Bahama, Cargolux og einnig dótturfyrirtækið Hótel Esja og fleiri fyrirtæki.

Mikilvægi ríkisábyrgðar er mjög mikið, sérstaklega í litlu þjóðfélagi eins og okkar. Það hljóta hins vegar að vera takmörk fyrir því í hverju tilfelli hvort hægt er að veita ríkisábyrgð, og þá vaknar sú spurning: hvað ræður því hvort ríkisábyrgð er veitt?

Í fyrsta lagi tel ég að það, sem ráði slíku, sé þjóðhagslegt mikilvægi. Mikilvægi samgangna fyrir okkur íslendinga bæði innanlands og utanlands er gífurlegt og er ekki ástæða til þess að rekja það hér. Þess vegna hljótum við að leggja á það áherslu að hér sé til fyrirtæki sem geti haldið uppi þessum samgöngum til hagsbóta fyrir alla þjóðina. Ríkisstj. þær, sem setið hafa á undanförnum áratugum, hafa margoft lýst því yfir að mikilvægi þessara félaga, Loftleiða og Flugfélags Íslands, væri gífurlegt. Ég vil aðeins vitna hér í bréf frá samgrn. um þessi mál, þar sem fram kemur hversu mikilvæg ríkisstj. telur þessi félög vera, en hið opinbera hafði forgöngu um það að þessi félög væru sameinuð. Vil ég aðeins vitna í þetta bréf með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytinu virðist að einkum sé um eftirgreinda þrjá þætti réttinda til flugstarfsemi að ræða sem óskað er staðfestingar rn. á að nýtt sameinað félag mundi njóta:

1. Að hið sameinaða félag fái einkarétt á öllu áætlunarflugi til útlanda.

2. Að hið sameinaða félag fái sérleyfi til áætlunarflugs á öllum aðalflugleiðum innanlands.

3. Að hið sameinaða félag fái forgangsrétt til leiguflugs til og frá útlöndum eftir því sem við verður komið.“

Hér er sem sagt ljóst að þetta félag fær vilyrði fyrir gífurlegum réttindum í samgöngumálum íslendinga, og vil ég halda áfram að vitna í þetta bréf:

„Ráðuneytið minnir á að opinber stjórnvöld hafa átt frumkvæði að sameiningartilraunum flugfélaganna og hlýtur rökrétt afleiðing þeirrar stefnu að vera sú að sameinað flugfélag eða núv. flugfélög, sem verða undir þess yfirstjórn, verði tilnefnd til að njóta allra þeirra réttinda til reglubundins áætlunarflugs á erlendum flugleiðum sem Ísland hefur samkv. loftferðasamningum og það eða þau vilja nýta.“

Og að lokum segir í þessu bréfi, að sameining félaganna sé talin það mikilsvert skref til að tryggja samgöngur íslendinga bæði innanlands og við önnur lönd að ráðuneytið muni að sjálfsögðu leggja sig fram til að koma til móts við sanngjörn sjónarmið sameinaðs flugfélags til að tryggja því nægileg viðfangsefni og sem traustastan rekstrargrundvöll. Það er því alveg ljóst af þessum ummælum, að það hafa verið gefin loforð um að standa við bakið á þessu félagi.

Annað atriði, sem hlýtur að ráða því hvort ríkisábyrgð er veitt, er efnahagsstaða þess fyrirtækis, sem ríkisábyrgðina fær, og trygging fyrir því að greiðsla falli ekki á ríkissjóð.

Síðustu reikningar þessa félags voru birtir í árslok 1973 og þá voru gerðir reikningar fyrir öll þessi félög. Þá voru eignir félagsins sem hér segir: Veltufjármunir 13 millj. 278 þús. dollarar. Verðbréf 410 þús. dollarar. Fastafjármunir 39 millj. 375 þús. dollarar. Aðrar eignir 1348 þús. dollarar. Samtals 54 millj. 313 þús. dollarar. Hins vegar eru skuldir félagsins: Skammtímaskuldir 28 millj. 591 þús. dollarar. Langtímaskuldir 21 millj. 732 þús. dollarar og eigið fé 3 millj. 990 þús. dollarar. Er því ljóst að staða félagsins er ekki alls kostar hagstæð. Veltufjármunir eru sem sagt 13 millj. 278 þús. dollarar og skammtímaskuldir 28 millj. 591 þús. dollarar. Það er því alveg ljóst að það er mjög nauðsynlegt að þessi rekstrarfjárstaða verði tryggð, eigi að tryggja áframhaldandi hagkvæman rekstur. Eiginfjárstaða félagsins er þá 3 millj. 990 þús. dollarar sem er fremur lágt hlutfall miðað við eignir félagsins.

Nefnd sú, sem athugaði þau mál sem varða rekstur félagsins, skilaði mjög ítarlegri grg. Þm. geta að sjálfsögðu ekki tekið ákvörðun um þessi mál nema á grundvelli slíkrar athugunar og engin leið fyrir þá að setja sig inn í hvert einasta atriði í málefnum félagsins. Það kemur fram í þessari grg., sem er meginatriði, hvernig er reiknað með því að rekstrarafkoma félagsins verði á þessu ári og í framtíðinni. Það hlýtur að vera meginmál ef þetta félag á að geta staðið við þessar fjárskuldbindingar að það skili hagnaði, skili afgangi til að greiða þessa miklu fjármuni.

Rekstraráætlanir Flugleiða fyrir árið 1975 sýna um 1340 þús. dollara rekstrarhagnað í millilandaflugi eftir að þá hafa verið afskrifaðar 3 millj. 570 þús. dollarar. Hins vegar er búist við því að um 45 millj. ísl. kr. halli verði á innanlandsflugi. Að sjálfsögðu er aðeins skammt liðið á rekstrarár félagsins og því erfitt um það að segja hvort þessar áætlanir muni standast. Hins vegar er í þessari rekstraráætlun gert ráð fyrir 10% fækkun farþega á Ameríkuflugleiðum og 5% fækkun á Evrópuleiðum. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin fékk, er rekstrarafkoma heldur hagkvæmari en gert var ráð fyrir í rekstraráætlunum það sem liðið er af árinu. Hins vegar er aðalannatími félagsins eftir og því nokkur óvissa um það hvort hún muni standast.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vitna frekar í þessa grg., en ég vil aðeins láta þess getið að með þessum kaupum mun greiðslubyrði félagsins vegna þessara flugvéla léttast um 1 millj. dollara.

Ég hef nú rakið í stuttu máli meðferð nefndarinnar á þessu máli. Til n. hafa borist ýmis gögn sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér. Hins vegar er eitt mál sem bar mjög á góma í nefndinni. Það kom mjög til umræðu í n. sem ekki er minnst á í skilyrðum varðandi þessa ríkisábyrgð og það er samkeppnisaðstaða þessa félags í flugrekstri og öðrum rekstri. Þessu félagi hafa verið veitt mikil réttindi af íslenskum stjórnvöldum og félagið hefur jafnframt tekið á sig ýmsar skyldur í því sambandi. Það hafa oft komið upp mál hér á Íslandi þar sem stjórnvöld hafa gripið inn í ef um hefur verið að ræða óhefta og óheilbrigða samkeppni á þessu sviði. Þetta gerðist þegar Flugfélag Íslands hf. og Loftleiðir hf. voru bæði í innanlandsflugi og voru þar í harðri samkeppni. Þá gripu stjórnvöld inn í og upp úr því fékk Flugfélag Íslands einkarétt á vissum áætlunarleiðum. Á árinu 1971 kom einnig til mjög hörð samkeppni milli Flugfélags Íslands og Loftleiða hf. á Norðurlandaflugleið. Þá gripu stjórnvöld inn í það mál, þar sem þau töldu að það væri þjóðhagslega óhagkvæmt að standa að svo gífurlegri samkeppni á þessari leið, og upp úr því máli voru flugfélögin sameinuð. Það hefur ekki verið talin ástæða til þess varðandi þessa ríkisábyrgð að setja bein skilyrði varðandi samkeppnisaðstöðu félaganna. Nefndin hefur lítið svo á að það sé verkefni samgrn., sem hefur með þessi mál að gera, að fylgjast mjög náið með starfsemi flugfélaganna, og ef þar kemur upp óheft eða óeðlileg samkeppni, ber rn. að sjálfsögðu að grípa þar inn í, enda hefur það vald til þess þar sem það veitir viðkomandi flugrekstrarleyfi. Það hlýtur að vera óhagkvæmt frá þjóðfélagslegu sjónarmiði ef um er að ræða óhefta og óeðlilega samkeppni á þessu sviði. Það kemur niður á þjóðfélagsþegnunum síðar meir, því að tap þarf að greiða síðar og þess vegna ber rn. að grípa þar inn í ef það er að dómi þess ástæða til þess.

Þetta flugfélag, Flugleiðir hf., hefur einnig skapað sér mikla sérstöðu í þjónustu ferðamanna hér á landi, og hefur komið fram hjá forráðamönnum félagsins að það hafi í sjálfu sér ekki verið ósk þeirra að reka hér mikla þjónustu við ferðamenn, en þeir hafi séð sig til neydda til þess að geta skapað farþegum sínum aðstöðu hér innanlands. Það er greinilega mikil séraðstaða sem félaginu er sköpuð með einkaleyfum á áætlunarflugi og í framhaldi af því skapast einnig séraðstaða í þjónustu ferðamanna. Það er mikilvægt að félög, sem fá slík réttindi, misnoti þau á engan hátt, og við höfum litið svo á líka að það sé verkefni samgrn. að fylgjast með því og gera ráðstafanir til að grípa þar inn í ef það sér ástæðu til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Það er niðurstaða n. að veita beri þessa ábyrgð með vissum skilyrðum og meiri hl. n. mælir með því að svo verði gert, en minni hl., sem er hv. þm. Ragnar Arnalds, skilar séráliti, en hv. þm. Jón Árm. Héðinsson skrifar undir nál. meiri hl. með fyrirvara.