15.05.1975
Efri deild: 93. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4253 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

285. mál, lán fyrir Flugleiðir hf.

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr., enda gerði ég nokkra grein fyrir áliti n. í framsögu. Það er hins vegar ljóst að um þetta mál má lengi ræða en ég sé ekki ástæðu til þess að tefja málið.

Ég vil upplýsa það vegna þess að tveir hv. þm. hafa rætt hér um skattamál þessara félaga og skattahlið málsins, eins og þeir hafa orðað það, að með lögum vegna sameiningar félaganna var ákveðið hér á Alþ. af hv. alþm. að þessi félög, þ.e.a.s. Flugleiðir hf., Loftleiðir hf. og Flugfélag Íslands hf., skyldu vera einn sjálfstæður skattaðili. Þetta er í fyrsta skipti sem það er heimilað samkv. íslenskum lögum að fleira en eitt félag séu einn sjálfstæður skattaðili, og var það afgreitt með lögum frá Alþ. í þessu sérstaka tilfelli. Það var margt annað í þessum lögum sem var afgreitt vegna sameiningar flugfélaganna. Það var ákveðið þar að félögin mættu gefa út jöfnunarhlutabréf umfram aðra aðila. Það voru ákvæði um eignarskattsfrelsi hlutabréfa o.fl. af því tagi. En varðandi sérsköttun félaganna að öðru leyti er að sjálfsögðu félagið Hótel Esja sjálfstæður skattaðili en þetta er hins vegar vandamál hvernig á að standa að. Í mörgum löndum hefur verið talið nauðsynlegt að fara út á þá braut að skattleggja heildarsamsteypur sem einn aðila vegna þess að það hefur reynst erfitt að koma í veg fyrir millifærslur á milli félaga, jafnvel þótt sé sett sérsköttun á einstök félög, þá er ekki vist að það leysi allan vanda.

Ég vil ítreka varðandi það, sem ég sagði í dag um þá samkeppni sem hér hefur skapast, að það er að mínum dómi mjög alvarlegt mál ef það er rétt að stunduð séu á þessum markaði veruleg undirboð. Slíkt hlýtur að skapa falska kaupgetu innanlands sem fyrr eða síðar kemur niður á þjóðinni. Ég vil ítreka að það er mín skoðun að það sé verkefni samgrn. að fylgjast með öllum slíkum málum og grípa inn í þau ef það telur ástæðu til.

Ég hef einnig nokkrar áhyggjur af þeirri þróun sem orðin er varðandi ýmsar hópferðir til annarra landa. Það virðist vera aðaltariði nú að vera í einhverjum félagsskap til þess að njóta góðra kjara á þessum flugleiðum, og slíkt getur endað með ósköpum. Ég hef spurt að því hvort það væri nokkuð því til fyrirstöðu að íslenska þjóðkirkjan fengi slík réttindi. Ef svo væri, þá gætu allir íslendingar notið þessara sérstöku fargjalda. En ég treysti því að þessi mál verði athuguð gaumgæfilega því að mér sýnist að hér sé komið út í nokkra vitleysu.

Ég vildi aðeins upplýsa það, vegna þess að það kom fram áðan að það væri ekki ljóst hversu mikið félögin skulduðu annars vegar Ríkisábyrgðasjóði og hins vegar í lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli, að það er upplýst í skýrslu þeirri sem hv. þm. fengu afhenta að Flugleiðir hf. skulda Ríkisábyrgðasjóði nú um 58 millj. kr. með vöxtum, og lendingargjaldsskuldir nema um 45 millj. kr. án vaxta, en það er gert að skilyrði, að þessar skuldir séu þegar greiddar. Það var tekið fram áðan að það væru engin rök gegn því að hlutafé yrði aukið á þessu ári. Það má vel vera að það verði mögulegt að auka hlutafé á þessu ári. Það er sett í vald viðskiptabanka félagsins, Landsbankans og Seðlabankans að kveða upp dóm um það. Það er alveg ljóst að báðar þessar stofnanir hafa mikinn hug á því að félag þetta auki hlutafé sitt og ég treysti því að þær muni reka á eftir því að svo verði gert. Hins vegar er ljóst að það er engin leið að koma þessu í framkvæmd án þess að gengið verði frá mati vegna sameiningar félaganna.

Ég vil einnig upplýsa, vegna þess að það hefur komið fram í umr., um þá greiðslubyrði sem verður á félaginu í framtíðinni, að ég hef vissulega af því áhyggjur að svo kunni að fara að félagið standi ekki undir allri greiðslubyrðinni, þótt ég voni að svo verði. Hins vegar hefur verið upplýst að með þessum kaupum léttist greiðslubyrði vegna þessara flugvéla um 1 millj. dollara á ári eða um 150 millj. kr. Það hlýtur að skapa eitthvert svigrúm fyrir félagið að þessi greiðslubyrði skuli léttast svo mikið.