15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4257 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

284. mál, lán vegna Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins

Frsm. (Tómas Árnason) :

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmda og rekstrar Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðar ríkisins, en frv. þetta er 284. mál Ed., þskj. 615. Nefndin hefur mælt með því shlj. að frv. verði samþ. óbreytt.

Þetta frv. fjallar í fyrsta lagi um það samkv. 1. gr. að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka erlent lán að jafnvirði 1260 millj. kr. Í 2. gr. er kveðið á um að af lánsfé því, sem aflað er samkv. 1. gr., skuli verja 931 millj. kr. til að greiða skuld ríkissjóðs er myndaðist á viðskiptareikningi Seðlabanka Íslands vegna hallarekstrar Rafmagnsveitna ríkisins og framkvæmdir umfram í fjárhagsáætlun til ársloka 1974 og jafnframt verði heimilað að verja 329 millj. kr. af lánsfé þessu til að greiða skuld ríkissjóðs er myndast hafði til ársloka 1974 á viðskiptareikningi í Seðlabanka Íslands vegna útgjalda Vegagerðar ríkisins umfram fjárveitingar.

Aðalástæðan fyrir því, að hér hefur skapast halli, er fyrst og fremst að kostnaður við framkvæmdir jókst mjög á síðasta ári, miklu meira en búist hafði verið við, og enn fremur hitt, að hjá Vegagerð ríkisins hafa á undanförnum árum safnast upp til viðbótar lausaskuldir sem fluttar hafa verið á milli ára án þess að frá þeim hafi verið gengið á formlegan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið nánar, það er svo skýrt og hefur raunar verið óbeint rætt um þetta mál hér á hv. Alþ. í vetur í sambandi við önnur mál og þá m. a. almennar umr., og sé ég ekki ástæðu til að bæta þar við.