15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4266 í B-deild Alþingistíðinda. (3504)

11. mál, launajöfnunarbætur

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég þakka hv. 5. þm. Reykn., frsm. í þessu máli, fyrir ýmsar upplýsingar og skýringar sem hann gaf í framsöguræðu sinni. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hann gaf varðandi 5. gr. frv., sem felld var niður í Ed., og því, að hún mundi ekki breyta efni né framkvæmd laganna ef frv. verður að lögum. Þetta er að sjálfsögðu mjög flókið og margþætt mál og það er mikil vinna að setja sig vel inn í einstaka þætti þess. Það veltur á miklu hvernig framkvæmdin verður ef frv. þetta verður að lögum.

Ég get mjög tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. sem var að ljúka máli sínu. Það er margt sem við þurfum að athuga og vera vel á verði í þessum efnum, en ég sé ekki að tími né tækifæri gefist til að ræða þetta mál ítarlega nú. En auk þess sem ég hef vikið að yfirlýsingu frsm. um 5. gr., sem var í frv. upphaflega, vildi ég þó lítillega minnast á breytingarnar sem gerðar hafa verið á 11. gr.

1. mgr. þeirrar gr. hefur verið stytt og lagfærð. Hún er þess efnis nú að fjárfestingarlánasjóðir endurláni það fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, með sambærilegum kjörum og þeir sæta sjálfir. Heimilt er að ákveða lánskjör þessara sjóða þannig að ákvæði um verðtryggingu eða gengisákvæði nái til ákveðins hluta hvers láns. Hér þarf margt að athuga, ekki síst að því er varðar fjárfestingarlánasjóði landbúnaðarins. Við höfum þar ákveðnar reglur að fara eftir sem gilt hafa árum saman. Það eru þær reglur sem uppbygging landbúnaðarins hefur byggst á, en óhætt er að segja að þegar farið er að orða verðtryggingu og annað slíkt í sambandi við lánveitingar til landbúnaðarins, þá dregur vissulega bliku á loft, því að sú atvinnugrein er þess eðlis að það hefur verið talið hingað til að hún þyldi afskaplega illa ákvæði af þessu tagi, og á því er enginn vafi.

Ég sagði að við hefðum að sjálfsögðu okkar lánareglur til að fara eftir og við munum vera fastheldnir á þær reglur, sem okkur hafa reynst vei, af eðlilegum ástæðum. Þess vegna vil ég leggja sérstaka áherslu á það í sambandi við þetta ákvæði, án þess að ræða það til grunna, að ég tel að það verði að túlkast nokkuð rúmt. Það segir hér að fé það, sem sjóðirnir fá til ráðstöfunar, skuli lánað út með sambærilegum kjörum. Þetta ákvæði tel ég óhjákvæmilega að verði að skýra nokkuð rúmt, einkum þar sem hér er verið að fara inn á nýja og raunar áður óþekkta braut að miklu leyti í þessum efnum sem er mjög vandmeðfarin því að þarna er um hagsmuni margra að ræða. En við verðum að treysta því að þessi ákvæði, ef að lögum verða, verði framkvæmd þannig að við það verði unandi, og við munum svo sannarlega reyna að vera á verði hér eftir sem hingað til og reyna að sjá svo um að hagsmunir þeirrar atvinnugreinar, sem okkur hefur verið falið að gæta a. m. k. að nokkru, verði ekki fyrir borð bornir.